Getum við staðið saman þann 15. júlí 2017 og mætt í Háskólabíó?

3.júlí 2017

Þann 15. júlí 2017 klukkan 14 verður haldinn fundur í Háskólabíó þar sem reynir á hvort íslendingar geti staðið saman.

Þessi fundur gæti orðið upphaf að einhverju enn stærra.

Rætt verður um spillingu, bág kjör, málsókn á hendur ríkinu vegna valdníðslu með lagasetningu og fleira sem skiptir máli fyrir þá sem eru ekki með milljónir í tekjur á mánuði eða sitja á gulleggjum og fá bónusa á silfurfati fyrir það eitt að mæta í vinnuna sína.

Þetta er fundur fyrir fólkið í landinu. Fólkið sem hefur það ekki gott ætti að fjölmenna á þennan fund.

Hafa ber í huga að jafnvel þó "Flokkur fólksins" boði til fundarins er þetta ekki flokkspólitískur fundur og þarf fólk ekki að vera í flokknum eða ætla sér að ganga í flokkinn.

Einhver varð að taka af skarið og láta reyna á hvort við getum staðið saman og komið okkur frá eldhúsborðinu og kaffibollanum og sýnt stjórnvöldum fram á að aumingjaskapur er ekki okkar fag.

Fyrir þá sem ekki vita þá er fundurinn í Háskólabíói þann 15.júlí n.k. klukkan 14.

Ég hvet alla til þess að mæta, hvar í flokki sem þeir standa.

Það skiptir ekki máli hvort þú ert sjálfstæðismaður, alþýðuflokksmaður, samfylkingarmaður eða framtíðarmaður. Ef þú ert öryrki, eftirlaunaþegi, láglaunamaður, einstætt foreldri, eftirlaunaþegi eða væntanlegur eftirlaunaþegi, eða bara venjulegur borgari sem sættir þig ekki við spillingu og eignasöfnun á hendur fáum á kostnað fjöldans þá kemur þú á þennan fund.

Hér er tækifæri til þess að losa okkur við slyðruorðið um að við getum aldrei staðið saman.

Hér er tækifæri til þess að sýna stjórnarherrunum og þeirra spillta liði að við látum ekki troða á okkur lengur.

Hér er tækifæri til þess að brýna verkalýðsforystuna til þess að vinna fyrir alla og hætta að leppa fyrir vinnuveitendur og ríkissjóð.

Hér er tækifæri til þess að hefja baráttu án þess að hespa hana við eitthvert ákveðið stjórnmálaafl eða ákveðna stétt.

Nú reynir á og verður fróðlegt að sjá undirtektir.

Allir sem einn sem lesa þetta og annað sem skrifað er um þennan fund ættu að tala við vini sína og taka þá með á fundinn. Allir sem einn þurfa að deila þessum fréttum um ALLT.

Samtakamáttur er eins og verkjalyf. Hann linar sársauka og vekur von.

Hulda Björnsdóttir


Björgvin Guðmundsson gagnrýnir tekjutengingu !

3.júlí 2017

Björgvin Guðmundsson er iðinn við að skrifa á hverjum degi um hinar ýmsu myndir kjara eldri borgara.

Hann þekkir þessi mál vel og hefur verið í mörgum nefndum og félögum sem hefðu hugsanlega getað breytt einhverju. Líklega hefur verið við ofurefli að etja jafnvel þó hann hafi allur verið af vilja gerður, alla tíð, til þess að bæta þessi kjör. Ég efast ekki um vilja hans og áhuga.

Í morgun féll Björgvin hins vegar í gildru æsifréttamennskunnar þegar hann sagði í fyrirsögn "Eldri borgarar og öryrkjar rukkaðir um 3,4 milljarða "Ofgreiðslur" 

Það er rétt að samkvæmt upplýsingum frá TR voru rukkaðar þessir 3,4 milljarðar vegna ofgreiðslu. Hins vegar voru endurgreiddir 2 milljarðar vegna vangreiðslu.

Samkvæmt röksemdafærslu Björgvins þarf að hætta tekjutengingum. Ég er sammála því en hitt skil ég hins vegar ekki:

Ef 3,4 miljarðar verða til vegna tekjutengingar og fólki gert að endurgreiða ofgreiðslu, hvernig varð þá til 2ja milljarðar inneign?

Varð inneign til bara AF ÞVÍ BARA?

Það er ekki til framdráttar málstað eldri borgara og öryrkja að slengja fram svona fyrirsögnum vegna þess meðal annars að margir lesa ekki meginmálið. Þeir lesa eingöngu fyrirsögnina. Þetta þurfa þeir, sem eru að láta sig málefni eldri borgara og öryrkja varða, að hafa í huga.

Ég efast ekki um góðan vilja Björgvins og þar sem hann virðist eiga greiðan aðgang að fjölmiðlum og öðrum miðlum er mikilvægt að hlutleysis sé gætt í skrifum.

Hann talar um að þeir sem hafi fengið ofgreitt séu búnir að eyða peningunum og það verði þeim erfitt að endurgreiða. Hann talar ekki um að þeir sem fá greidda inneign geti notið þessa óvænta glaðnings.

Hann bendir heldur ekki á hvernig hægt er, í mörgum tilfellum, kannski ekki öllum, að koma í veg fyrir svona skuld með því að fylgjast með tekjuáætlun á mínum síðum hjá TR.

Gagnrýni er öll af hinu góða en hún verður að vera sanngjörn og ef hægt er, sem er í þessu tilfelli, að byggja á staðreyndum en ekki æsifréttum.

Ég held að þeir sem hafa völdin og ráða hvernig búið er að fólki í landinu þurfi ekki að fá gjafir upp í hendurnar sem gera þeim kleift að benda á svona augljósar áróðurs fréttir.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 3. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband