Ber að leggja niður lífeyriskerfið ?

30.júní 2017

Wilhelm Wessman skrifar um lífeyriskerfið og hvernig það var hugsað í upphafi og hvernig það hefur þróast.

Hann þekkir málið vel og hefur setið báðum megin borðsins og ber kannski aðeins ábyrgð á barninu, eða hvað.

Skrif hans eru sumstaðar túlkuð á þann veg að Verkalýðsforystunni beri að berjast gegn lífeyriskerfinu og leggja það niður vegna þeirra kerfisbreytinga sem gerðar hafa verið og að annað séu svik við launafólk.

Það getur vel verið að Wilhelm hafi sagt þetta einhvers staðar. Ég veit það ekki en hef ekki fundið þessi ummæli hans. Ég hef hins vegar lesið grein hans í Lifðu núna þar sem hann fer yfir þróunina. Þróun sem varð meðal annars þegar hann sat verkalýðsforystu megin við borðið.

Ég er svo hjartanlega sammála því að þróunin hafi verið óþolandi og gangi þvert á það sem ætlað var í upphafi.

Hins vegar finnst mér því miður oft í svona skrifum vanta úrræði eða tillögur til úrbóta.

Það er auðvelt að heimta að allt verði lagað og það helst í gær. Ég vildi að það væri hægt en ekki eru miklar líkur á því.

Það er auðvelt að óska þess og vera að hugleiða að fara í mál, jafnvel fyrir mannréttindadómstóli, vegna málsins.

Ég hrekk hins vegar í kút þegar ég sé ummæli þar sem farið er fram á kerfið verði lagt niður og berjast skuli gegn lífeyriskerfinu.

Hvað á að koma í staðin?

Hvað með þá sem nú eiga sparnað sinn í kerfinu?

Hvaða úrræði er verið að tala um?

Er verið að tala um að leggja lífeyrissjóðina niður og láta ríkið greiða eftirlaun til eldri borgara?

Hverjar eru lausnirnar? Það er spurningin sem brennur á mér.

Við getum verið óþrjótandi uppspretta gagnrýni en hún þokar okkur ekki í átt til réttlætis ef við höfum engar tillögur um lausnir og þá hvernig væri hugsanlegt að framkvæma lausnirnar okkar.

Þegar nýju lögin voru samþykkt, lögin um almanntryggingar, var á þeim ambaga sem þurfti að leiðrétta. Tryggingastofnun kom auga á þetta og greiddi út í janúar og febrúar árið 2017 samkvæmt því sem hefði átt að vera ef lögin hefðu speglað vilja þeirra sem settu þau. Síðan var rokið til og lögunum breytt og breytingin virkaði ekki bara frá því hún var samþykkt. Nei, breytingin virkaði aftur á bak, 2 mánuði aftur í tímann.

Vinsælar eru afturvirkar hækkanir þeirra sem hæðst hafa launin í þjóðfélaginu en lækkanir væru líklega ekki jafn mikið gleðiefni þingmanna og annarra pótintáta sem nú fá milljónir á milljónir ofan afturvirkt.

Nú hefur lítill flokkur tekið sig til, flokkur sem situr ekki á alþingi, og hafið mál á hendur ríkinu vegna þessa gjörnings. Málið hefur verið þingfest.

Ég fagna því að þetta mál sé komið til dómstóla og það verður fróðlegt að sjá hvernig það fer. Það getur farið á báða vegu. Unnist eða tapast. Í huga mínum er það sem skiptir kannski mestu máli að láta reyna á dómstólana. Getur stofnun eða ráðuneyti gert það sem þeim sýnist eða þurfa þau að fara eftir lögum sem alþingi setur? Þetta er spurningin sem við fáum svör við þegar dómur veður kveðinn upp. 

Margir hafa skrifað um að fara skuli í mál við ríkið vegna skerðinga sem hafa orðið á lífeyriskerfinu, ekki bara í tvo mánuði, nei, í marga áratugi. Nokkrir, og þar á meðal hinn sívinsæli Grái her, hafa lýst áhuga og hugleiðingum um að hefja slíkt mál og komið skilmerkilega á framfæri að undirbúningur sé mikilli fyrir slíkt.

Vissulega þarf allur málarekstur undirbúning. Vissulega er gott að hugsa málin vel og hugleiða fram og til baka. Já, það getur líka verið dásamlegt að koma því á framfæri við óþolinmóðan lýðinn að allt taki þetta tíma.

Þá ætla ég að leyfa mér af hinum alkunna kvikindisskap mínu að varpa fram heimskulegri spurningu.

Hvað á að hugsa lengi?

Hver á að taka að sér að fara í mál við ríkið vegna afturvirkrar skerðingar á upphaflegum tilgangi lífeyriskerfisins?

Er lausnin að leggja kerfið bara niður?  Og hvað svo? Hvað á að gera við þá sem eru núna komnir á eftirlaun, eða þá sem núna fá örorkubætur úr lífeyrissjóðum?

Á bara að leggja þetta fólk niður?

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Er fólk að vakna til vitundar og samstaða að myndast?

28.júní 2017

Það virðist eins og eitthvað sé að gerast, allavega í bili.

Fólk er reitt vegna úrskurðar kjararáðs og endurreikninga Tryggingastofnunar.

Stór orð falla en eitthvað er samt öðruvísi núna en var fyrir nokkrum dögum.

Hvort þetta er loftbóla sem springur kemur í ljós á næstu dögum og vikum.

Flokkur fólksins hefur stungið upp á að komið verði saman, fólk úr öllum flokkum, og málin rædd. Inga Sæland hefur boðist til að finna sal ef næg þátttaka fæst. Ég segi enn og aftur að ég er ekki í stjórnmálaflokki og hef ekki einu sinni kosningarétt á Íslandi svo ummæli mín eru ekki flokkspólitísk. Ég er einfaldlega á því að hvar sem fólk stendur í pólitík eigi það að snúa bökum saman á móti valdníðslu stjórnvalda og knýja fram breytingar á lögum um almannatryggingar.

Ég spurði í gær í hálfkæringi hvort við værum að niðurgreiða bætur almannatryggingakerfisins með Lífeyris sparnaði okkar. Venjulega fæ ég ekki viðbrögð við bloggum mínum en í þetta skipti brá svo við að einhverjar undirtektir voru. Líklega hélt fólk að ég væri að spyrja í fúlustu alvöru og það er svo sem allt í lagi að þekking mín sé dregin í efa, svo framarlega sem umræða skapast.

Ég veit að það eru margir sem gætu hugsað sér að flykkjast að baki þeim sem framkvæma.

Ég er því miður búsett erlendis og mun aldrei stíga fæti á Ísland og get því ekki tekið þátt í fundum og mótmælum. Ég get hins vegar miðlað hugmyndum mínum og þekkingu og ætla að halda því áfram.

Það er mitt framlag til baráttunnar.

Ég styð Ingu og flokk fólksins og vona að fólk skilji að það þarf ekki að ganga í flokkinn frekan en það vill þó það styðji framtak hennar.

Nú í morgunsárið hafa 200 manns skráð sig fúsa til þess að taka þátt í samstöðufundi.

Ef þetta er ekki til þess að gleðjast yfir þá veit ég ekki hvað er.

Ég hef barist fyrir bættum kjörum almennings í yfir 50 ár og tel mig vita nokkuð um svona baráttu. Stundum ber hún árangur og stundum ekki. Eitt er þó víst. Það þarf alltaf að byrja einhvers staðar og málaferlin sem nú verða þingfest á morgun eru byrjunin á einhverju stærra.

Það er mikilvægt að geta einbeitt sér að einu í einu en grautast ekki í hundrað málum og gera ekkert. Nú er fyrsta mál komið í höfn og réttarkerfið tekur við. Næsta mál er að sýna að fólk geti staðið saman, hvar í pólitík sem það setur sig. Auðvitað er barátta fyrir bættum kjörum eldri borgara og eftirlaunaþega hápólitísk en hún er ekki flokkspólitísk og má ekki vera það ef árangur á að nást.

Ég er bjartsýn og held að samstaða sé að myndast með Ingu í fararbroddi. Það er enginn feluleikur hjá henni. Hún birtir á Facebook síðu sinni það sem er að gerast frá degi til dags og jafnvel oftar en einu sinni á dag.

Nú reynir á alla, hvar sem þeir búa á landinu, að sýna í verki að þeir fyrirlíti framkomu sem stjórnvöld hafa sýnt þeim sem berjast í bökkum hvern einasta mánuð.

Hulda Björnsdóttir 

 


Örorkustyrkur - Lífeyrissjóðs sparnaður - endurreikningur TR

27.júní 2017

Nú eru bréf að berast þar sem endurreikningur hefur farið fram hjá TR. Sumir fá endurgreitt og aðrir skulda.

Ég rakst á umræðu þar sem talað var um að viðkomandi skuldaði TR rúmar 200 þúsund vegna ársins 2016.

Þessi einstaklingur hafði ætlað að láta réttindi sín í lífeyrissjóði standa óhreyfð þar til viðkomandi færi að taka eftirlaun og sótti ekki um til Lífeyrissjóðs. Nú vissi ég ekki hvort eftirlaun mundu skerðast ef sjóðurinn hefði greitt örorkubætur svo ég hringdi í Lífeyrissjóð VR og ræddi málið við þau.

Örorkulífeyrir skerðir ekki eftirlaun.

Hann er viðbótartrygging í Lífeyrissjóðnum.

Ef tveir einstaklingar með sömu lífeyrisréttindi fara á eftirlaun og annar hefur fengið örorkubætur en hinn ekki verða eftirlaunin þau sömu hjá báðum (ég er að tala um réttindi hjá Lífeyrissjóði)

Nú velti ég fyrir mér hvort verið geti að fólk haldi að réttindi þess skerðist hjá Lífeyrissjóði við það að nýta rétt sinn til örorku?

Ég hafði einnig samband við Tryggingastofnun út af þessu máli og þar var mér tjáð að þegar sótt er um örorku hjá TR beri stofnuninni að fá upplýsingar um þau réttindi sem viðkomandi kann að hafa hjá Lífeyrissjóði og þau réttindi skerði örorkubætur frá TR rétt eins og allar aðrar tekjur.

Þetta hefur ekki alltaf verið svona en fulltrúinn sem ég talaði við sagði að svona hefði þetta verið á síðasta ári og var hún ekki viss um hvort það hafi verið allt árið eða part úr árinu.

Þessi regla er semsagt ekki tengd nýju lögunum um almannatryggingar frá síðustu áramótum.

Mér finnst ég reka mig á aftur og aftur að upplýsingaflæði sé ekki alveg nægilega skýrt.

Það er mjög mikilvægt að fólk geti farið á einhvern stað og fengið upplýsingar um ÖLL réttindi sín. Ég byrjaði að leita á síðum TR áður en ég hringdi í stofnunina og fann ekki það sem mig vantaði.

Ég byrjaði líka að leita á síðum VR áður en ég hringdi.

Ég tel ekkert eftir mér að hringja og fæ yfirleitt ágætis þjónustu og svör en það þarf að láta sér detta í hug að finna upplýsingarnar og væri svo miklu auðveldara fyrir alla að einhvers konar ráðgjafastofnun eða apparat væri starfandi. Peningum er jú eytt í annað eins.

Ég hugsa stundum með hryllingi til þess þegar ég kemst á það stig í tilverunni að aðrir þurfa að sjá um mín mál á Íslandi. Líklega þarf ég að búa til leiðbeiningar fyrir fólkið mitt hér í Portúgal á portúgölsku. þegar ég lýsi ferlinu fyrir þeim fá þau ónotahroll og grípa um höfuðið.

Þegar ég fór í fjármálaráðuneytið í morgun gripu þeir um höfuðið í örvæntingu þegar ég sagði hvað ég ætti að greiða í skatt þetta sumarið hér í landinu mínu. Auðvitað brosi ég bara og er stolt yfir því að greiða þar og það sem mér ber.

Það gilda ákveðnar reglur um hvernig tekjuáætlun TR er búin til og setti ég þær inn á Facebook síðuna mína og "Milli lífs og dauða" síðuna. Einnig er hægt að sjá þetta á síðum TR.

Eftir stendur spurning út af borðinu:

Erum við að niðurgreiða örorkubætur frá TR með sparnaði okkar í Lífeyrissjóð, rétt eins og við niðurgreiðum ellilífeyri okkar með sparnaði í Lífeyrissjóð?

Þorsteinn Víglundsson gæti líklega svarað þessu, eða hvað? 

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Hvers vegna vill Grái herinn ekki samstarf við þá sem eru að vinna í málum eldri borgara?

26.júní 2017

Það er viðtal við Ingu Sæland í Reykjavík síðdegis þann 22.júní þar sem hún segir meðal annars frá því hvernig viðbrögð hún fékk frá Gráa hernum er hún leitaði eftir samstarfi.

Ein af stjórnarkonunum sagði að hún hefði nú alltaf kosið samfylkinguna og ætlaði að halda því áfram.

Helgi P. var ekki til viðræðu um eitt eða neitt þegar hún (Inga) hitti hann.

Væri ekki upplagt að hópur eins og herinn tæki því fagnandi að vinna með hverjum sem vildi bæta kjör eldri borgara? Herinn gefur sig jú út fyrir að vera að vinna að bættum kjörum fyrir þennan hóp. Það er mikið orðagjálfur og löng, ofboðslega löng, stefnuyfirlýsing sem fólk getur kynnt sér ef það nennir að lesa hana.

Ég er ekki í Flokki fólksins eða öðrum stjórnmálaflokki og verð ekki.

Ég er hins vegar í flokki þeirra sem vilja bætt kjör fyrir eldri borgara og öryrkja og fagna samstarfi allra þeirra sem vilja koma að þeim málum, og mér kemur hreint ekkert við í hvaða stjórnmalaflokki þeir eru eða hafa verið.

Ég neita að skilja viðhorf eins og kemur fram hjá herkonunni.

Ég neita líka að skilja af hverju Helgi P. fór í burt í flæmingi þegar verið var að bera víurnar í hann og herinn.

Orðaflaumur í stefnuyfirlýsingu segir nákvæmlega ekkert. Verkin eru það sem skiptir máli.

Ég verð svo undrandi þegar ég heyri ummæli eins og Inga hefur eftir herkonunni. Ég verð ekki reið, held að ég sé komin yfir það. Undrun er það sem skýtur upp kollinum og ég hristi höfuðið.

Einhver sagði svo ágætlega að 4000 manns hefðu verið svipt með einu pennastriki eftirlaunum frá TR með nýju lögunum.

Hvaða hópur er þetta?

Jú, það eru þeir sem hafa yfir hálfa milljón á mánuði í tekjur frá Lífeyrissjóði eða annars staðar að.

Einn ein æsifyrirsögnin.

Hvað með hina 56 þúsund eldri borgarana?

Þessi 4 þúsund manna hópur hefur það fínt.

Hinn hópurinn hefur það ekki fínt. Það er hópurinn sem ætti að vera talað um. Það er hópurinn sem á skilið að fá æsifréttafyrirsagnir í sneplum sem teljast vera dagblöð eða netmiðlar.

Ég legg til að fólk forgangsraði upphrópunum sínum.

Mikið vildi ég að fréttamenn tækju að sér mál eldri borgara og öryrkja eins og Mikael Torfason tók að sér málefni fátæka fólksins.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 


Tattó - fagurt eður ei? Heimspekilegar hugleiðingar á mánudegi.

26.júní 2017

Ég sá mynd af vini mínum sem æfir með mér í ræktinni, eða ég æfi með honum, einhvern vegin svona ætti þetta að hljóma. Flott mynd af fallegum líkama og hreint út sagt æðislegir rauðir NIKE skór.

Við, ég og þessi vinur minn, spjöllum saman og hlæjum saman. Hann og hinir strákarnir aðstoða mig þegar ég þarf og þeir hafa áhyggjur af mér þegar þess þarf. Ég dáist að því hvað þeir eru sterkir og horfi á lóðin mín við hliðina á þeirra og hugsa með mér að líklega sé þetta vonlaust !

Líklega lyfti ég ekki í bráð 10 kílóum en þeir lyfta 100 eins og drekka vatn.

Ég dáist að þeim og þó undarlegt sé dást þeir að mér. Við erum nefnilega "tím". Saman skoðum við myndir í íþróttablöðum og dáumst að flottum gellum. Þeir eru löngu búnir að klífa hjallann þegar þeir földu gellurnar og roðnuðu upp í hársrætur ef ég kom að þeim þegar þeir dáðust að ljóskunum. Við erum jú búin að vera saman í 6 ár í ræktinni.

Það eru ekki aldursfordómar hjá okkur. Allir eru jafni og allir hafa það eitt að markmiði að þykja gaman og gera það sem hver og einn getur.

Strákarnir mínir eru lögregluþjónar, öryggisverðir, hjúkrunarmenn, sjúkraliðar, læknar, smiðir, skólastrákar og verkamenn að ógleymdum slökkviliðsmönnunum.

Allt eru þetta flottir strákar, hver á sinn hátt.

Þegar ég var að horfa á myndina af einum þeirra kom upp í hugann þetta með tattóið. Það eru ekki allir með tattó. Líklega meirihlutinn þó.

Ronaldo er ekki með tattó, ekki eitt einasta, er mér sagt.  Skýring á hans ekki tattói er að hann gefi blóð. Ef einhver skilur þetta þá er það ágætt. Ég er ekki sérlega vel að mér í tattómálum.

Nú á dögum tattóa bæði konur og karlar líkama sína. Ég verð að segja að fegurð síða kjólsins hverfur aðeins þegar tattóið þekur handleggi eða bak, jafnvel þó það sé ekki stórt, þá finnst mér glansinn hverfa af flottu sérhönnuðu kjólunum þegar þeir keppa við tattóið á eigandanum.

Angelina er gott dæmi um þetta, finnst mér.

Þegar ég horfði á myndina af flotta vininum mínum, allir vöðvar stæltir og fallegir,  eyðilagði tattóið  myndina, fannst mér. Venjulega er hann í bol þegar við æfum og því varð ég hissa þegar ég sá skreytinguna. Hún er falleg, ég viðurkenni það, en mér finnst hún skemma fegurð líkamans. Ég gæti hugsað mér að sjá svona skreytingu, og margar aðrar sem fólk hefur á líkömum sínum, uppi á vegg í ramma. Þetta eru oft á tíðum sönn listaverk.

Einhvern tímann, kannski eftir 30 ár, verða tattólíkamarnir gamlir og hrukkóttir. Hvernig ætli myndirnar líti þá út? Ætli þær verði líka gamlar og hrukkaðar?

Ég þarf að athuga þetta næst þegar ég fer á ströndina. Nóg er af kroppunum þar á öllum aldri. Mér finnst þetta áhugavert rannsóknarefni, þetta með eftirlauna tattóin!

Stundum er lífið svo dásamlega skemmtilegt og ekki sakar að leyfa hugmyndafluginu að taka á rás eitthvað út í buskann.

Ég mun þó ekki fá mér tatto. Ég hata nálar heitar en eldinn og tilhugsunin ein fyllir mig skelfingu.

Hulda Björnsdóttir


Aðgát skal höfð í nærveru sálar - réttlæting

25.júní 2017

Aðgát skal höfð í nærveru sálar, sagði viðmælandi eftir að hafa helt sér yfir manneskju sem var ekki á sama máli um bótasvik!

Það var verið að ræða um þá sem stunda bótasvik. Fólk sem þykist búa á Íslandi en býr í útlöndum og skreppur til Íslands yfir sumarið. Fólk sem stærir sig af því að hægt sé að svindla á íslensku Almannatryggingakerfi. Eftirlaunaþegar voru umræðuefnið í upphafi en snérust skyndilega yfir á öryrkja þegar öryrki henti sér inn í umræðum. Þetta varð svolítið eintal og drógu þeir sem hófu umræðuna sig út. Eftir situr þó eitt og annað sem mér þykir athyglivert.

Eins og ég hef sagt margsinnis hef ég ekkert á móti öryrkjum og stend með þeim fram í rauðan dauðann. Ég ólst upp hjá einum og þekki vel erfiðleika þeirra.

Ég hef heldur ekkert á móti eftirlaunaþegum og berst með kjafti og klóm fyrir því að kjör þeirra sem verst hafa það verði leiðrétt.

Oft á tíðum verð ég fyrir skömmum og andstyggilegheitum sem hent er í mig en falla eins og boltar sem hent er í vegg og detta niður. Mér er einfaldlega persónulega alveg hjartanlega sama um skítkast sem einhverjir þurfa að henda í mig. Ég er sátt í eigin skinni og boltar sem skipta engu máli hitta mig ekki. Þeir detta dauðir niður og kastarinn hefur eytt orku sinni í ekki neitt.

Hins vegar fer um mig ónotahrollur þegar ummæli sem þessi koma frá öryrkja sem segir mér að "aðgát skuli höfð í nærveru sálar".

Tilvitnun í ummælin:

Mér finnst það því ekkert skrítið að fólk sæki hingað út. Og ef það er að fá einhverjar viðbætur sem ég held að séu nú engar stórupphæðir þá er það kannski ólöglegt en ef fólk getur náð endum saman og lifað mannsæmandi lífi, gleðst ég yfir því. Því það er kerfinu sjálfu að kenna ef fólk fer þessa leið.

Hvað eru t.d. ekki margir sem skrá sig ekki í sambúð vegna þess að það er hagstæðara.

Er þetta fólk gagnrýnt?

Ég bara óska þess svo innilega að öryrkjar fái að vera í friði.

Það er nóg að vera að berjast við veikindi. Það tekur sinn toll af fólki. En að vera undir smásjá, lesa niðrandi ummæli um öryrkja brýtur mann niður andlega í ofanálag.

Við skulum bara segja...

Aðgát skal höfð í nærveru sálar."  Tilvitnun lýkur.

Hver voru svo hin niðrandi ummæli?

Jú hér koma þau:

Viðmælandi 1 "Það er ekkert sem heitir að kjósa að flytja lögheimili sitt. Ef fólk býr meira en 180 daga utan Íslands Á það að flytja lögheimlið. Þetta er ekki val. Þetta er skýrt í lögum."

Viðmælandi 2  Svar: Ég veit það vel en ég hef hitt þó nokkra sem hafa búið hérna í mörg ár án þess að tilkynna um það heima. Fólk sem er hér allan veturinn og skreppur til Íslands yfir blásumarið. Fólki finnst sjálfsagt að þiggja bætur sem það á ekki rétt á þegar það flytur úr landi og hreykir sér af því að komast upp með það. Svo eru aðrir sem hafa einfaldlega ekki hugsað út í þetta og halda að það sé bara allt í lagi að vera hérna í "sumarfríi" 9 mánuði á ári." Tilvitnun lýkur.

Hvers vegna fékk ég ónotahroll? Jú, það er einkum tvennt.

Reiða öryrkjanum finnst allt í lagi að fólk svíki út úr kerfinu og kennir kerfinu um.

Viðhorfið að það sé í lagi að svíkja út bætur er ekki gott. Á meðan svona viðhorf ríkja verður þetta sama fólk, þ.e. þeim sem finnst þetta í lagi, að þola umræðu um málið.

Það eru ekki eingöngu öryrkjar og eldri borgarar sem fá þessa gagnrýni á sig. Það eru allir sem gefa ekki réttar upplýsingar til Almannatryggingakerfisins.

Svikararnir hjálpa ekki upp á baráttu fyrir bættum kjörum. Þeir standa í vegi fyrir þeim. Þeir gefa stjórnvöldum gullið tækifæri til þess að halda niðri bótum Almannatrygginga og skýla sér á bak við bótasvik. Þeir koma í veg fyrir að allir geti lifað sómasamlegu lífi, líka þeir sem eru ekki vinnufærir eða komnir yfir ákveðinn aldur. Þetta er ekkert flókið í mínum huga.

Langflestir öryrkjar og eldri borgarar eru strangheiðarlegt fólk og gefa allar upplýsingar sem réttastar. Langflestir aðrir þegnar þjófélagsins sem fá bætur frá Almannatryggingakerfinu eru líka heiðarlegir. Það eru skemmdu epli sem við erum að gagnrýna, ekki þau fersku og fallegu.

Að nota orðatiltækið "aðgát skal höfð í nærveru sálar" og í næstu setningu tala um og réttlæta svik finnst mér hálfgerð hræsni svo ekki sé meira sagt.

Það mætti kannski snúa þessu við og segja: "Maður líttu þér nær"

Áður en reiða fólkið hefur boltaleikinn bið ég það að hugleiða hvort ekki sé kröftunum betur varið til baráttu fyrir bættum kjörum öryrkja?

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Eiga eldri borgarar að bjóða fram til alþingis?

24.júní 2017

Þessi spurning brennur á mörgum.

Nokkrir hafa "commenterað" á síðu Gráa hersins um þessi mál og sagt að herinn ætti að fara á þing !

Það er ekki úr vegi að velta þessu fyrir sér.

Við getum spurt hvað þarf flokkur mikið fylgi til þess að komast í ríkisstjórn?

Við vitum að stjórnarandstaða kemur fáum eða engum málum í gegn.

Svo getum við líka spurt hve mörg atkvæði mundu líklega skila sér til framboðs eldri borgara?

Væri líklegt að 60 þúsund eldri borgarar kysu enn eitt smáframboðið bara af því það væri fyrir eldri borgara?

Mundi svona framboð hafa einhver önnur mál á stefnuskrá sinni, önnur en hagsmuni og bætt kjör eldri borgara?

Er líklegt að nýtt framboð yrði til þess að sameina fólk? Gáfu 12 flokksbrot mikið af sér í síðustu kosningum?

Væri hægt að láta sér detta í hug að kynna málefnið vel fyrir fólki innan þeirra flokka sem sitja á alþingi eða eru líklegir til þess að gera það eftir næstu kosningar. Ég er ekki að tala um ráðherra. Ég er að tala um hinn almenna þingmann.

Væri kannski athugandi að koma málefnum eldri borgara og öryrkja til fjölmiðla?

Nei það gengur ekki. Staðreynd virðist vera, eftir þeim viðtölum sem ég hef hlustað á, að fréttamenn eru með eindæmum illa að sér í málefnum þessara hópa.

Gæti verið leið að koma sér í samband við fréttamann og kynna honum málefnið til hlítar og fá hann svo til þess að fjalla um málið. Þetta gæti heitið að vekja áhuga og fræða, og yrði ef til vill upphaf að skynsamlegri umfjöllun um málið í stað þess að sneplar sjái sér hag í að skjóta upp hneykslis fyrirsögnum !

Í síðustu alþingiskosningum, 29.október árið 2016 voru 12 stjórnmálasamtök í framboði. Sjö af þessum tólf framboðum fengu yfir 5% atkvæða og kjörna fulltrúa á þing. Samfylkingin fékk lægsta hlutfall eða 5,7% gildra atkvæða og 3 þingmenn. Björt framtíð fékk 7,2% atkvæða og 4 menn kjörna.

Björt Framtíð er í ríkisstjórn. Hún hefur ráðherra sem virðist vera gjörsamlega valdalaus og það sem kemur frá hans ráðuneyti er ekkert annað en svikin falleg loforð fyrir kosningar. Loforð sem fólk trúði og gaf atkvæði sitt.

Samkrull var búið til úr nokkrum flokkum til þess að búa til þessa ríkisstjórn sem er sú óvinsælasta um langt árabil. Ríkisstjórn sem hefur hagsmuni ríkustu ætta landsins að leiðarljósi og vinnur fyrir þann hóp þjóðfélagsins leynt og ljóst.

Í ljósi þessara staðreynda leyfi ég mér að efast um að vænleg leið fyrir eldri borgara sé að búa til enn eitt brotið og bjóða fram til þings.

Æsingalaus kynning á aðstæðum eldri borgara þarf að vera í fyrirrúmi.

Ég verð vör við að fólk vill ekki láta kalla sig bótaþega. Er það eitthvað annað en að vera launþegi? Þurfum við ekki að uppræta eigin fordóma? Þykir það skömm að vera kallaður launþegi á meðan við vinnum á hinum almenna vinnumarkaði? Erum við ekki að fá lögbundnar bætur og eftirlaun frá ríkissjóði? Skiptir máli hvort þær eru kallaðar eftirlaun eða ellilífeyrir?

Mér er alveg nákvæmlega sama hvað þetta er kallað. Ég er yfir 67 ára og fæ bætur greiddar frá Tryggingastofnun sem sér um Almannatryggingakerfið og ég fæ eftirlaun frá Lífeyrissjóði. Þetta flækist ekkert fyrir mér. Ellilaun og eftirlaun eru tekjur mínar nú á þessu síðasta æviskeiði.

Það er alveg sama hvernig ég velti tölum fyrir mér og fjölda kjósenda úr hópi eldri borgara. 14.000 manns er hópur þeirra sem hafa það ekki gott. 60.000 er raunverulegur hópur eldri borgara. Sá hópur rífst innbyrðis um úrræði. Enn eitt smá framboð sameinar ekki fólk.

Við þurfum að fara inn í flokkana sem eru fyrir og tala þar við fólk sem hefur áhuga á málefnum og vill vinna fyrir þjóðfélagið. Það þýðir ekkert að berja höfðinu við steininn og eta vínarbrauð með ráðherrum sem hlæja þegar við göngum út.

Inni í öllum flokkum er gott fólk, fólk með hugsjónir og hjartað á réttum stað. Meira að segja inni í hinum alræmda Sjálfstæðisflokki er fólk sem fær fyrir hjartað þegar það setur sig inn í málefni aldraðra. Það þarf að finna þetta fólk og kynna fyrir því málstað þeirra sem minnst mega sín. Það þarf að segja þeim hverjar raunverulegar greiðslur eru því þau hafa verið mötuð á tölum ráðherra sem eru rangar.

Ráðherra smjattar á hæðstu greiðslum og hælir sér af þeim. Kannski veit hann ekki betur en svo getur þetta líka bara verið pólitík í sinni viðbjóðslegustu mynd.

Hulda Björnsdóttir

 

 


Hugleiðing á laugardagsmorgni -

24.júní 2017

Góðan og blessaðan daginn.

Enn á ný er kominn laugardagur og mánuðurinn rétt að ljúka göngu sinni. Hann hefur verið viðburðaríkur hér í landinu mínu og við eigum um sárt að binda.

Í gær morgun var heiður og yndislegur himinn, ekki ský á lofti og bjartsýni tók að láta á sér bæra. Bjartsýni um að nú væri þessari lotu að ljúka og hægt væri að draga andann rólega í bili.

Seinni partinn varð mér litið út um eldhúshurðina mína og þá blasti þetta við mér:

19402147_857215254430303_4524537550105974785_oUnaðslegur blár heiður himininn var að breytast. Ærandi sírenu hljóð og eld viðvörun skullu á eyrunum. Brunaliðið geystist eftir þjóðveginum í átt til Espinahl.

Reykský stigu upp á bláan himininn og orguðu eins reiður björn. Á myndinni eru þau ljós en þegar rauðar tungurnar teygja sig upp verða skýin dökk og loftið fyllist af viðbjóðslegum svörtum reyk og lyktin brennur í lungunum.

Flugvélar komu færandi hendi, tvær og tvær saman og þeyttu vatni yfir óargadýrið. Ég veit ekki hvort þær voru fleiri en tvær, líklega ekki því bilið á milli ferða benti til þess að þær færu og fylltu vatnstankinn og kæmu svo til baka. Þær fylgdust að og voru eins og frelsandi englar komnir til þess að hjálpa þeim sem börðust niðri á jörðinni.

Ég fylltist vanmætti og bað til Guðs að láta koma rigningu. Auðvitað eru bænir mínar ekki kröftugar og rigningin hefur ekki enn látið sjá sig.

Þegar ég sá skýið á heiðbláum himninum fylltist ég örvæntingu og vanmætti.

 

Nú er kominn laugardagur og ég vaknaði klukkan sex í morgun við samræður nágranna á neðri hæðinni og angandi vínlykt og sígarettu reykur svifu hægt og hljótt í gegnum glugga og inn til mín. Það var partý á neðri hæðinni og ekkert við því að gera. Fyrsta hugsun mín var að þau hentu ekki logandi sígarettu út um gluggann niður í trén. Eldurinn hefur læst sig inn í hugarfylgsnið og tekið sér þar bólfestu, í bili.

Ég fór á fætur og leit út um eldhúsgluggann og yfir himininn.

19250468_857541631064332_147715853409914424_oÓlýsanleg fegurð blasti við mér. Heiður himinn í morgunsárið með dásamlega falleg ský, ský í litum. Ský sem eru hrein og unaðsleg.

Ég gekk út á svalirnar og andaði að mér.

Loftið var ferskt, það var kalt, en ferskt og svalur vindur lék um vanga minn.

Ég hafði ekki séð himininn svona í heila viku og saknaði hans. Nú var hann kominn aftur.

Ég þakkaði Guði fyrir að engir eldar og enginn reykur var sjáanlegur svo langt sem augað eygði.

Allt var fersk og haninn í húsi upp með götunni galaði glaður og hamingjusamur og vakti hænurnar sínar. Fuglarnir sungu í trjánum fyrir neðan svalirnar og í skóginum í kring. Íkorni vappaði um grasið í garðinum fyrir neðan og gæddi sér á einhverju sem hann hafði fundið.

Allir voru glaðir klukkan sex um morguninn og vonin kviknaði í brjósti. Vonin um að nú væri komið að lokum þessara hörmunga og hægt væri að byrja endurreisn þess sem hafði fallið. Það þarf að endurreisa svo margt.

Í gær orguðu skýin eins og óður björn en í dag brosa þau eins og fegursta blóm veraldar.

Landið er á háu viðvörunarstigi. Allir í viðbragðsstöðu en þennan morgun var friður og unaður það eina sem skipti máli.

Hulda Björnsdóttir


Lifðu núna - Grái herinn - Fyrir hverja eru þessar síður?

23.júní 2017

Það eru nokkrar síður á Facebook sem fjalla um málefni eldri borgara og stundum eru þar viðtöl.

Viðtal við frú Þórunni H. birtast á báðum þessum síðum um hæl.

Nú sá ég viðtal við enn einn popparann sem er kominn á eftirlaun.

Svo hafa verið viðtöl við ýmsa sem hafa breytt um lífstíl og minnkað við sig húsnæði og fleira.

Nú spyr ég:

Af hverju hef ég ekki séð eitt einasta viðtal hjá Grá hernum eða Lifðu núna þar sem fjallað er um og talað við þá sem eru að deyja úr hungri vegna þess hve lífeyrir þeirra er af skornum skammti?

Af hverju eru þetta að mestu glansviðtöl við þá sem hafa það glæsilegt á efri árum og njóta þeirra í botn?

Ég geri mér grein fyrir því að herinn og Lifðu núna eru tengd vinaböndum og má sjá sömu viðtölin hjá báðum oft og tíðum.

Herinn birtir skrif Björgvins H. eins og um súkkulaði af bestu gerð sé að ræða.

Skrif Björgvins eru ágæt en það eru ábyggilega fleiri sem taka þessi mál að sér en herinn lítur ekki við.

Nú legg ég til að Lifðu núna taki nokkur viðtöl, kannski svona 10, á næstu vikum við þá sem hafa það verulega skítt eftir 65 ára aldurinn.

Ég legg líka til að herinn birti þessi viðtöl á sínum síðum og sé jafn fljótur og þegar haft er drottningarviðtal við formann landssambandsins.

Æsifréttir Kjarnans um ofgreiðslur Tryggingastofnunar ættu líka að vera í fyrsta sæti hjá báðum þessum síðum og bullið leiðrétt.

Upplýsingar til þeirra sem nú velta fyrir sér hvernig í veröldinni TR kemst að raun um að þeir skuldi stofnuninni ættu að vera kappsmál þessara beggja.

Hvar eru tillögur til útbóta hjá hernum?

Hvar er umfjöllun um fátæktina hjá hernum?

Hvar er umfjöllun um þá sem svíkja út úr lífeyriskerfinu með því að gefa upp röng heimilisföng? Hvenær fjallaði herinn um þau mál?

Lífið er ekki bara dans á rósum og sala á stórum húsum og flott make up og hárgreiðslur fyrir þá sem fara á eftirlaun. Nei það er nefnilega til fólk, og fullt af því, sem hefur ekki yfir 533 þúsund í lífeyrissjóði á mánuði, eða á stórar eignir til þess að selja og getur flutt til annarra landa og keypt sér flottar eignir þar. Lífið er ekki bara saltfiskur. Það er líka úldið kjöt.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Hvers vegna geysa eldar á hverju ári í Portúgal?

23.júní 2017

Í dag föstudag eru eldarnir að mestu "under control". Þeir verstu sem hafa geisað í landinu í 50 ár.

Að loknum svona harmleik þurfa allir að staldra við og skoða hvað veldur.

Hvað er það sem gerist á hverju ári sem kveikir elda í fallegu skógunum?

Hvers vegna er talað um að þetta séu verstu eldar í 50 ár?

Ýmsar raddir eru nú háværar innan lands og utan. Sérstaklega háværir eru Bretarnir sem vita allt betur en allir aðrir. Þeir kenna ölu og ölum um og auðvitað eru sökudólgarnir innfæddir!

Í gær morgun ók ég til Coimbra og heim aftur seinni partinn.

Á leið heim var breskur bíll á undan mér, eða alla vega á breskum númerum. Út úr bílnum flaug skyndilega sígaretta. Hún lenti á veginum en hefði hæglega getað flogið 2 metra í viðbót og kveikt í. Bretarnir skammast yfir því að heimamenn hendi sígarettum út um bílgluggann. Þeir sjá ekki flísina í eigin auga.

Ecalyptus er kennt um eldana núna.

Meðfram vegunum eru engin ecalyptus tré og samt kviknar í þar.

Það sem veldur því að við tölum um þessa bruna sem hina verstu í 50 ár er mannfallið. Það er ekki stærð eða fjöldi eldanna. Það eru öll lífin sem glötuðust. Heimilin sem brunnu eru heldur ekki fleiri en oft áður.

Vinkona mín er hótelstýra á litlu hóteli sem er fyrir norðan. Þau eru uppi í fjöllunum. Yndislega fallegur staður og þar er fullt af trjám. Eigandi hótelsins hefur séð um að þau hafa greiðan aðgang að vatni úr öllum áttum ef kviknar í. Hann sér líka um að allur grunn gróður er hreinsaður burt, það er það sem hreinsa ber og er ekki jurtir og grænmeti. Land hótelsins er hreint og allar nauðsynlegar ráðstafanir til taks komi til þess að eldar kvikni. Þar sem land hótelsins endar tekur við annað land og þar eru líka tré. Eigandi þess lands hirðir ekki um að hreinsa dauða gróðurinn. Þar er allt í órækt og eldmatur eins og hann gerist bestur. Hóteleigandinn talaði við kauða og bað hann að þrífa landið.

Nei, það kom ekki til mála. Eigandinn ætlaði sko ekki að fara að eyða peningum í að hreinsa dauðar greinar og undirgróður. Ekki aldeilis.

En það stafar hætta fyrir okkur af hirðuleysi þínu, sagði hóteleigandinn. Kemur mér ekki við, sagði hinn.

Til þess að bjarga sinni eign ætlar hóteleigandinn að hreinsa lóð nágrannans. Hann rekur fyrirtæki sem tekur á móti ferðamönnum og honum er í mun að tryggja öryggi þeirra. Nágranninn samþykkti að lóðin yrði hreinsuð en hann ætlar ekki að borga krónu.

Því miður er þetta oft og tíðum viðhorfið. Einn hreinsar og annar ekki. Þeir sem ekki hreinsa bera líka ábyrgð á árlegum harmleik, en þeim er alveg sama.

Trjám hefur líka verið plantað of nálægt þjóðvegum. Ég keyri í gegnum þéttan gróður í hvert sinn sem ég fer út fyrir þorpið mitt. Þeir sem mala hæst núna, Bretarnir, gera sér ekki grein fyrir því að þessi tré hafa verið þarna í áraraðir. Það er tekinn vökvi úr þessum trjám og hann nýttur. Þau eru grisjuð reglulega og ný ekki gróðursett. Ekki einu sinni ecalyptus. Lyptusinn er innar í skógunum.

Fyrir framan íbúðina mína er stórt tré, tré sem ég hef kvartað yfir í mörg ár og bent á eldhættu. Sex íbúðir eru í blokkinni. 2 halda fast í fjandans tréð. Enginn gerir neitt í málinu. Þeim kemur þetta ekki við.

Fyrir aftan blokkina er runni sem stendur mjög nálægt. Ég horfi beint niður á hann þegar ég stend á svölunum mínum. Ég hef marg beðið um að hann yrði fjarlægður. Nei, kemur ekki til mála.

Þegar ég flutti hingað var aldrei hugsað um að fjarlægja dauðan gróður. Hann var bara þarna og kom engum við. Ég tók mig til og fékk fólk til þess að slá garðinn. Þegar ég ætlaði að rukka fyrir fékk ég blákalt nei. Þetta var óþarfi sögðu nágrannar. En hvað með eldhættu? spurði ég. Enginn hætta hér, var svarið. Ég lét slá garðinn í 5 ár og greiddi fyrir. Þetta kostaði engar formúur en mér leið betur. Viðbjóðslega tréð fyrir framan reyndi ég að drepa í fyrra með eitri en gekk ekki. Nú ætla ég að vona að það verði höggvið þegar gert verður við vatnslekann því það þarf að grafa garðinn upp. Til þess að vera alveg örugg er ég á leið í byggingavöruverslun til þess að finna koparnagla eða skrúfur og ætla mér af sérstakri trévonsku minni að drepa viðbjóðinn með því að negla í það kopar.

Vandamálið sem ég hef við nefið á mér er út um allt land, bara í stærri stíl og þegar kviknar í verður urgandi bál sem eyrir engu.

Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist þetta árið í eldvörnum landsins.

Pollíönnu leikur dugar ekki. Það er hægt að stinga hausnum í sandinn og vona það besta en því miður leysir það ekki málið.

Vakna stjórnvöld til lífsins og fara að reka slökkvistöðvar fyrir ríkisfé, eða sigla þau áfram að feigðarósi?

Ég veit það ekki en held þó í vonina um að það komi rigning.

Hulda Björnsdóttir

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband