Lifðu núna - Grái herinn - Fyrir hverja eru þessar síður?

23.júní 2017

Það eru nokkrar síður á Facebook sem fjalla um málefni eldri borgara og stundum eru þar viðtöl.

Viðtal við frú Þórunni H. birtast á báðum þessum síðum um hæl.

Nú sá ég viðtal við enn einn popparann sem er kominn á eftirlaun.

Svo hafa verið viðtöl við ýmsa sem hafa breytt um lífstíl og minnkað við sig húsnæði og fleira.

Nú spyr ég:

Af hverju hef ég ekki séð eitt einasta viðtal hjá Grá hernum eða Lifðu núna þar sem fjallað er um og talað við þá sem eru að deyja úr hungri vegna þess hve lífeyrir þeirra er af skornum skammti?

Af hverju eru þetta að mestu glansviðtöl við þá sem hafa það glæsilegt á efri árum og njóta þeirra í botn?

Ég geri mér grein fyrir því að herinn og Lifðu núna eru tengd vinaböndum og má sjá sömu viðtölin hjá báðum oft og tíðum.

Herinn birtir skrif Björgvins H. eins og um súkkulaði af bestu gerð sé að ræða.

Skrif Björgvins eru ágæt en það eru ábyggilega fleiri sem taka þessi mál að sér en herinn lítur ekki við.

Nú legg ég til að Lifðu núna taki nokkur viðtöl, kannski svona 10, á næstu vikum við þá sem hafa það verulega skítt eftir 65 ára aldurinn.

Ég legg líka til að herinn birti þessi viðtöl á sínum síðum og sé jafn fljótur og þegar haft er drottningarviðtal við formann landssambandsins.

Æsifréttir Kjarnans um ofgreiðslur Tryggingastofnunar ættu líka að vera í fyrsta sæti hjá báðum þessum síðum og bullið leiðrétt.

Upplýsingar til þeirra sem nú velta fyrir sér hvernig í veröldinni TR kemst að raun um að þeir skuldi stofnuninni ættu að vera kappsmál þessara beggja.

Hvar eru tillögur til útbóta hjá hernum?

Hvar er umfjöllun um fátæktina hjá hernum?

Hvar er umfjöllun um þá sem svíkja út úr lífeyriskerfinu með því að gefa upp röng heimilisföng? Hvenær fjallaði herinn um þau mál?

Lífið er ekki bara dans á rósum og sala á stórum húsum og flott make up og hárgreiðslur fyrir þá sem fara á eftirlaun. Nei það er nefnilega til fólk, og fullt af því, sem hefur ekki yfir 533 þúsund í lífeyrissjóði á mánuði, eða á stórar eignir til þess að selja og getur flutt til annarra landa og keypt sér flottar eignir þar. Lífið er ekki bara saltfiskur. Það er líka úldið kjöt.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband