15.júlí kl.14 árið 2017 verður merkisdagur í sögu smáþjóðar!

8.júlí 2017

Góðan dag kæru vinir og allir þeir sem lesa þennan pistil minn.

Ekkert annað en dásemd hér í Portúgal þennan morgunn. Rigning í Penela í nótt og enn er allt blautt klukkan tæplega 11 um morguninn. Vonandi hefur rignt um allt land, við þurfum á bleytunni að halda til þess að koma í veg fyrir skógareldana. Rigningin er besta vörn okkar.

Næsta laugardag, þann 15. júlí klukkan 14 verður fundur í Háskólabíói og þar kemur saman fólk úr öllum flokkum og á öllum aldri til þess að berjast gegn óréttlæti og yfirgangi auðvaldsins og örfárra ætta sem gína yfir öllu sem þau komast yfir á kostnað almennings í landinu.

Við höfum látið þetta yfir okkur ganga en nú erum við komin með óþol af verstu gerð og æluna upp í kok. Meðaltöl á meðaltöl ofan eru matreidd ofan í okkur og meltingin okkar æpir af sársauka. Meðaltölin eru vopn stjórnmálamanna með vonda samvisku. Vopn þeirra sem nú stjórna litlu eyjunni og maka eigin krók eins og enginn sé morgundagurinn.

Blæðandi sár almennings sem ekki á fyrir mat alla daga mánaðarins eru hinum háu herrum ekki til trafala. Nei, þeir halda sínu striki og brosa fallega framan í þjóðina og segja henni að halda aftur af geðveikinni og opna augun fyrir hinu gengdarlausa góðæri sem alls staðar blasi við, bara ef menn eru við "fulla femm", þá blasi þetta við.

Við, geðveikissjúklingarnir, sem ekki komum auga á góðærið erum ekki vinsæl en við verðum ótrúlega verðmæt og heil heilsu þegar kemur að því að krossa við rétta flokkinn í kosningum. Falleg bréf send árið 2013 til allra eldri borgara á Íslandi eru frábært dæmi um súpuna sem okkur er ætlað að eta. Súpa loforða sem var svo ekkert annað en svik og óætt vatnssull.

Nú viljum við ekki meiri svona óæta, næringarlausa loforðasúpu. Við viljum fá mat. Mat sem er ekki búinn til úr meðaltölum. Mat sem er ætur og við viljum sama mat og PANAMAPRINSAR og fylgisveinar njóta á hverjum degi.

Við erum svöng og reið og þreytt og með kuldahroll sem við náum ekki úr okkur.

Við erum búin að fá nóg af ónýtum ómerkilegum loforðum sem gleymast um leið og þingheimur hefur undirritað drengskaparheitið og fær fyrsta launaumslagið með 2földum mánaðarlaunum þingmanna.

Ég er líklega í augum PANAMAPRINSA með alvarlega geðveiki sem brýst út í skrifum um eitthvað sem ég hef ekkert vit á en held að ég þekki. Geðveiki mín er velkomin. Ég er stolt af því að tilheyra þessum geðveika hópi sem forsætisráðherra nefnir okkur sem sjáum í gegnum lygina og rósrauðu gleraugun sem glitra af meðaltölum. 

Til þess að breyta Íslandi og forgangsröðun þar, er nauðsynlegt fyrir okkur sem tilheyrum ekki fínu ættunum og auðvaldinu að standa saman og sýna prinsinum og hirðinni hans að við getum staðið saman.

Við látum ekki lengur traðka á okkur.

Byrjum á því að mæta í Háskólabíó á laugardaginn eftir viku. Gerum þann dag merkilegan í sögu lítillar þjóðar sem vill góðan mat alla daga en ekki úldið kjöt og skemmdar kartöflur.

Ragnar Þór og Vilhjálmur eru baráttu menn. Þeir verða á fundinum.

Ellert Schram er formaður félags eldri borgara í Reykjavík og hlýtur að taka með sér risahóp úr félaginu, en ég sá tölur um að félagsmenn væru orðnir 11.þúsund.

Það verður fróðlegt að heyra hugmyndir hins nýja formanns og ekki síður áhugavert að hlusta á Ragnar Þór og Vilhjálm sem liggja ekki á skoðunum sínum um hin ágætu sambönd verkalýðsfélaga sem virðast vera að vinna fyrir eitthvað allt annað en velferð félagsmanna.

Nú er búið að þingfesta lögsókn á hendur ríkinu fyrir vinnubrögð "Fátæki" fulltrúans í velferðanefnd og fyrirlitningu á lagasetningum alþingis. Það verður fróðlegt að heyra rætt um það mál á fundinum.

Ég vona að allir sem lesa þetta hvetji vini sína á hvaða aldri sem þeir eru að taka þátt í því að snúa ofan af viðbjóðnum sem er nú í boði ríkisstjórnar íslands. Viðbjóðnum sem snýr að sjúklingum, fátækum, öryrkjum, eldri borgurum, menntakerfinu, hjúkrun og velferð þeirra sem eru veikir, heimilisleysi og svona get ég talið upp endalaust.

Stöndum saman og breytum græðgi í sanngirni og samhjálp þann 15.júlí kl.14 í Háskólabíói.

Hulda Björnsdóttir


Bloggfærslur 8. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband