Samtakamáttur er það eina sem dugar

19.júní 2017

Man einhver eftir kvennafrídeginum?

Deginum þar sem konur á Íslandi lögðu niður vinnu í heilan dag og stóðu saman?

Ég man vel eftir þessum degi enda á ég nokkur ár í pokahorninu, eins og við segjum hér í landinu mínu.

Eu tenho muitos anos !

Kvennafrídagurinn sýndi og sannaði að fólk getur staðið saman, ekki bara konur, heldur líka karlar.

Þegar við erum að rífa okkur yfir kjörum eldri borgara og öryrkja sitjum við hvert í sínu horni og ekkert gerist. Það vantar alla samstöðu.

Ég veit að það er stór hópur eldri borgara sem hefur það fínt og  það er eini hópurinn sem Panamaprinsinn talar um. Hann skilur ekki kjör hinna og er kannski ekki hægt að lá honum það.

Mér dettur stundum í hug þegar mamma, sem var öryrki, reyndi að vinna sér inn nokkrar krónur svo við hefðum mat á borðum og hún tók að sér að þvo þvott fyrir ættmenni Panamaprinsins.

Við komum inn í stórt herbergi sem var þvottahúsið, og þar lágu föt í haugum. Þessi fjölskylda var ekki að hafa fyrir því að þvo, hún keypti bara nýtt þegar þurfti að skipta um föt, og fékk svo einhvern annað slagið til þess að taka til í haugnum og þvo og strauja.

Við vorum heilan dag í þvottahúsinu og mamma þvoði og straujaði á meðan barnið var sett upp á bekk til þess að það væri ekki að þvælast inn í önnur herbergi hússins. Lítið barn, rétt fimm ára hefur ekki vit til þess að fara ekki inn í forboðin húsakynni og best að geyma það uppi á borði. Þetta var ekki svo slæmt og ég fékk að hjálpa til og brjóta saman nærbuxur og litla hluti sem ég réð við.

Auðvitað veit ég ekkert um það hvort Panamaprinsinn og fjölskylda hans þvo og strauja. Mér finnst það frekar ólíklegt jafnvel þó hann skreyti óhollar kökur af hjartans lyst.

Mamma fór bara einu sinni í fína húsið með mig. Þetta varð henni ofviða og hún þurfti að hvíla sig þar til næsta starf bauðst, sem var venjulega ráðskonustaða úti í sveit. Það er ekkert grín að vera öryrki með fatlaðan handlegg og berklasjúklingur. Mamma var hetja og gerði það sem hún gat.

Ef við setjum okkur í spor prinsins og ættmenna hans sjáum við hvað baráttan er vonlaus. Eða er það?

Handónýt stjórnarandstaða gerir ekkert og skilur heldur ekki vandamálið.

Alþingismenn, bankastjórar, lögfræðingar, dómarar og fleiri stéttir hafa það svo gott eftir að þau komast á eftirlaun að þau geta ekki sett sig inn í spor þeirra sem eiga ekki til hnífs og skeiðar. Það er varla hægt að ætlast til þess, held ég.

Hins vegar er hópur eftirlaunaþega sem hefur ekki yfir hálfa milljón eða meira á mánuði. Sá hópur er nokkuð stór. Ég sá einhvers staðar töluna 14 þúsund af 60 þúsund manna hópi. Ég ét ekki hatt minn fyrir þessar tölur en þarf að hafa eitthvað til að ganga út frá. Ég veit ekki hvað Grái herinn og hans "baráttu fólk" í fararbroddi, hópurinn sem er á forsíðu hersins, hefur í eftirlaun. Ég gæti trúað að "frúin ágæta" væri með ágætis eftirlaun, en ætla ekkert að fullyrða um það að órannsökuðu máli.

!4 þúsund manns er nokkuð góður hópur. Ef þessi hópur gæti staðið saman og barist saman fyrir bættum kjörum eldri borgara gæti verið að einhver hlustaði.

Það er ekki nóg að heimta endalaust og skrifa endalaust um að loforð frá 2013 hafi verið svikin. Þetta verður eins og illa kveðin vísa sem allir hætta að heyra. Jú, loforðin voru svikin. Það er hárrétt. Jú, Landssamband eldri borgara er grút máttlaust, það er líka rétt og ég gæti trúað að það yrði ekki öflugra á næstu 4 árum. Það þarf jú bein í nefinu til þess að berjast fyrir þá sem hafa verið sviknir aftur og aftur. Vöðvar og sterk bein eru gott nesti, án þess þó að ég ætlist til þess að fólk fari að berja stjórnmálamenn og "fátæki" nefndarformenn.

Nei, það sem þarf er samstaða þeirra sem eru ekki með yfir hálfa milljón á mánuði i eftirlaun. Samstaðan getur orðið að veruleika, rétt eins og konur gengu út af vinnustöðum fyrir mörgum árum og bjuggu til kvennafrídag.

Hættum að bulla endalaust og tökum til óspilltra málanna. Framkvæmum í stað þess að fjasa um allt og ekkert. 14 þúsund atkvæði eru mörg. 60 þúsund atkvæði eru vonlaus og ekkert annað en tímasóun að bulla um þau. Þeir sem skreppa út í búð til þess að endurnýja nærbuxurnar í stað þess að þvo þær eru ekki gjaldgengir í baráttuhóp fólks sem á ekki fyrir mat næstu 10 daga.

Hvað er hægt að gera núna? Nú er komið að ykkur kæru vinir að sjóða saman hugmyndir og koma með tillögur. Eitt að lokum. Ekki halda að seta á alþingi íslendinga breyti einhverju. Það geisar bráðsmitandi sjúkdómur þar sem kallast gleymska og heltekur þá sem setjast inn í húsið þegar búið er að færa þeim atkvæði á silfurfati. Nei, það þarf fólk utan þings til þess að berjast fyrir bættum kjörum.

Hulda Björnsdóttir


3ja daga þjóðarsorg í Portúgal

19.júní 2017

Nú er klukkan rétt rúmlega sjö að morgni. Sólin reynir að brjótast í gegnum þykkan reyk sem liggur yfir öllu.

Brunalykt er alls staðar bæði inni og úti.

19221736_854462394705589_1231456460888233826_oSvona leit þetta út í gærkvöldi þegar ég fór út á svalirnar heima hjá mér.

Eldarnir voru ótrúlega nálægt og tollurinn var dýralífið í Espinahl.

Ansiao og Avelar brunnu líka og þar varð manntjón. Þessir tveir bæir eru í 5 mínútna fjarlægð frá mér.

Þegar dimmt var orðið sá ég eldtungurnar rísa upp eins og skrímsli og þær öskruðu eins og ljón.

Nær á myndinni er iðagrænn trjálundur sem gæti orðið næsta fórnarlamb.

Ég náði í alla vini mína í gær og þeir sem búa fyrir norðan eru hólpnir, þar eru ekki eldar, en í Semide og Mirando do Corvo eru svört ský yfir og ekki að vita hvað gerist í dag.

Þeir sem búa á því svæði sem logaði í gær hafa sumir sloppið en aðrir ekki. Sumir hafa misst heimlin sín og enn aðrir látið lífið eða misst náinn ættingja.

Slökkviliðsmenn um allt landið eru örmagna. Hjálp barst frá Spáni og Frakklandi. Þau lönd hjálpa á hverju ári og senda flugvélar sem dæla vatni yfir eldana. Ef ekki nyti við flugvéla, bæði innlendra og erlendra yrði tjónið enn hrikalegra.

Það verða 62 jarðarfarir í dag og næstu daga. Hér er fólk jarðað eins fljótt og hægt er bæði vegna hitans og eins hefur almenningur ekki efni á að láta fólkið liggja á ís. Það er eingöngu fyrir hina ríku.

Í gær voru ráðamenn vissir um að elding hefði valdið íkveikjunni í Pedrógao Grande. það getur vel verið að svo hafi verið en mér heyrðist í morgun komnar einhverjar vöflur á þá sem eru í forsvari.

Hins vegar hefur enginn talað um hvernig eldar kviknuðu í Avelar og Penela og Ansiao og Espinahl ásamt fleiri stöðum. Voru brennuvargar þar að verki? Líklega. Því miður.

Á þessum hálftíma sem ég hef setið við tölvuna mína þykkist himininn og reykinn leggur hægt og hljótt yfir allt. Í dagsbirtunni sjáum við ekki eldtungurnar fyrr en þær eru komnar rétt við nefið á okkur en við sjáum reykskýin sigla og reka upp reiði öskur.

Sviðin jörð er nú um allt. Trjábolirnir standa eftir en botninn og laufin eru horfin. Í vetur þegar kuldinn sverfur að og við förum að kveikja upp í arninum brennum við þessa nöktu boli. Mikil vinna er framundan hjá skógarhöggs mönnum við að höggva trén og brytja þau niður. Það er ekki hægt að nota þau í annað en eldivið. Lyktin hverfur ekki og enginn byggir eitt eða neitt úr svörtum trjábolum.

Eftir nokkur ár rísa skógarnir upp á ný. Í haust má búast við að litlir angar skjóti upp kollinum og hægt verði að fylgjast með uppvextinum. Eftir brunann mikla hér í Penela fyrir fimm árum sáum við þetta gerast og var ótrúlegt hve hratt litlu spírurnar tóku við sér og eru nú hinir fallegustu lundir, tilbúnir fyrir næsta voðaverk. Það voðaverk var framið í gær og litli bærinn minn fylltist sorg enn eina ferðina.

Það voru ekki eldingar í Penela sem kveiktu í. Hver það var veit ég ekki en allir eru sammála um að mannfólkið hafi fengið útrás fyrir kvikindis skap sinn. Fólkið sem átti að sitja inni og taka út refsingu fékk frelsið eftir nokkra daga og skýringin sú að þetta væri veikt fólk.

Spurning er hvað margir þurfa að láta lífið og missa heimili sín áður en brennuvargar verða látnir afplána dóminn, lokaðir á bak við lás og slá?

Forsetinn tilkynnti í gær með fögrum orðum að 3ja daga þjóðarsorg skildi vera í landinu.

Falleg orð segja margir og eru reiðir. Við erum reið og skiljum ekki ótrúlega heimsku stjórnvalda að greiða 30.000 evrur fyrir garðvinnu hjá þessum sama forseta, á mánuði, en svelta Bombeiros og láta þá reka stöðvarnar að mestum hluta fyrir framlög almennings.

Það er hægt að mæta í flottum fötum með fríðu föruneyti og faðma þá sem hafa misst allt sitt. Það er líka hægt að sýnast einlægur en ekki verður komist hjá því að staðreyndin er að 30.000 evrur á mánuði eru notaðar til þess að skreyta í kringum embættið. Dýrar blómaskreytingar og flott garðvinna bjargar ekki mannslífum þegar eldarnir læsa klónum í allt sem fyrir verður.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Bloggfærslur 19. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband