Hverjir geta mætt á samstöðufund í Háskólabíói 15.júlí kl.14?

7.júlí 2017

Eftir rúma viku verður fundur í Háskólabíói, þann 15. klukkan 14.

Þessi fundur er til þess að þjappa fólki saman og sjá hvort ekki sé hægt að hrista slenið af landanum og fá fólk til þess að hætta að nöldra úti í horni og koma út úr eldhúsunum og mótmæla.

Það vill svo andstyggilega til, fyrir suma, að forkólfar málsins eru stjórnmálaflokkur.

Þetta er auðvitað alveg á mörkum glæps, að hugsa sér að stjórnmálaafl, sem er reyndar ekki sérlega stórt, og ekki með mann á hinu háa alþingi, skuli voga sér að reyna að gera eitthvað í málum undirmáls íslendinga.

Ég er að sjálfsögðu alveg himinlifandi yfir þessu jafnvel þó ég sé ekki einu sinni með kosningarétt á landinu.

Ég er ekki í Flokki fólksins en ég styð hann í þessu máli rétt eins og ég mundi styðja alla þá sem tækju sig saman í andlitinu og hættu að tala um meðaltöl og tækju upp tal um raunveruleika.

Ég mundi styðja Herinn og allt eldrimanna batteríið á Íslandi ef mér sýndist það komast upp úr hugsana hjólfarinu og færi í framkvæmda hjólfarið, sem er miklu skynsamlegra og ber meira að segja stundum árangur.

Auðvitað á ég ekki að vera svo andstyggileg að minnast á hugarflugs áráttu FEB og þau báðu mig um útskýringu á því hvað ég meinti eiginlega. Ég er enn að velta fyrir mér á hvaða máli ég ætti að skýra mál mitt og er að hallast meira og meira að því að kínverska gæti verið góð leið.

Ég er einfaldlega svo illa innrætt að mér þykir eðlilegt að FEB og LEB og Herinn og allir sem vettlingi geta valdið hvetji sitt fólk til þess að mæta á þennan fund í Háskólabíói þann 15.júlí klukkan 14.

Auðvitað er það merki um viðbjóðslegt hugarfar mitt að voga mér að gagnrýna að ekki sé allt fullt af hvatningu frá þessum félögum sem hafa svo undurfagra stefnuyfirlýsingu.

Auðvitað á ég að skammast mín og taka fram prjóna eða HEKLUDÓT eða hvað það er sem þessi félög vilja að gamlingjar sem eru ekki á vinnumarkaði séu að dunda sér við á síðasta fjórðungi þessa lífs.

Þar sem ég er illa innrætt, andstyggileg og óforskömmuð að ég tali nú ekki um hve uppeldi hefur hraklega mistekist á mér, þá ætla ég að halda áfram að hvetja fólk til þess að hrista af sér pólitíkina einn laugardag og mæta í bíóið og sýna þeim sem stjórna landinu að nú sé komið nóg.

Hingað og ekki lengra, segjum við þann 15.júlí kl.14 og við hvetjum alla vini okkar og vinkonur, frændur og frænkur og afa og ömmur til þess að taka í höndina á íslendingum sem vilja betra þjóðfélag fyrir ALLA.

Hulda Björnsdóttir


Á að leggja Kjararáð niður?

7.júlí 2017

Umræða og undirskriftasöfnun er nú í gangi vegna Kjararáðs og þeirra hækkana sem þeir sem þar sitja hafa úthlutað til þeirra útvöldu.

Ef við leggjum niður Kjararáð hvað kemur þá í staðinn?

Verður það fyrirkomulagið þar sem Davíð Oddsson tryggði sér og sínum ljómandi eftirlaun, svo góð  að hann gat boðið sig fram sem forseta og lofaði að vera launalaus.

Já, launalaus forseti, það væri saga til næsta bæjar.

Hefði hann verið kosinn og ekki þegið laun fyrir vikið, hvert hefði þá launaumslag forseta runnið?

Ég er ekki viss um að forseti hafi vald til þess að afsala sér launum.

Ef við leggjum niður Kjararáð þurfum við að vita hvað við viljum fá í staðinn.

Hvað er það sem við viljum?

Ég var að velta því fyrir mér, auðvitað í bjartsýnis kasti, að kannski væri ráðið einfaldlega að fara eftir opinberum hagtölum. Getur það verið?

Við erum með opinber meðaltöl, sem Þorsteini Víglundssyni þykir svo undur vænt um, þegar kemur að því að tala um og dásama meðallaun og úrbætur í húsnæðismálum sem hann er að beita sér fyrir.

Meðaltöl launa, meðaltöl framfærslu, framfærslukostnað - opinberar tölur, og svo framvegis.

Ef 200 einstaklingar með yfir 2 milljónir eða meira í tekjur á mánuði væru teknir út úr meðaltölunum þá breyttust allar forsendur.

Þá væri BB og co ekki inni í dæminu, bara svo eitt dæmi sé tekið.

Þá væru milljónamæringar ekki inni í dæminu.

Hálaunafólkið heldur meðaltölunum þóknanlegum þegar stjórnmála forkólfar þurfa að styðja mál sitt og segja þeim sem heyra vilja að nú séu bestu tímar í lífi íslendinga og aldrei verið betra að vera íslendingur.

Hér í landinu mínu eru viðhöfð sömu vinnubrögð og á Íslandi varðandi meðaltölur. Nokkrir billjónerar eru í landinu og bara nokkuð góður hópur af milljónamæringum. Allir þessir eru inni í meðaltölunum og færa meðallaun upp í himinhæðir.

Staðreyndin er hins vegar sú að obbinn af venjulegu launafólki er með meðallaun á bilinu 500 evrur og upp í 650 á mánuði en ekki tæpar þúsund evrur.

Íslenskir stjórnmálamenn eru ekki þeir einu sem elska meðaltöl.

Ég er ekki sannfærð um að niðurlagning Kjararáðs leysi vanda þeirra sem vita ekki aura sinna tal og þurfa þar af leiðandi alltaf að fá meira og meira og endilega líka afturvirkt.

Spurningin sem stendur eftir er: Hvað viljum við í staðinn?

Hulda Björnsdóttir


Bloggfærslur 7. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband