Hvítasunna í Portúgal

4.júní 2017

Í dag er Hvítasunnudagur og óska ég öllum íslendingum gleði og gæfu um þessa helgi.

Hér í mínu landi, landi kaþólskunnar, er ekki haldinn hátíðlegur annar í Hvítasunnu. Í dag er hins vegar þó nokkuð um að vera í mörgum bæjum, þó ekki öllum. Ég hef til dæmis ekki orðið vör við neitt hér í Penela enn. Þetta gæti þó breyst eftir hádegi.

Á morgungöngu minni var ekki hræða á ferð og aðeins einn hundur sá ástæðu til þess að gelta að mér. Hann er í bandi og innan girðingar svo ekki stafar hætta frá honum þó hann amaðist við því að vera ónáðaður eldsnemma morguns þegar allir eiga að vera í fasta svefni. Ekki langt frá mér eiga húsráðendur hænsnabú og er bara notalegt að heyra í hananum og sjá hvernig hænurnar dansa í kringum höfðingjann sem lætur sér fátt um finnast. Minnir mig alltaf svolítið á Bjarta Framtíð og Bjarna Ben. Svo sætt!

Núna um eitt leitið er logn að mestu og sól. Það er ekki mikill hiti en ætti að fara upp í 20 stig eftir klukkutíma eða svo. Þrátt fyrir lítinn hita er UV viðvörun. Þegar sólin skín og himininn er algjörlega heiður er sett upp viðvörun og fólk beðið að skýla höfði og augum. Ég reyni að fylgja þessum ráðum en ríf venjulega af mér höfuðfatið fljótlega þó ég haldi sólgleraugunum.

Ég þekki vel til undirbúnings Hvítasunnu í Mulalinus, sem er fyrir norðan, en þar hefur verið mikið að gera undanfarna daga. Kirkjan öll þrifin og blómum skreytt. Styttur teknar niður því þær fara með í gönguna í dag. Söngur og bænir í morgunsárið inni í kirkjunni og fólk safnast saman fyrir utan og bíður þess að taka þátt í skrúðgöngunni. Presturinn gengur í broddi fylkingar með krossinn og heimsækir alla í sókninni. Það er komið við á hverju heimili. Göngufólki er boðið upp á hressingu og aðeins staldrað við. Síðan er haldið af stað aftur í næsta hús og svo koll af kolli þar til allir hafa verið heimsóttir. Eftir skrúðgönguna, sem tekur nokkra klukkutíma, er haldið til baka og styttum skilað til síns heima, í kirkjuna. Á morgun tekur svo við annað annasamt tímabil hjá þeim sem sjá um kirkjuna. Það þarf að taka niður blómaskreytingar og koma styttum fyrir á sínum stað. Þeir sem hafa séð um undirbúninginn eru þreyttir og þurfa hvíld í nokkra daga. Flest hafa þau tekið part af sumarfríinu sínu í þetta og sjá ekki eftir því. Það er gert meira úr Hvítasunnunni hér en Páskunum.

Á morgun tekur við hversdagurinn og brauðstritið með öllu því sem fylgir.

Ferðamanna straumurinn er hafinn og húsbílar um allt. Vínviðurinn er orðinn iðagrænn og kræklurnar í felum þar til næsta haust. Brátt fara berin að líta dagsins ljós og alls ekki svo langt í uppskeru. Tíminn flýgur áfram og þegar ég keyrði fram hjá vínekrunum í gær fór ekki á milli mála að trén höfðu teygað rigninguna daginn áður.

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar Hvítasunnu

Hulda Björnsdóttir

 


Bloggfærslur 4. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband