Einkennilegar kannanir - er það ?

24.júlí 2017

Meðallaun íslendinga yfir 700 þúsund!

Ha?

Já, ekki ljúga kannanir eða rannsóknir eða niðurstöður alls þessa.

Einhver ágætur spekingur fann upp kannanatækið og óprúttnir stjórnmálamenn nota það óspart til þess að styðja bull málflutning sinn.

Nú er velferðaráðherrann ábyggilega sæll og glaður í sumarfríinu sínu. Allt svo dásamlegt á landinu góða og þeir sem kvarta eru rugludallar.

Nenni ég eina ferðina enn að velta mér upp úr ástandinu?

Já, ég held það.

Ég las þessa frétt fyrst á síðu sem heitir Lifðu núna og fjallar um ágæti þess að verða gamall á Íslandi. Ekki veit ég hver sér um þessa síðu eða hvaðan hún kemur en þetta mál gekk endanlega fram af mér.

Ég gerðist svo djörf að setja inn comment og segja "Bullfrétt"

Fékk strax 3 eða 4 comment með myndum af fyrirbærinu, þ.e. könnuninni og niðurstöðum.

Ég verð að segja að mér finnst dálítið ankannalegt að fólk sem gefur sig út fyrir að bera hag eldri borgara fyrir brjósti taki svona bullkannanir og dreifi þeim eins og heilögum sannleika.

Ég ætla ekkert að segja neitt um það hvort þessi síða tengist á einn eða annan hátt hinum ágætu hermönnum. Ég veit ekkert um það og kæri mig ekki um að fara með mjög rangt mál.

Vilji fólk skoða hver meðallaun eru á Íslandi þá er hægt að fara inn á TR.is og athuga þar hverjar tekjur þeirra sem lifa af eftirlaunum eða örorkubótum frá stofnunni eru og reyna að finna 700.000 krónur sem mánaðarlaun. Felumyndir geta verið góð dægradvöl og finni einhver svona tölur á síðum stofnunarinnar þætti mér vænt um að þær kæmu hér í athugasemdum svo ég gæti séð þær.

Það var viðtal við Ingu Sæland og Guðmund hjá Þorgeiri Ástvaldssyni þar sem þau fóru aðeins yfir bullkönnunina. Ég hvet alla til þess að hlusta á þetta viðtal og ekki síður að lesa það sem frummælendur á Sumarþinginu höfðu fram að færa.

Ef meðallaun á Íslandi væru yfir 700 þúsund á mánuði þá hefði fólkið sem mætti á Sumarþingið þann 15. júlí árið 2017 í Háskólabíói ekki verið þar.

Nei, það hefði verið í útlöndum eða ferðast um fjöll og firnindi á Íslandi og alls ekki tekið þennan laugardag til þess að sækja fund um fátækt á landinu. Það má alveg halda því til haga að fólk kom af öllu landinu á fundinn. Þetta var ekki bara Reykjavíkur væluhópur. Nei, þetta var alls konar fólk úr öllum stéttum sem lætur sig varða kjör þeirra sem draga fram lífið á tekjum langt undir meðaltölum.

Ekki veit ég hvernig á að fara að því að vekja alþingismenn af þyrnirósar svefninum.

Hafi einhver góðar hugmyndir þá skuluð þið ekki liggja á þeim.

Hér er um líf og dauða að tefla. Ekkert minna en það. Auðvitað má ekki tala svona en staðreyndin er samt þessi.

Hulda Björnsdóttir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

"Meðaltal" sem slíkt segir manni ekki nokkurn skapaðan hlut, sem dæmi er hægt að taka það, að ef maður er með annan fótinn í fötu með sjóðandi heitu vatni og hinn fótinn í fötu með ísvatni, þá hefur hann það EKKI AÐ "MEÐALTALI" ágætt.  Það er sagt að það séu til þrjár tegundir af LYGI það er LYGI, HAUGALYGI og TÖLFRÆÐI.

Jóhann Elíasson, 24.7.2017 kl. 08:58

2 Smámynd: Hulda Björnsdóttir

Jóhann,

Einmitt meðaltöl eru ekkert annað en blekking.

Það þarf að taka hálaunahópana út úr dæminu og þá kemur raunveruleg tala kannski út.

Kv.Hulda

Hulda Björnsdóttir, 25.7.2017 kl. 13:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband