Hugleiðing á laugardagsmorgni -

24.júní 2017

Góðan og blessaðan daginn.

Enn á ný er kominn laugardagur og mánuðurinn rétt að ljúka göngu sinni. Hann hefur verið viðburðaríkur hér í landinu mínu og við eigum um sárt að binda.

Í gær morgun var heiður og yndislegur himinn, ekki ský á lofti og bjartsýni tók að láta á sér bæra. Bjartsýni um að nú væri þessari lotu að ljúka og hægt væri að draga andann rólega í bili.

Seinni partinn varð mér litið út um eldhúshurðina mína og þá blasti þetta við mér:

19402147_857215254430303_4524537550105974785_oUnaðslegur blár heiður himininn var að breytast. Ærandi sírenu hljóð og eld viðvörun skullu á eyrunum. Brunaliðið geystist eftir þjóðveginum í átt til Espinahl.

Reykský stigu upp á bláan himininn og orguðu eins reiður björn. Á myndinni eru þau ljós en þegar rauðar tungurnar teygja sig upp verða skýin dökk og loftið fyllist af viðbjóðslegum svörtum reyk og lyktin brennur í lungunum.

Flugvélar komu færandi hendi, tvær og tvær saman og þeyttu vatni yfir óargadýrið. Ég veit ekki hvort þær voru fleiri en tvær, líklega ekki því bilið á milli ferða benti til þess að þær færu og fylltu vatnstankinn og kæmu svo til baka. Þær fylgdust að og voru eins og frelsandi englar komnir til þess að hjálpa þeim sem börðust niðri á jörðinni.

Ég fylltist vanmætti og bað til Guðs að láta koma rigningu. Auðvitað eru bænir mínar ekki kröftugar og rigningin hefur ekki enn látið sjá sig.

Þegar ég sá skýið á heiðbláum himninum fylltist ég örvæntingu og vanmætti.

 

Nú er kominn laugardagur og ég vaknaði klukkan sex í morgun við samræður nágranna á neðri hæðinni og angandi vínlykt og sígarettu reykur svifu hægt og hljótt í gegnum glugga og inn til mín. Það var partý á neðri hæðinni og ekkert við því að gera. Fyrsta hugsun mín var að þau hentu ekki logandi sígarettu út um gluggann niður í trén. Eldurinn hefur læst sig inn í hugarfylgsnið og tekið sér þar bólfestu, í bili.

Ég fór á fætur og leit út um eldhúsgluggann og yfir himininn.

19250468_857541631064332_147715853409914424_oÓlýsanleg fegurð blasti við mér. Heiður himinn í morgunsárið með dásamlega falleg ský, ský í litum. Ský sem eru hrein og unaðsleg.

Ég gekk út á svalirnar og andaði að mér.

Loftið var ferskt, það var kalt, en ferskt og svalur vindur lék um vanga minn.

Ég hafði ekki séð himininn svona í heila viku og saknaði hans. Nú var hann kominn aftur.

Ég þakkaði Guði fyrir að engir eldar og enginn reykur var sjáanlegur svo langt sem augað eygði.

Allt var fersk og haninn í húsi upp með götunni galaði glaður og hamingjusamur og vakti hænurnar sínar. Fuglarnir sungu í trjánum fyrir neðan svalirnar og í skóginum í kring. Íkorni vappaði um grasið í garðinum fyrir neðan og gæddi sér á einhverju sem hann hafði fundið.

Allir voru glaðir klukkan sex um morguninn og vonin kviknaði í brjósti. Vonin um að nú væri komið að lokum þessara hörmunga og hægt væri að byrja endurreisn þess sem hafði fallið. Það þarf að endurreisa svo margt.

Í gær orguðu skýin eins og óður björn en í dag brosa þau eins og fegursta blóm veraldar.

Landið er á háu viðvörunarstigi. Allir í viðbragðsstöðu en þennan morgun var friður og unaður það eina sem skipti máli.

Hulda Björnsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband