Eiga eldri borgarar að bjóða fram til alþingis?

24.júní 2017

Þessi spurning brennur á mörgum.

Nokkrir hafa "commenterað" á síðu Gráa hersins um þessi mál og sagt að herinn ætti að fara á þing !

Það er ekki úr vegi að velta þessu fyrir sér.

Við getum spurt hvað þarf flokkur mikið fylgi til þess að komast í ríkisstjórn?

Við vitum að stjórnarandstaða kemur fáum eða engum málum í gegn.

Svo getum við líka spurt hve mörg atkvæði mundu líklega skila sér til framboðs eldri borgara?

Væri líklegt að 60 þúsund eldri borgarar kysu enn eitt smáframboðið bara af því það væri fyrir eldri borgara?

Mundi svona framboð hafa einhver önnur mál á stefnuskrá sinni, önnur en hagsmuni og bætt kjör eldri borgara?

Er líklegt að nýtt framboð yrði til þess að sameina fólk? Gáfu 12 flokksbrot mikið af sér í síðustu kosningum?

Væri hægt að láta sér detta í hug að kynna málefnið vel fyrir fólki innan þeirra flokka sem sitja á alþingi eða eru líklegir til þess að gera það eftir næstu kosningar. Ég er ekki að tala um ráðherra. Ég er að tala um hinn almenna þingmann.

Væri kannski athugandi að koma málefnum eldri borgara og öryrkja til fjölmiðla?

Nei það gengur ekki. Staðreynd virðist vera, eftir þeim viðtölum sem ég hef hlustað á, að fréttamenn eru með eindæmum illa að sér í málefnum þessara hópa.

Gæti verið leið að koma sér í samband við fréttamann og kynna honum málefnið til hlítar og fá hann svo til þess að fjalla um málið. Þetta gæti heitið að vekja áhuga og fræða, og yrði ef til vill upphaf að skynsamlegri umfjöllun um málið í stað þess að sneplar sjái sér hag í að skjóta upp hneykslis fyrirsögnum !

Í síðustu alþingiskosningum, 29.október árið 2016 voru 12 stjórnmálasamtök í framboði. Sjö af þessum tólf framboðum fengu yfir 5% atkvæða og kjörna fulltrúa á þing. Samfylkingin fékk lægsta hlutfall eða 5,7% gildra atkvæða og 3 þingmenn. Björt framtíð fékk 7,2% atkvæða og 4 menn kjörna.

Björt Framtíð er í ríkisstjórn. Hún hefur ráðherra sem virðist vera gjörsamlega valdalaus og það sem kemur frá hans ráðuneyti er ekkert annað en svikin falleg loforð fyrir kosningar. Loforð sem fólk trúði og gaf atkvæði sitt.

Samkrull var búið til úr nokkrum flokkum til þess að búa til þessa ríkisstjórn sem er sú óvinsælasta um langt árabil. Ríkisstjórn sem hefur hagsmuni ríkustu ætta landsins að leiðarljósi og vinnur fyrir þann hóp þjóðfélagsins leynt og ljóst.

Í ljósi þessara staðreynda leyfi ég mér að efast um að vænleg leið fyrir eldri borgara sé að búa til enn eitt brotið og bjóða fram til þings.

Æsingalaus kynning á aðstæðum eldri borgara þarf að vera í fyrirrúmi.

Ég verð vör við að fólk vill ekki láta kalla sig bótaþega. Er það eitthvað annað en að vera launþegi? Þurfum við ekki að uppræta eigin fordóma? Þykir það skömm að vera kallaður launþegi á meðan við vinnum á hinum almenna vinnumarkaði? Erum við ekki að fá lögbundnar bætur og eftirlaun frá ríkissjóði? Skiptir máli hvort þær eru kallaðar eftirlaun eða ellilífeyrir?

Mér er alveg nákvæmlega sama hvað þetta er kallað. Ég er yfir 67 ára og fæ bætur greiddar frá Tryggingastofnun sem sér um Almannatryggingakerfið og ég fæ eftirlaun frá Lífeyrissjóði. Þetta flækist ekkert fyrir mér. Ellilaun og eftirlaun eru tekjur mínar nú á þessu síðasta æviskeiði.

Það er alveg sama hvernig ég velti tölum fyrir mér og fjölda kjósenda úr hópi eldri borgara. 14.000 manns er hópur þeirra sem hafa það ekki gott. 60.000 er raunverulegur hópur eldri borgara. Sá hópur rífst innbyrðis um úrræði. Enn eitt smá framboð sameinar ekki fólk.

Við þurfum að fara inn í flokkana sem eru fyrir og tala þar við fólk sem hefur áhuga á málefnum og vill vinna fyrir þjóðfélagið. Það þýðir ekkert að berja höfðinu við steininn og eta vínarbrauð með ráðherrum sem hlæja þegar við göngum út.

Inni í öllum flokkum er gott fólk, fólk með hugsjónir og hjartað á réttum stað. Meira að segja inni í hinum alræmda Sjálfstæðisflokki er fólk sem fær fyrir hjartað þegar það setur sig inn í málefni aldraðra. Það þarf að finna þetta fólk og kynna fyrir því málstað þeirra sem minnst mega sín. Það þarf að segja þeim hverjar raunverulegar greiðslur eru því þau hafa verið mötuð á tölum ráðherra sem eru rangar.

Ráðherra smjattar á hæðstu greiðslum og hælir sér af þeim. Kannski veit hann ekki betur en svo getur þetta líka bara verið pólitík í sinni viðbjóðslegustu mynd.

Hulda Björnsdóttir

 

 


Hugleiðing á laugardagsmorgni -

24.júní 2017

Góðan og blessaðan daginn.

Enn á ný er kominn laugardagur og mánuðurinn rétt að ljúka göngu sinni. Hann hefur verið viðburðaríkur hér í landinu mínu og við eigum um sárt að binda.

Í gær morgun var heiður og yndislegur himinn, ekki ský á lofti og bjartsýni tók að láta á sér bæra. Bjartsýni um að nú væri þessari lotu að ljúka og hægt væri að draga andann rólega í bili.

Seinni partinn varð mér litið út um eldhúshurðina mína og þá blasti þetta við mér:

19402147_857215254430303_4524537550105974785_oUnaðslegur blár heiður himininn var að breytast. Ærandi sírenu hljóð og eld viðvörun skullu á eyrunum. Brunaliðið geystist eftir þjóðveginum í átt til Espinahl.

Reykský stigu upp á bláan himininn og orguðu eins reiður björn. Á myndinni eru þau ljós en þegar rauðar tungurnar teygja sig upp verða skýin dökk og loftið fyllist af viðbjóðslegum svörtum reyk og lyktin brennur í lungunum.

Flugvélar komu færandi hendi, tvær og tvær saman og þeyttu vatni yfir óargadýrið. Ég veit ekki hvort þær voru fleiri en tvær, líklega ekki því bilið á milli ferða benti til þess að þær færu og fylltu vatnstankinn og kæmu svo til baka. Þær fylgdust að og voru eins og frelsandi englar komnir til þess að hjálpa þeim sem börðust niðri á jörðinni.

Ég fylltist vanmætti og bað til Guðs að láta koma rigningu. Auðvitað eru bænir mínar ekki kröftugar og rigningin hefur ekki enn látið sjá sig.

Þegar ég sá skýið á heiðbláum himninum fylltist ég örvæntingu og vanmætti.

 

Nú er kominn laugardagur og ég vaknaði klukkan sex í morgun við samræður nágranna á neðri hæðinni og angandi vínlykt og sígarettu reykur svifu hægt og hljótt í gegnum glugga og inn til mín. Það var partý á neðri hæðinni og ekkert við því að gera. Fyrsta hugsun mín var að þau hentu ekki logandi sígarettu út um gluggann niður í trén. Eldurinn hefur læst sig inn í hugarfylgsnið og tekið sér þar bólfestu, í bili.

Ég fór á fætur og leit út um eldhúsgluggann og yfir himininn.

19250468_857541631064332_147715853409914424_oÓlýsanleg fegurð blasti við mér. Heiður himinn í morgunsárið með dásamlega falleg ský, ský í litum. Ský sem eru hrein og unaðsleg.

Ég gekk út á svalirnar og andaði að mér.

Loftið var ferskt, það var kalt, en ferskt og svalur vindur lék um vanga minn.

Ég hafði ekki séð himininn svona í heila viku og saknaði hans. Nú var hann kominn aftur.

Ég þakkaði Guði fyrir að engir eldar og enginn reykur var sjáanlegur svo langt sem augað eygði.

Allt var fersk og haninn í húsi upp með götunni galaði glaður og hamingjusamur og vakti hænurnar sínar. Fuglarnir sungu í trjánum fyrir neðan svalirnar og í skóginum í kring. Íkorni vappaði um grasið í garðinum fyrir neðan og gæddi sér á einhverju sem hann hafði fundið.

Allir voru glaðir klukkan sex um morguninn og vonin kviknaði í brjósti. Vonin um að nú væri komið að lokum þessara hörmunga og hægt væri að byrja endurreisn þess sem hafði fallið. Það þarf að endurreisa svo margt.

Í gær orguðu skýin eins og óður björn en í dag brosa þau eins og fegursta blóm veraldar.

Landið er á háu viðvörunarstigi. Allir í viðbragðsstöðu en þennan morgun var friður og unaður það eina sem skipti máli.

Hulda Björnsdóttir


Bloggfærslur 24. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband