Lifðu núna - Grái herinn - Fyrir hverja eru þessar síður?

23.júní 2017

Það eru nokkrar síður á Facebook sem fjalla um málefni eldri borgara og stundum eru þar viðtöl.

Viðtal við frú Þórunni H. birtast á báðum þessum síðum um hæl.

Nú sá ég viðtal við enn einn popparann sem er kominn á eftirlaun.

Svo hafa verið viðtöl við ýmsa sem hafa breytt um lífstíl og minnkað við sig húsnæði og fleira.

Nú spyr ég:

Af hverju hef ég ekki séð eitt einasta viðtal hjá Grá hernum eða Lifðu núna þar sem fjallað er um og talað við þá sem eru að deyja úr hungri vegna þess hve lífeyrir þeirra er af skornum skammti?

Af hverju eru þetta að mestu glansviðtöl við þá sem hafa það glæsilegt á efri árum og njóta þeirra í botn?

Ég geri mér grein fyrir því að herinn og Lifðu núna eru tengd vinaböndum og má sjá sömu viðtölin hjá báðum oft og tíðum.

Herinn birtir skrif Björgvins H. eins og um súkkulaði af bestu gerð sé að ræða.

Skrif Björgvins eru ágæt en það eru ábyggilega fleiri sem taka þessi mál að sér en herinn lítur ekki við.

Nú legg ég til að Lifðu núna taki nokkur viðtöl, kannski svona 10, á næstu vikum við þá sem hafa það verulega skítt eftir 65 ára aldurinn.

Ég legg líka til að herinn birti þessi viðtöl á sínum síðum og sé jafn fljótur og þegar haft er drottningarviðtal við formann landssambandsins.

Æsifréttir Kjarnans um ofgreiðslur Tryggingastofnunar ættu líka að vera í fyrsta sæti hjá báðum þessum síðum og bullið leiðrétt.

Upplýsingar til þeirra sem nú velta fyrir sér hvernig í veröldinni TR kemst að raun um að þeir skuldi stofnuninni ættu að vera kappsmál þessara beggja.

Hvar eru tillögur til útbóta hjá hernum?

Hvar er umfjöllun um fátæktina hjá hernum?

Hvar er umfjöllun um þá sem svíkja út úr lífeyriskerfinu með því að gefa upp röng heimilisföng? Hvenær fjallaði herinn um þau mál?

Lífið er ekki bara dans á rósum og sala á stórum húsum og flott make up og hárgreiðslur fyrir þá sem fara á eftirlaun. Nei það er nefnilega til fólk, og fullt af því, sem hefur ekki yfir 533 þúsund í lífeyrissjóði á mánuði, eða á stórar eignir til þess að selja og getur flutt til annarra landa og keypt sér flottar eignir þar. Lífið er ekki bara saltfiskur. Það er líka úldið kjöt.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Hvers vegna geysa eldar á hverju ári í Portúgal?

23.júní 2017

Í dag föstudag eru eldarnir að mestu "under control". Þeir verstu sem hafa geisað í landinu í 50 ár.

Að loknum svona harmleik þurfa allir að staldra við og skoða hvað veldur.

Hvað er það sem gerist á hverju ári sem kveikir elda í fallegu skógunum?

Hvers vegna er talað um að þetta séu verstu eldar í 50 ár?

Ýmsar raddir eru nú háværar innan lands og utan. Sérstaklega háværir eru Bretarnir sem vita allt betur en allir aðrir. Þeir kenna ölu og ölum um og auðvitað eru sökudólgarnir innfæddir!

Í gær morgun ók ég til Coimbra og heim aftur seinni partinn.

Á leið heim var breskur bíll á undan mér, eða alla vega á breskum númerum. Út úr bílnum flaug skyndilega sígaretta. Hún lenti á veginum en hefði hæglega getað flogið 2 metra í viðbót og kveikt í. Bretarnir skammast yfir því að heimamenn hendi sígarettum út um bílgluggann. Þeir sjá ekki flísina í eigin auga.

Ecalyptus er kennt um eldana núna.

Meðfram vegunum eru engin ecalyptus tré og samt kviknar í þar.

Það sem veldur því að við tölum um þessa bruna sem hina verstu í 50 ár er mannfallið. Það er ekki stærð eða fjöldi eldanna. Það eru öll lífin sem glötuðust. Heimilin sem brunnu eru heldur ekki fleiri en oft áður.

Vinkona mín er hótelstýra á litlu hóteli sem er fyrir norðan. Þau eru uppi í fjöllunum. Yndislega fallegur staður og þar er fullt af trjám. Eigandi hótelsins hefur séð um að þau hafa greiðan aðgang að vatni úr öllum áttum ef kviknar í. Hann sér líka um að allur grunn gróður er hreinsaður burt, það er það sem hreinsa ber og er ekki jurtir og grænmeti. Land hótelsins er hreint og allar nauðsynlegar ráðstafanir til taks komi til þess að eldar kvikni. Þar sem land hótelsins endar tekur við annað land og þar eru líka tré. Eigandi þess lands hirðir ekki um að hreinsa dauða gróðurinn. Þar er allt í órækt og eldmatur eins og hann gerist bestur. Hóteleigandinn talaði við kauða og bað hann að þrífa landið.

Nei, það kom ekki til mála. Eigandinn ætlaði sko ekki að fara að eyða peningum í að hreinsa dauðar greinar og undirgróður. Ekki aldeilis.

En það stafar hætta fyrir okkur af hirðuleysi þínu, sagði hóteleigandinn. Kemur mér ekki við, sagði hinn.

Til þess að bjarga sinni eign ætlar hóteleigandinn að hreinsa lóð nágrannans. Hann rekur fyrirtæki sem tekur á móti ferðamönnum og honum er í mun að tryggja öryggi þeirra. Nágranninn samþykkti að lóðin yrði hreinsuð en hann ætlar ekki að borga krónu.

Því miður er þetta oft og tíðum viðhorfið. Einn hreinsar og annar ekki. Þeir sem ekki hreinsa bera líka ábyrgð á árlegum harmleik, en þeim er alveg sama.

Trjám hefur líka verið plantað of nálægt þjóðvegum. Ég keyri í gegnum þéttan gróður í hvert sinn sem ég fer út fyrir þorpið mitt. Þeir sem mala hæst núna, Bretarnir, gera sér ekki grein fyrir því að þessi tré hafa verið þarna í áraraðir. Það er tekinn vökvi úr þessum trjám og hann nýttur. Þau eru grisjuð reglulega og ný ekki gróðursett. Ekki einu sinni ecalyptus. Lyptusinn er innar í skógunum.

Fyrir framan íbúðina mína er stórt tré, tré sem ég hef kvartað yfir í mörg ár og bent á eldhættu. Sex íbúðir eru í blokkinni. 2 halda fast í fjandans tréð. Enginn gerir neitt í málinu. Þeim kemur þetta ekki við.

Fyrir aftan blokkina er runni sem stendur mjög nálægt. Ég horfi beint niður á hann þegar ég stend á svölunum mínum. Ég hef marg beðið um að hann yrði fjarlægður. Nei, kemur ekki til mála.

Þegar ég flutti hingað var aldrei hugsað um að fjarlægja dauðan gróður. Hann var bara þarna og kom engum við. Ég tók mig til og fékk fólk til þess að slá garðinn. Þegar ég ætlaði að rukka fyrir fékk ég blákalt nei. Þetta var óþarfi sögðu nágrannar. En hvað með eldhættu? spurði ég. Enginn hætta hér, var svarið. Ég lét slá garðinn í 5 ár og greiddi fyrir. Þetta kostaði engar formúur en mér leið betur. Viðbjóðslega tréð fyrir framan reyndi ég að drepa í fyrra með eitri en gekk ekki. Nú ætla ég að vona að það verði höggvið þegar gert verður við vatnslekann því það þarf að grafa garðinn upp. Til þess að vera alveg örugg er ég á leið í byggingavöruverslun til þess að finna koparnagla eða skrúfur og ætla mér af sérstakri trévonsku minni að drepa viðbjóðinn með því að negla í það kopar.

Vandamálið sem ég hef við nefið á mér er út um allt land, bara í stærri stíl og þegar kviknar í verður urgandi bál sem eyrir engu.

Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist þetta árið í eldvörnum landsins.

Pollíönnu leikur dugar ekki. Það er hægt að stinga hausnum í sandinn og vona það besta en því miður leysir það ekki málið.

Vakna stjórnvöld til lífsins og fara að reka slökkvistöðvar fyrir ríkisfé, eða sigla þau áfram að feigðarósi?

Ég veit það ekki en held þó í vonina um að það komi rigning.

Hulda Björnsdóttir

 


Bráðum fer ég í ferðalag

23.júní 2017

Góðan og blessaðan daginn

Þar sem ég nokkra vini sem fylgja mér á blogginu mínu en eru ekki á Facebook ætla ég að setja inn nokkur orð um frúna, það er mig. Sumir eru með áhyggjur og er það voða notalegt en eiginlega óþarfi. Eins og allir vita er ég orðin stór stelpa og vel fær um að bjarga mér og taka því sem að höndum ber.

Hér koma semsagt fréttirnar af þeirri heilsulausu.

Í gær fór ég í viðtal hjá Dr. Sofíu sem er læknir yfir sjúkraþjálfaradeildinni á spítalanum mínum. Hún útskrifaði mig úr sjúkraþjálfun og útskýrði fyrir mér að líklega væri ég komin á endapunkt bata. Ég vona að það sé ekki alveg rétt og lofaði að senda henni kort þegar ég gæti synt skriðsund. Það er markmiðið. Knúsaði ég svo doktorinn og dansaði út úr herberginu og faðmaði vinkonu mína úr vatnsþjálfuninni sem var næst inn í viðtal. Auðvitað skilja Portúgalarnir ekki svona hegðun en þetta er jú greinilega útlendingur svo þau fyrirgefa og taka bara undir Boa tarde frá konunni og brosa. Í afgreiðslunni knúsaði ég fleiri og Até em Octobro, því þá er næsta mót með skurðlækninum. Það var ekki leiðinlegt að ganga út í sólskinið eftir svona dag.

Beinin mín eru eins og gler og í uppskurðinum þorðu læknarnir ekki að taka neitt á, voru hræddir um að skemma meira og hættan var að handleggurinn festist í stöðu þar ég héldi utan um mig, alltaf,  svo það sem þau gerðu var að setja víra til hjálpar sem hafa nú verið fjarlægðri fyrir þó nokkru. Ómögulegt að vera með eitthvað vírarusl hringlandi fram og til baka. Ég er með nettan skurð á upphandleggnum og pjattrófan ánægð með það.

Semsagt, ástandið eins gott og það getur orðið og ég held áfram að þjálfa og fer í ræktina í júlí. Eitthvað þarf ég að gera til þess að halda grindinni saman og ekki get ég hrunið niður eins og hrúga.

Ég er með stöðuga verki en á skala frá 1 upp í 10 er það svona um það bil einn og ekkert til þess að kvarta yfir. 

Á föstudaginn í næstu viku fer ég aftur upp á spítala og fæ þá úrskurð um yfir hverju ristillinn er að væla.

Eftir að æxlin voru fjarlægð líður mér miklu betur og er nú aftur farin að geta sungið stakkado án þess að emja af verkjum!

Núna er ég að æfa Laudate dominum (Mozart), Rossignol de mes amours (Francis Lopez), La Pastorella delle alpi (Rossini) og Batti Batti (Mozart)

Batti Batti er að verða tilbúið en hin verkin eru ný. Söngkennarinn minn hefur verið upptekin og við tókum frí þar til í ágúst en ég held áfram að æfa heima. Þetta er svo ótrúlega gaman og tæknin eykst smátt og smátt, alltaf eitthvað nýtt sem auðveldar sönginn. Ég er heppin að hafa frábæran kennara sem nennir að kenna mér þó ég verði auðvitað ekki fræg í þessu lífi en eins og allir vita er ég að undirbúa mig fyrir það næsta.

Elsku vinir, ekki hafa áhyggjur af mér. Ég verð auðvitað ekki eins og ný en heilsan er á uppleið og á meðan ekki líður yfir mig þarf ég ekki að fara í aðra hjartaaðgerð.

Mikið ofboðslega verður gott þegar ég hætti að þurfa að segja frá einhverjum bévaðans veikindum og get farið að trissast út um allt og segja frá ferðaævintýrum. Þetta er hinum megin við hornið. Bluebudda garðurinn er á dagskrá eftir mánaðamótin og verður gaman að segja frá þeirri ferð.

Knús til ykkar allra og þúsund kossar

Hulda Björnsdóttir


Bótasvik eru glæpur - viðbjóðslegur glæpur og ekkert annað

 

23.júní 2017

Nú er komið uppgjör frá Tryggingastofnun ríkisins, hið árlega uppgjör þar sem við fáum að vita hvort við höfum fengið of mikið greitt eða of lítið. Þetta er yfirleitt á báða vegu.

Kjarninn sló upp æsifrétt og sagði að 3,4 milljarðar hefur verið ofgreiddir til þeirra sem fá bætur frá Almannatryggingakerfinu.

Staðreyndin er þessi:

"Samtals var endurreiknað fyrir 57 þúsund lífeyrisþega sem fengu greidda 86,5 milljarða króna í tekjutengdar greiðslur á síðasta ári. Þar af voru 36 þúsund ellilífeyrisþegar og 21 þúsund örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar. Niðurstaða endurreiknings leiðir í ljós að 43% þeirra sem fengu tekjutengdar greiðslur á síðasta ári eiga inneign hjá TR upp á samtals 2 milljarða króna en 44% hafa fengið ofgreitt, samtals 3,4 milljarða króna. Meðalupphæð inneigna sem lífeyrisþegar eiga hjá TR eru 84 þúsund krónur en meðalskuld þeirra sem hafa fengið ofgreitt eru 135 þúsund krónur."

Mismunur á ofgreiddum bótum og vangreiddum er 1,4 milljarðar.

Fyrir snepilinn sem birti æsifréttina er betra að tala bara um annan hópinn. Ég hafði hugleitt að gerast áskrifandi að þessum áreiðanlega snepli en hætti snarlega þeim hugsunum eftir þessa dæmalausu æsifréttamennsku.

Ég fékk 6.903 krónur sem ég átti ekki að fá árið 2016 og nú greiði ég það til baka. Ég er nokkuð viss hvers vegna. Skýringin er að ég breytti tekjuáætlun um mitt ár og hélt að sú breyting tæki gildi næsta mánuð eftir. Hins vegar breytir stofnunin útreikning fyrir allt árið. Ég nennti ekki að gera neitt í málinu og sætti mig bara við að þurfa að endurgreiða innan við 7 þúsund.

Það gæti verið að fólk átti sig ekki á því hvernig tekjuáætlun verður til og væri ágætt að hafa samband við stofnunina. Þau aðstoða við málið og það kemur í veg fyrir of- eða vangreiðslur.  Þetta ár veit ég að á næsta ári mun ég fá endurgreiðslu því tekjuáætlun er of há hjá stofnuninni. Ég ákvað að láta hana standa þar sem gengi er hagstætt fyrir okkur sem búum erlendis. Hægt er að breyta áætluninni á mínum síðum hvenær sem er á árinu.

Ég verð alveg æf þegar ég frétti um bótasvik. Mér finnst það vera glæpur að svíkja út úr kerfinu. Það er ekkert annað þjófnaður. Ég hef skrifað um þetta áður en góð vísa er aldrei of oft kveðin. Nú stærir fólk sig af því að búa erlendis og skreppa til Íslands í 3 mánuði yfir sumartímann og vera með lögheimili á Ísland, svo þau fái greitt allt sem við fáum ekki sem fylgjum lögunum. Þetta fólk fær allar hugsanlegar og óhugsanlegar bætur frá kerfi sem sveltir þá sem raunverulega þurfa á aðstoð að halda. Þetta fólk og gerðir þess eru partur af tregðu stjórnvalda til þess að hækka bætur öryrkja og eldri borgara.

Björgvin Guðmundsson, sem er ötull við að skrifa um hvað ríkisstjórn EIGI að gera varðandi bætur til eldri borgara minnist aldrei, já aldrei á þetta. Er það vegna þess að hann viti ekki um málið eða finnst honum ekki taka því að tala um það?

Grái herinn talar heldur ekki um þetta. Hvers vegna? Ætti hann ekki að hafa metnað til þess að uppræta glæpinn?

Þeir sem ekki tilkynna um einstaklinga sem svíkja út úr kerfinu eru ekki síður þátttakendur. Þeir hylma yfir og finnst þetta bara sniðugt og flott. Þeir sem þekkja "konkrete" dæmi eiga að tilkynna það. Það þýðir lítið fyrir okkur sem erum að reyna að koma stjórnvöldum í skilning um að hækka þurfi bætur almannatrygginga að berja hausnum við steininn þegar svika rökin koma í bakið á okkur.

Þið sem eruð að stela út úr kerfinu megið skammast ykkar.

Ég vona að þjóðskrá og Tryggingastofnun taki sig nú saman í andlitinu og gangi eftir því að fólk sé rétt skráð og geti ekki logið upp heimilisfangi.

Þið sem eruð að hæla ykkur af því að komast upp með svikin ættuð að hugsa til þeirra sem hafa ekki í sig og á. Það ætti að koma við samvisku ykkar en kannski eruð þið bara samviskulausir einstaklingar.

Þið sem ætlið nú að rísa upp og andskotast í mér ættuð að staldra við. Ef þið farið eftir lögunum gjörið þið svo vel og skammist eins og ykkur lystir.

Ef þið eruð í hópi svikaranna sem glotta út í bæði gætuð þið hugsað um fólkið sem hendir sér út af svölum háhýsa eða keyrir út í sjó því örvæntingin hefur náð þeim út á ystu nöf og steypt þeim út í glötunina.

Ég ber enga, nákvæmlega enga virðingu fyrir ykkur sem eruð að svindla á kerfinu. Þið eruð jafn ómerkileg í mínum augum og þeir sem mest er hamast í þessa dagana vegna svika og pretta sem komu þjóðinni á höfuðið árið 2008.

Þjóðskrá, Ríkisskattstjóri, Tryggingastofnun ríkisins og allir þeir sem hafa með þessi mál að gera, við ykkur segi ég: Brettið upp ermarnar og finnið þetta svikapakk. Það er hægt. Það þarf aðeins smá hugmyndaflug og lausnin er fyrir framan nefið á ykkur. Þið komið bara ekki auga á hana. Opniði augun í guðanna bænum.

Hulda Björnsdóttir

 


Bloggfærslur 23. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband