Aðgát skal höfð í nærveru sálar - réttlæting

25.júní 2017

Aðgát skal höfð í nærveru sálar, sagði viðmælandi eftir að hafa helt sér yfir manneskju sem var ekki á sama máli um bótasvik!

Það var verið að ræða um þá sem stunda bótasvik. Fólk sem þykist búa á Íslandi en býr í útlöndum og skreppur til Íslands yfir sumarið. Fólk sem stærir sig af því að hægt sé að svindla á íslensku Almannatryggingakerfi. Eftirlaunaþegar voru umræðuefnið í upphafi en snérust skyndilega yfir á öryrkja þegar öryrki henti sér inn í umræðum. Þetta varð svolítið eintal og drógu þeir sem hófu umræðuna sig út. Eftir situr þó eitt og annað sem mér þykir athyglivert.

Eins og ég hef sagt margsinnis hef ég ekkert á móti öryrkjum og stend með þeim fram í rauðan dauðann. Ég ólst upp hjá einum og þekki vel erfiðleika þeirra.

Ég hef heldur ekkert á móti eftirlaunaþegum og berst með kjafti og klóm fyrir því að kjör þeirra sem verst hafa það verði leiðrétt.

Oft á tíðum verð ég fyrir skömmum og andstyggilegheitum sem hent er í mig en falla eins og boltar sem hent er í vegg og detta niður. Mér er einfaldlega persónulega alveg hjartanlega sama um skítkast sem einhverjir þurfa að henda í mig. Ég er sátt í eigin skinni og boltar sem skipta engu máli hitta mig ekki. Þeir detta dauðir niður og kastarinn hefur eytt orku sinni í ekki neitt.

Hins vegar fer um mig ónotahrollur þegar ummæli sem þessi koma frá öryrkja sem segir mér að "aðgát skuli höfð í nærveru sálar".

Tilvitnun í ummælin:

Mér finnst það því ekkert skrítið að fólk sæki hingað út. Og ef það er að fá einhverjar viðbætur sem ég held að séu nú engar stórupphæðir þá er það kannski ólöglegt en ef fólk getur náð endum saman og lifað mannsæmandi lífi, gleðst ég yfir því. Því það er kerfinu sjálfu að kenna ef fólk fer þessa leið.

Hvað eru t.d. ekki margir sem skrá sig ekki í sambúð vegna þess að það er hagstæðara.

Er þetta fólk gagnrýnt?

Ég bara óska þess svo innilega að öryrkjar fái að vera í friði.

Það er nóg að vera að berjast við veikindi. Það tekur sinn toll af fólki. En að vera undir smásjá, lesa niðrandi ummæli um öryrkja brýtur mann niður andlega í ofanálag.

Við skulum bara segja...

Aðgát skal höfð í nærveru sálar."  Tilvitnun lýkur.

Hver voru svo hin niðrandi ummæli?

Jú hér koma þau:

Viðmælandi 1 "Það er ekkert sem heitir að kjósa að flytja lögheimili sitt. Ef fólk býr meira en 180 daga utan Íslands Á það að flytja lögheimlið. Þetta er ekki val. Þetta er skýrt í lögum."

Viðmælandi 2  Svar: Ég veit það vel en ég hef hitt þó nokkra sem hafa búið hérna í mörg ár án þess að tilkynna um það heima. Fólk sem er hér allan veturinn og skreppur til Íslands yfir blásumarið. Fólki finnst sjálfsagt að þiggja bætur sem það á ekki rétt á þegar það flytur úr landi og hreykir sér af því að komast upp með það. Svo eru aðrir sem hafa einfaldlega ekki hugsað út í þetta og halda að það sé bara allt í lagi að vera hérna í "sumarfríi" 9 mánuði á ári." Tilvitnun lýkur.

Hvers vegna fékk ég ónotahroll? Jú, það er einkum tvennt.

Reiða öryrkjanum finnst allt í lagi að fólk svíki út úr kerfinu og kennir kerfinu um.

Viðhorfið að það sé í lagi að svíkja út bætur er ekki gott. Á meðan svona viðhorf ríkja verður þetta sama fólk, þ.e. þeim sem finnst þetta í lagi, að þola umræðu um málið.

Það eru ekki eingöngu öryrkjar og eldri borgarar sem fá þessa gagnrýni á sig. Það eru allir sem gefa ekki réttar upplýsingar til Almannatryggingakerfisins.

Svikararnir hjálpa ekki upp á baráttu fyrir bættum kjörum. Þeir standa í vegi fyrir þeim. Þeir gefa stjórnvöldum gullið tækifæri til þess að halda niðri bótum Almannatrygginga og skýla sér á bak við bótasvik. Þeir koma í veg fyrir að allir geti lifað sómasamlegu lífi, líka þeir sem eru ekki vinnufærir eða komnir yfir ákveðinn aldur. Þetta er ekkert flókið í mínum huga.

Langflestir öryrkjar og eldri borgarar eru strangheiðarlegt fólk og gefa allar upplýsingar sem réttastar. Langflestir aðrir þegnar þjófélagsins sem fá bætur frá Almannatryggingakerfinu eru líka heiðarlegir. Það eru skemmdu epli sem við erum að gagnrýna, ekki þau fersku og fallegu.

Að nota orðatiltækið "aðgát skal höfð í nærveru sálar" og í næstu setningu tala um og réttlæta svik finnst mér hálfgerð hræsni svo ekki sé meira sagt.

Það mætti kannski snúa þessu við og segja: "Maður líttu þér nær"

Áður en reiða fólkið hefur boltaleikinn bið ég það að hugleiða hvort ekki sé kröftunum betur varið til baráttu fyrir bættum kjörum öryrkja?

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband