Skyndilausnir

21.júlí 2017

Nú veður allt í skyndilausnum.

Búið að finna upp lækningu við krabbameini og bara að fylgja ráðum viðkomandi.

Nú getum við losnað við öll aukakílóin með því að drekka einhvern töfradrykk eða sítrónur á morgnana og eftir örfáar vikur erum við tágrönn og flott.

Svo er hægt að taka hrukkur í burtu með einni stroku eða stunda andlits jóga og þá verður andlitið allt slétt og fagurt á ný.

Ég gæti talið upp enn lengri lista en læt þetta duga.

Svona lausnir eru til lítils annars en að horfa á þær og allavega að ganga hægt um skyndilausna dyrnar.

Engifer, túrmerik, sítrónudrykkur og margt margt fleira sem talið er upp í svona frábærum lausnum getur einfaldlega verið hættulegt.

Ég tala af eigin reynslu og fyrirmælum lækna minna.

Áður en farið er á svona kúra þarf að skoða vel aukaverkanir.

Ég elska til dæmis engifer og vildi helst hafa það í öllu sem ég elda. Ég má ekki borða engifer vegna sjúkdóms sem ég hef.

Skyndilausnir eru frábærar en ef þær væru sannar væri enginn með krabbamein í dag og öllum erfiðum geislameðferðum hefði verið lokið fyrir löngu síðan. Það er ábyrgðarhluti að birta og deila svona lausnum. Fólk sem í örvæntingu sinni er að missa ástvini úr skelfilegum sjúkdómum leitar allra ráða til þess að hjálpa þeim sem veikur er.

Mér kemur ekkert við hvað hver og einn gerir en ég vildi óska þess að fólk setti inn athugasemd í svona pósta og bæði lesendur að skoða aukaverkanir sem geta fylgt. Þær eru í sumum tilfellum lífshættulegar og geta leitt til dauða.

Skyndilausnir eru ekki bara á sviði heilbrigðismála.

Við viljum líka lausnir NÚNA á málum eldri borgara, öryrkja, einstæðra foreldra og láglaunafólks á Íslandi.

Ég gæti með glans skrifað hér langa grein um það sem ætti að gera og það sem á að gera núna en veit að það er ekkert annað en óskhyggja.

Við höfum stigið eitt skref í áttina til samstöðu og hún er það sem við þurfum að halda áfram með. Auðvitað eru einhverjir sem geta ekki tekið niður flokks pólitíkur gleraugun og það verður að una því. Hins vegar er það ekkert sem á að stoppa þá sem ganga gleraugnalausir, vongóðir og bjartsýnir. Smátt og smátt bætist í hóp þeirra sem trúa á mátt samstöðunnar og þeir hætta að tala niður til þeirra sem framkvæma í stað þess að tala endalaust og gera ekkert.

Við erum lánsöm núna á Íslandi. Við eigum 2 verkalýðsforingja sem vilja berjast fyrir breyttum tímum. Þeir eiga við ramman reip að draga og afturhaldsöflin rísa nú upp hvert á fætur öðru. Það sem almenningur getur gert er að standa við bakið á þessum 2 og þá bætast fleiri foringjar við.

Á Íslandi hefur lengi verið sú árátta að mæta til dæmis ekki á fundi þar sem nýir samningar eru bornir upp en svo sitjum við saman á stól og drekkum kaffi og kvörtum.

Það væri dásamlegt og frábær tilbreyting ef fólk hætti að drekka kaffið við eldhúsborðið og mætti á félagsfundi í verkalýðsfélagi sínu. Þá færi eitthvað að gerast. Þá mundi valdaklíkan missa tökin og lífskjörin mundu breytast.

Svo einkennilegt sem það gæti virst, þá trúi ég á mátt fólksins og samstöðuna.

Samstöðufundurinn í Háskólabíói þann 15,júlí 2017 var dæmi um hvað getur gerst.

Ég held svei mér þá að íslenskur kúgaður almúginn sé nú að rísa upp og það verður hávært hljóð sem líklega vekur steinsofandi þingmenn af þyrnirósar svefninum.

Það eru ekki skyndilausnir sem leysa málin eða heimtufrekja. Úrbætur taka tíma og þolinmæði rétt eins og að bæta útlit og heilsu.

Hulda Björnsdóttir

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband