Forsetinn átti að skrifa undir !

9.júní 2017

Nú er hávær umræða og krafa um að forsetinn eigi ekki að skrifa undir ákveðin lög.

Fólk bregst ókvæða við og finnst hann hafa brugðist með því að skrifa undir ósómann.

Í öllum látunum gleymist að pappírinn fór í gengum alþingi Íslendinga og þingheimur samþykkti gjörninginn.

Það er ódýrt að hamast á forseta. Hann tók sér tíma til þess að skoða málið og byggði ákvörðun sína á þeim upplýsingum sem hann fékk.

Þeir sem nú djöflast og skammast í forsetanum mættu kannski aðeins staldra við og hugsa málið til enda.

Við höfum alþingi og þar sitja 63 hálaunaðir þingmenn sem hafa valdið. Þessir 63 tóku ákvörðun og þeir verða að kyngja henni. Þingmenn geta ekki velt ábyrgð á eigin dugleysi yfir á forsetann. Neitunarvald forseta er neyðarúrræði sem á ekki að nota eins og brjóstsykurmola upp í óþægan krakka.

Þjóðin kaus þá þingmenn sem nú sitja á hinu háa alþingi.

Forsetinn brást ekki.

Þjóðin brást.

Þjóðin kaus sukkið þrátt fyrir hávær mótmæli. Þjóðin ber ábyrgð á því að koma þeim sem sitja á alþingi til valda. Þjóðin kýs aftur  og aftur spillingu og nýir flokkar rísa upp til þess að breyta öllu. Þessi nýju flokksbrot eru ekkert betri en sukkararnir sem fyrir eru. Þetta snýst allt um valdabrölt. Almenningur skiptir ekki máli. Fagurgali og orðahnippingar eru bara til að sýnast. Völd eru málið. Völd til þess að viðhalda spillingunni eru það eina sem skiptir máli. Undirgefinn almúginn grætur svo úti í horni og skammar forsetann fyrir að taka ekki fram fyrir hendurnar á handónýtu alþingi.

Ábyrgðin er alþingismanna og þeir sem ekki sjá það eru staurblindir og halda áfram að mata krók þeirra sem eru að sökkva íslensku þjóðfélagi endanlega í spillingu og viðbjóð.

Hulda Björnsdóttir 


Fatlaðir þurfa á okkur að halda

9.júní 2017

Fyrir nokkrum dögum fór ég í súpermarkaðinn eins og lög gera ráð fyrir. Ekkert óvenjulegt við það. Venjulega fer ég á sama stað. Það er hagkvæmt, ég veit hvar allt er og get skipulagt ferðina áður en ég legg af stað og kaupi ekki einhverja vitleysu. Hafi ég ekki gert lista áður en ferðin hefst ramba ég ef til vill í gegnum búðina og kem auga á eitt og annað sem væri gott að hafa til taks! Ekki sérlega hagkvæmt !

Það eru reyndar 3 markaðir sem ég heimsæki, einn fyrir fisk og kjöt osta, annar fyrir grænmeti og ávexti og sá þriðji fyrir allt annað.

Ég var í "allt annað" markaðinum fyrir nokkrum dögum með lista og alles. Þurfti auðvitað að spjalla við hina og þessa sem ég mætti en þegar ég kom að básnum þar sem eggin eru sá ég konu sem ég hélt ég þekkti. Hún stóð við básinn þar sem heiti maturinn er seldur, með stóra innkaupakerru og hún svo smá að ekki sást mikið meira en höfuðið fyrir ofan körfuna. Ég gekk til konunnar en þetta var ekki sú sem ég hélt. Þessi kona var hins vegar með hækjur og fötluð rétt eins kunningjakona mín.

Ég hélt áfram að versla og fatlaða konan líka. Ég sá hana nokkrum sinnum og jafnt og þétt varð innkaupakerran hennar þyngri.

Í fyrstu velti ég þessu ekki fyrir mér en eftir því sem á leið og erfiðara var að hemja kerruna vöknuðu upp ýmsar tilfinningar. Hefði þetta verið kunningjakona mín mundi ég hafa boðið henni aðstoð og við farið saman í gegnum búðina.

Þegar kom að kassanum og ég beið í röð til þess að borga sá ég fötluðu konuna bisa við að taka upp úr kerrunni og setja á færibandið. Það kreisti eitthvað hjarta mitt. Ég fann til. Hún var ekki á sama kassa og ég. Hvað átti ég að gera? Röðin var komin að mér að borga. Ég greiddi fyrir vörurnar mínar og enn var þessi hönd að kremja hjartað mitt. Þegar ég hafði lokið mínu var konan enn í röðinni.

Mig langaði til þess að skilja dótið mitt eftir og fara inn fyrir og hjálpa henni. Fólkið í kring um hana gerði ekki neitt.

Ég fór ekki inn fyrir. Ég veit ekki hvernig henni reið af en hjartað í mér finnur enn til.

Hvers vegna hjálpaði ég henni ekki?

Ég þekkti hana ekki og var hrædd um að hún tæki það óstinnt upp ef ókunnugur útlendingur færi að skipta sér af hennar málum.

Ég var hrædd um að henni finndist það niðurlæging að þurfa aðstoð.

Ég hefði getað farið til hennar og hvíslað að henni hvort hún vildi að ég aðstoðaði hana. Enginn í kringum okkur þyrfti að vita ef hún þægi ekki hjálpina.

Ég gerði ekkert þennan dag en næst þegar ég lendi í slíkum aðstæðum kem ég ekki heim með kramið hjarta. Ég get boðið fram aðstoð svo lítið beri á og það mun ég gera.

Niðurstaða mín er sú að kannski aðstoðum við ekki þá sem þurfa á okkur að halda vegna þess að við erum hrædd.

Það er ekkert að óttast. Nærgætni er það sem skiptir máli.

Mér er oft boðin hjálp og stundum þigg ég hana og stundum ekki. Ég er ekki fötluð en mér þykir vænt um ef fólk sýnir mér umhyggju. Ég er viss um að fötluðu fólki hlýnar um hjartræturnar ef við sýnum þeim hlýju og látum þau vita að við séum til staðar, jafnvel þó við þekkjum einstaklinginn ekkert.

Hulda Björnsdóttir


Bloggfærslur 9. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband