Enn loga eldar í Portúgal -forsetinn var í Penela í gær

20.júní 2017

Það er ekkert lát á eldunum hérna. Pedrógao Grande logar enn, að vísu er ekki eins hrikalegur eldur og var á laugardaginn en það hefur ekki tekist að ráða niðurlögum eldsins.

Það logar í Mirando do Corvo og Góis hefur verið rýmt og hættuástand þar.

Fleiri staðir eru logandi og færist eldurinn norður, hægt og ákveðið.

Það er mikil hjálp í flugvélum frá Spáni, Ítalíu og Frakklandi.

Þessi 3 lönd koma til hjálpar á hverju ári þegar við biðjum um aðstoð.

Nokkrir sjálfskipaðir sérfræðingar, sem vita allt um land og þjóð en hafa sumir hverjir aldrei stigið fæti á þetta land, halda nú langar tölur um hvernig ástandið er. Mér er svo sem alveg sama um þessa spekinga sem allt vita og læt þá ekki pirra mig. Hitt er þó mikilvægara. Að vinir mínir viti hinn raunverulega sannleika. Ef einhver spekingur vill færa heimili mitt til og planta mér niður í klukkutíma aksturs fjarlægð þá er það allt í lagi. Ég hef ekkert færst og það væri líklega erfitt að heimsækja mig á nýja staðnum. Segi bara svona. Einhverjir gaurar sem vilja óðir og uppvægir frá heimilisfang mitt og síma eru ekki sérlega vel gefnir og líklega í miklu kvenmanns hallæri. Þá er ég auðvitað að tala um stútungs kalla sem eiga ekki séns í eitt eða neitt. Ég er ekki að tala um alvöru vini mína, þeir fá heimilisfang mitt og símanúmer án þess að biðja um það. Stundum þurfa þeir kannski að minna mig aðeins á að senda skilaboðin, en þegar ég sendi e-mail fylgir allt sem fylgja þarf.  Bara svo þeir sem lesa þetta viti að ég er ekki að tala um þá sem fá mail frá mér reglulega !

Fólk áttar sig ekki á því hvernig landið er byggt upp og ætla ég aðeins að útskýra það. Ég bý nefnilega í landinu og er búin að vera hérna í rúm 6 ár og veit eitt og annað.

Það eru district sem skiptast niður í minni einingar sem skiptast svo enn niður í minni einingar.

Ég tilheyri Coimbra district og Coimbra  er höfuðborg míns svæðis. Coimbra er yndisleg borg, háskólabær þar sem háskólasjúkrahúsið og fleira merkilegt er til húsa.

Íbúar Coimbra districts eru 441.245.

Síðan skiptist Coimbra niður í 17 municipals Það eru líklega kirkjusóknir á íslensku.

Ég bý í Penela municipal sem skiptist niður í 6 lítil þorp. Heildar íbúafjöldi er 5.191 en í bænum mínum sem er Penela búa um 600 manns eða svo.

Góis er önnur kirkjusókn í Coimbra og þar búa 2.171 manns sem dreifast um 4 þorp. Þessi þorp hafa nú öll verið rýmd vegna eldanna sem loga í kringum þau öll.

Þar sem landrými er mjög takmarkað í landinu er byggt í fjallshlíðum og húsin standa oft á tíðum rétt á brúninni. Eitt hús sem ég ek stundum framhjá þegar ég fer frá Semide til Coimbra skekktist í rigningasumrinu mikla sem var fyrir 2 árum og verður mér stundum hugsað til þess að líklega hangi það bara af gömlum vana og í næstu rigningu muni það skríða fram af brúninni.

Margar mannhæðir eru oftar en ekki niður í dalina og fjallshlíðarnar skógi vaxnar. Fyrir 2 árum fóru 2 höfðingjar á mótorhjólum niður í botn dals sem er rétt hjá Serra do Caramulo og kveiktu í. Þeir flýðu svo til Luxemburgar en annar þeirra náðist. Í þessum bruna létust 6 bombeiros og fleiri slösuðust í þessum eina bruna. Þetta fjall er ekki langt frá Viseu og tilheyrir Tondela, 1071 metra hátt.

Ég hef á tilfinningunni, þó ég hafi það ekki fyrir víst, að fyrst byggist þorpið, t.d. Penela og svo þegar landrými þrýtur er byggt aðeins fyrir utan þorpið í hlíðunum og þar verður til nýr kjarni með nýju nafni, sem þó tilheyrir Municipalinu. Það fer alveg hrikalega í taugarnar á mér þegar útlendingarnir segjast búa í Penela en eiga heima til dæmis í Podentes sem er langt frá þorpinu en tilheyrir Municipal Penela. Arg.

Þetta er sama og þegar sumir Breta snobbararnir segjast búa í Coimbra en eiga í raun heima í Eufémia, sem er pínulítið þorp og tilheyrir Penela. Þetta lið er of fínt til þess að segja að það búi bara í litlu þorpi uppi í fjöllum í stóru húsi þar sem allir aðrir íbúar eru Portúgalar sem þykir ekki sérlega vænt um ríka eftirlaunafólkið frá Bretlandi sem heldur fyrir þeim vöku með partíum langt fram á nætur og spilar svo golf alla daga. Við Portúgalar höfum ekki efni á því að eyða frítíma okkar, hvað þá öllum deginum á golfvöllum, jafnvel í Algarve. Ja, munur að vera peningahít eða svoleiðis.

Eldarnir sem geysa núna eru ekki inni í þorpinu mínu. Þeir eru rétt utan við það og í bili eru þeir viðráðanlegir. Útgönguleiðir eru flestar opnar og við komumst í burtu ef þarf. Það eru fleiri en ein leið til bjargar. Ég þarf að fara til Covoes á fimmtudaginn og get ekki að því gert að ég kvíði aðeins fyrir. Ég mun líklega aka í gegnum sviðna jörð og það tekur á. Í morgun fór ég labbandi niður í þorpið mitt, ég varð að hitta vini mína og sjá að allt væri í lagi hjá þeim. Það var heitt en vindur blés og gerði þetta bærilegt.

Ég kann að haga mér í aðstæðum sem þessum og ekki nein ástæða til þess að hafa áhyggjur af mér. Það er hins vegar auðvitað voða notalegt !

Í gær sá ég forsetann heimsækja hin ýmsu þorp sem voru að kljást við eldinn. Það var fallegt að sjá hann tárast og þurrka tárin framan úr bombeiroinum sem hann faðmaði að sér. Það má segja eitt og annað um embættið og gengdarlausa eyðslu sem fylgir því en þessi forseti er ólíkur öllum öðrum. Hann er ekki hræddur við sýna tilfinningar sínar og hann virðist ekki vera fullur af snobbi. Annað en forsætisráðherrann. Ég spurði í morgun hvort hann hefði nokkur völd, hann hefur þau ekki en fólk trúir því að hlustað sé á hann og kannski getur hann breytt einhverju. Fólkið í landinu kann að meta mannlegu hliðina á honum. Það er óhrætt við að gráta í faðmi hans. Hvað er hægt að ímynda sér fallegra ? 

Hulda Björnsdóttir

 

 


Bloggfærslur 20. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband