Brúðkaup í Portúgal !

13.júlí 2017

Á sunnudaginn var ég boðin í brúðkaup hér í landinu mínu.

Ég hef verið við brúðkaup á Íslandi og í Kína en aldrei hér í Portúgal svo tilhlökkunin var mikil.

Vinkona mín var að fara að gifta sig! Hún hefur verið og er einn af þessum ótal mörgu tryggu vinum sem ég eignaðist hér í nýja landinu mínu rétt eftir að ég flutti.

Klukkan 11 um morguninn átti að vera bruns fyrir gestina og athöfnin sjálf klukkan 12.

Eins og gefur að skilja þá byrjum við ekki neitt á auglýstum tíma hér í landi. Ég var auðvitað mætt eins og hálfviti fyrir klukkan ellefu, og hafði reyndar nokkrum dögum áður lagt land undir fót og fundið staðinn.

Yndislegur staður og allt umhverfið svo fallegt. Þegar ég kom í könnunarleiðangurinn hitti ég eigandann og hann sýndi mér allt svæðið og gaf mér svolitla sögu í kaupbæti. Hann er tónlistar kennari ásamt því að reka þennan fallega stað þar sem brúðkaup eru næstum vikulegur viðburður.

Ég fann fullt af litlum fallegum styttum hér og þar um garðinn á meðan ég beið eftir því að gestirnir kæmu mér til samlætis. Til að byrja með sat ég í bílnum og beið. Vildi ekki trufla undirbúninginn sem var á fullu jafnvel þó klukkan væri að verða mætingartími. Rauður dregill var eftir stéttinni og meðfram grænar greinar. Í tré sem stendur við innganginn voru sett upp kort þar sem nöfn gesta voru og nafn á borði þeirra var nafn Tónskálda. Ég sat við borð Vivaldi ásamt 8 öðrum og eignaðist ég þar að minnsta kosti eina nýja vinkonu.

Veislugestir tóku að streyma að upp úr hálf tólf og kom brúðguminn á svörtum gljáfægðum bíl, skreyttum rauðum rósum, ásamt nánustu fjölskyldu sinni um tólf.

Þar sem veðrið var unaðslegt borðuðum við pinnamatinn undir berum himni í fallega garðinum þar sem var fullt af borðum og stólum ásamt leiktækjum fyrir ungu kynslóðina.

Fólk stóð í litlum hópum, konur sér og karlar sér. Svona er þetta venjulega hér í landinu og brúðguminn gekk á milli hópanna og ræddi við gesti og bauð velkomna. Ungir tónlistarmenn léku á hljóðfæri og sungu. Systir brúðarinnar lék á hörpu.

Þegar klukkan fór að nálgast hálf eitt tók hópurinn að þokast inn að húsinu og þar bættist við prestur sem var kona og brúðguminn kom sér fyrir. Ljóst var að nú færi brúðurin að nálgast og athöfnin að byrja. Allir voru svo hljóðir. þetta var greinilega mikilvæg stund og fólk hvíslaði frekar enn að vera í háværum samræðum. Fyrir framan altarið voru bekkir fyrir nánustu aðstandendur og blævangur við hvert sæti. Það var jú heitt og sólin skein eins og enginn væri morgundagurinn.

Brúðarmeyjarnar söfnuðust saman og litli höfðinginn sem hélt á hringunum í flottri silfurlitaðri tösku var tilbúinn. Blómakörfur voru teknar fram og litlar hvítklæddar dömur komu sér fyrir hjá brúðarmeyjunum sem voru í peach litum kjólum.

Skyndilega kom grái bíllinn og vissi ég að þar færi brúðurin ásamt fríðu föruneyti.

19787380_868113026673859_8312942460600334099_o

Hér var hún komin og foreldrarnir þurrkuðu tár af vöngum. Sumir gráta af hamingju og þetta var hennar dagur.

Brúðguminn beið við altarið,

Gestirnir biðu eftir fallegu brúðinni

Litlu hvítklæddu meyjarnar stráðu blómum á veginn inn að altarinu

Presturinn beið

Brúðguminn beið

Fegurð brúðarinnar var ólýsanleg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

19787407_868113043340524_6758149179188321663_oÞað þarf ekki mörg orð til þess að lýsa því sem fram fer.

 

 

 

Svona er þetta gert í landinu mínu.

 

Yndisleg vinkona mín er þarna að hlusta á prestinn leggja henni og unnustanum lífsreglurnar, rétt eins og gert er alls staðar í heiminum.

Presturinn hló stundum og allir með. Það er jú hægt að segja brandara þó tilefnið sé háalvarlegt.

Þau kvittuðu svo í bókina og voru þar með hjón.

Ég er svoddan aumingi að ég græt þegar eitthvað fallegt er að gerast og þarna var gott að hafa tissue við höndina.

Reyndar féll tár á hvarma hinna hörðustu karlmanna sem stóðu fyrir aftan mig.

Hvernig er annað hægt þegar svona hátíðs stund er?

Veislan var svo haldin með yndislegum portúgölskum mat, ótrúlega mikill matur sem hægt er að láta ofan í sig.

Brúðurin söng og hef ég ekki heyrt hana syngja Ave Maríu betur.

Fleiri tónlistaratriði voru. Systirin söng dúett með einum gestanna og svo lék hún á hörpuna sína. Píanó kennari lék lystir sínar af einskærri kátínu og gleði.

Brúðurin söng nokkrar aríur og loks var sunginn afmælissöngur fyrir lítinn snáða sem átti afmæli og fékk hann afmælisköku og allir hans vinir.

Þegar klukkan var að verða átta um kvöldið hafði hljómsveit komið sér fyrir og ég sá fram á að veislan væri líklega ekki nema hálfnuð.

Tók ég það ráð að kveðja og fara heim eftir yndislegan dag þar sem ég hitti fullt af nýju fólki og átti skemmtilegar samræður við það.

Fallega yndislega vinkona mín var orðin frú og nú verður næst að skoða nýja húsið hennar og mannsins hennar sem eru fallegar rústir sem þau ætla að byggja upp.

Lífið heldur áfram og ég sá ekki brúðarkökuna og þegar ég var spurð um hana sagði ég að það hefði ekki verið nein.

Það getur ekki verið, sagði viðmælandinn og útskýrði fyrir mér að oft væri kakan ekki borin fram fyrr en í lok samkvæmisins. Líklega hef ég verið sofnuð þegar það gerðist en á vonandi eftir að sjá myndir af öllu saman.

Ógleymanlegur dagur.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Bloggfærslur 13. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband