Grátur og gnístran tanna

16.júlí 2017

Gott kvöld kæru vinir sem lesið þetta

Nú er ég búin að gráta yfir 2 bókum sem ég hef verið að lesa. Ég er nefnilega þannig að þegar bók endar vel eftir harma undanfarnar síður þá græt ég. Ekki á meðan allt er í vitleysu hjá sögupersónunum. Nei, þá stend ég bara með þeim, en svo þegar hnúturinn leysist og allt fer vel, græt ég.

Svo var fundurinn í Háskólabíói í gær og þegar ég sá fyrstu myndirnar sat ég í stofunni minni hér í Portúgal og hágrét. Þetta var svo sannarlega góður endir og þessi virði að skæla yfir.

Í nótt vaknaði ég klukkan 2 og fékk mér að drekka. Það er svo heitt hérna núna. Þegar ég lagðist aftur upp í rúm grét ég enn eina ferðina þegar ég hugsaði um alla þá sem sóttu fundinn góða á laugardegi og í miðju sumaræsinga tímabilinu.

Ég held að þetta sé nú eiginlega að verða gott en þurfti að fá mér einn grát túr enn þegar bókin sem ég kláraði í dag endaði svona líka dásamlega vel.

Á miðvikudaginn brákaði ég í mér rifbein en ekki grét ég þá. Ég er stundum alveg á mörkum þess að vera venjuleg, held ég.

Í tvo daga hef ég verið að basla við að koma mér upp bloggi á ensku og allt í vitleysu þar. Nú er ég eiginlega búin að ákveða að senda vini mínum í Ameríku mail og biðja hann um hjálp. Þetta gengur ekki lengur og ég stend eða réttara sagt sit eins og hálfviti fyrir framan apparatið mitt (tölvuna) og skil ekkert í því hvað ég á að gera næst. Búin að fara nákvæmlega eftir leiðbeiningum og alles en get ekki sett WordPress upp á iPage.

Sko, ég skil að iPage er hostinn minn og svo skil ég líka að Domain er nafnið á websíðunni minni. Þá loggar maður sig inn, ég get það. Síðan er gluggi sem á að smella á, og ég get það líka, með flipa sem fer í eitthvað sem á að geta innstallað WordPress sjálfkrafa.

Þið haldið kannski að þetta sjálfkrafa virki. Ó Nei. Það á að skrifa inn nafn og eitthvað fleira sem ég veit alveg hvað er en þegar ég reyni að skrifa inn í fyrri línuna virkar ekkert. Það er ekki hægt að skrifa í bévaðans línuna!

Nú finndist mér full ástæða til þess að setjast niður og skæla af einskærri örvæntingu en auðvitað gerist það ekki. Kannski skæli ég ef mér tekst þetta einhverntímann.

Auðvitað kemur þetta ekki neitt við kjörum eldri borgara og öryrkja en stundum þarf ég að hvíla mig og þið eruð fórnarlömbin í dag ef þið lesið þetta en það er ekki mér að kenna og ég ræð engu um hvað þið lesið.

Ekki get ég tekið ábyrgð á ykkar lestrarvenjum eða hvað?

Með kærleikskveðju á sunnudegi úr 35 stiga hita klukkan hálf átta, að kvöldi auðvitað.

Hulda Björnsdóttir 


Bloggfærslur 16. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband