Tattó - fagurt eður ei? Heimspekilegar hugleiðingar á mánudegi.

26.júní 2017

Ég sá mynd af vini mínum sem æfir með mér í ræktinni, eða ég æfi með honum, einhvern vegin svona ætti þetta að hljóma. Flott mynd af fallegum líkama og hreint út sagt æðislegir rauðir NIKE skór.

Við, ég og þessi vinur minn, spjöllum saman og hlæjum saman. Hann og hinir strákarnir aðstoða mig þegar ég þarf og þeir hafa áhyggjur af mér þegar þess þarf. Ég dáist að því hvað þeir eru sterkir og horfi á lóðin mín við hliðina á þeirra og hugsa með mér að líklega sé þetta vonlaust !

Líklega lyfti ég ekki í bráð 10 kílóum en þeir lyfta 100 eins og drekka vatn.

Ég dáist að þeim og þó undarlegt sé dást þeir að mér. Við erum nefnilega "tím". Saman skoðum við myndir í íþróttablöðum og dáumst að flottum gellum. Þeir eru löngu búnir að klífa hjallann þegar þeir földu gellurnar og roðnuðu upp í hársrætur ef ég kom að þeim þegar þeir dáðust að ljóskunum. Við erum jú búin að vera saman í 6 ár í ræktinni.

Það eru ekki aldursfordómar hjá okkur. Allir eru jafni og allir hafa það eitt að markmiði að þykja gaman og gera það sem hver og einn getur.

Strákarnir mínir eru lögregluþjónar, öryggisverðir, hjúkrunarmenn, sjúkraliðar, læknar, smiðir, skólastrákar og verkamenn að ógleymdum slökkviliðsmönnunum.

Allt eru þetta flottir strákar, hver á sinn hátt.

Þegar ég var að horfa á myndina af einum þeirra kom upp í hugann þetta með tattóið. Það eru ekki allir með tattó. Líklega meirihlutinn þó.

Ronaldo er ekki með tattó, ekki eitt einasta, er mér sagt.  Skýring á hans ekki tattói er að hann gefi blóð. Ef einhver skilur þetta þá er það ágætt. Ég er ekki sérlega vel að mér í tattómálum.

Nú á dögum tattóa bæði konur og karlar líkama sína. Ég verð að segja að fegurð síða kjólsins hverfur aðeins þegar tattóið þekur handleggi eða bak, jafnvel þó það sé ekki stórt, þá finnst mér glansinn hverfa af flottu sérhönnuðu kjólunum þegar þeir keppa við tattóið á eigandanum.

Angelina er gott dæmi um þetta, finnst mér.

Þegar ég horfði á myndina af flotta vininum mínum, allir vöðvar stæltir og fallegir,  eyðilagði tattóið  myndina, fannst mér. Venjulega er hann í bol þegar við æfum og því varð ég hissa þegar ég sá skreytinguna. Hún er falleg, ég viðurkenni það, en mér finnst hún skemma fegurð líkamans. Ég gæti hugsað mér að sjá svona skreytingu, og margar aðrar sem fólk hefur á líkömum sínum, uppi á vegg í ramma. Þetta eru oft á tíðum sönn listaverk.

Einhvern tímann, kannski eftir 30 ár, verða tattólíkamarnir gamlir og hrukkóttir. Hvernig ætli myndirnar líti þá út? Ætli þær verði líka gamlar og hrukkaðar?

Ég þarf að athuga þetta næst þegar ég fer á ströndina. Nóg er af kroppunum þar á öllum aldri. Mér finnst þetta áhugavert rannsóknarefni, þetta með eftirlauna tattóin!

Stundum er lífið svo dásamlega skemmtilegt og ekki sakar að leyfa hugmyndafluginu að taka á rás eitthvað út í buskann.

Ég mun þó ekki fá mér tatto. Ég hata nálar heitar en eldinn og tilhugsunin ein fyllir mig skelfingu.

Hulda Björnsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Þetta er sóðaskapur í öllum tilfellum.

Jón Þórhallsson, 26.6.2017 kl. 09:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband