Samstaða er góð en sumum finnst hún óþægileg !

18.júlí 2017

Þögn!

Íslendingar sýndu á laugardaginn að það eru til einstaklingar sem láta sig líf annarra skipta.

Tæplega fullt Háskólabíó sannaði það.

Af hverju ríkir þögn um atburðinn?

Ó,

ég skil

það er ekki rétti stjórnmálaflokkurinn sem tók af skarið og boðaði til fundarins

miklu betra að skrifa um hvað VERÐI að gera fyrir eldri borgara og öryrkja og þegja þunnu, eða þykku hljóði, um það sem fram fór á laugardaginn á sumarþinginu.

Hroki og eigingirni ? eða er þetta kannski afbrýðisemi ?

Ótti við að tapa atkvæðum? Getur það verið ?

Bjartsýnisfólk sem lætur ekki sitt eftir liggja til þess að vekja athygli á góðum málstað er ekki hlekkjað við flokk.

Bjartsýnisfólk berst fyrir réttlæti.

Heimtufrekjur hamast og telja upp allt sem vonda fólkið hefur gert en kemur aldrei með lausnir. ALDREI.

Langar flottar yfirlýsingar á Facebook síðum sem þarf að þýða fyrir erlenda blaðamenn og auglýsing eftir húsnæði fyrir blaðamennina sem eru að koma til þess að fjalla um stöðu Íslands í dag eru mikilvægar. Ég skil það.

Ég skil hins vegar ekki hvers vegna ekki er minnst EINU ORÐI á hinn stórmerka fund á hinni ágætu Facebook síðu.

Jú, kannski skil ég það. Það var vitlaus stjórnmálaflokkur sem stóð fyrir þinginu.

DJISUS

Þögn er flott.

Þögn er hlutlaus.

Þögn er máttlaus.

Þögn er ægileg.

Þögn sýnir vilja þeirra sem þegja svo ekki verður um villst.

Þeir sem njóta sín nú í þögninni baða sig upp úr einhverju sem ég skil ekki.

Smátt og smátt eru þaggararnir að vakna og draumurinn er ekki góður.

Þeir misstu af einhverju merkilegu og eiga ekki afturkvæmt.

Nú klóra þeir í bakkann og kannski komast þeir ekki upp á þurrt land.

Mikið væri það nú sorglegt ef einhver af ráðamönnum þjóðarinnar fengi málið og skellti sér upp úr meðaltölum yfir í raunveruleika.

Það væri hneyksli aldarinnar, svo ekki sé meira sagt.

Hulda Björnsdóttir

 


Grátur og gnístran tanna

16.júlí 2017

Gott kvöld kæru vinir sem lesið þetta

Nú er ég búin að gráta yfir 2 bókum sem ég hef verið að lesa. Ég er nefnilega þannig að þegar bók endar vel eftir harma undanfarnar síður þá græt ég. Ekki á meðan allt er í vitleysu hjá sögupersónunum. Nei, þá stend ég bara með þeim, en svo þegar hnúturinn leysist og allt fer vel, græt ég.

Svo var fundurinn í Háskólabíói í gær og þegar ég sá fyrstu myndirnar sat ég í stofunni minni hér í Portúgal og hágrét. Þetta var svo sannarlega góður endir og þessi virði að skæla yfir.

Í nótt vaknaði ég klukkan 2 og fékk mér að drekka. Það er svo heitt hérna núna. Þegar ég lagðist aftur upp í rúm grét ég enn eina ferðina þegar ég hugsaði um alla þá sem sóttu fundinn góða á laugardegi og í miðju sumaræsinga tímabilinu.

Ég held að þetta sé nú eiginlega að verða gott en þurfti að fá mér einn grát túr enn þegar bókin sem ég kláraði í dag endaði svona líka dásamlega vel.

Á miðvikudaginn brákaði ég í mér rifbein en ekki grét ég þá. Ég er stundum alveg á mörkum þess að vera venjuleg, held ég.

Í tvo daga hef ég verið að basla við að koma mér upp bloggi á ensku og allt í vitleysu þar. Nú er ég eiginlega búin að ákveða að senda vini mínum í Ameríku mail og biðja hann um hjálp. Þetta gengur ekki lengur og ég stend eða réttara sagt sit eins og hálfviti fyrir framan apparatið mitt (tölvuna) og skil ekkert í því hvað ég á að gera næst. Búin að fara nákvæmlega eftir leiðbeiningum og alles en get ekki sett WordPress upp á iPage.

Sko, ég skil að iPage er hostinn minn og svo skil ég líka að Domain er nafnið á websíðunni minni. Þá loggar maður sig inn, ég get það. Síðan er gluggi sem á að smella á, og ég get það líka, með flipa sem fer í eitthvað sem á að geta innstallað WordPress sjálfkrafa.

Þið haldið kannski að þetta sjálfkrafa virki. Ó Nei. Það á að skrifa inn nafn og eitthvað fleira sem ég veit alveg hvað er en þegar ég reyni að skrifa inn í fyrri línuna virkar ekkert. Það er ekki hægt að skrifa í bévaðans línuna!

Nú finndist mér full ástæða til þess að setjast niður og skæla af einskærri örvæntingu en auðvitað gerist það ekki. Kannski skæli ég ef mér tekst þetta einhverntímann.

Auðvitað kemur þetta ekki neitt við kjörum eldri borgara og öryrkja en stundum þarf ég að hvíla mig og þið eruð fórnarlömbin í dag ef þið lesið þetta en það er ekki mér að kenna og ég ræð engu um hvað þið lesið.

Ekki get ég tekið ábyrgð á ykkar lestrarvenjum eða hvað?

Með kærleikskveðju á sunnudegi úr 35 stiga hita klukkan hálf átta, að kvöldi auðvitað.

Hulda Björnsdóttir 


Breytingar hefjast á einu spori !

 

 

20045701_10211564620585601_3317074350867596323_o

 

Ein mynd segir meira en mörg orð.

Í dag þann 15.júlí árið 2017 sýndu 850 íslendingar að þeir geta staðið saman.

Í dag er merkisdagur í sögu íslensku þjóðarinnar.

Í dag tóku fleiri niður pólitísku gleraugun en ég þorði að vona í mínum björtustu draumum.

Ég er svo innilega þakklát öllum þeim sem stóðu að þessum fundi og öllu því fólki sem tók málefnið upp á sína arma.

Upphaf nýrra tíma gætu verið núna.

Vonandi tekst að fylgja eftir þessari frábæru þátttöku og ég get ekki annað en leyft mér að gefa þeim sem létu neikvæðni og niðurrif ásamt flokks pólitík stjórna gerðum sínum, langt nef.

Í dag sigraði bjartsýnin og ég grét af gleði þar sem ég sat í stofunni minni í Portúgal og fékk þessar frábæru fréttir.

Sumir gráta af sorg en ég græt af gleði. Í dag er í lagi að leyfa gleði tárum að streyma niður vanga.

Hulda Björnsdóttir

 


Til hamingju með framtakið "Flokkur fólksins"

15.júlí 2017

Í dag er fundurinn í Háskólabíói sem ég hef verið að tala um.

Fundurinn þar sem 2 verkalýðsleiðtogar ásamt formanni Félags eldri borgara í Reykjavík eru framsögumenn.

Þetta er fundurinn þar sem rætt verður um fátækt á Íslandi og hvernig búið er að þeim sem minnst mega sín í þjóðfélagi þar sem græðgin tröllríður húsum.

Nú er sumar, og meira að segja miður júlí.

Sumarfrí, ferðalög, útlönd og fleira og fleira sem er að gerast á þessum tíma.

Það verður einhvern vegin allt dálítið ruglað yfir þessa björtu mánuði og fólk missir sjónar á sumu sem skiptir máli í hraða þess að njóta sumarsins.

Vondur tími til svona fundarhalda segja sumir.

Staðreyndin er sú að margir af þeim sem helst þurfa á svona baráttu að halda hafa ekki efni á því að kaupa mat síðustu daga mánaðarins hvað þá að þeysast um landið í sumarfríi.

Ég veit ekkert hvað margir sjá sér fært að mæta í bíóið í dag til þess að sýna fram á að Íslendingar geti staðið saman, og þá skipti ekki máli hvaða tími árs er.

Ég er hrædd um að pólitík liti afstöðu margra og eigin hagsmuna pot og lítill vilji til þess að breyta einu eða neinu, ráði för og valið sé frekar að rússa út úr bænum.

Þeir sem virkilega þurfa á hjálpinni að halda geta líklega ekki hugsað sér að viðurkenna opinberlega að þeir hafi það ekki eins gott og þeir gætu hugsað sér. Og þessi hópur mætir sennilega ekki á svona fund.

Ég er ekki á landinu og get því ekki mætt.

Ég er orðin svo hundleið á því að lesa endalaust sömu tugguna um hvað SKULI gera og svo þegar tækifæri gefst kemur í ljós hvað ræður för. Pólitík og ekkert annað.

Manngæska fæst ekki fyrir peninga. Hún er hugsjón. Það er hægt að skýla sér á bak við afsakanir um allt og ekki neitt og er auðvitað hverjum og einum frjálst að gera það.

Ég óska Flokki fólksins til hamingju með að hafa kjark til þess að stíga fram og framkvæma í stað þess að tala og gera ekkert.  Ég vona svo sannarlega að margir mæti á fundinn í dag og fylli bíóið.

Ég gefst upp fyrir öflum pólitísks hagsmunapots sem ég hef orðið vitni að í meira en 50 ár. Ég ætti að beina kröftum síðustu ára minn hér á þessari jörð í eitthvað annað en tilgangslaust pot. Ég er ekki fræg. Ég hef ekki ENN þeyst fram á ritvöllinn til þess að tjá mig um vinsælasta umræðuefni dagsins KYNFERÐISLEGT ofbeldi. Hefði ég sagt æsilega sögu af kynferðislegri misnotkun hefði ábyggilega verið hlustað á mig. Fólk hefði smjattað og kjamsað á hryllingnum án þess að hafa í raun hugmynd um hvað það væri að tala um.

Þannig er jú umræðan vinsæla í dag. Prestar jafnt sem leikmenn vita ALLT um fyrirgefningu og syndaaflausn en eiginlega ekkert um sára fátækt sem getur leitt til alls konar hörmunga.

Hulda Björnsdóttir

 


Fundur í Háskólabíói 15.júlí kl.14

14.júlí 2017

Á morgun verður fundur í Háskólabíói þar sem fjallað verður um fátækt á Íslandi og erfið kjör fólks sem tilheyrir ekki þeim sem vaða í peningum.

Svo ótrúlega hefur nú borið við að ekki sést neitt á prenti UM ÞENNAN FUND frá þeim sem ákafast hafa skrifað um málefni ríkisstjórnar og eldri borgara.

Ekki eitt orð UM MORGUNDAGINN.

Ekki orð frá Björgvini Guðmundssyni sem er þó ötull við að skrifa greinar á HVERJUM EINASTA DEGI um málefni þessa hóps.

Ekki orð frá þeim sem komu í sjónvarpsviðtöl og útvarpsviðtöl og guð má vita hvað rétt fyrir nokkrum mánuðum.

EKKI EITT ORÐ um morgundaginn.

Einhver gæti spurt sig hvernig á þessari þögn stæði?

Getur það verið að pólitík sé svo eigingjörn og viðbjóðsleg að komi eitthvað frá öðrum en þeirra flokki eða samtökum, hversu gott sem það er, þá sé látið eins og málið sé ekki til?

Getur það verið að tveir hugsjóna menn í verkalýðsforystu séu svo lítils virði að ekki taki því að koma og hlusta á þá tala um fátækt á Íslandi?

Getur það verið að félagar í Landssambandi Eldri Borgara á Íslandi séu svo ánægðir með kjör sín að það taki því ekki að fjölmenna á svona fund bara af því að sá sem boðaði hann og stendur fyrir honum er í vitlausri pólitík?

Ég ætla að upplýsa félaga í Landssambandi Eldri borgara og segja þeim að einn af frummælendum er enginn annar en formaður í félagi eldri borgara sem telur 11.000 félagsmenn, sjálfur Ellert B. Schram.

Ég trúi því ekki að félagsmenn í Félagi Eldri borgara í Reykjavík sjái sér ekki hag í því að setjast í Háskólabíó á morgun 15.júlí klukkan 14 og hlusta á formanninn og heyra hvað hann vill til málanna leggja.

Ég skil ekki af hverju fundurinn hefur ekki verið auglýstur á hverjum degi á Facebook Gráa hersins.

Þetta eru jú fjölmenn samtök og eru meira að segja afleggjari frá Félagi eldri borgara í Reykjavík.

Blaðamenn sem skrifa fjálglega um allt og ekkert á netinu hafa kannski ekki séð þennan fund boðaðan og þess vegna ekki skrifað um hann.

Ég vona að þeir sem hafa þagað þunnu hljóði bara út af flokks pólitík og fordómum hristi nú af sér slenið og sýni að öll fögru orðin eru ekki bara orð. Þetta fólk þarf að sýna að orð eru meira virði en grasið sem við göngum á eða malbikið á götunum.

Ég er ekki í Flokki fólksins, eins og ég hef sagt hundrað sinnum áður. Ég styð hins vegar þetta framtak og væri það einhver annar flokkur þá ætti hann stuðning minn vísan.

Samtök eldri borgara hafa reynt ein og sér að tala við ríkisstjórn og ráðamenn og ekki hefur það borið árangur.

Ég er svo einföld að halda að ef hægt er sýna fram á að fólk vilji standa saman að úrbótum í þjóðfélaginu, hvar í flokki sem þau standa, þá sé allt hægt.

Sé hins vegar allt sett á vogarskálar flokkspólitíkur gerist aldrei neitt. Það hefur sigið á ógæfuhliðina í áratugi og kannski er bara best að leyfa skútunni að sökkva.

Hvað veit ég? Bara einhver sem trúir á hugsjónir, gamaldags hugsunarháttur sem er líklega löngu dauður.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Brúðkaup í Portúgal !

13.júlí 2017

Á sunnudaginn var ég boðin í brúðkaup hér í landinu mínu.

Ég hef verið við brúðkaup á Íslandi og í Kína en aldrei hér í Portúgal svo tilhlökkunin var mikil.

Vinkona mín var að fara að gifta sig! Hún hefur verið og er einn af þessum ótal mörgu tryggu vinum sem ég eignaðist hér í nýja landinu mínu rétt eftir að ég flutti.

Klukkan 11 um morguninn átti að vera bruns fyrir gestina og athöfnin sjálf klukkan 12.

Eins og gefur að skilja þá byrjum við ekki neitt á auglýstum tíma hér í landi. Ég var auðvitað mætt eins og hálfviti fyrir klukkan ellefu, og hafði reyndar nokkrum dögum áður lagt land undir fót og fundið staðinn.

Yndislegur staður og allt umhverfið svo fallegt. Þegar ég kom í könnunarleiðangurinn hitti ég eigandann og hann sýndi mér allt svæðið og gaf mér svolitla sögu í kaupbæti. Hann er tónlistar kennari ásamt því að reka þennan fallega stað þar sem brúðkaup eru næstum vikulegur viðburður.

Ég fann fullt af litlum fallegum styttum hér og þar um garðinn á meðan ég beið eftir því að gestirnir kæmu mér til samlætis. Til að byrja með sat ég í bílnum og beið. Vildi ekki trufla undirbúninginn sem var á fullu jafnvel þó klukkan væri að verða mætingartími. Rauður dregill var eftir stéttinni og meðfram grænar greinar. Í tré sem stendur við innganginn voru sett upp kort þar sem nöfn gesta voru og nafn á borði þeirra var nafn Tónskálda. Ég sat við borð Vivaldi ásamt 8 öðrum og eignaðist ég þar að minnsta kosti eina nýja vinkonu.

Veislugestir tóku að streyma að upp úr hálf tólf og kom brúðguminn á svörtum gljáfægðum bíl, skreyttum rauðum rósum, ásamt nánustu fjölskyldu sinni um tólf.

Þar sem veðrið var unaðslegt borðuðum við pinnamatinn undir berum himni í fallega garðinum þar sem var fullt af borðum og stólum ásamt leiktækjum fyrir ungu kynslóðina.

Fólk stóð í litlum hópum, konur sér og karlar sér. Svona er þetta venjulega hér í landinu og brúðguminn gekk á milli hópanna og ræddi við gesti og bauð velkomna. Ungir tónlistarmenn léku á hljóðfæri og sungu. Systir brúðarinnar lék á hörpu.

Þegar klukkan fór að nálgast hálf eitt tók hópurinn að þokast inn að húsinu og þar bættist við prestur sem var kona og brúðguminn kom sér fyrir. Ljóst var að nú færi brúðurin að nálgast og athöfnin að byrja. Allir voru svo hljóðir. þetta var greinilega mikilvæg stund og fólk hvíslaði frekar enn að vera í háværum samræðum. Fyrir framan altarið voru bekkir fyrir nánustu aðstandendur og blævangur við hvert sæti. Það var jú heitt og sólin skein eins og enginn væri morgundagurinn.

Brúðarmeyjarnar söfnuðust saman og litli höfðinginn sem hélt á hringunum í flottri silfurlitaðri tösku var tilbúinn. Blómakörfur voru teknar fram og litlar hvítklæddar dömur komu sér fyrir hjá brúðarmeyjunum sem voru í peach litum kjólum.

Skyndilega kom grái bíllinn og vissi ég að þar færi brúðurin ásamt fríðu föruneyti.

19787380_868113026673859_8312942460600334099_o

Hér var hún komin og foreldrarnir þurrkuðu tár af vöngum. Sumir gráta af hamingju og þetta var hennar dagur.

Brúðguminn beið við altarið,

Gestirnir biðu eftir fallegu brúðinni

Litlu hvítklæddu meyjarnar stráðu blómum á veginn inn að altarinu

Presturinn beið

Brúðguminn beið

Fegurð brúðarinnar var ólýsanleg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

19787407_868113043340524_6758149179188321663_oÞað þarf ekki mörg orð til þess að lýsa því sem fram fer.

 

 

 

Svona er þetta gert í landinu mínu.

 

Yndisleg vinkona mín er þarna að hlusta á prestinn leggja henni og unnustanum lífsreglurnar, rétt eins og gert er alls staðar í heiminum.

Presturinn hló stundum og allir með. Það er jú hægt að segja brandara þó tilefnið sé háalvarlegt.

Þau kvittuðu svo í bókina og voru þar með hjón.

Ég er svoddan aumingi að ég græt þegar eitthvað fallegt er að gerast og þarna var gott að hafa tissue við höndina.

Reyndar féll tár á hvarma hinna hörðustu karlmanna sem stóðu fyrir aftan mig.

Hvernig er annað hægt þegar svona hátíðs stund er?

Veislan var svo haldin með yndislegum portúgölskum mat, ótrúlega mikill matur sem hægt er að láta ofan í sig.

Brúðurin söng og hef ég ekki heyrt hana syngja Ave Maríu betur.

Fleiri tónlistaratriði voru. Systirin söng dúett með einum gestanna og svo lék hún á hörpuna sína. Píanó kennari lék lystir sínar af einskærri kátínu og gleði.

Brúðurin söng nokkrar aríur og loks var sunginn afmælissöngur fyrir lítinn snáða sem átti afmæli og fékk hann afmælisköku og allir hans vinir.

Þegar klukkan var að verða átta um kvöldið hafði hljómsveit komið sér fyrir og ég sá fram á að veislan væri líklega ekki nema hálfnuð.

Tók ég það ráð að kveðja og fara heim eftir yndislegan dag þar sem ég hitti fullt af nýju fólki og átti skemmtilegar samræður við það.

Fallega yndislega vinkona mín var orðin frú og nú verður næst að skoða nýja húsið hennar og mannsins hennar sem eru fallegar rústir sem þau ætla að byggja upp.

Lífið heldur áfram og ég sá ekki brúðarkökuna og þegar ég var spurð um hana sagði ég að það hefði ekki verið nein.

Það getur ekki verið, sagði viðmælandinn og útskýrði fyrir mér að oft væri kakan ekki borin fram fyrr en í lok samkvæmisins. Líklega hef ég verið sofnuð þegar það gerðist en á vonandi eftir að sjá myndir af öllu saman.

Ógleymanlegur dagur.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


15.júlí kl.14 árið 2017 verður merkisdagur í sögu smáþjóðar!

8.júlí 2017

Góðan dag kæru vinir og allir þeir sem lesa þennan pistil minn.

Ekkert annað en dásemd hér í Portúgal þennan morgunn. Rigning í Penela í nótt og enn er allt blautt klukkan tæplega 11 um morguninn. Vonandi hefur rignt um allt land, við þurfum á bleytunni að halda til þess að koma í veg fyrir skógareldana. Rigningin er besta vörn okkar.

Næsta laugardag, þann 15. júlí klukkan 14 verður fundur í Háskólabíói og þar kemur saman fólk úr öllum flokkum og á öllum aldri til þess að berjast gegn óréttlæti og yfirgangi auðvaldsins og örfárra ætta sem gína yfir öllu sem þau komast yfir á kostnað almennings í landinu.

Við höfum látið þetta yfir okkur ganga en nú erum við komin með óþol af verstu gerð og æluna upp í kok. Meðaltöl á meðaltöl ofan eru matreidd ofan í okkur og meltingin okkar æpir af sársauka. Meðaltölin eru vopn stjórnmálamanna með vonda samvisku. Vopn þeirra sem nú stjórna litlu eyjunni og maka eigin krók eins og enginn sé morgundagurinn.

Blæðandi sár almennings sem ekki á fyrir mat alla daga mánaðarins eru hinum háu herrum ekki til trafala. Nei, þeir halda sínu striki og brosa fallega framan í þjóðina og segja henni að halda aftur af geðveikinni og opna augun fyrir hinu gengdarlausa góðæri sem alls staðar blasi við, bara ef menn eru við "fulla femm", þá blasi þetta við.

Við, geðveikissjúklingarnir, sem ekki komum auga á góðærið erum ekki vinsæl en við verðum ótrúlega verðmæt og heil heilsu þegar kemur að því að krossa við rétta flokkinn í kosningum. Falleg bréf send árið 2013 til allra eldri borgara á Íslandi eru frábært dæmi um súpuna sem okkur er ætlað að eta. Súpa loforða sem var svo ekkert annað en svik og óætt vatnssull.

Nú viljum við ekki meiri svona óæta, næringarlausa loforðasúpu. Við viljum fá mat. Mat sem er ekki búinn til úr meðaltölum. Mat sem er ætur og við viljum sama mat og PANAMAPRINSAR og fylgisveinar njóta á hverjum degi.

Við erum svöng og reið og þreytt og með kuldahroll sem við náum ekki úr okkur.

Við erum búin að fá nóg af ónýtum ómerkilegum loforðum sem gleymast um leið og þingheimur hefur undirritað drengskaparheitið og fær fyrsta launaumslagið með 2földum mánaðarlaunum þingmanna.

Ég er líklega í augum PANAMAPRINSA með alvarlega geðveiki sem brýst út í skrifum um eitthvað sem ég hef ekkert vit á en held að ég þekki. Geðveiki mín er velkomin. Ég er stolt af því að tilheyra þessum geðveika hópi sem forsætisráðherra nefnir okkur sem sjáum í gegnum lygina og rósrauðu gleraugun sem glitra af meðaltölum. 

Til þess að breyta Íslandi og forgangsröðun þar, er nauðsynlegt fyrir okkur sem tilheyrum ekki fínu ættunum og auðvaldinu að standa saman og sýna prinsinum og hirðinni hans að við getum staðið saman.

Við látum ekki lengur traðka á okkur.

Byrjum á því að mæta í Háskólabíó á laugardaginn eftir viku. Gerum þann dag merkilegan í sögu lítillar þjóðar sem vill góðan mat alla daga en ekki úldið kjöt og skemmdar kartöflur.

Ragnar Þór og Vilhjálmur eru baráttu menn. Þeir verða á fundinum.

Ellert Schram er formaður félags eldri borgara í Reykjavík og hlýtur að taka með sér risahóp úr félaginu, en ég sá tölur um að félagsmenn væru orðnir 11.þúsund.

Það verður fróðlegt að heyra hugmyndir hins nýja formanns og ekki síður áhugavert að hlusta á Ragnar Þór og Vilhjálm sem liggja ekki á skoðunum sínum um hin ágætu sambönd verkalýðsfélaga sem virðast vera að vinna fyrir eitthvað allt annað en velferð félagsmanna.

Nú er búið að þingfesta lögsókn á hendur ríkinu fyrir vinnubrögð "Fátæki" fulltrúans í velferðanefnd og fyrirlitningu á lagasetningum alþingis. Það verður fróðlegt að heyra rætt um það mál á fundinum.

Ég vona að allir sem lesa þetta hvetji vini sína á hvaða aldri sem þeir eru að taka þátt í því að snúa ofan af viðbjóðnum sem er nú í boði ríkisstjórnar íslands. Viðbjóðnum sem snýr að sjúklingum, fátækum, öryrkjum, eldri borgurum, menntakerfinu, hjúkrun og velferð þeirra sem eru veikir, heimilisleysi og svona get ég talið upp endalaust.

Stöndum saman og breytum græðgi í sanngirni og samhjálp þann 15.júlí kl.14 í Háskólabíói.

Hulda Björnsdóttir


Hverjir geta mætt á samstöðufund í Háskólabíói 15.júlí kl.14?

7.júlí 2017

Eftir rúma viku verður fundur í Háskólabíói, þann 15. klukkan 14.

Þessi fundur er til þess að þjappa fólki saman og sjá hvort ekki sé hægt að hrista slenið af landanum og fá fólk til þess að hætta að nöldra úti í horni og koma út úr eldhúsunum og mótmæla.

Það vill svo andstyggilega til, fyrir suma, að forkólfar málsins eru stjórnmálaflokkur.

Þetta er auðvitað alveg á mörkum glæps, að hugsa sér að stjórnmálaafl, sem er reyndar ekki sérlega stórt, og ekki með mann á hinu háa alþingi, skuli voga sér að reyna að gera eitthvað í málum undirmáls íslendinga.

Ég er að sjálfsögðu alveg himinlifandi yfir þessu jafnvel þó ég sé ekki einu sinni með kosningarétt á landinu.

Ég er ekki í Flokki fólksins en ég styð hann í þessu máli rétt eins og ég mundi styðja alla þá sem tækju sig saman í andlitinu og hættu að tala um meðaltöl og tækju upp tal um raunveruleika.

Ég mundi styðja Herinn og allt eldrimanna batteríið á Íslandi ef mér sýndist það komast upp úr hugsana hjólfarinu og færi í framkvæmda hjólfarið, sem er miklu skynsamlegra og ber meira að segja stundum árangur.

Auðvitað á ég ekki að vera svo andstyggileg að minnast á hugarflugs áráttu FEB og þau báðu mig um útskýringu á því hvað ég meinti eiginlega. Ég er enn að velta fyrir mér á hvaða máli ég ætti að skýra mál mitt og er að hallast meira og meira að því að kínverska gæti verið góð leið.

Ég er einfaldlega svo illa innrætt að mér þykir eðlilegt að FEB og LEB og Herinn og allir sem vettlingi geta valdið hvetji sitt fólk til þess að mæta á þennan fund í Háskólabíói þann 15.júlí klukkan 14.

Auðvitað er það merki um viðbjóðslegt hugarfar mitt að voga mér að gagnrýna að ekki sé allt fullt af hvatningu frá þessum félögum sem hafa svo undurfagra stefnuyfirlýsingu.

Auðvitað á ég að skammast mín og taka fram prjóna eða HEKLUDÓT eða hvað það er sem þessi félög vilja að gamlingjar sem eru ekki á vinnumarkaði séu að dunda sér við á síðasta fjórðungi þessa lífs.

Þar sem ég er illa innrætt, andstyggileg og óforskömmuð að ég tali nú ekki um hve uppeldi hefur hraklega mistekist á mér, þá ætla ég að halda áfram að hvetja fólk til þess að hrista af sér pólitíkina einn laugardag og mæta í bíóið og sýna þeim sem stjórna landinu að nú sé komið nóg.

Hingað og ekki lengra, segjum við þann 15.júlí kl.14 og við hvetjum alla vini okkar og vinkonur, frændur og frænkur og afa og ömmur til þess að taka í höndina á íslendingum sem vilja betra þjóðfélag fyrir ALLA.

Hulda Björnsdóttir


Á að leggja Kjararáð niður?

7.júlí 2017

Umræða og undirskriftasöfnun er nú í gangi vegna Kjararáðs og þeirra hækkana sem þeir sem þar sitja hafa úthlutað til þeirra útvöldu.

Ef við leggjum niður Kjararáð hvað kemur þá í staðinn?

Verður það fyrirkomulagið þar sem Davíð Oddsson tryggði sér og sínum ljómandi eftirlaun, svo góð  að hann gat boðið sig fram sem forseta og lofaði að vera launalaus.

Já, launalaus forseti, það væri saga til næsta bæjar.

Hefði hann verið kosinn og ekki þegið laun fyrir vikið, hvert hefði þá launaumslag forseta runnið?

Ég er ekki viss um að forseti hafi vald til þess að afsala sér launum.

Ef við leggjum niður Kjararáð þurfum við að vita hvað við viljum fá í staðinn.

Hvað er það sem við viljum?

Ég var að velta því fyrir mér, auðvitað í bjartsýnis kasti, að kannski væri ráðið einfaldlega að fara eftir opinberum hagtölum. Getur það verið?

Við erum með opinber meðaltöl, sem Þorsteini Víglundssyni þykir svo undur vænt um, þegar kemur að því að tala um og dásama meðallaun og úrbætur í húsnæðismálum sem hann er að beita sér fyrir.

Meðaltöl launa, meðaltöl framfærslu, framfærslukostnað - opinberar tölur, og svo framvegis.

Ef 200 einstaklingar með yfir 2 milljónir eða meira í tekjur á mánuði væru teknir út úr meðaltölunum þá breyttust allar forsendur.

Þá væri BB og co ekki inni í dæminu, bara svo eitt dæmi sé tekið.

Þá væru milljónamæringar ekki inni í dæminu.

Hálaunafólkið heldur meðaltölunum þóknanlegum þegar stjórnmála forkólfar þurfa að styðja mál sitt og segja þeim sem heyra vilja að nú séu bestu tímar í lífi íslendinga og aldrei verið betra að vera íslendingur.

Hér í landinu mínu eru viðhöfð sömu vinnubrögð og á Íslandi varðandi meðaltölur. Nokkrir billjónerar eru í landinu og bara nokkuð góður hópur af milljónamæringum. Allir þessir eru inni í meðaltölunum og færa meðallaun upp í himinhæðir.

Staðreyndin er hins vegar sú að obbinn af venjulegu launafólki er með meðallaun á bilinu 500 evrur og upp í 650 á mánuði en ekki tæpar þúsund evrur.

Íslenskir stjórnmálamenn eru ekki þeir einu sem elska meðaltöl.

Ég er ekki sannfærð um að niðurlagning Kjararáðs leysi vanda þeirra sem vita ekki aura sinna tal og þurfa þar af leiðandi alltaf að fá meira og meira og endilega líka afturvirkt.

Spurningin sem stendur eftir er: Hvað viljum við í staðinn?

Hulda Björnsdóttir


Getum við staðið saman þann 15. júlí 2017 og mætt í Háskólabíó?

3.júlí 2017

Þann 15. júlí 2017 klukkan 14 verður haldinn fundur í Háskólabíó þar sem reynir á hvort íslendingar geti staðið saman.

Þessi fundur gæti orðið upphaf að einhverju enn stærra.

Rætt verður um spillingu, bág kjör, málsókn á hendur ríkinu vegna valdníðslu með lagasetningu og fleira sem skiptir máli fyrir þá sem eru ekki með milljónir í tekjur á mánuði eða sitja á gulleggjum og fá bónusa á silfurfati fyrir það eitt að mæta í vinnuna sína.

Þetta er fundur fyrir fólkið í landinu. Fólkið sem hefur það ekki gott ætti að fjölmenna á þennan fund.

Hafa ber í huga að jafnvel þó "Flokkur fólksins" boði til fundarins er þetta ekki flokkspólitískur fundur og þarf fólk ekki að vera í flokknum eða ætla sér að ganga í flokkinn.

Einhver varð að taka af skarið og láta reyna á hvort við getum staðið saman og komið okkur frá eldhúsborðinu og kaffibollanum og sýnt stjórnvöldum fram á að aumingjaskapur er ekki okkar fag.

Fyrir þá sem ekki vita þá er fundurinn í Háskólabíói þann 15.júlí n.k. klukkan 14.

Ég hvet alla til þess að mæta, hvar í flokki sem þeir standa.

Það skiptir ekki máli hvort þú ert sjálfstæðismaður, alþýðuflokksmaður, samfylkingarmaður eða framtíðarmaður. Ef þú ert öryrki, eftirlaunaþegi, láglaunamaður, einstætt foreldri, eftirlaunaþegi eða væntanlegur eftirlaunaþegi, eða bara venjulegur borgari sem sættir þig ekki við spillingu og eignasöfnun á hendur fáum á kostnað fjöldans þá kemur þú á þennan fund.

Hér er tækifæri til þess að losa okkur við slyðruorðið um að við getum aldrei staðið saman.

Hér er tækifæri til þess að sýna stjórnarherrunum og þeirra spillta liði að við látum ekki troða á okkur lengur.

Hér er tækifæri til þess að brýna verkalýðsforystuna til þess að vinna fyrir alla og hætta að leppa fyrir vinnuveitendur og ríkissjóð.

Hér er tækifæri til þess að hefja baráttu án þess að hespa hana við eitthvert ákveðið stjórnmálaafl eða ákveðna stétt.

Nú reynir á og verður fróðlegt að sjá undirtektir.

Allir sem einn sem lesa þetta og annað sem skrifað er um þennan fund ættu að tala við vini sína og taka þá með á fundinn. Allir sem einn þurfa að deila þessum fréttum um ALLT.

Samtakamáttur er eins og verkjalyf. Hann linar sársauka og vekur von.

Hulda Björnsdóttir


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband