Er ég endalaust að tala um það sama?

21.júní 2017

Mér finnst stundum eins og ég sé alltaf rífa mig yfir því sama. Líklega er það rétt. Samt sem áður ætla ég enn eina ferðina að taka til og skammast yfir því yfirgengilega óréttlæti sem ríkir á Íslandi varðandi málefni eldri borgara og öryrkja.

Nú er komin á mínar síður hjá TR uppgjör fyrir árið 2016. Ég skoðaði mitt áðan. Ég nenni ekki að eyða tíma í að hringja í stofnunina og fá rökstuðning fyrir málinu, ekki núna. Það verða líklega margir sem sitja við símann og hella sér yfir starfsfólkið og kalla það öllum illum nöfnum.

Fólk er reitt og ég skil það.

Ég skil hins vegar ekki rökin fyrir því að það sé málinu til framdráttar að bölva og ragna fram og til baka.

Stundum dettur mér í hug hvað stjórnmálamenn og aðrir ráðamenn hugsi um þá sem geta ekki haldið sig innan sæmilegrar kurteisi í gagnrýni sinni.

Við verðum að hætta þessum dónaskap ef við ætlum að ná árangri.

Ég get séð "fátæki" formanninn og "grátkonuna" góðu hlæja sig máttlausa yfir þessum heimsku flónum sem kunna ekki mannasiði. "Betli" stofnanir eins og spítalar eru í hennar augum til óþurftar og það er hennar skoðun, sem mér finnst alveg forkastanleg og í raun sýna svo mikla fyrirlitningu á landinu sem hún hefur þó kosið að setjast að í. Hún er auðvitað stjórnmálamaður og það breytir oft fólki til hins verra.

Ef við ætlum að ná árangri í baráttu okkar verðum við að passa að vera sæmilega innan velsæmis ramma í umræðunni. Við getum reiðst og fundist allt vera að fara til fjandans en við bætum ekki ástandið með ókvæðisorðum. Gagnrýnum en höldum okkur innan sæmilegra velsæmis marka.

Grái herinn kom sá og sigraði. Hann safnaði 1000 manns á fund í pólitískum tilgangi, fólki sem var komið á eftirlaun að mestu.

Miklar vonir voru bundnar við herinn. Þær vonir hafa gjörsamlega brugðist. Ég veit að ég hef sagt þetta hundrað sinnum áður. Ég er að tala um þetta núna vegna þess að eitt gott kom út úr hernum.

FÓLK SÝNDI AÐ ÞAÐ GAT STAÐIÐ SAMAN.

Eitthvað í íslensku þjóðarsálinni er sem kemur í veg fyrir samstöðu. Þegar ég var ung keyptum við svínafóðurs kartöflur á sama tíma og nágranna þjóðir hættu að kaupa viðbjóðinn. Við töluðum um, yfir kaffibolla, að hætta að kaupa þessar handónýtu kartöflur, en héldum samt áfram að versla þær.

Við getum staðið saman. Hersöfnunin sýndi það.

Það er endalaust skrifað um kjör eldri borgara og öryrkja og svik ríkisstjórnarinnar og hvað Félag eldri borgara hafi áhuga á að gera. Endalaust sama tuggan. Endalaust. Félag eldri borgara hefur áhuga á að skoða hvort fara eigi í mál vegna tengingar eftirlauna við greiðslur í lífeyrissjóði. Það er ágætt að hafa áhuga en hann étum við ekki. Áhugi er allt annað en framkvæmd. Svo er sleginn varnaglinn góði að mikil vinna sé væntanlega nauðsynleg til þess að undirbúa málið. Einmitt. Þetta er ágætt að vita en enn betra að hefja vinnuna.

Ég velti því stundum fyrir mér hvort ég sé að lesa gamlar greinar. Nei það getur ekki verið. Grái herinn birtir þetta endalaust og dáist að rithöfundinum og óbilandi baráttu hans. Og ekki lýgur herinn.

Hóflegar kröfur eru kannski vænlegri til árangurs en að hækka endalaust kröfutöluna.

Við megum heldur ekki gleyma láglaunafólkinu. Ef við ætlum að fá stuðning frá þjóðfélaginu til þess að sæmilega sé búið að fólki þegar það byrjar síðasta áfanga þessarar vistar, þá þarf að gæta þess að ota ekki saman stéttum.

Við mættum endurskoða baráttuaðferðir okkar og lausnir.

Er til dæmis ekki betra fyrir alla að skattar séu lægri á þeim sem hafa lægri laun og er ekki betra að verkafólkið hafi lágmarkslaun sem hægt er að lifa af? Er það ekki réttlátara þjóðfélag?

Það eru ekki bara eftirlaunaþegar og öryrkjar sem svelta í landinu. Það eru þeir sem eru á lágmarkslaunum og einstæðu foreldrarnir, sérstaklega konur. Það eru þeir sem eru veikir og þurfa að greiða háar upphæðir fyrir læknisþjónustu. Fólk verður kannski öryrkjar vegna þess að það hefur ekki efni á því að leita sér læknis eða fara til sálfræðings til þess að leysa úr málum sem þjaka einstaklingana.

Á meðan þeir ríku standa saman eins og klettar verðum við sem erum ekki í þeirra hópi að finna leið.

Það þarf ekki að vera 1000 manna hópur í byrjun. Hversu lítill sem hópurinn er skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er að hefjast handa. Segjum að 100 manns eða bara 50 komi saman og ræði málið og komist að niðurstöðu með einhverjar lausnir sem hægt væri að byrja á. Þessi 50 manns koma svo með 1 til viðbótar í hópinn og hann verður 100 manns. Svona getur þetta undið upp á sig ef við viljum.

Ég held að lausnin sé ekki að troða gömlu fólki á þing. Við sjáum árangurinn af öllum fallegu orðunum sem frambjóðendur báru fram svo fjálglega á fundinum í Háskólabíó.

Við þurfum að byrja smátt og færa svo út kvíarnar. Það skilar árangri til lengri tíma litið. Við gætum líka látið af þeim vana að kenna stofnunum um allt sem aflaga fer. Stofnanir gera bara það sem þeim er sagt að gera. Ráðuneyti eru kannski þau allra valdamestu í íslensku þjóðfélagi. 

Hvernig væri til dæmis að tala við nýjan formann VR? Hann virðist vera með bein í nefinu og ekki láta vaða yfir sig á skítugum skónum.

Það eru þó nokkrir sem ég fylgist með á Facebook sem gætu verið í fararbroddi. Það er til fólk, við þurfum bara að hætta að "hafa áhuga á" eða "vera að velta fyrir okkur" og fara að framkvæma.

Koma með ákveðnar tillögur í frumvarpsformi til þingmanna er ein leið. Að sitja yfir kaffibolla og vínabrauðum og rabba skilar aldrei neinu.

Enn eina ferðina er ég líklega aftur að mala um það sama. Enn eina ferðina les einhver þetta og hugsar kannski : Mikið er hún þreytandi! Einn eina ferðina ætla ég að segja við yngri kynslóðina: þið eigið öll afa og ömmu eða foreldra og önnur skyldmenni og vini sem eru að verða eða eru orðin gömul, veik eða fátæk. Málið kemur öllum við, bæði ungum og gömlum. Við þurfum öll að sjá til þess að Íslenskt þjóðfélag hætti að vera fyrir þá sem henda skítugum nærbuxum og fara út í búð og kaupa nýjar af því þeir nenna ekki að þvo þær.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Til minningar um þá sem létu lífið í eldum í Portúgal um síðustu helgi

21.júní 2017

19274968_1061328397331520_7856853506051110927_nÞessi mynd er hér til þess að minnast þeirra sem létu lífið í ógurlegum eldum þessa síðustu daga, hér í Portúgal.

64 dauðsföll eru nú þegar staðfest. Fleiri gætu misst lífið því 6 eru enn í "critical condition".

Heilu fjölskyldurnar létu lífið. Ein fjölskylda var foreldrar og 2 börn. Önnur amma og afi ásamt börnum.

Slökkviliðsmennirnir okkar sem eru svo hugrakkir misstu nokkra úr sínum röðum.

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að þessir hugdjörfu menn og konur skulu sjálf þurfa að kaupa búninga sína og tæki. Vonandi taka stjórnvöld nú við sér og koma "Bombeiros" á fjárlög.

Þakkir skulu færðar til nágranna okkar, Frakka, Spánverja og Ítala sem á hverju ári senda flugvélar og fótgönguliða til hjálpar þegar kallið kemur. Án þeirra væri ástandið enn verra.

Forsetinn okkar hefur sýnt þessa daga að hann er öðruvísi en fyrirrennarar hans. Hann hefur heimsótt hvert einasta þorp sem eldurinn hefur læst viðbjóðslegum tungum sínum í. Hann hefur grátið með fólkinu og huggað eins og hann best getur. Hann heimsótti litlu slökkvistöðina okkar hér í Penela. Örþreyttir björgunarmenn kunna að meta svona heimsókn og eflast við hana. Þó örþreyttir séu halda þeir áfram og þegar næsta hrina kemur hafa þeir faðmlag forsetans í hjartanu.

Hulda Björnsdóttir

 

 


Ferskur vindur leikur um okkur í morgunsárið

21.júní 2017

Ég anda að mér fersku lofinu núna klukkan 7 og vona að ekki verði fleiri eldar kveiktir í dag. það var yndislegt að geta opnað alla glugga og hurðir og hleypt inn köldum gusti. Úti voru 17 stig en inni 29. Þegar nágrannarnir héldu til vinnu stóðu allir aðeins og önduð að sér áður en sest var inn í bílana. sólin skín og allt er kyrrt, núna.

Til þess að létta aðeins á andrúmsloftinu og segja skemmtilegar fréttir þá er þetta svona, eða var í gær.

Útlendings títlurnar fengu aldeilis eitthvað til þess að velta sér upp úr. Facebook logaði og commentum rigndi inn. Smjatt smjatt!

FLUGVÉL FRÁ CANADA AIR HAFÐI FARIST VIРBJÖRGUNARSTÖRF Í PORTÚGAL. þetta var fréttin. Hún var ekki bara í sjónvarpi hér, BBC át upp eins og súkkulaði.

Títlurnar héldu ekki vatni. Þær hömuðust. Og einn af þeim sem hafði farist var Breti. Þvílíkt og annað eins. Flugvél að hjálpa til að slökkva eldana og svo fórst hún með manni og mús.

Svona gekk þetta í smá tíma, líklega klukkutíma eða svo. Nánari upplýsingar fengust ekki af slysinu. Hvar, Hvernig, Hvað gerðist? Jú, einhver sagði að af því að vatnið væri svo lágt í ánum hefði vélin sturtast niður og nú væri farið að taka vatn úr sjónum. Jamm !

jæja, hvað gerðist í raun og veru?

Gaskútur sprakk !!!!!!!!!!

og hann varð að flugvél sem fórst með manni og mús, ekki einu sinni portúgölsk og bara með Portúgala innanborðs. Nei hún var frá Kanada og einn af áhöfninni var breskur !!!!!! Þvílíkt hneyksli !!!!!  Já svona hugsa títlurnar hérna í landinu stundum.

Annað ágætis dæmi um dæmalausan fréttaflutning var að 27 þorp í Góis hefðu verið  tæmd !

Ég hrökk nú dálítið við og hélt að farið væri að slá út í fyrir mér. Samkvæmt mínum kokkabókum eru 5 þorp í Góis. Hvernig gátu þá 27 þorp hafa verið tæmd? Auðvitað er ég með mörg ár í pokahorninu og hálf heilsulaus en hélt þó að hausinn á mér væri í sæmilegu lagi. Ég fór og athugaði málið. Nei Góis hafði ekki vaxið á einum degi. Það voru enn 5 þorp þar. Hvað hafði gerst í þessum einkennilega fréttaflutningi? spurði ég sjálfa mig, rétt svona til þess að rökstyðja að höfuðið á mér væri enn á sama stað.

Jú, eins og allir vita þá hef ég ótrúlega frjótt ímyndunarafl og það kemur sér stundum vel. Ég flutti hugann frá Góis og til Penela og frá Penela til Reykjavíkur. Í Reykjavík eru Efra breiðholt og neðra breiðholt, hagarnir og miðbærinn og mörg önnur hverfi. Vesturbærinn og austurbærinn og allt mögulegt. Í Penela er miðbærinn, sem er elsti hluti þorpsins, síðan er svæðið þar sem ég bý, sem er nýrra hverfi og þegar það var að byggjast upp voru engin götunöfn, bara eitt hús og því var gefið nafnið Bairro Sá Jörge. Nú eru 4 götur hérna og þegar ég labba upp mína götu, framhjá sundlauginni og fótboltavellinum (tekur 2 mínútur) er ég í Bairro Sá Jörge en um leið og ég fer yfir götuna og að bókasafninu er ég komin í gamla þorpið. Allt er þetta innan bæjarmarka Penela og tvö hverfi. Mér finnst þetta voða einfalt en auðvitað er miklu meira spennandi að flytja frétt af brottflutningi frá 27 þorpum en 5. Þetta geta auðvitað allir skilið. Gildi frétta er byggt á... ja ég veit eiginlega ekki hverju.

Semsagt, það fórst ekki flugvél í gær í Portúgal en það sprakk gaskútur og Góis hefur ekki færst til eða stækkað, allt er á sínum stað.

Ég er nú svoddan kvikindi að það hlakkaði í mér þegar títlurnar þurftu að éta ofan í sig æsifréttina.

Hulda Björnsdóttir


Bloggfærslur 21. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband