Er fólk að vakna til vitundar og samstaða að myndast?

28.júní 2017

Það virðist eins og eitthvað sé að gerast, allavega í bili.

Fólk er reitt vegna úrskurðar kjararáðs og endurreikninga Tryggingastofnunar.

Stór orð falla en eitthvað er samt öðruvísi núna en var fyrir nokkrum dögum.

Hvort þetta er loftbóla sem springur kemur í ljós á næstu dögum og vikum.

Flokkur fólksins hefur stungið upp á að komið verði saman, fólk úr öllum flokkum, og málin rædd. Inga Sæland hefur boðist til að finna sal ef næg þátttaka fæst. Ég segi enn og aftur að ég er ekki í stjórnmálaflokki og hef ekki einu sinni kosningarétt á Íslandi svo ummæli mín eru ekki flokkspólitísk. Ég er einfaldlega á því að hvar sem fólk stendur í pólitík eigi það að snúa bökum saman á móti valdníðslu stjórnvalda og knýja fram breytingar á lögum um almannatryggingar.

Ég spurði í gær í hálfkæringi hvort við værum að niðurgreiða bætur almannatryggingakerfisins með Lífeyris sparnaði okkar. Venjulega fæ ég ekki viðbrögð við bloggum mínum en í þetta skipti brá svo við að einhverjar undirtektir voru. Líklega hélt fólk að ég væri að spyrja í fúlustu alvöru og það er svo sem allt í lagi að þekking mín sé dregin í efa, svo framarlega sem umræða skapast.

Ég veit að það eru margir sem gætu hugsað sér að flykkjast að baki þeim sem framkvæma.

Ég er því miður búsett erlendis og mun aldrei stíga fæti á Ísland og get því ekki tekið þátt í fundum og mótmælum. Ég get hins vegar miðlað hugmyndum mínum og þekkingu og ætla að halda því áfram.

Það er mitt framlag til baráttunnar.

Ég styð Ingu og flokk fólksins og vona að fólk skilji að það þarf ekki að ganga í flokkinn frekan en það vill þó það styðji framtak hennar.

Nú í morgunsárið hafa 200 manns skráð sig fúsa til þess að taka þátt í samstöðufundi.

Ef þetta er ekki til þess að gleðjast yfir þá veit ég ekki hvað er.

Ég hef barist fyrir bættum kjörum almennings í yfir 50 ár og tel mig vita nokkuð um svona baráttu. Stundum ber hún árangur og stundum ekki. Eitt er þó víst. Það þarf alltaf að byrja einhvers staðar og málaferlin sem nú verða þingfest á morgun eru byrjunin á einhverju stærra.

Það er mikilvægt að geta einbeitt sér að einu í einu en grautast ekki í hundrað málum og gera ekkert. Nú er fyrsta mál komið í höfn og réttarkerfið tekur við. Næsta mál er að sýna að fólk geti staðið saman, hvar í pólitík sem það setur sig. Auðvitað er barátta fyrir bættum kjörum eldri borgara og eftirlaunaþega hápólitísk en hún er ekki flokkspólitísk og má ekki vera það ef árangur á að nást.

Ég er bjartsýn og held að samstaða sé að myndast með Ingu í fararbroddi. Það er enginn feluleikur hjá henni. Hún birtir á Facebook síðu sinni það sem er að gerast frá degi til dags og jafnvel oftar en einu sinni á dag.

Nú reynir á alla, hvar sem þeir búa á landinu, að sýna í verki að þeir fyrirlíti framkomu sem stjórnvöld hafa sýnt þeim sem berjast í bökkum hvern einasta mánuð.

Hulda Björnsdóttir 

 


Bloggfærslur 28. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband