Hvers vegna geysa eldar á hverju ári í Portúgal?

23.júní 2017

Í dag föstudag eru eldarnir að mestu "under control". Þeir verstu sem hafa geisað í landinu í 50 ár.

Að loknum svona harmleik þurfa allir að staldra við og skoða hvað veldur.

Hvað er það sem gerist á hverju ári sem kveikir elda í fallegu skógunum?

Hvers vegna er talað um að þetta séu verstu eldar í 50 ár?

Ýmsar raddir eru nú háværar innan lands og utan. Sérstaklega háværir eru Bretarnir sem vita allt betur en allir aðrir. Þeir kenna ölu og ölum um og auðvitað eru sökudólgarnir innfæddir!

Í gær morgun ók ég til Coimbra og heim aftur seinni partinn.

Á leið heim var breskur bíll á undan mér, eða alla vega á breskum númerum. Út úr bílnum flaug skyndilega sígaretta. Hún lenti á veginum en hefði hæglega getað flogið 2 metra í viðbót og kveikt í. Bretarnir skammast yfir því að heimamenn hendi sígarettum út um bílgluggann. Þeir sjá ekki flísina í eigin auga.

Ecalyptus er kennt um eldana núna.

Meðfram vegunum eru engin ecalyptus tré og samt kviknar í þar.

Það sem veldur því að við tölum um þessa bruna sem hina verstu í 50 ár er mannfallið. Það er ekki stærð eða fjöldi eldanna. Það eru öll lífin sem glötuðust. Heimilin sem brunnu eru heldur ekki fleiri en oft áður.

Vinkona mín er hótelstýra á litlu hóteli sem er fyrir norðan. Þau eru uppi í fjöllunum. Yndislega fallegur staður og þar er fullt af trjám. Eigandi hótelsins hefur séð um að þau hafa greiðan aðgang að vatni úr öllum áttum ef kviknar í. Hann sér líka um að allur grunn gróður er hreinsaður burt, það er það sem hreinsa ber og er ekki jurtir og grænmeti. Land hótelsins er hreint og allar nauðsynlegar ráðstafanir til taks komi til þess að eldar kvikni. Þar sem land hótelsins endar tekur við annað land og þar eru líka tré. Eigandi þess lands hirðir ekki um að hreinsa dauða gróðurinn. Þar er allt í órækt og eldmatur eins og hann gerist bestur. Hóteleigandinn talaði við kauða og bað hann að þrífa landið.

Nei, það kom ekki til mála. Eigandinn ætlaði sko ekki að fara að eyða peningum í að hreinsa dauðar greinar og undirgróður. Ekki aldeilis.

En það stafar hætta fyrir okkur af hirðuleysi þínu, sagði hóteleigandinn. Kemur mér ekki við, sagði hinn.

Til þess að bjarga sinni eign ætlar hóteleigandinn að hreinsa lóð nágrannans. Hann rekur fyrirtæki sem tekur á móti ferðamönnum og honum er í mun að tryggja öryggi þeirra. Nágranninn samþykkti að lóðin yrði hreinsuð en hann ætlar ekki að borga krónu.

Því miður er þetta oft og tíðum viðhorfið. Einn hreinsar og annar ekki. Þeir sem ekki hreinsa bera líka ábyrgð á árlegum harmleik, en þeim er alveg sama.

Trjám hefur líka verið plantað of nálægt þjóðvegum. Ég keyri í gegnum þéttan gróður í hvert sinn sem ég fer út fyrir þorpið mitt. Þeir sem mala hæst núna, Bretarnir, gera sér ekki grein fyrir því að þessi tré hafa verið þarna í áraraðir. Það er tekinn vökvi úr þessum trjám og hann nýttur. Þau eru grisjuð reglulega og ný ekki gróðursett. Ekki einu sinni ecalyptus. Lyptusinn er innar í skógunum.

Fyrir framan íbúðina mína er stórt tré, tré sem ég hef kvartað yfir í mörg ár og bent á eldhættu. Sex íbúðir eru í blokkinni. 2 halda fast í fjandans tréð. Enginn gerir neitt í málinu. Þeim kemur þetta ekki við.

Fyrir aftan blokkina er runni sem stendur mjög nálægt. Ég horfi beint niður á hann þegar ég stend á svölunum mínum. Ég hef marg beðið um að hann yrði fjarlægður. Nei, kemur ekki til mála.

Þegar ég flutti hingað var aldrei hugsað um að fjarlægja dauðan gróður. Hann var bara þarna og kom engum við. Ég tók mig til og fékk fólk til þess að slá garðinn. Þegar ég ætlaði að rukka fyrir fékk ég blákalt nei. Þetta var óþarfi sögðu nágrannar. En hvað með eldhættu? spurði ég. Enginn hætta hér, var svarið. Ég lét slá garðinn í 5 ár og greiddi fyrir. Þetta kostaði engar formúur en mér leið betur. Viðbjóðslega tréð fyrir framan reyndi ég að drepa í fyrra með eitri en gekk ekki. Nú ætla ég að vona að það verði höggvið þegar gert verður við vatnslekann því það þarf að grafa garðinn upp. Til þess að vera alveg örugg er ég á leið í byggingavöruverslun til þess að finna koparnagla eða skrúfur og ætla mér af sérstakri trévonsku minni að drepa viðbjóðinn með því að negla í það kopar.

Vandamálið sem ég hef við nefið á mér er út um allt land, bara í stærri stíl og þegar kviknar í verður urgandi bál sem eyrir engu.

Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist þetta árið í eldvörnum landsins.

Pollíönnu leikur dugar ekki. Það er hægt að stinga hausnum í sandinn og vona það besta en því miður leysir það ekki málið.

Vakna stjórnvöld til lífsins og fara að reka slökkvistöðvar fyrir ríkisfé, eða sigla þau áfram að feigðarósi?

Ég veit það ekki en held þó í vonina um að það komi rigning.

Hulda Björnsdóttir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband