Húsnæðisvandi á Íslandi árið 2017

31.júlí 2017

Hvernig stendur á því að ekki er til húsnæði fyrir alla á Íslandi í mesta góðæri sögunnar?

Svar:

GRÆÐGI

Þeir sem eiga húsnæði eru svo uppfullir af gróðahugsjónum að þeir gleyma þeim sem eru ekki með 700.000 króna mánaðartekjur, meðaltekjurnar góðu, þið munið.

Viljaleysi græðginnar er alveg ótrúlegt og til háborinnar skammar.

Eru allir búnir að gleyma því hvernig byggt var upp fyrir þá sem voru á lægri launum, rétt fyrir nokkrum áratugum?

Eru allir búnir að gleyma því hvernig bröggum var útrýmt og fólki hjálpað að komast í sæmilegt húsnæði?

Eru allir búnir að gleyma því hvernig fólk flutti úr bröggunum og í Höfðaborgina?

Höfðaborgin var ekkert glæsihúsnæði en það var þó þak yfir höfuðið á þeim sem gátu ekki leigt dýrt húsnæði.

Eru allir búnir að gleyma því hvernig Breiðholtið byggðist upp? Þar var að hluta til byggt fyrir láglaunafólkið og stórt stökk tekið frá Höfðaborginni.

Er fólk búið að gleyma því hvernig Viðlagasjóðshúsin streymdu inn og björguðu mörgum sem þurfti að flýja logandi eyjarnar og flytja upp á land?

Líklega vita blessaðir unglingarnir á Alþingi ekkert um þetta og hafa áreiðanlega engan áhuga á því að kynna sér þessi mál.

Gæti ekki verið ágætt að krakkaþingið færi í sögu nám, þar sem kennt væri hvernig Reykjavík var rétt fyrir nokkrum áratugum þar sem fólki var hjálpað en ekki úthýst?

Árið 2017 ætti enginn að þurfa að sofa í tjaldi eða bílskrjóð eða undir berum himni.

Auðvitað er hægt að hjálpa öllum sem hjálp þurfa á hinu ofsaríka Íslandi þar sem Velferðarráðherra heldur að meðallaun landans séu yfir sjö hundruð þúsund á mánuði.

Það gæti kannski verið gott fyrir ráðherrann geðþekka að kynna sér aðeins aðstæður venjulegs fólks. Hann gæti hugsanlega stigið út úr kassanum sínum fagra, og horft í augun á eldri borgaranum sem á ekki fyrir mat í dag, síðasta dag mánaðarins. Hann gæti horft í augu gamla mannsins eða gömlu konunnar sem bíður eftir morgundeginum því þá koma eftirlaunin og hægt verður að kaupa í matinn.

Velferðarráðherrann gæti líka horft í augu einstæðu móðurinnar sem hefur misst leiguhúsnæði sitt og fjölskyldan á að fara á vergang. Ekki bara á vergang, það á að splundra litlu fjölskyldunni.

Síðan gæti ráðherrann horft í augu öryrkjans sem hefur misst heilsuna vegna hins ógurlega góðæris á Íslandi. Öryrkinn sem var venjulegur launþegi en varð fyrir því óláni að veikjast og getur ekki unnið fyrir sér lengur, væri gott umhugsunarefni fyrir ráðherra sem stýrir málum velferðar fyrir ALLA á Íslandi, en lifir í einhverjum óskiljanlegum draumaheimi.

Forsætisráðherra landsins getur auðvitað ekki sett sig í spor þjóðarinnar. Hann er utan við allt og alla og kökuheimur hans mun líklega aldrei opnast.

Bjartur litli er bara kúl og skemmtir sér á meðan sjúklingar verða gjaldþrota við það eitt að reyna að ná heilsu aftur. Svona sjúklingar koma kúl ráðherra ekkert við og honum er slétt sama á meðan hann fær launin sín og getur dillað sér.

Ráðherra sjávarútvegsmála er falleg og talar fjálglega um allt og ekki neitt. Auðvitað er fínt að vera flott kona og ekki verra að hafa náð í ráðherrastól. Það gæti þó verið ágætt fyrir ráðherrann að kynna sér líf sjómanns fjölskyldunnar að ég tali nú ekki um hins venjulega verkamanns. Hún gæti hugsanlega stigið niður úr hásæti sínu og talað við almúgann.

Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum í dag á hina undarlegu ríkisstjórn sem hyglir vinum og vandamönnum og heldur að íslenskur almenningur séu fávitar.

Hulda Björnsdóttir

 


Nýja blogg síðan mín á ensku

Nýja blogg síðan mín á ensku er á WordPress

undir nafninu

huldabjornsdottir.com

Ef þið hafið áhuga þá er tilvalið að fara inn og skoða pælingar mínar þar.

Hulda Björnsdóttir


Er ríkisstjórnin fallin?

30.júlí 2017

Er ríkisstjórnin fallin?

Fer hún frá?

Hvað tekur þá við?

Eru einhverjar lausnir í farvatninu?

Eru vinstri flokkar tilbúnir til þess að taka á málum sem núverandi ríkisstjórn hefur vanrækt?

Geta þeir komið sér saman um eitthvað?

Er eiginhagsmunapot enn efst á baugi eða hafa málefni tekið frumkvæðið?

Eru einhverjir sem geta komið sér saman um hvernig leysa skuli vanda þeirra sem ekki hafa þak yfir höfuðið?

Eru einhverjir sem geta komið sér saman um hvernig skuli búa að sjúkum í Íslensku samfélagi?

Eru einhverjir flokkar sem geta komið sér saman um hvað gera skuli við gamla fólkið sem ekki getur búið heima og býr á göngum sjúkrahúsa?

Hvaða flokkar geta komið sér saman um hvernig hægt sé að uppræta fátækt, sára fátækt 5000 barna á Íslandi.

Hvaða flokkar geta leyst mál alþýðunnar á Íslandi án þess að setja ráðherrastóla og framapot í forgang?

Ég bara spyr.

Hulda Björnsdóttir

 


Barnaverndarnefndir - fyrir hverja vinna þær?

29. júlí 2017

Ég las um unga móður sem er húsnæðislaus og úrræði yfirvalda er að taka af henni börnin og koma þeim í fóstur.

Ég velti því fyrir mér hvers konar lausn þetta er og fyrir hverja er verið að vinna.

Eru barnaverndarnefndir og félagsmála apparöt að sinna þörfum barna og bera þessar stéttir hag fjölskyldna fyrir brjósti?

Svona nefndir eru kjörnar pólitískt, held ég. Ef það er rangt getur einhver leiðrétt mig.

Eru pólitíkusar með sérmenntun í málefnum barna og fjölskyldna?

Eru núverandi nefndir sambærilegar við hið "frábæra" Alþingi íslendinga og þeirra sem þar starfa í umboði þjóðarinnar?

Árið 2017 ætti enginn á Íslandi að þurfa að leita til þessa viðurstyggilega apparats, sem barnaverndarnefndir eru oftar en ekki, vegna húsnæðisskorts.

Eru til tölur um það hve mörgum fjölskyldum hefur verið hjálpað í gegnum barnaverndarnefndir og hve margar fjölskyldur hafa verið lagðar í rúst með aðgerðum þessa fólks?

Það væri fróðlegt og líklega mjög gagnlegt að einhver tæki að sér að skoða þessi mál niður í kjölinn.

Móðir sem hefur misst húsnæði sitt og leitar til félagsmálayfirvalda á ekki að standa frammi fyrir því að lausnin sé að splundra fjölskyldunni.

Lausnin á auðvitað að vera hjálp til þess að fjölskyldan geti áfram verið saman og að börnin fái að alast upp hjá móðurinni en ekki vandalausum.

Kerfiskallar og kellingar með slepjulegan helgisvip í svona nefndum ættu að vera við önnur störf. Helgislepjan sameinar ekki. Hún þjónar ekki hagsmunum eða velferð skjólstæðinganna. Hún rífur á hol og eyðileggur líf fólks.

Hvað gerist þegar búið er að tvístra fjölskyldunni og koma börnum konunnar sem missti húsnæðið fyrir hjá vandalausum?

Verða börnin yfir sig hamingjusöm?

Hvað verður um móðurina? Verður hún kannski öryrki vegna þess hvernig komið er fram við hana? Kemur þjóðfélagið til með að kosta uppihald barnanna hjá fósturfjölskyldu og örorkubætur til móðurinnar vegna hugsýki?

Hvaða vit er í því að fara svona með lifandi verur sem leggja allt í sölurnar til þess að sjá börnum sínum farborða?

Það ættu líklega að vera til nefndir á vegum bæjarfélaga sem vernda ekki bara börn, það ættu að vera til nefndir sem vernda foreldra fyrir þeim sem gefa sig út fyrir að vera með hag barnanna efst á blaði.

Félagsmálastofnanir geta verið ágætar og ráðgjafar þar líka. Oft á tíðum eru þó þessar stofnanir mjög einkennilegar svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

Í gegnum áratugina höfum við lesið um ótal mál í blöðum þar sem fjölskyldur hafa verið brotnar í spað vegna annarlegra viðhorfa þeirra sem gefa sig út fyrir að hafa hag fjölskyldunnar í fyrirrúmi.

Sum bæjarfélög eru verri en önnur.

Auðvitað má ekki halla á þessi pólitísku apparöt. Þau eru heilög og þeir sem leyfa sér að gagnrýna eru geðveikir.

Ég vona svo sannarlega að unga konan fái húsnæði og fjölskyldan hennar geti haldið áfram að vera saman.

Árið 2017 á sundrungarlausn ekki að vera til, ekki einu sinni í auðugu hugarflugi "verndar apparatanna".

Hulda Björnsdóttir

 

 


Ætti ég kannski að hætta að rífa mig hérna ?

27.júlí 2017

Ég hef lengi verið með í pokahorninu viljann til það blogga á ensku en ekki fundið vettvang sem passaði.

Nú er ég loksins komin með bloggið og alsæl. Hef nú þegar fengið viðbrögð frá erlendum vinum mínum, sem þetta blogg er auðvitað fyrir, og allt jákvætt þar.

Í bili deili ég nýju póstunum mínum á Facebook síðuna mína en gæti trúað að ég hætti því áður en langt um líður.

Bloggið hér er einkum til þess að halda við íslenskunni og svo auðvitað að láta hið skæra ljós mitt skína á málefni þeirra sem minna mega sín í íslensku þjóðfélagi.

Þar sem ég er komin með annað blogg sem ég ætla að nota fyrir almennar hugleiðingar og fréttir frá útlandinu mínu verður þetta hér eingöngu um málefni sem snerta íslenskan almenning sem lepur dauðann úr skel.

Ég get ábyggilega ekki setið á mér ef ég þekki mig rétt.

Nú er Sumarþinginu lokið og við hefur tekið almennt pólitískt pot í bili. Ég tek ekki þátt í pólitískum pot umræðum og þegar einn var að velta því fyrir sér í gær hvar ég stæði í pólitík svaraði ég ekki.

Svoleiðis pælingar eru ekki þess virði að eyða dýrmætum tíma mínum í. Tími minn er jú farinn að styttast hér á þessari ágætu jörð og eins gott að nýta hann til þess sem ég hef áhuga á.

Allir flokkar eru ábyggilega fínir inn við beinið. Meira að segja Sjálfstæðiflokkurinn sem er einskonar skrímsli þessa dagana er að uppruna með göfug markmið en hefur einhvers staðar dottið út af línunni.

Flokkur fólksins stóð fyrir Sumarþinginu og er ég þakklát fyrir það. Nú er hann hins vegar kominn á fullt í baráttunni um pólitísk sæti og ég óttast að hugsjónirnar verði kaffærðar hægt og hljótt eins og hjá flestum nútíma pólitíkusum þegar þeir komast til valda.

Komist flokkurinn á þing verður hann ekki nægilega stór til þess að ýta fram málum sem skipta máli.

Þetta er auðvitað bara mín skoðun og allir mega nú taka mig á beinið en ég er þeirrar skoðunar að baráttuna fyrir bættum kjörum þurfi að heyja utan þings.

ASÍ er grútmáttlaust og Félög eldri borgara einnig. Það er ekki um auðugan garð að gresja utan flokks pólitíkur potsins.

Mikið vildi ég að þetta væri öðruvísi.

Hulda Björnsdóttir

 


Ættu íslenskir stjórnmálamenn að hlusta á ræðu McCain?

26.júlí 2017

Í gær hlustaði ég á ræðu JohnMcCains þar sem hann talaði í þinginu um starfshætti og hvernig þingið hefði í raun brugðist hlutverki sínu.

Þingmaðurinn greindist fyrir nokkrum dögum með heilaæxli sem mun að öllum líkindum draga hann til dauða innan nokkurra mánaða.

Hann kom til þess að greiða atkvæði svo hægt væri að ræða breytingar á heilbrigðiskerfinu.

Þegar ég hlustaði á hann datt mér í hug hvort það væri ekki bara ágætt að allir íslenskir þingmenn hlustuðu á þessa ræðu. Kannski ætti að gera þetta að skyldu. Ég held að það veiti ekki af því að hrista upp í genginu sem hefur tekið Alþingi íslendinga traustataki og herðir nú sultarólar þeirra sem minna mega sín í íslensku þjóðfélagi. Þessi hópur sem nú situr á alþingi íslendinga er gjörsamlega út úr heiminum. Það er ekki til í dæminu að þau hafi hugmynd um hvernig venjulegt fólk lifir. Ég leyfi mér að fullyrða þetta og stend við það.

Ofdekruð kynslóð ungmenna sem varla hafa þurft að dýfa hendi í kalt vatn og alls ekki migið í saltan sjó, stjórna nú landi með rétt rúmlega 300 þúsund íbúa.

Málfarið er oft á tíðum á mörkum þess að vera skiljanleg íslenska.

Þetta eru íslendingar sem bíta sig fasta í meðaltöl og halda að venjulegur almenningur á landinu sé með 700 þúsund í mánaðarlaun. Þingmennirnir og jafnvel ráðherrar hanga í meðaltölunum eins og snigill á vegg hér í landinu mínu.

Þingheimur er nú í sumarfríi út um allar trissur og hefur ekki miklar áhyggjur af þeim sem ekki hafa þak yfir höfuðið.

Það kemur þingheimi einfaldlega ekki við hvernig láglaunafólkið, einstæðu foreldrarnir, öryrkjarnir og eftirlaunaþegarnir hafa það.

Nei, hin ofdekraða kynslóð varð ekki til af sjálfu sér eða spratt út úr rifbeini einhvers.

Þessi kynslóð er afrakstur uppalenda sem brugðust hlutverki sínu og kenndu henni ekki að bera virðingu fyrir þeim sem eldri eru og hjálpa þeim sem þurfa hjálp.

Harkaleg ummæli ?

Já, þau eru það en því miður líklega nærri sannleikanum. Ég hef aldrei séð eða heyrt annað eins rugl og rennur upp úr mörgum þeirra sem eru að taka ákvarðanir upp á líf og dauða fyrir íslenskan almenning á hinu háa alþingi.

Líklega er kominn tími til þess að setja aldurstakmark á þá sem geta boðið sig fram til alþingis svo þjóðin sitji ekki uppi með óábyrga gráðuga unglinga í valdastöðum.

Þessir ofdekruðu unglingar halda að þeir verði aldrei veikir og alls ekki gamlir. Þeir sjá ekki út fyrir kassann sem byggður hefur verið í kringum þá.

Auðvitað þurfa þeir sem hafa komið sér inn á alþingi með svikum og lygi ekki að hafa áhyggjur af efri árum. Þetta blessaða fólk sér fram á feitan eftirlaunasjóð. Davíð Oddsson sá um það rétt áður en hann steig af þinginu.

Ríkisstjórn sú sem nú situr og rústar heilbrigðiskerfi, menntakerfi, mannúð og samhygð, bæði leynt og ljóst, hefur misst meirihluta sinn en situr sem fastast.

Tæki eitthvað betra við ef kosningar væru nú? Það er stóra spurningin. Er ekki partur af vandamálinu algjörlega grútmáttlaus stjórnar andstaða?

Þurfa þingmenn að greinast með bannvænt heilaæxli eins og herra McCain til þess að koma auga á að almenningur er það sem skiptir máli en ekki eiginhagsmunapot og græðgi?

Hulda Björnsdóttir

 


Að henda sígarettu út úr bíl í Portúgal er glæpur að mínu mati

25.júlí 2017

Það er fallegur dagur, sól og heiður himinn. Allan morguninn og fram eftir degi hefur ekki verið eitt ský á himni. Ekki eitt einasta.

Í eftirmiðdaginn verður mér litið út af svölunum mínum og þá blasir þetta við

20248070_877460219072473_6018881083316782435_o Hvað er að gerast á þessum fallega degi?

Ég trúi ekki mínum eigin augum og lít í kringum mig til þess að sjá hvaðan skýið kemur.

Við mér blasir þetta. Það fer ekki á milli mála að þetta eru ekki ský, þetta er þykkur viðbjóðslegur reykur og nú tekur lyktin að berast í áttina til mín.  Eldarnir eru á milli Coimbra og Penacova. Yfir hundrað slökkviliðsmenn berjast við ófreskjuna.

Það er eins og þetta sé rétt handan við hólinn en er í 50 kílómetra fjarlægð frá mér.

Í gær var ég á ferð frá Coimbra og á leið heim. Úr bíl fyrir framan mig var hent logandi sígarettu. Bíllinn var merktur P svo þar var heimamaður á ferð.

Aðeins seinna ók ég á eftir öðrum, líklega var sá bílaleigubíll, og sígarettan flaug út í vegkantinn.

Þetta er glæpur og ekkert annað. Allt er skrauf þurrt. Það er heitt og vindur blæs. Í svona aðstæðum á enginn að láta sér detta í hug að fleygja einu eða neinu logandi út úr bíl á ferð. Við tölum um að hitinn kveiki í, og eldingar og guð má vita hvað. Logandi sígarettur eru sökudólgur í mörgum tilfellum og ég verð alveg æf þegar ég sé svona framkomu. Auðvitað er ekkert hægt að gera í þessu, bílarnir horfnir á 150 km hraða þar sem hámark er 80 og þeir gefa skít í einhverja elda.

Í dag, enn þá, er himininn heiður og blár þegar ég horfi út um gluggann minn. Verður það svona í allan dag? Ég veit það ekki en við sem búum hérna allan ársins hring höldum í vonina. Nú á að tala um úrlausnir og búið að stofna 12 manna nefnd. Landar mínir tala endalaust og þeir finna ábyggilega ekki lausn þetta árið. Ein hugmynd er að þeir sem ekki þrífa landið sitt verði sektaðir. Ef þeir taka ekki við sér eftir eina sekt fá þeir aðra sem er hærri. Ég spurði hvort það yrði ekki þrifið hjá þeim eftir 1st sekt og þeir látnir borga þrifnaðinn. Nei, það kom ekki til mála. Stundum skil ég ekki þessar flóknu lausnir sem þurfa að hanga á öllu. Ég ræð auðvitað engu og bíð bara eftir næsta áhlaupi og vona að slökkviliðs fólkið haldi lífinu.

Hulda Björnsdóttir

20247765_877460195739142_3665661952250797990_o


Einkennilegar kannanir - er það ?

24.júlí 2017

Meðallaun íslendinga yfir 700 þúsund!

Ha?

Já, ekki ljúga kannanir eða rannsóknir eða niðurstöður alls þessa.

Einhver ágætur spekingur fann upp kannanatækið og óprúttnir stjórnmálamenn nota það óspart til þess að styðja bull málflutning sinn.

Nú er velferðaráðherrann ábyggilega sæll og glaður í sumarfríinu sínu. Allt svo dásamlegt á landinu góða og þeir sem kvarta eru rugludallar.

Nenni ég eina ferðina enn að velta mér upp úr ástandinu?

Já, ég held það.

Ég las þessa frétt fyrst á síðu sem heitir Lifðu núna og fjallar um ágæti þess að verða gamall á Íslandi. Ekki veit ég hver sér um þessa síðu eða hvaðan hún kemur en þetta mál gekk endanlega fram af mér.

Ég gerðist svo djörf að setja inn comment og segja "Bullfrétt"

Fékk strax 3 eða 4 comment með myndum af fyrirbærinu, þ.e. könnuninni og niðurstöðum.

Ég verð að segja að mér finnst dálítið ankannalegt að fólk sem gefur sig út fyrir að bera hag eldri borgara fyrir brjósti taki svona bullkannanir og dreifi þeim eins og heilögum sannleika.

Ég ætla ekkert að segja neitt um það hvort þessi síða tengist á einn eða annan hátt hinum ágætu hermönnum. Ég veit ekkert um það og kæri mig ekki um að fara með mjög rangt mál.

Vilji fólk skoða hver meðallaun eru á Íslandi þá er hægt að fara inn á TR.is og athuga þar hverjar tekjur þeirra sem lifa af eftirlaunum eða örorkubótum frá stofnunni eru og reyna að finna 700.000 krónur sem mánaðarlaun. Felumyndir geta verið góð dægradvöl og finni einhver svona tölur á síðum stofnunarinnar þætti mér vænt um að þær kæmu hér í athugasemdum svo ég gæti séð þær.

Það var viðtal við Ingu Sæland og Guðmund hjá Þorgeiri Ástvaldssyni þar sem þau fóru aðeins yfir bullkönnunina. Ég hvet alla til þess að hlusta á þetta viðtal og ekki síður að lesa það sem frummælendur á Sumarþinginu höfðu fram að færa.

Ef meðallaun á Íslandi væru yfir 700 þúsund á mánuði þá hefði fólkið sem mætti á Sumarþingið þann 15. júlí árið 2017 í Háskólabíói ekki verið þar.

Nei, það hefði verið í útlöndum eða ferðast um fjöll og firnindi á Íslandi og alls ekki tekið þennan laugardag til þess að sækja fund um fátækt á landinu. Það má alveg halda því til haga að fólk kom af öllu landinu á fundinn. Þetta var ekki bara Reykjavíkur væluhópur. Nei, þetta var alls konar fólk úr öllum stéttum sem lætur sig varða kjör þeirra sem draga fram lífið á tekjum langt undir meðaltölum.

Ekki veit ég hvernig á að fara að því að vekja alþingismenn af þyrnirósar svefninum.

Hafi einhver góðar hugmyndir þá skuluð þið ekki liggja á þeim.

Hér er um líf og dauða að tefla. Ekkert minna en það. Auðvitað má ekki tala svona en staðreyndin er samt þessi.

Hulda Björnsdóttir

 


Skyndilausnir

21.júlí 2017

Nú veður allt í skyndilausnum.

Búið að finna upp lækningu við krabbameini og bara að fylgja ráðum viðkomandi.

Nú getum við losnað við öll aukakílóin með því að drekka einhvern töfradrykk eða sítrónur á morgnana og eftir örfáar vikur erum við tágrönn og flott.

Svo er hægt að taka hrukkur í burtu með einni stroku eða stunda andlits jóga og þá verður andlitið allt slétt og fagurt á ný.

Ég gæti talið upp enn lengri lista en læt þetta duga.

Svona lausnir eru til lítils annars en að horfa á þær og allavega að ganga hægt um skyndilausna dyrnar.

Engifer, túrmerik, sítrónudrykkur og margt margt fleira sem talið er upp í svona frábærum lausnum getur einfaldlega verið hættulegt.

Ég tala af eigin reynslu og fyrirmælum lækna minna.

Áður en farið er á svona kúra þarf að skoða vel aukaverkanir.

Ég elska til dæmis engifer og vildi helst hafa það í öllu sem ég elda. Ég má ekki borða engifer vegna sjúkdóms sem ég hef.

Skyndilausnir eru frábærar en ef þær væru sannar væri enginn með krabbamein í dag og öllum erfiðum geislameðferðum hefði verið lokið fyrir löngu síðan. Það er ábyrgðarhluti að birta og deila svona lausnum. Fólk sem í örvæntingu sinni er að missa ástvini úr skelfilegum sjúkdómum leitar allra ráða til þess að hjálpa þeim sem veikur er.

Mér kemur ekkert við hvað hver og einn gerir en ég vildi óska þess að fólk setti inn athugasemd í svona pósta og bæði lesendur að skoða aukaverkanir sem geta fylgt. Þær eru í sumum tilfellum lífshættulegar og geta leitt til dauða.

Skyndilausnir eru ekki bara á sviði heilbrigðismála.

Við viljum líka lausnir NÚNA á málum eldri borgara, öryrkja, einstæðra foreldra og láglaunafólks á Íslandi.

Ég gæti með glans skrifað hér langa grein um það sem ætti að gera og það sem á að gera núna en veit að það er ekkert annað en óskhyggja.

Við höfum stigið eitt skref í áttina til samstöðu og hún er það sem við þurfum að halda áfram með. Auðvitað eru einhverjir sem geta ekki tekið niður flokks pólitíkur gleraugun og það verður að una því. Hins vegar er það ekkert sem á að stoppa þá sem ganga gleraugnalausir, vongóðir og bjartsýnir. Smátt og smátt bætist í hóp þeirra sem trúa á mátt samstöðunnar og þeir hætta að tala niður til þeirra sem framkvæma í stað þess að tala endalaust og gera ekkert.

Við erum lánsöm núna á Íslandi. Við eigum 2 verkalýðsforingja sem vilja berjast fyrir breyttum tímum. Þeir eiga við ramman reip að draga og afturhaldsöflin rísa nú upp hvert á fætur öðru. Það sem almenningur getur gert er að standa við bakið á þessum 2 og þá bætast fleiri foringjar við.

Á Íslandi hefur lengi verið sú árátta að mæta til dæmis ekki á fundi þar sem nýir samningar eru bornir upp en svo sitjum við saman á stól og drekkum kaffi og kvörtum.

Það væri dásamlegt og frábær tilbreyting ef fólk hætti að drekka kaffið við eldhúsborðið og mætti á félagsfundi í verkalýðsfélagi sínu. Þá færi eitthvað að gerast. Þá mundi valdaklíkan missa tökin og lífskjörin mundu breytast.

Svo einkennilegt sem það gæti virst, þá trúi ég á mátt fólksins og samstöðuna.

Samstöðufundurinn í Háskólabíói þann 15,júlí 2017 var dæmi um hvað getur gerst.

Ég held svei mér þá að íslenskur kúgaður almúginn sé nú að rísa upp og það verður hávært hljóð sem líklega vekur steinsofandi þingmenn af þyrnirósar svefninum.

Það eru ekki skyndilausnir sem leysa málin eða heimtufrekja. Úrbætur taka tíma og þolinmæði rétt eins og að bæta útlit og heilsu.

Hulda Björnsdóttir

 

 


Nú er að duga eða drepast !

20.júlí 2017

Þá er ég búin að koma upp bloggi á WorPress sem verður á ensku.

Þetta blogg er fyrir erlenda vini mína en hafi einhver áhuga þá er bara að fletta og skoða.

Ég er auðvitað að læra á fyrirbærið og það tekur einhvern tíma en þokast hægt og rólega.

Ég deili blogginu yfir á Facebook svo þeir sem þar eru geta skoðað.

Þetta hefur staðið til lengi og nú er ég komin í loftið, loksins, með hjálp góðs vinar í Ameríkunni., eftir nokkur hliðarspor og göngu upp í móti.

Væri ekki ólíklegt að ég bloggaði bráðum, þegar ég er búin að læra almennilega á hið enska, á portúgölsku.

Á enska blogginu mínu ætla ég að segja sögur og fabúlera um eitt og annað sem mér dettur í hug, allt annað en íslenskan vandræðaveruleika, held ég.

Hérna held ég áfram að tuða um eitt og annað sem tengist baráttunni fyrir bættum kjörum allra sem tilheyra ekki elítunni og svo kem ég kannski með sögur af einhverju sem er að gerast hér í Portúgal.

Í dag vildi ég bara láta ykkur vita af því hvað ég er að gera.

Ef þið viljið fylgjast með mér á Facebook þá er það hægt og er síðan mín "Milli lífs og dauða" like síða þar sem málefni varðandi baráttuna ráða ferð.

Njótið daganna eins og þið best getið.

Hulda Björnsdóttir

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband