Barnaverndarnefndir - fyrir hverja vinna þær?

29. júlí 2017

Ég las um unga móður sem er húsnæðislaus og úrræði yfirvalda er að taka af henni börnin og koma þeim í fóstur.

Ég velti því fyrir mér hvers konar lausn þetta er og fyrir hverja er verið að vinna.

Eru barnaverndarnefndir og félagsmála apparöt að sinna þörfum barna og bera þessar stéttir hag fjölskyldna fyrir brjósti?

Svona nefndir eru kjörnar pólitískt, held ég. Ef það er rangt getur einhver leiðrétt mig.

Eru pólitíkusar með sérmenntun í málefnum barna og fjölskyldna?

Eru núverandi nefndir sambærilegar við hið "frábæra" Alþingi íslendinga og þeirra sem þar starfa í umboði þjóðarinnar?

Árið 2017 ætti enginn á Íslandi að þurfa að leita til þessa viðurstyggilega apparats, sem barnaverndarnefndir eru oftar en ekki, vegna húsnæðisskorts.

Eru til tölur um það hve mörgum fjölskyldum hefur verið hjálpað í gegnum barnaverndarnefndir og hve margar fjölskyldur hafa verið lagðar í rúst með aðgerðum þessa fólks?

Það væri fróðlegt og líklega mjög gagnlegt að einhver tæki að sér að skoða þessi mál niður í kjölinn.

Móðir sem hefur misst húsnæði sitt og leitar til félagsmálayfirvalda á ekki að standa frammi fyrir því að lausnin sé að splundra fjölskyldunni.

Lausnin á auðvitað að vera hjálp til þess að fjölskyldan geti áfram verið saman og að börnin fái að alast upp hjá móðurinni en ekki vandalausum.

Kerfiskallar og kellingar með slepjulegan helgisvip í svona nefndum ættu að vera við önnur störf. Helgislepjan sameinar ekki. Hún þjónar ekki hagsmunum eða velferð skjólstæðinganna. Hún rífur á hol og eyðileggur líf fólks.

Hvað gerist þegar búið er að tvístra fjölskyldunni og koma börnum konunnar sem missti húsnæðið fyrir hjá vandalausum?

Verða börnin yfir sig hamingjusöm?

Hvað verður um móðurina? Verður hún kannski öryrki vegna þess hvernig komið er fram við hana? Kemur þjóðfélagið til með að kosta uppihald barnanna hjá fósturfjölskyldu og örorkubætur til móðurinnar vegna hugsýki?

Hvaða vit er í því að fara svona með lifandi verur sem leggja allt í sölurnar til þess að sjá börnum sínum farborða?

Það ættu líklega að vera til nefndir á vegum bæjarfélaga sem vernda ekki bara börn, það ættu að vera til nefndir sem vernda foreldra fyrir þeim sem gefa sig út fyrir að vera með hag barnanna efst á blaði.

Félagsmálastofnanir geta verið ágætar og ráðgjafar þar líka. Oft á tíðum eru þó þessar stofnanir mjög einkennilegar svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

Í gegnum áratugina höfum við lesið um ótal mál í blöðum þar sem fjölskyldur hafa verið brotnar í spað vegna annarlegra viðhorfa þeirra sem gefa sig út fyrir að hafa hag fjölskyldunnar í fyrirrúmi.

Sum bæjarfélög eru verri en önnur.

Auðvitað má ekki halla á þessi pólitísku apparöt. Þau eru heilög og þeir sem leyfa sér að gagnrýna eru geðveikir.

Ég vona svo sannarlega að unga konan fái húsnæði og fjölskyldan hennar geti haldið áfram að vera saman.

Árið 2017 á sundrungarlausn ekki að vera til, ekki einu sinni í auðugu hugarflugi "verndar apparatanna".

Hulda Björnsdóttir

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband