Örorkustyrkur - Lífeyrissjóðs sparnaður - endurreikningur TR

27.júní 2017

Nú eru bréf að berast þar sem endurreikningur hefur farið fram hjá TR. Sumir fá endurgreitt og aðrir skulda.

Ég rakst á umræðu þar sem talað var um að viðkomandi skuldaði TR rúmar 200 þúsund vegna ársins 2016.

Þessi einstaklingur hafði ætlað að láta réttindi sín í lífeyrissjóði standa óhreyfð þar til viðkomandi færi að taka eftirlaun og sótti ekki um til Lífeyrissjóðs. Nú vissi ég ekki hvort eftirlaun mundu skerðast ef sjóðurinn hefði greitt örorkubætur svo ég hringdi í Lífeyrissjóð VR og ræddi málið við þau.

Örorkulífeyrir skerðir ekki eftirlaun.

Hann er viðbótartrygging í Lífeyrissjóðnum.

Ef tveir einstaklingar með sömu lífeyrisréttindi fara á eftirlaun og annar hefur fengið örorkubætur en hinn ekki verða eftirlaunin þau sömu hjá báðum (ég er að tala um réttindi hjá Lífeyrissjóði)

Nú velti ég fyrir mér hvort verið geti að fólk haldi að réttindi þess skerðist hjá Lífeyrissjóði við það að nýta rétt sinn til örorku?

Ég hafði einnig samband við Tryggingastofnun út af þessu máli og þar var mér tjáð að þegar sótt er um örorku hjá TR beri stofnuninni að fá upplýsingar um þau réttindi sem viðkomandi kann að hafa hjá Lífeyrissjóði og þau réttindi skerði örorkubætur frá TR rétt eins og allar aðrar tekjur.

Þetta hefur ekki alltaf verið svona en fulltrúinn sem ég talaði við sagði að svona hefði þetta verið á síðasta ári og var hún ekki viss um hvort það hafi verið allt árið eða part úr árinu.

Þessi regla er semsagt ekki tengd nýju lögunum um almannatryggingar frá síðustu áramótum.

Mér finnst ég reka mig á aftur og aftur að upplýsingaflæði sé ekki alveg nægilega skýrt.

Það er mjög mikilvægt að fólk geti farið á einhvern stað og fengið upplýsingar um ÖLL réttindi sín. Ég byrjaði að leita á síðum TR áður en ég hringdi í stofnunina og fann ekki það sem mig vantaði.

Ég byrjaði líka að leita á síðum VR áður en ég hringdi.

Ég tel ekkert eftir mér að hringja og fæ yfirleitt ágætis þjónustu og svör en það þarf að láta sér detta í hug að finna upplýsingarnar og væri svo miklu auðveldara fyrir alla að einhvers konar ráðgjafastofnun eða apparat væri starfandi. Peningum er jú eytt í annað eins.

Ég hugsa stundum með hryllingi til þess þegar ég kemst á það stig í tilverunni að aðrir þurfa að sjá um mín mál á Íslandi. Líklega þarf ég að búa til leiðbeiningar fyrir fólkið mitt hér í Portúgal á portúgölsku. þegar ég lýsi ferlinu fyrir þeim fá þau ónotahroll og grípa um höfuðið.

Þegar ég fór í fjármálaráðuneytið í morgun gripu þeir um höfuðið í örvæntingu þegar ég sagði hvað ég ætti að greiða í skatt þetta sumarið hér í landinu mínu. Auðvitað brosi ég bara og er stolt yfir því að greiða þar og það sem mér ber.

Það gilda ákveðnar reglur um hvernig tekjuáætlun TR er búin til og setti ég þær inn á Facebook síðuna mína og "Milli lífs og dauða" síðuna. Einnig er hægt að sjá þetta á síðum TR.

Eftir stendur spurning út af borðinu:

Erum við að niðurgreiða örorkubætur frá TR með sparnaði okkar í Lífeyrissjóð, rétt eins og við niðurgreiðum ellilífeyri okkar með sparnaði í Lífeyrissjóð?

Þorsteinn Víglundsson gæti líklega svarað þessu, eða hvað? 

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Bloggfærslur 27. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband