Enn um framboð eldri borgara til Alþingis

31.ágúst 2017

Nú er enn einu sinni komin upp umræða um að eldri borgarar eigi að bjóða fram til Alþingis.

Það nýjasta sem ég sá var að stungið er upp á að slíkt framboð hefði einungis á stefnuskrá sinni, bætt kjör eldri borgara.

Þetta er ágætt fljótt á litið og gæti bara orðið sterkt. Það eru 47.441 íslendingur 65 ára og eldri. Frábært. Þarna er kominn flokkur sem gæti haft áhrif á hinu Háa Alþingi Íslendinga.

Eða er það?

Ef ég skoða málið niður í kjölinn, frekar grunnt þó, þá kemst ég að þessari niðurstöðu:

Hvað eru margir eldri borgarar sem hafa það slæmt?

Hvað eru margir eldri borgarar sem eiga ekki fyrir læknisþjónustu?

hvað eru margir eldri borgarar sem geta ekki leyst út nauðsynleg lyf?

Hvað eru margir eldri borgarar sem hafa ekki það yfir höfuðið, hvorki leiguhúsnæði eða eigin húsnæði?

Eru til tölur um þetta, áreiðanlegar tölur?

Mér hefur ekki tekist að finna þær þrátt fyrir leit, en líklega eru þær til. Mér þætti vænt um ef einhver kæmi þeim á framfæri við mig og þá sem hafa brennandi áhuga á málefninu. Það væri líka hollt fyrir þá sem engan áhuga hafa á þessum málaflokki að sjá staðreyndir um aðstæður þessa hóps.

Þá kem ég að þeim sem hafa fínan lífeyri. Það eru til dæmis alþingismenn, bankastjórar, alls konar ríkisbubbar í ráðuneytum, tannlæknar, verkfræðingar, lögfræðingar og fleiri og fleiri.

Ég er alls ekki að öfundast út í þær stéttir sem hafa góðan lífeyri. Nei alls ekki.

Ég er einfaldlega að kvarta yfir því að það skuli vera til fólk á Íslandi í dag, árið 2017, sem á ekki í sig og á alla daga mánaðarins. Þetta ástand var þegar ég var að alast upp heima hjá mömmu en það eru yfir 60 ár síðan.

Ég fyllist svo mikilli örvæntingu fyrir hönd hópsins sem lepur dauðann úr skel í dag árið 2017. Ég veit að það eru ekki bara ellilífeyris þegar sem hafa það slæmt en í dag er ég að tala um þann hóp, en hef alls ekki látið frá mér síðasta orð um öryrkjana, einstæða foreldra og láglaunafólkið. Það kemur í öðru bloggi.

Ef ég held áfram með tölur 65 ára og eldri og segi að ég viti ekki hve margir líði skort, þá ætla ég að gefa mér að það séu um það bil einn þriðji af hópnum.

Einn þriðji af 47.441 eru hvorki meira né minna en 15.813 einstaklingar.

Dágóður hópur það.

Ef ég leyfi mér að skoða framboða eftirlaunaþega til Alþingis í sér flokki þá kemur þetta upp hjá mér:

EF 31.627 eftirlaunaþegar hafa það ágætt og samkvæmt könnunum virðist vera sem kjósendur Sjálfstæðisflokksins séu fjölmennir úr þessum hópi, þá gæti sér framboð eldri borgara, svo framarlega sem allir illa staddir kysu það framboð, verið 15.813 einstaklingar.

Þetta eru bjartsýnis tölur hjá mér.

Ég er sannfærð um að þeim eldri borgurum, flestum, sem eru í vel stæða hópnum, dytti ALDREI í hug að skipta um flokk, bara vegna þess að einhver örfá prósent landsmanna lepja dauðann úr skel.

það er auðvelt að slá fram hugmyndum og halda að þær leysi allan vandann. Það er hins vegar flóknara að koma með hugmyndir sem raunverulega gætu leyst vandann.

Það er auðvelt að heimta að kjör eldri borgara skuli leiðrétt STRAX og þjófnaðinum skilað.

Er leiðin enn eitt framboð?

Er líklegt að 47.441 manns kysu slíkt framboð?

Er raunhæft að halda að 15.813 mundu allir flykkjast um þetta nýja framboð? Hvað með þá sem hafa kosið Framsókn, Samfylkinguna, Vinstri græna? Mundi þetta fólk snúa sér að nýju framboð? .

Ég held ekki.

Þetta er eldra fólk sem oft er íhaldsamt og sumir kjósa það sem foreldrar þeirra kusu.

Ég held að lausnin sé ekki, alls ekki, nýtt framboð á yfirfullum kjörseðli.

Ég held að það væri vænlegra til árangurs að reyna að koma almennilegu fólki á þá lista sem nú eru til. Fólki sem hefur hugsjónir og dug til þess að láta ekki drepa hugmyndir þess í fæðingu.

Við erum núna með ríkisstjórn sem nýtur lítils fylgis en það er alveg sama. Hinir duglausu stjórnmálamenn kvarta á Facebook en gera ekkert í málunum þar sem eitthvað er hægt að gera. Á hinu háa Alþingi. Nei þar eru þeir sælir með smart síma og bara sæmileg laun.

Þegar formaður Velferðarnefndar sagði að hún gerði bara það sem henni væri sagt, þá sá ég hve flottur þingmaður hún er. Ef einhver er búin að gleyma þessu þá var þetta í umræðum á Alþingi um leiðréttingu á lögum um Almannatryggingar.

Og ég gerði frúnni upp að hún hefði búið á Íslandi í 6 ár. Einhver góður maður leiðrétti mig og sagði hana hafa verið í 17 ár á landinu. Ég hef búið 6 og hálft ár í Portúgal og gengi með hauspoka ef ég væri ekki almennilega talandi á Portúgölsku. Þess vegna skil ég ekki metnaðarleysi frúarinnar.

 

Hulda Björnsdóttir

 


Formaður velferðarnefndar stígur enn á stokk

29. ágúst 2017

Enn á ný stígur formaður Velferðarnefndar fram og nú er hún að gagnrýna vinnuferli hins háa Alþingis.

Þessi þingkona er á vegum Framtíðarinnar Björtu sem breyttist í Kolsvarta framtíð fyrir þá sem minnst hafa í þjóðfélaginu.

Þessi þingkona er að mér skilst með háskólamenntun. Hún hefur ekki meiri metnað fyrir sjálfa sig eftir að hafa búið á Íslandi í 6 ár eða meira, að hún er enn óskrifandi á málinu. Eftir fjölda ára og með háskólagráðu!

Fyrirgefið hvað ég er heimtufrek.

Mér finnst að fólk sem situr á hinu háa alþingi íslendinga eigi að geta ritað og talað íslensku án mikilla hnökra. Ég geri þær kröfur til þeirra sem hafa langskólanám að baki að þeir sýni fordæmi.

Þessi frú er útlendingur. Ég hef ekkert á móti henni sem slíkri. Ég hef hins vegar mjög mikið á móti framlagi hennar til íslenskra stjórnmála og tel að gera þurfi lágmarks kröfur til þeirra sem bjóða sig fram til starfa fyrir þjóðina á hinu háa alþingi. Þessi kona hefur í hendi sér líf fjölda fólks.

Hún getur talað fjálglega um flóttamenn í öðrum löndum á sama tíma og hún vill reka íslenskt þjóðfélag eftir amerískri fyrirmynd.

Ef hún vill breyta amerísku þjóðfélagi gerir hún það ekki með því að umsnúa litla Íslandi. Hún á ekki heldur að fá tækifæri til þess að njóta svívirðilegra launa á meðan hún sveltir örmagna íslendinga sem ekki geta bjargað sér og hafa orðið örorku að bráð.

Svo er það hin Framtíðar frúin sem hefur starfað í bæjarstjórn og sem alþingismaður Á SAMA TÍMA. Konur eru auðvitað kraftaverka kynstofn en þetta er frekar ótrúlegt. Getur þessi kona starfað á þessum  stöðum og uppfyllt 100% vinnuskyldu á báðum? Er það mögulegt?

Ég spyr auðvitað eins og fávís kona, svo ekki sé meira sagt.

Nú er frúin þessi búin að gefast upp á þingstörfunum AF ÞVÍ AÐ ÞINGIÐ KANN EKKI AÐ VINNA ALMENNILEGA.

Einmitt. Þetta er baráttukona í lagi. Hún ætlar þrátt fyrir fjálglegar yfirlýsingar um hvar starfskraftar hennar nýtist best, að sitja á hinu gjörómögulega alþingi fram að áramótum.

Fram að áramótum? Af hverju? Af hverju hættir hún ekki núna? Er ekki til varamaður fyrir frúnna?

Væri ekki meiri barátta fólgin í því að segja ríkisstjórninni stríð á hendur og hætta að styðja hana?

Nei, ég gleymdi því. Það eru líklega nokkrir þúsundkallar í veði og ekki má vesalings þingkonan og bæjarfulltrúinn þurfa að velta fyrir sér krónunum sínum. Svoleiðis er bara fyrir almenning.

Þið tvær, þingkonur Svörtu Framtíðarinnar ættuð að skoða orð ykkar. Skoða aðgerðir ykkar og aðgerðarleysi og kannski komist þið að þeirri niðurstöðu að þið eruð vita gangslausar og hættulegar hinu háa alþingi Íslendinga.

Þið eruð í mínum huga ekkert annað en gráðugar kellingar sem koma óorði á stétt kvenna sem berjast fyrir bættum hag ALLRA á Íslandi.

Ég ætla mér ekki þá dul að þessar græðgis frúr lesi það sem ég er að skrifa og mér er alveg sama. Það gæti þó verið hollt fyrir þær að fara í gegnum skrif mín undanfarnar vikur og mánuði, bæði hér og á Facebook síðum mínum. Þær gætu hugsanlega sofið betur á eftir!

Hulda Björnsdóttir


Mótun stefnu í þjónustu við aldraða til næstu ára !!!!!

24. ágúst 2017

Í kafla 1, Almannatryggingakerfið einfaldað og réttindi aldraðra betur skilgreind, segir:

"Valkostum aldraðra er fjölgað og sveigjanleiki aukinn.  Annars vegar er lagt til að einstaklingar geti hafið lífeyristöku frá 65 ára aldri eða frestað lífeyristöku til 80 ára aldurs. Hins vegar er að einstaklingur geti verið í hlutastarfi og tekið hlutalífeyri. Báðar þessar breytingar gefa fólki nýja möguleika til að skipuleggja líf sitt"

Nú spyr ég: Er það ekki nokkuð seint að fara að taka lífeyri þegar maður er 80 ára? Eru ekki árin eftir 65 eða 67 ára aldurinn til þess njóta þess sem ekki hefur verið hægt að njóta á meðan verið var að koma upp fjölskyldu og börnum? Er ekki kominn tími á þessu aldursskeiði til þess að hvíla lúin bein eftir erfiða vinnu frá unga aldri?

Fyrir hverja er þessi grein hugsuð? Það hlýtur að vera fyrir hina vellauðugu. Þegar fólk er orðið 80 ára er heilsan líklega farin að gefa sig verulega hjá flestum. Tækifærið til þess að njóta einhvers á síðasta skeiði ævinnar er væntanlega flogið framhjá.

Svona tillögur eru of flóknar fyrir höfuðið og heilann í mér, jafnvel þó ég sé bara allvel gefin.

Síðan er þetta sívinsæla umræðuefni hjá sumum: ATVINNUÞÁTTTAKA ELDRI BORGARA.

Hverjir eru það sem endilega vilja halda áfram að vinna fram í rauðann dauðann.? Hvaða fyrirtæki vilja ráða fólk yfir 65 ára í vinnu? Hefur það ekki verið svo á Íslandi að vilji fólk, venjulegt fólk, skipta um vinnu á miðjum aldri kemur það að lokuðum dyrum? Hefur þetta eitthvað breyst núna nýverið?

Mér finnst þetta ákvæði um frestun töku lífeyris til 80 ára aldurs út í hött.

Önnur grein í 1.kafla er líka áhugaverð.

"Tillögurnar miða að því að samræma réttindakerfi almennra lífeyrissjóða og almannatrygginga en það er mikilvægt til að hver einstaklingur geti með einföldum hætti notið réttinda sinna í báðum kerfum"

Einmitt það.

Ekki sé ég að fram komi í þessum tillögum að HÆTT skuli að láta greiðslur úr lífeyrissjóði, spanaði fólks, greiða niður bætur almannatryggingakerfisins. Nefndin leggur til að skerðingar verði aldrei meiri en 45%. Nefndin er semsagt að leggja blessun sína yfir skerðingar. Þessar skerðingar ættu auðvitað að falla niður. Að sjálfsögðu á ekki að láta í einn vasann og taka svo úr hinum til þess að elítan hafi meira fyrir sig.

Þvílíkt bull.

Formaður FEB er nú að hefja viðræður. Hann er að koma "Orð eru til alls fyrst" fyrir hjá nýrri nefnd. Hann er ekki par hrifinn af okkur sem erum ekkert annað en vanþakklætið fyrir áframhaldandi málæði, og heimtum framkvæmdir á loforðum.

Mér er alveg sama, Formaður FEB, hvað þú ert auðtrúa. Mér er hins vegar ekki sama þegar þú selur sál mína og annarra eldri borgara fyrir ekki neitt.

Sálir okkar ættu að vera meira virði í þínum huga. Þær ættu að fá þig til þess að sjá að það er búið að reyna þetta "orð eru til alls fyrst".

Það er búið að reyna þetta oft og mörgum sinnum. Það var nefnd starfandi í 11 ár og afrakstur hennar voru nýju ólögin um Almannatryggingar.

Formaður FEB, hættu nú að svífa sofandi að feigðarósi fyrir okkar hönd. Brettu upp ermarnar og stökktu út í ólgu þess sem fylgir framkvæmdum og fylgdu eftir loforðabréfi Bjarna Ben frá árinu 2013.

Hulda Björnsdóttir

 


Fjármál FEB

23.ágúst 2017

Ég var að skoða ársreikning FEB fyrir árið 2016. Einkum hafði ég áhuga á launakostnaði félagsins.

Þar kemur fram að heildar Laun og launatengd gjöld eru 20.162.474 en voru árið 2015 17.323.009

Kostnaður við félagsstarfsemi hefur lækkað var árið 2016 kr. 23.465.665 en árið 2015 kr. 27.177.528

Svo er annar félagslegur kostnaður sem hefur lækkað var árið 2016 kr. 5.816.676 en árið 2015 6.068.784

Skrifstofukostnaður hefur hækkað um rúmar 2 milljónir

Laun á skrifstofu eru 13.876.345 og hafa lækkað frá árinu 2015 um rúm 311 þúsund

árið 2016 bætist við laun stjórnarformanns 2.924.753 sem gerir kr.243.729. á mánuði fyrir 50 prósent starf

Þá eru bifreiðastyrkir kr. 377.256 sama tala bæði árin

Stöðugildi eru 2,69

Starfandi stjórnarformaður er 0,50 sem sagt í hálfu starfi.

Ef laun á skrifstofu eru 13.876.345 og stöðugildi 2,69 þá fær hvert stöðugildi á mánuði kr. 429.874

Stjórnaformaður er í 50 prósent starfi og væri hann í fullu starfi fengi hann 484.458 krónur á mánuði

Þetta eru brúttó tölur að sjálfsögðu.

Eitt enn. Það er eitthvað sem heitir laun Ásgarður og er upp á 2.158.694 árið 2016 en var 1.820.453 árið 2015

Eitthvað er líka sem heitir Laun ferðalög upp á kr. 145.899 árið 2016 en 321.632 árið 2015, semsagt lægra árið 2016

Einn liður enn er Laun annað sem er 0 árið 2016 en 201.632 árið 2015

Kostnaður við Gráa herinn, annað félagsstarf undir Árskógum er kr.253.376

Allur kostnaður við félagsstarfsemi er kr. 23.465.665 árið 2016 en 27.177.529 árið 2015. Munar þar mestu um kostnað við dansleiki sem var árið 2015 2.294.000 en 0 árið 2016. Inni í kostnaði við félagsstarfsemi eru laun og launatengd gjöld. Launin eru 2.213.694 fyrir árið 2016 og launatengd gjöld 512.221

 

Það er vel þess virði að skoða þessa ársreikninga.

Mér sýnist koma fram að stjórnarformaður fái laun. Af hverju fékk hann þau ekki árið 2015?

Félagið virðist vera vel stætt.

Þeir sem hafa áhuga á ættu að skoða þessa reikninga niður í kjölinn.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Við verðum að láta í okkur heyra !

22.ágúst 2017

Ellert formaður FEB er búinn að selja sál sína.

Við því getum við ekkert gert annað en að láta í okkur heyra.

Við, hinn almenni borgari, sem látum okkur málefni minnihlutahópa í þjóðfélaginu koma okkur við verðum að láta í okkur heyra. Það er borgaraleg skylda okkar.

Nú logar allt í Flokki fólksins, flokki sem kannski voru bundnar vonir við að væri öðruvísi. Ég veit ekkert hvað er rétt og hvað ekki í því máli en finnst þó ömurlegt að þeir sem telja sig vera að vinna að velferð eftirlaunaþega og öryrkja skuli dag eftir dag standa í illdeilum á Facebook. Þeir sem ekki eru ánægðir í flokknum ættu að sjá sóma sinn í því að halda umræðunni innan flokks en ekki reka óhróðurs stefnu á Facebook.

Flokkur fólksins kemur mér ekkert við, ég er ekki kjósandi á Íslandi. Ég er ekki í hópi eldri borgara sem lepja dauðann úr skel. Málefni þessa hóps kemur mér samt við. Ég tel það skildu mína að opna munninn og berjast fyrir bættum kjörum eldri borgara og öryrkja. Uppeldi mitt og líf væri til lítils ef ég sæti og nyti þess sem ég hef og gæfi lítið fyrir hina. Ég var heppin og tók mín mál í mínar hendur fyrir mörgum árum. Ég hafði tækifæri og kjark til þess. Hefði ég verið á Íslandi núna, væri ég að öllum líkindum í hópi fólksins sem hefur ekki í sig og á. Þess vegna meðal annars kemur mér þetta mál við.

Alþingi kemur saman fljótlega. Þá er tækifæri til þess að breyta lögum um almannatryggingar og þarf ekki annað en reglugerð til.

Það þarf ekki að stofna enn eina nefndina.

Það er nú þegar til nefndarálit frá September 2016 þar sem segir meðal annars í kafla 1.

Lífeyriskerfi almannatrygginga er einfaldað til muna með því að sameina grunnlífeyri, tekjutryggingu og framfærslu uppbót í einn lífeyri.

Bundinn er endir á að skerðingar geti verið 100% sem nefnt hefur verið króna á móti krónu. Þess í stað er lagt til að skerðingar verði aldrei meiri en 45% hvort sem um er að ræða lífeyrissjóðstekjur, atvinnutekjur eða fjármagnstekjur og að einstaklingurinn haldi alltaf eftir 55% af tekjum sínum.

Grái herinn er gagnslaus.

FEB er gagnslaust.

LEB er gagnslaust með fyrrverandi formann FEB sem formann landssambandsins.

Hvað er þá hægt að gera?

Jú, hinn almenni eldri borgari og öryrki verða að láta í sér heyra. Nú er kominn tími til þess að hafa hátt. Það er kominn tími til þess að hafa samband við fjölmiðla og upplýsa þá um stöðu þessara hópa. Fjölmiðlar þegja þunnu hljóði vegna þess að við þegjum.

Fjölmiðlar hafa ekki hugmynd um örbirgð eldri borgara. Ég segi þetta því ég neita að trúa því að fréttamönnum sé sama. Það getur ekki verið.

Ef þið þekkið fjölmiðlamenn talið þá við þá. Segið þeim frá. Fáið þá til að taka viðtöl og myndir af þeim sem virkilega eru í neyð. Fáið þá til þess að tala um svik Bjarna Ben og bréfið sem hann sendi eldri borgurum árið 2013. Hjartnæmt bréf sem er ekkert annað en fagurgali fyrir kosningar.

Rísið upp og framkvæmið.

Ég vildi miklu heldur vera að nota tíma minn, sem er að renna sitt skeið, í að skrifa bók um skemmtilegt líf. Ég get ekki annað en haldið áfram að tala eins og rödd í eyðimörkinni, en þannig finnst mér ég stundum vera að hrópa.

Hættið skítkasti í hvert annað og niðurrifi innan pólitískra flokka. Haldiði skítkastinu innan veggja flokkanna og látið rödd ykkar heyrast um málefni sem skipta máli.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Stefnt skal að ..........

19.ágúst 2017

Ef þið sjáið ummæli frá ráðherra þar sem hann segir "stefnt skal að" þá er hann í raun að segja "ég ætla ekki að gera neitt"

Mér finnst alveg með ólíkindum að árið 2017 skuli fólk trúa svona staðhæfingum.

Ráðherra velferðamála er örlátur á "stefnt skal að" ummælum sínum þessa dagana og ekki að furða. Hann sér fram á að stóllinn góði sé að brotna undan honum og líklega þurfi hann og aðrir ráðherrar flokksins að finna sér nýtt starf.

Ráðherra er þó skynsamur maður og þekkir klæki pólitíkusa út og inn, kannski betur en margur annar sem nú situr á alþingi Íslendinga.

Hann veit hvernig slá skal ryki í augu almennings sem þarf að sitja uppi með gjörónýta ríkisstjórn bara af því þessi sami almenningur trúði "stefnt skal að" og kaus vegna þeirra loforða.

Seðlabanki sagði ekki fyrir löngu að gengi krónunnar yrði stöðugt að minnsta kosti þar til 2019.

Hann fullyrti þetta og notaði ekki einu sinni "stefnt skal að". Nú er komið í ljós að þetta var bara til þess að lægja einhverjar öldur sem voru farnar að gára í þjóðfélaginu.

Gengið hefur rokið upp. Bankinn hefur 2svar gripið inn í til þess að koma í veg fyrir spíralinn.

Verðbólguspár eru farnar fyrir bý.

Genginu er handstýrt fyrir fáa og almenningur situr uppi með hærra verð fyrir allar nauðsynjar.

Skilur fólk þetta ?

Nei það held ég ekki.

Ég hélt, þar sem ég á mörg ár í pokahorninu, eins og við segjum í landinu mínu, að gengisfellingar væru liðin tíð. Ég hélt að þær hefðu verið tæki sem Davíð Oddson og fleiri notuðu fyrir elítuna og ég trúði því í einfeldni minni að svona lagað kæmi ekki aftur.

Viti menn, nú er þetta enn ein afturgangan að rísa upp með klærnar útspenntar.

Handónýt ríkisstjórn þar sem forsætisráðherra verður rauður í framan af illsku ef einhver spyr óþægilegra spurninga eru verðlaun síðustu krossa á kosningaseðil landans.

Þjóðin fær það sem hún á skilið !

Hún kaus þetta lið yfir sig og er svo blind og auðtrúa að hún trúir enn þessum dásamlegu orðum "stefnt skal að" og heldur ekki vatni af þakklæti.

Sem betur fer eru einhverjir að átta sig á hvað er í gangi en líklega verður það sama uppi á teningnum, jafnvel þó kosið yrði nú á haustdögum.

Ég held stundum að íslendingum sé ekki sjálfrátt.

Hulda Björnsdóttir

 


Enn ein nefnd - Formaður FEB bregst félögum sínum hrapallega

18.ágúst 2017

Þegar Ellert var kosinn formaður FEB var ég bjartsýn. Hann var lögfræðingur. Hann var fyrirverandi alþingismaður. Hann var íþróttamaður og hann var maður sem barðist fyrir sigri.

Ég hélt uppi vörnum fyrir hann þegar einhver dansdama úr FEB var ekki par hrifin og kauða.

Nú hefur Ellert sýnt sitt rétta eðli.

Hann er grútmáttlaus og barátta hans er hjakk í gömlu fari sem er löngu orðið ófært en hann heldur að hægt sé að komast yfir ófæruna á sléttum dekkjum.

Þvílík einfeldni.

Hann segir á síðu FEB: Tilvitnun er feitletruð og ætla ég að gera athugasemdir innan um í bréfinu og eru þær ekki feitletraðar!

"Í frásögu færandi - frá Ellert B. Schram, formanni FEB

Það er frá því að segja að undirritaður skrifaði þrem ráðherrum (hvers vegna bara 3 ráðherrum? Hvers vegna ekki forsætisráðherra líka? Hann er jú sá sem öllu ræður í þessu stjórnarsamstarfi) í júnímánuði, tölvubréf, þar sem talin voru upp þau viðfangsefni sem snéru að eldri borgurum og óskað eftir samtali við stjórnvöld um viðbrögð og lausnir og meðferð þeirra vandamál sem við okkur blasa. Að minnsta kosti að okkar mati.

Frítekjumarkið, skerðingarnar, skattamál hinna lágt settu, hjúkrunarrými, heimaþjónustu, framkvæmdasjóð aldraðra, tannlækningar, samanburð við norræn kerfi o.s.frv. (Hér hefði ég viljað sjá bréfið í heild sinni en ekki bara og svo framvegis. Hvers vegna birtir Ellert ekki allt bréfið?)

Tíminn leið, sumarleyfi hófust og satt að segja var ég farinn að halda að þessar athugasemdir mínar og tillögur um samræður okkar í milli hefðu týnst í hinu bírókratíska kerfi. En svo gerðist það, sem ég átti satt að segja ekki von á, að ég var boðaður á fund þriggja ráðherra í síðustu viku (sjá meðfylgjandi mynd) og þar var að lokum samþykkt að skipa nefnd (að lokum samþykkt að skipa nefnd. Var það erfitt mál? Séð hef ég haft eftir talsmanni FEB að 3 úr þessari nefnd verði frá FEB. Virkilega. Þarf FEB að kynna sér þessi mál? Veit félagið ekki hvernig staða eftirlaunþega á Íslandi er?) , sex manns, sem skal fara yfir kvörtunarmálin (kvörtunarmálin! erum við bara kvartarar í augum formannsins? Veit hann ekki að þetta eru ekki kvörtunarmál, þetta er ástand sem ríkir í þjóðfélaginu?) og stöðuna og skila frá sér nefndaráliti, ekki seinna en fyrir næstu áramót (Skila nefndaráliti? Til hvers? Það er til nefndarálit nú þegar og úttekt hjá Velferðarráðuneytinu. Veit formaður FEB ekki um það? Ekki seinna en fyrir næstu áramót á álitið að liggja fyrir. Það liggur fyrir yfirlýsing frá Þorsteini velferðarráðherra að ekkert verði hægt að gera því búið sé að negla niður fjárhagsáætlun og svigrúm sé ekki til staðar fyrir bætt kjör þessa hóps. Veit formaður FEB ekki um þetta? Fylgist hann ekki með fréttum?).

Ég er þakklátur ráðherrunum. Ég bind vonir við starf slíkrar nefndar, þótt ekki sé til annars en að ræða og meta þau klögumál (Ræða og meta þau KLÖGUMÁL..... KLÖGUMÁL er það mat formannsins að ástand sem ríkir í þjóðfélaginu í þessum málaflokki séu bara KLÖGUMÁL eins og hjá óþægum krakka?) , sem hafa verið efst á baugi af hálfu okkar, okkar, sem reynum að standa vörð um hagsmuni eldri borgara (Klögumálin sem hafa verið efst á baugi......ég gæti ælt, þetta er svo yfirgengilegur málflutningur af hálfu formanns FEB). Þetta er samtalið sem ég hef beðið um. Þetta eru vinnubrögðin sem kallað er eftir af okkar hálfu, þeirra sem hafa það hlutverk að gæta hagsmuna og stöðu eldri borgara. (Þetta eru vinnubrögð sem eiga ekki rétt á sér herra formaður FEB. Það sem þú ert að gera er að leyfa ráðherrum, sem eru með allt á hælunum og eygja ekki von um endurkjör í nýjum kosningum, að troða túttu upp í þig til þess að fá þig til þess að þegja. Það vita allir að mál sett í nefnd verður aldrei neitt annað en laun nefndarmanna og enn eitt ómerkilegt álit sem enginn tekur mark á. Hvað heldur þú að nefnd hafi verið að fúska í 10 ár? Nefnd sem bjó til hin nýju lög um Almannatryggingar? )

Þetta er spor í rétta átt. (Ellert Schram formaður FEB. Þetta er ekki spor í rétta átt. Þetta er spor 10 ár aftur í tímann. Þetta er spor sem þú ættir að skammast þín fyrir að hafa tekið. Þetta eru hrein svik við alla þá 11 þúsund eldri borgara sem þú ert í forsvari fyrir. Þetta spor er það sem þú átt að sjá sóma þinn í að segja skilið við. Þetta spor gerir þig óhæfan sem formann eldri borgara. Látum á þetta reyna. (Þú Formaður FEB hefur ekki rétt til þess að láta reyna á svona svik. Á meðan þú lepur faguryrði úr hendi 3ja ráðherra sem kannski ætla að STEFNA AÐ einhverju þegar þeir eru orðnir fullorðnir, sveltir stór hópur umbjóðenda þinna. Á meðan rjóminn lekur í vasa þeirra 3ja fulltrúa FEB sem koma til með að sitja í þessari handónýtu nefnd, á stór hluti umbjóðenda þinna ekki fyrir lækniskostnaði, þeir eiga ekki húsaskjól, þeir sjá þann kost einan að svipta sig lífi. Það er þeirra rjómi en þú skilur auðvitað ekki svona KLÖGUMÁL eldri borgara landsins) .  

Kv.

Ellert B.Schram

Formaður FEB 

Þannig lýkur hinu merka "Í frásögu færandi" frá nýjum formanni FEB

Ég er ekki par hrifin. Ég er sár og reið fyrir hönd þeirra sem berjast í bökkum og reyna að halda út mánuðinn jafnvel þó ekki sé til matur í húsinu.

Hulda Björnsdóttir


Ný framboð eru ekki leið til bættra kjara á Íslandi

15.ágúst 2017

Það er langt frá því að ég ætli að halda með einum stjórnmálaflokki á Íslandi fremur en öðrum. Þetta er ábyggilega allt ágætis fólk og fullt af eldmóði og skarar ekki að eigin köku.

Mér hnykkti hins vegar við að sjá ummæli sem gætu vel verið fyrirboði þess að enn eitt nýtt klofnings framboð sé í uppsiglingu, ofan á öll hin.

Ágreiningur inna flokka á ekki að vera fjölmiðla- eða Facebook matur. Hafi fólk raunverulegan áhuga og metnað til þess að bæta kjör þeirra sem eru undir á landinu þá gerir það upp ágreining innan þeirra flokka sem það starfar.

Ekki finnst mér trúlegt að klofnings framboð séu til góðs. Þau benda til valdagræðgi, það er mín skoðun.

Á íslandi eru til nógu margir flokkar. Það sem vantar á landinu er fólk sem skilur þjóðfélagið og er til í að berjast fyrir bættum kjörum fyrir alla.

Það vantar samstöðu og ein leið er að fækka þessum örframboðum sem ekki gera annað en dreifa atkvæðum sem detta svo niður dauð.

Man einhver eftir forsetaframbjóðanda sem bauð sig fram aftur og aftur, og fékk nokkur atkvæði?

Góðærið er liðið. Kreppan er framundan. Það er bara þannig og sama hvernig hamast er með að meðal laun séu yfir 700 þúsund á mánuði.

Börn fara í rúmið á kvöldin án þess að fá fylli sína af einföldum mat.

Fólk hefur ekki húsaskjól og nú er veturinn á næsta leyti.

Sjálfsmorðum fjölgar.

Heilsugæslan er í molum.

Geðheilsa manna hrynur í svona ástandi og eina leiðin út er að svipta sig lífi. Það má ekki tala um þetta. Ætli velferðaráðherrann geðþekki viti þetta?

Baráttuhópar eins og Grái herinn eru sótsvört af pólitík og samstaða er eitthvað einkennileg orð sem þau skilja ekki. Enn heldur sumt fólk í vonina og lætur sig dreyma um að herinn geri eitthvað. Ég er löngu búin að missa þá trú.

Verkalýðsfélögin bregðast, LEB bregst, FEB með yfir 11.000 félagsmenn gengur við staf og hugsar. FEB lifir líklega á fortíðardraumum og rígheldur í þá. Það er svo gott að horfa aftur á bak og sjá hvað allt var gott í fyrndinni og hvað það væri nú gaman að geta fært fortíðina fögru með öllum fyrirheitunum til nútímans.

Það er svo gott og notalegt, nú þegar skammdegið fer í hönd, að sitja í ruggustól og hugsa um hvernig hægt væri að fara í mál við andskotann og leiðrétta allt sem hefur misstigið sig hér áður fyrr.

Hugsjónir verkaklíðsforystu sem setti á laggirnar lögbundinn lífeyris sparnað voru svo krúttlegar og mikið væri nú gott að þær kæmu aftur inn í líf okkar.

Já, við skulum hugsa um, hugleiða, safna gögnum, skoða gögn, tala við foringja fyrri tíma, finna út hvar þetta fór allt út af sporinu.

Fínar hugmyndir verða jú ekki til af engu. Þær þarf að hugsa um og hugleiða þangað til allir sem komu að málum í denn eru farnir ofan í moldina og ekkert hægt að sækja til þeirra lengur nema kannski með aðstoð miðla.

Eftir hverju er verið að bíða?

Hvað stendur í vegi fyrir því að heimildasöfnun hefjist núna. Nákvæmlega NÚNA?

Hvar er baráttan?

Hvar er viljinn?

Hvar er sannleikurinn? Er hann kannski að þetta sé svo mikil vinna að fólk sem blaðrar og blaðrar endalaust um hvað það séu miklir hugsuðir, nenni ekki að setjast niður og vinna vinnuna?

Hugsanir tala ekki og þær vinna ekki, þær safna ekki gögnum. Þær eru gagnslausar með öllu og það fæst ekki matur í maga svangra barna fyrir þær, eða húsaskjól fyrir tjaldbúa.

Ný framboð leysa ekkert.

Ný framboð eru ekkert annað en afsökun og undansláttur svo ekki þurfi að vinna fyrir þá sem eru svangir eða búa á götunni.

VAKNIÐI NÚ AF ÞYRNIRÓSARSVEFNI YKKAR OG BRETTIÐ UPP ERMARNAR MEÐ SAMSTÖÐU EN EKKI SUNDRUNGU OG VALDFÝSN.

Hulda Björnsdóttir

 

 


Nú fer ég fram á að LEB og FEB taki til hendinni og berjist fyrir bættum kjörum eldri borgara

14.ágúst 2017

Nú heimta ég að LEB og FEB bretti upp ermarnar. Taki til hendinni og sjái til þess að kjör eldri borgara séu leiðrétt ekki seinna en í dag.

Svo heimta ég líka að þessi félagsskapur hætti að láta flokks skírteini stjórna gjörðum sínum.

Einnig er ég að heimta að ekki seinna en í dag fari þessi samtök að sína í verki að þau séu ekki grútmáttlaus apparöt sem geta ekkert annað en talað og hugsað en séu alveg vita vonlaus þegar kemur að framkvæmdum.

Innan þessara samtaka og í stjórn eru handhafar hinnar íslensku fálkaorðu.

Fálkaorðan er ekki veitt þeim sem ekkert gera annað en tala. Eða er það?

Getur það kannski verið að einhverjir vinir og vandamenn geti bent orðunefnd á vænlega þiggjendur og nefndin nenni svo ekki að skoða málið niður í kjölinn?

Ég veit ekkert hvaða reglur gilda við svona veitingar og hreinlega nenni ekki að kynna mér það.

Ég heimta bara að þeir sem eiga svona orður í fórum sínum sinni málum sem þeim var veitt orðan fyrir og hætti að þykjast vera að gera eitthvað.

Ég heimta að farið verði á fund allra flokka, allra þingmanna, allra ráðherra, allra ráðuneytis stjóra og þeir kynntir fyrir fólki sem á ekki í sig og á.

Ég heimta að þetta sé gert ekki seinna en í dag.

Það er ekki eftir neinu að bíða. Það er búið að skrifa nóg. Það er skrifað á hverjum einasta degi um að ríkisstjórnin hafi svikið þetta og hitt. Það er skrifað á hverjum degi um hvað ríkisstjórninni beri að gera strax. Leiðrétta kjör eldri borgara. Fara í mál við ríkið. Heimta til baka frá upphafi það sem ríkið hefur tekið af sparnaði í lífeyrissjóði.

Það er skrifað fjálglega um að þessi félög hyggi á málaferli. Telji að málaferli séu æskileg. Telji að rétt væri að fara í mál við ríkið og svo framvegis og framvegis.

Ég heimta að nú verði hætt að skrifa og skrifa en í staðinn komi framkvæmdir. Ég heimta að upp séu settir strigaskór og útigalli svo veður hamli ekki framkvæmdum. Ég heimta að forsvarsmenn hers og landgönguliða hætti að heimta og fari að sýna frumkvæði. Það geta allir hugsað en ekki eru allir í formannsstöðum fyrir félagsskap með þúsundir manna innanborðs.

Ég heimta ekki meira en það sem er sanngjarnt af þeim sem hafa verið kosnir til þess að koma fram fyrir hönd þúsunda eldri borgara. Ég heimta að þetta forystu fólk VAKNI og leggist ekki til hvílu fyrr en árangur hefur náðst.

Hulda Björnsdóttir

 


Ofgreiðsla Tryggingastofnunar !

12.ágúst 2017

Björgvin Guðmundsson skrifar um að margir hafi haft samband við hann vegna endurgreiðslu kröfu frá TR.

Ég hef séð eitt og annað frá þeim sem voru krafðir um endurgreiðslu. Sumir um háar fjárhæðir og aðrir um lægri upphæðir.

Það er í flestum tilfellum hægt að koma í veg fyrir svona kröfur.

Á vef TR er hægt að breyta tekjuáætlun hvenær sem er og leiðrétta sé hún of lág eða of há.

Ég fékk endurgreiðslu kröfu upp á rúmar 6 þúsund krónur. Ástæða þess er að tekjuáætlun VR var of lág. Það var mér að kenna og engum öðrum.

Auðvitað eru 6 þúsund krónur engin ósköp og ég borga þetta þegar krafa kemur.

Hins vegar gæti verið að margir geri sér ekki grein fyrir því hvernig kerfið virkar og þar gætu til dæmis Félög eldri borgara veitt ráðgjöf. Ég veit auðvitað ekkert til hvers þessi félög eru en finnst þetta einhvern vegin rökrétt, þ.e. að þau leiðbeindu félagsmönnum sínum um ranghala kerfisins, sem eru þó nokkrir.

Það þýðir lítið að öskra að nú skuli Tryggingastofnun hætta að krefja fólk um að skila ofgreiðslum. Stofnunin reiknar út samkvæmt reglum. Þessar reglur eru aðgengilegar fyrir alla.

Ég heimta að þetta og hitt sé leiðrétt og það strax en rökstuðningur er enginn. Er þetta nú gáfulegt og málstaðnum til framdráttar?

Auðvitað er það ekki gott að fá bakreikninga upp á háar upphæðir. Fólk er líklega búið að eyða peningunum og á ekki varasjóð. Þó finnst mér einhvern vegin að þeir sem eru með háar fjármagnstekjur hljóti að eiga eitthvað afgangs.

Félag eldri borgara í Reykjavík er með 11.000 félagsmenn. Getur það félag ekki veitt upplýsingar og ráðgjöf svo fólk sitji ekki í súpunni ári eftir að það hefur fengið greitt frá TR?

Hvað með Landssamband eldri borgara? Er því ekki stjórnað nú af hinni frábæru frú sem hefur svo gífurlega reynslu og þekkingu á málefnum sem snerta eldri borgara og kjör þeirra? Getur frúin ekki sett upp upplýsinga vef?

Andstyggilegt auðvitað af mér að láta svona en hafi maður gagnrýnt gengdarlaust einhvers stjórnanda eða formann og sest svo sjálfur í sætið þá hlýtur allt að breytast til batnaðar. Ekki satt?

Hulda Björnsdóttir


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband