Húsnæðisvandi á Íslandi árið 2017

31.júlí 2017

Hvernig stendur á því að ekki er til húsnæði fyrir alla á Íslandi í mesta góðæri sögunnar?

Svar:

GRÆÐGI

Þeir sem eiga húsnæði eru svo uppfullir af gróðahugsjónum að þeir gleyma þeim sem eru ekki með 700.000 króna mánaðartekjur, meðaltekjurnar góðu, þið munið.

Viljaleysi græðginnar er alveg ótrúlegt og til háborinnar skammar.

Eru allir búnir að gleyma því hvernig byggt var upp fyrir þá sem voru á lægri launum, rétt fyrir nokkrum áratugum?

Eru allir búnir að gleyma því hvernig bröggum var útrýmt og fólki hjálpað að komast í sæmilegt húsnæði?

Eru allir búnir að gleyma því hvernig fólk flutti úr bröggunum og í Höfðaborgina?

Höfðaborgin var ekkert glæsihúsnæði en það var þó þak yfir höfuðið á þeim sem gátu ekki leigt dýrt húsnæði.

Eru allir búnir að gleyma því hvernig Breiðholtið byggðist upp? Þar var að hluta til byggt fyrir láglaunafólkið og stórt stökk tekið frá Höfðaborginni.

Er fólk búið að gleyma því hvernig Viðlagasjóðshúsin streymdu inn og björguðu mörgum sem þurfti að flýja logandi eyjarnar og flytja upp á land?

Líklega vita blessaðir unglingarnir á Alþingi ekkert um þetta og hafa áreiðanlega engan áhuga á því að kynna sér þessi mál.

Gæti ekki verið ágætt að krakkaþingið færi í sögu nám, þar sem kennt væri hvernig Reykjavík var rétt fyrir nokkrum áratugum þar sem fólki var hjálpað en ekki úthýst?

Árið 2017 ætti enginn að þurfa að sofa í tjaldi eða bílskrjóð eða undir berum himni.

Auðvitað er hægt að hjálpa öllum sem hjálp þurfa á hinu ofsaríka Íslandi þar sem Velferðarráðherra heldur að meðallaun landans séu yfir sjö hundruð þúsund á mánuði.

Það gæti kannski verið gott fyrir ráðherrann geðþekka að kynna sér aðeins aðstæður venjulegs fólks. Hann gæti hugsanlega stigið út úr kassanum sínum fagra, og horft í augun á eldri borgaranum sem á ekki fyrir mat í dag, síðasta dag mánaðarins. Hann gæti horft í augu gamla mannsins eða gömlu konunnar sem bíður eftir morgundeginum því þá koma eftirlaunin og hægt verður að kaupa í matinn.

Velferðarráðherrann gæti líka horft í augu einstæðu móðurinnar sem hefur misst leiguhúsnæði sitt og fjölskyldan á að fara á vergang. Ekki bara á vergang, það á að splundra litlu fjölskyldunni.

Síðan gæti ráðherrann horft í augu öryrkjans sem hefur misst heilsuna vegna hins ógurlega góðæris á Íslandi. Öryrkinn sem var venjulegur launþegi en varð fyrir því óláni að veikjast og getur ekki unnið fyrir sér lengur, væri gott umhugsunarefni fyrir ráðherra sem stýrir málum velferðar fyrir ALLA á Íslandi, en lifir í einhverjum óskiljanlegum draumaheimi.

Forsætisráðherra landsins getur auðvitað ekki sett sig í spor þjóðarinnar. Hann er utan við allt og alla og kökuheimur hans mun líklega aldrei opnast.

Bjartur litli er bara kúl og skemmtir sér á meðan sjúklingar verða gjaldþrota við það eitt að reyna að ná heilsu aftur. Svona sjúklingar koma kúl ráðherra ekkert við og honum er slétt sama á meðan hann fær launin sín og getur dillað sér.

Ráðherra sjávarútvegsmála er falleg og talar fjálglega um allt og ekki neitt. Auðvitað er fínt að vera flott kona og ekki verra að hafa náð í ráðherrastól. Það gæti þó verið ágætt fyrir ráðherrann að kynna sér líf sjómanns fjölskyldunnar að ég tali nú ekki um hins venjulega verkamanns. Hún gæti hugsanlega stigið niður úr hásæti sínu og talað við almúgann.

Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum í dag á hina undarlegu ríkisstjórn sem hyglir vinum og vandamönnum og heldur að íslenskur almenningur séu fávitar.

Hulda Björnsdóttir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband