Ættu íslenskir stjórnmálamenn að hlusta á ræðu McCain?

26.júlí 2017

Í gær hlustaði ég á ræðu JohnMcCains þar sem hann talaði í þinginu um starfshætti og hvernig þingið hefði í raun brugðist hlutverki sínu.

Þingmaðurinn greindist fyrir nokkrum dögum með heilaæxli sem mun að öllum líkindum draga hann til dauða innan nokkurra mánaða.

Hann kom til þess að greiða atkvæði svo hægt væri að ræða breytingar á heilbrigðiskerfinu.

Þegar ég hlustaði á hann datt mér í hug hvort það væri ekki bara ágætt að allir íslenskir þingmenn hlustuðu á þessa ræðu. Kannski ætti að gera þetta að skyldu. Ég held að það veiti ekki af því að hrista upp í genginu sem hefur tekið Alþingi íslendinga traustataki og herðir nú sultarólar þeirra sem minna mega sín í íslensku þjóðfélagi. Þessi hópur sem nú situr á alþingi íslendinga er gjörsamlega út úr heiminum. Það er ekki til í dæminu að þau hafi hugmynd um hvernig venjulegt fólk lifir. Ég leyfi mér að fullyrða þetta og stend við það.

Ofdekruð kynslóð ungmenna sem varla hafa þurft að dýfa hendi í kalt vatn og alls ekki migið í saltan sjó, stjórna nú landi með rétt rúmlega 300 þúsund íbúa.

Málfarið er oft á tíðum á mörkum þess að vera skiljanleg íslenska.

Þetta eru íslendingar sem bíta sig fasta í meðaltöl og halda að venjulegur almenningur á landinu sé með 700 þúsund í mánaðarlaun. Þingmennirnir og jafnvel ráðherrar hanga í meðaltölunum eins og snigill á vegg hér í landinu mínu.

Þingheimur er nú í sumarfríi út um allar trissur og hefur ekki miklar áhyggjur af þeim sem ekki hafa þak yfir höfuðið.

Það kemur þingheimi einfaldlega ekki við hvernig láglaunafólkið, einstæðu foreldrarnir, öryrkjarnir og eftirlaunaþegarnir hafa það.

Nei, hin ofdekraða kynslóð varð ekki til af sjálfu sér eða spratt út úr rifbeini einhvers.

Þessi kynslóð er afrakstur uppalenda sem brugðust hlutverki sínu og kenndu henni ekki að bera virðingu fyrir þeim sem eldri eru og hjálpa þeim sem þurfa hjálp.

Harkaleg ummæli ?

Já, þau eru það en því miður líklega nærri sannleikanum. Ég hef aldrei séð eða heyrt annað eins rugl og rennur upp úr mörgum þeirra sem eru að taka ákvarðanir upp á líf og dauða fyrir íslenskan almenning á hinu háa alþingi.

Líklega er kominn tími til þess að setja aldurstakmark á þá sem geta boðið sig fram til alþingis svo þjóðin sitji ekki uppi með óábyrga gráðuga unglinga í valdastöðum.

Þessir ofdekruðu unglingar halda að þeir verði aldrei veikir og alls ekki gamlir. Þeir sjá ekki út fyrir kassann sem byggður hefur verið í kringum þá.

Auðvitað þurfa þeir sem hafa komið sér inn á alþingi með svikum og lygi ekki að hafa áhyggjur af efri árum. Þetta blessaða fólk sér fram á feitan eftirlaunasjóð. Davíð Oddsson sá um það rétt áður en hann steig af þinginu.

Ríkisstjórn sú sem nú situr og rústar heilbrigðiskerfi, menntakerfi, mannúð og samhygð, bæði leynt og ljóst, hefur misst meirihluta sinn en situr sem fastast.

Tæki eitthvað betra við ef kosningar væru nú? Það er stóra spurningin. Er ekki partur af vandamálinu algjörlega grútmáttlaus stjórnar andstaða?

Þurfa þingmenn að greinast með bannvænt heilaæxli eins og herra McCain til þess að koma auga á að almenningur er það sem skiptir máli en ekki eiginhagsmunapot og græðgi?

Hulda Björnsdóttir

 


Bloggfærslur 26. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband