Ronaldo, hvað er að gerast hjá þér kæri vinur !!!

20.maí 2017

Þar sem ég bý í Portúgal tek ég ægilega mikið nærri mér þegar eitthvað fer úrskeiðis hjá landanum.

Núna er auðvitað allt mögulegt til þess að gleðja mig.

Við unnum júróvision með lagi sem mér finnst frekar einkennilega líkt einu Disney lagi en það er nú bara misskilningur minn.

Ég held að söngvarinn, sem allar kellingar á Íslandi liggja flatar fyrir, sé lagður af stað til þess að hitta þingheim. Auðvitað er þetta kvikindislegt hjá mér með "allar kellingar". Fyrirgefið mér en þetta passar eitthvað svo vel inn í stílinn en ég veit að ég á ekki að láta svona.

Svo kom Páfinn og heimsótti okkur og tók í dýrðlingatölu eitt af börnunum sem fékk vitrunina í Fatima forðum. Allt fór vel þar og hann flaug meira að segja yfir bæinn minn.

Síðan er Madonna að skoða hús í Lissabon og verður ekki amalegt að fá stjörnuna í hóp landans. Fólk er eitthvað að kvarta yfir því að hún sé ekki að kaupa í sama verðflokki og það ! Þetta eru auðvitað bara öfundsjúkir Bretar sem láta svona og enginn hlustar á rausið í þeim.

Já, og við unnum fótboltaleikinn. Ég meina sko Benfica vann. Ég var ekkert þar viðriðin. Horfði bara á leikinn og nennti ekki meiru þegar 4 mörk voru komin, enda óþarfi, nágranninn æpti svo hátt að ég vissi um síðasta markið. Ég kann ekkert á fótbolta en mér finnst gaman að horfa á hann, stundum. Strákarnir eru svo flottir, miklu flottari en flestir þeir sem ég hef fyrir augunum dags daglega. Auðvitað eru undanteknir, til dæmis vinir mínir í ræktinni og svo auðvitað fallegu læknarnir mínir, sem gleðja auga mitt ekki síður en að halda mér gangandi þrátt fyrir eitt og annað sem líkaminn kveinar yfir að sé ekki í lagi.

Fyrst ég er að tala um fótbolta þá get ég ekki annað en minnst á blessaðan gull drenginn. Nú er hann líklega að verða frægur að endemum, (segir maður af endemum eða að, ég er hreint ekki viss) eina ferðina hann. Hann er nefnilega að verða uppvís að því að hafa ekki greitt ALVEG það sem keisaranum bar. Ekki ALVEG!

Æi, mér finnst þetta svo mikil lákúra hjá fjölmiðlum hérna í landinu. Geta þeir ekki látið blessaðan drenginn í friði? Og nú fer hann kannski að gráta enn meira. Ég þoli ekki svona kvikindis skap. Það á ekkert að vera að væla yfir því þó hann sé ekki að eyða miklu í einhverja hít til samfélagsins. Blessaður drengurinn bjargar öllu. Gefur til þeirra sem hafa kveikt í og hjálpar þeim sem þurfa að fara í flott föt. Svo er hann svo ægilega sætur þessi elska. Hann er sko almennilegt krútt í skál skal ég segja ykkur kæru íslensku vinkonur.

Ég get auðvitað ekkert gert til þess að hjálpa krúttinu. Ég er bara útlendingur og hef ekkert að segja en það kremur hjarta mitt að sjá myndir af honum öllum útgrátnum og bólgnum í andlitinu bara út af einhverjum smáaurum.

Elsku drengurinn ætti bara að bregða sér til Bandaríkjanna og tala við krakkana hans Trump. Þau vita hvernig á að gera þetta og af því að Trump er ekki heima núna þá gæti hann talað við krakkana. Líklega getur hann ekki beðið eftir því að Trump komi heim og ekki fer hann að elta hann til Arabalanda, eða hvað.

Svo er þetta líka svo hallærislegt hvernig einhverjir lögmenn láta við aumingja Trump og nú á að fara að skoða hvort hann sé almennilegur glæpamaður. Sko, mér finnst þetta nú full langt gengið og eiginlega bara einelti á aumingja Trumpinn. Hann svaf ekkert, eða sama og ekkert á leiðinni til Arabíu. Líklega hafa áhyggjurnar verið að buga hann. Svo leiðinlegt og eiginlega andstyggilegt þó að hann hafi pissað aðeins utan í flotta Rússana og að einhver FBI maður sé að skipta sér af því sem honum kemur ekkert við er auðvitað ekki hægt.

Hvað er eiginlega að fólki í þessu blessaða bandaríkjalandi!

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 


Verð á Íslandi, nei ég verð ekki á Íslandi, ég er að tala um verðlagningu!

20.maí 2017

Verðlag á Íslandi er mikið í umræðunni núna. Stórverslanir eru að koma til landsins og fólk að uppgötva að verðið hjá þeim (stórmörkuðunum) er hærra en erlendis.

Ekki er hægt að kenna hækkun í hafi um allan muninn.

Hvað er þetta þá?

Eru þeir sem selja íslendingum svona illa innrættir að þeir leggja meira á vörur til Íslands en sumra annarra landa?

Halló!

Hafið þið heyrt um framboð og eftirspurn?

Eða kannski stærð markaðar?

Ef þið væruð að selja vöru til Kína á risamarkað þar og svo sömu vöruna til Íslands, mundi vera sama verð á báðum stöðum?

Ef þið selduð vöru til Portúgal þar sem milljónir búa og svo sömu vöruna til Íslands sem er með rúm þrjúhundruð þúsund íbúa, væri þá sama verð í báðum löndum?

Finndist ykkur það sanngjarnt ef þið setjið ykkur í spor seljandans? Ég bara segi svona.

Ég skil þetta aldrei, þennan einkennilega samanburð við verð erlendis hjá milljóna þjóðum og svo pínulitla þjóð með örfáa íbúa.

Nú verður auðvitað allt vitlaust og ég líklega kaffærð í athugasemdum um að ég hafi ekki hundsvit á þessu og eigi bara að halda mér á mottunni og ekki að þykjast vera sérfræðingur í þessu.

Hah,

Ég er ekki sérfræðingur og held því ekki fram. Ég er hins vegar sæmilega greind og mér finnst framboð og eftirspurn ásamt stærð markaðar hafa hér áhrif.

Ef þeim sem alltaf vita best og eru sérfræðingar í ÖLLU finnst ég fara út fyrir rammann þá verður bara að hafa það.

Ég veit til dæmis, vegna reynslu, að verð í Svíþjóð á ákveðnum vörum er hærra á Íslandi vegna þess að markaðurinn er smærri.

Ég veit líka, vegna reynslu, að verð t.d. á vörum sem eru framleiddar í Sviss er hærra á Íslandi en til dæmis í Noregi, bara vegna stærðar markaðarins.

Mér finnst þetta svo augljóst að ég ætla ekkert að reyna að réttlæta þessa skoðun mína.

Ef sérfræðingarnir, hinir sjálfskipuðu, setja sig í spor framleiðanda eða seljanda þá gætu þeir hugsanlega orðið sammála mér !

Hulda Björnsdóttir

 

 


Er rétt að flokka fólk niður og setja það í kassa ?

18, maí 2017

Mikið hefur verið rætt um sjálfsvíg bæði öryrkja og eftirlaunaþega og bent á hin ótrúlega bágu kjör sem þessir hópar búa við. Stundum kemur það fólki á óvart að það sé til fólk sem á ekki fyrir mat nema hluta úr mánuðinum. Stundum vekur það óhug hjá sumum að horfa fram á það líf sem lýst er og ætti eiginlega bara að vera í skáldsögum en ekki í raunveruleika árið 2017 á Íslandi.

Fólk fyllist samúð og velvild þegar það les fréttir, svolítið í æsifrétta stíl, um að einhver hafi ekki þolað ástandið lengur og gripið til þess örþrifaráðs að svipta sig lífi.

Það eru því miður þó nokkuð margir, bæði eftirlaunaþegar og öryrkjar sem sjá ekki tilganginn í því að svelta lengur.

Sársaukinn hefur tekið völdin.

Vonleysið er algjört.

Það er ekkert eftir.

Eina sem eftir er af lífinu hjá þessu fólki er dauðinn.

Hann lætur oft bíða eftir sér og þá grípur örvæntingin í taumana og hendir sér fram af svölum, ekur út af bjargbrúninni, fleygir sér í höfnina eða tekur inn lyf til að losna undan okinu.

Það má ekki tala um þetta. Alla vega ekki upphátt.

Í gær fékk ég fréttir um líkamlegt ástand mitt og framhald þess. Ég er heppin. Ég get tekist á við það sem er framundan og ég er sterk. Ég bý með fólki sem er bjartsýnt og ber mig áfram á örmum þreks og vinnu. Ég hef gott heilbrigðiskerfi sem hugsar vel um fólk eins og mig. Allt þetta gefur lífi mínu tilgang þrátt fyrir andstreymi.

Eitt af því sem læknirinn minn sagði við mig þegar við ræddum um framhaldið mitt á þriðjudaginn var þetta:

Hún sagðist vera á þeirri skoðun að þeir sem vildu til dæmis endalaust halda áfram í sjúkraþjálfun væru þeir sem ekki vildu læknast. Þeir vildu halda áfram að vera innan um veikt fólk svo þeir gætu nært eigin krankleika.

Hins vegar sagðist hún sjá að þeir sem vildu fara út í lífið og hætta að treysta á sjúkraþjálfara til þess að halda þeim gangandi, væri fólkið sem nær undantekningalaust næði bata, eða svo miklum bata sem hægt væri.

Ég var hugsi og mér datt í hug hvernig fólk er flokkað niður á Íslandi og sett í kassa.

Öryrkjar eru settir í bás í Hátúni. Bara öryrkjar og engir heilbrigðir búa þar.

Fátækt fólk er látið í blokkir þar sem bara búa fátækir en engir ríkir.

Gamalt fólk er sett í hús fyrir gamalmenni, þar búa engir af yngri kynslóðinni.

Svona flokkun gerir það að verkum að fólk kemst ekki út úr þeim gildrum sem það hefur fest sig í.

Í staðinn ætti að blanda fólki saman. Öllum stéttum hvort sem þær eru ríkar eða fátækar og sjúklingar eða heilbrigðir. Ef það væri gert held ég að margt yrði öðruvísi.

Sjúklingarnir hættu að tala eingöngu um veikindin. Þeir færu að taka þátt í eðlilegu lífi.

Gamla fólkið hætti að vera einangrað sitjandi úti í horni í stól og bíða eftir því að dagurinn liði.

Öryrkjarnir kæmust inn í líf lifenda í stað þess að horfa alla daga upp á fólk sem er jafnvel enn verr statt.

Ég er þeirrar skoðunar að það drepi fólk að setja það í kassa. Það drepur niður allan lífsvilja að velta sér endalaust upp úr því hver er veikastur. Það vekur upp lífsviljann að hafa bjartsýnt fólk í umhverfinu, fólk sem er bara venjulegt fólk með fulla heilsu. Það vekur upp löngunina til þess að taka þátt í þessu eðlilega lífi.

Gamla fólkið er hafsjór af fróðleik og sögum. Að sitja við rúmstokk eða á stól við hlið eldri manns eða konu og hlusta á sögur er eitthvað það unaðslegasta sem ég get hugsað mér. Í morgun sat ég við hliða einnar slíkrar. Hún er 89 ára og var að fræða mig um hvernig Portúgal hafði verið í hennar ungdæmi. Hún naut þess að hafa einhvern sem gaf sér tíma til að hlusta á hana og ég var alsæl með aukna þekkingu á rótum nýju þjóðarinnar minnar. Þegar við kvöddumst og ég kyssti hana ætlaði hún aldrei að sleppa mér. Ég sé hana aftur á morgun og mánudaginn en svo skilja leiðir okkar. Hún heldur áfram í sjúkraþjálfuninni og ég held út í lífið. Þessi gamla kona er heppin, hún býr hjá syni sínum, sem kemur með hana á hverjum degi til Covoes svo hægt sé að létta henni lífið örlítið.

Ég er heppin að hafa fengið að kynnast henni og syninum. Þau eru gott dæmi um hvað það er rangt að setja fólk í kassa og flokka það niður.  Þau eru dæmið um hvernig kynslóðir búa saman og njóta nærveru í stað þess að einangrast í einmanaleika og sorg.

Hulda Björnsdóttir


Óþolandi umræða - stórhættuleg og viðbjóðsleg.

17. maí 2017

Það hefur þykknað í mér smátt og smátt í nokkrar vikur. Ég hef verið að reyna að finna leið til þess að vekja athygli á kjörum eldri borgara og öryrkja á Íslandi. Mér finnst ástandið svo hrikalegt að það verði að gera eitthvað annað en tala og skrifa um málið. Ég veit ekki hvað er hægt að gera á meðan stjórnvöld komast upp með niðurskurð á niðurskurð ofan til þessara hópa.

Margir hafa skoðun á málinu, sumir tjá sig um það á netmiðlunum og aðrir rausa ofan í kaffibollann.

Ég ríf mig og skammast með því að blogga og stundum set ég eitthvað inn á Facebook síðuna mína. Oft á tíðum síður á mér og ég gæti hæglega dottið niður í umræðustíl sem er allt of algengur.

Ég hef rifist við starfsmann Tryggingastofnunar ríkisins, oftar en einu sinni, og æst mig verulega upp.

Ég hef talað við starfsmenn Tryggingastofnunar sem hafa virkilega skilið hvað ég er að tala um og við verið kurteis í garð beggja.

Starfsmenn Tryggingastofnunar eru misjafnir. Þeir eru mjög margir og að sjálfsögðu ekki allir vel inni í öllum málum. Sumir eru alveg úti að aka og er það hið versta mál. Aðrir eru vel inni í þeirra sérsviði og svara ekki út í hróa.

Þetta er mín reynsla af stofnuninni undanfarin nokkur ár, eftir að ég varð 67 ára. Ekki ýkja mörg ár þó.

Hefði mér dottið í hug að ég ætti eftir að skrifa varnar ræðu fyrir stofnunina? Líklega ekki, en þegar ég sé fullyrðingar um að stofnunin sé morðingi og þaðan af verra þá get ég ekki orða bundist.

Í fyrsta lagi þá er stofnunin bara stofnun en þeir sem vinna þar eru fólk. Stofnunin er steinkumbaldi, hús, pappír og tölvur ásamt húsgögnum og fleiru sem tilheyrir stofnun. Stofnunin er ekki fólk og getur þar af leiðandi ekki drepið einn eða neinn.

Mér þykir mjög alvarlegt þegar farið er að ásaka þá, sem sinna vinnu sinni eftir bestu getu, um morð, í stofnun þar sem unnið er eftir lögum og reglum sem alþingi setur starfseminni. Jaðrar ekki slík fullyrðing við glæp?

Hér á eftir ætla ég að taka upp ummæli sem ég sá og þykja mér þau harla ómerkileg og viðbjóðslegt innlegg í þjóðmálaumræðu sem er grafalvarleg. Líklega heldur sá sem skrifar að hann sé að verja málstað þeirra sem minna mega sín en ég efast stórlega um að vörn felist í slíkum orðum.

"Enn sýnir og sannar ....................... hvað hann er gjörsamlega úti að skíta.  Hann er verri en túristarnir sem eru drullandi upp við póstkassa og rafmagnsstaura út um allt land og ræpan úr honum flæðir yfir alla þjóðina.

Það þarf að losna við svona helvítis skíthæla eins og hann af alþingi. "

Það sem mér finnst skelfilegast við þessa hatursumræðu er að fólk tekur undir hana og mjög margir lýsa yfir velþóknun sinni og líka svona ummæli.

Mér þykir þetta ósæmilegt og tel það stórhættulegt og ekki til þess að vekja traust á umræðu um bág kjör eldri borgara og hvað þá öryrkja.

Svona umræða á ekki að eiga sér stað í siðmenntuðu þjóðfélagi og það á enginn að taka undir hana.

Við getum verið reið og sár og skammast án þess að brigsla alsaklausu fólki um að vera morðingjar og svona drullutal segir meira um þann sem skrifar en þann sem verið er að gagnrýna.

Hulda Björnsdóttir


Hvernig elda kínverjar?

14. maí 2017

Eftir allt júró talið þarf að skipta um gír og mér datt í hug að segja aðeins frá því hvernig vinir mínir í Kína elda matinn.

Eldhúsin eru venjulega pínulítil. Þar er vaskur og eldavél. Ísskápur er oft inni í eldhúsinu en getur líka verið frammi á gangi eða bara hvar sem er.

Uppþvottavélar eru sums staðar en langt frá því á hverju heimili sem ég kom á. 

Stór wook panna er alltaf notuð. Svo er sérstakur hrísgrjónapottur sem gengur fyrir rafmagni. Sojavél, þar sem mjólk er búin til úr sojabaunum er líka mjög algeng. Litlar vélar sem búa til drykk úr baunum eru líka mikið notaðar yfir sumarið. Þá eru baunirnar settar í vélina að kvöldi og um morguninn er allt tilbúið. Mungbaunir voru mest notaðar þar sem ég bjó.

Með wook pönnunni eru spaði og sleif.

Stór hnífur sem notaður er til að skera allt hráefni smátt niður er allstaðar til.

Borðbúnaðurinn eru litlar skálar fyrir hrísgrjónin og prjónar til þess að borða með ásamt litlum skálum fyrir súpu og þeim fylgja skeiðar úr postulíni.

Maturinn er látinn á föt og borinn fram eftir því sem hann er tilbúinn. Ekkert endilega í einhverri ákveðinni röð. Stundum fær maður grænmeti t.d. brokkoli fyrst og svo koma réttirnir koll af kolli.

Súpa er í skál á miðju borðinu og litlu réttirnir á fötunum í kring.

Ausur eru í súpuna og stundum skeiðar í kjötrétti en ég man ekki eftir einum einasta gaffli í svona borðhaldi.

Allir fá sér mat af fötunum með sínum prjónum og maður gæti hugsað sér að þetta væri sóðalegt. Mér fannst það ekki og líklega er það klaufaskapur útlendinganna sem gæti verið hættulegur og að þeir sulli út um allt.

Bein eru látin á borðið. Það eru ekki diskar fyrir úrgang. Hann fer bara á borðið í snyrtilega hrúgu hjá hverjum og einum og er svo þrifinn að lokinn máltíðinni.

Það er eitthvað svo notalegt við þessa samveru og hvernig allir borða í raun af sama diskinum, nema auðvitað súpuna, hún er í lítilli skál fyrir hvern og einn.

Það skipti ekki máli hvað ég þekkti fólkið vel ég var alltaf útlendingurinn og allir pössuðu upp á að ég færi ekki svöng frá borði.

Gestir borða fyrst og húsmóðirin síðast. Húsmóðirin er upptekin við eldamennskuna ef það er hún sem eldar. Oft voru það karlmennirnir sem bjuggu til matinn og stundum var hjálpast að. Þetta var allt mismunandi eftir heimilum og fjölskyldum. Kínverskir karlar eru oft á tíðum listakokkar. Ég þekki hins vegar engan karl sem sér um þvottana. Það var á þeim heimilum sem ég þekkti til hlutverk kvenna að þvo þvotta og þrífa húsið.

Oft gerðist það þegar ég kom í búð á matmálstíma að mér var boðið að borða með starfsfólkinu. Ekki langt frá heimili mínu var svæði með litlum búðum og grænmetis markaður þar sem fjölskyldan bjó innan af búðinni sjálfri í einu herbergi og þar var eldað og sofið og borðað. Þessar fjölskyldur áttu oft 2 íbúðir. Önnur var í búðinni og var bara eitt herbergi. Hin var á öðrum stað og stór og venjuleg með eldhúsi stofu og svefnherbergjum fyrir hvern og einn. Öll eldhús sem ég sá í Kína voru lítil.

Þegar ég var á leið í skólann eða á heimleið og það tók að rigna kom einhver út úr búðunum og lét mig hafa regnhlíf ef mín var ekki með í för. Svo skilaði ég gripnum næsta dag eða bara hvenær sem ég var á ferð næst.

Ég naut þess að fá að koma til alls konar fólks. Sumir voru bláfátækir og aðrir forríkir og allt þar á milli.

Á kvöldin fékk ég mér oft göngutúr út fyrir svæðið þar sem ég bjó og þá var ég komin beint inn í faðm hins dásamlega hversdagslífs. Litlar búðir sem seldu útskorin listaverk, skorin út úr rótum trjáa, eða steyptar gersemar, voru út um allt og ég naut þess að fá að sitja og horfa á listamennina vinna. Búðirnar breyttust á kvöldin í heimili eða vinnustofu. Það var oft glatt á hjalla og krakkarnir komu til þess að læra ensku á meðan afar og ömmur horfðu brosandi á. Á svona kvöldum var mikið spilað, karlarnir spiluðu á spil, og stundum kom einhver með hljóðfæri og það var sungið og jafnvel dansað.

Á kvöldin voru bornar fram hnetur og auðvitað te í pínulitlum bollum sem eru ekki meira en einn munnsopi. Alls staðar eru teborð, hversu lítið sem fólkið hefur á milli handanna virðist te hefðin lifa af og öllum boðið te. Ég var ekki sérlega flink við að útbúa teið eftir kúnstarinnar reglum og tóku öryggisverðirnir og gæslufólkið málið í sínar hendur þegar við sátum úti í garðinum mínum og spjölluðum. Það var oft glatt á hjalla undir sólhlífinni þegar hitinn var að drepa okkur.

Að búa á litlum stað, sem er auðvitað ekki lítill á vesturlanda mælikvarða, gerir það að verkum að allt verður miklu persónulegra.

Auðvitað er það undir hverjum og einum komið hvernig hann hagar sér og hvað hann blandar mikið geði við heimafólk. Það verður fróðlegt að sjá hvort fólkið í litlu búðunum man eftir mér þegar ég kem í heimsókn næst. Mér þætti ekki amalegt að snæða hádegismat með þeim og rifja upp gömul kynni. Krakkarnir eru líklega farin að heiman og sum búin að koma sér upp fjölskyldu og eigin börnum sem dvelja hjá afa og ömmu. Margir af eldri kynslóðinni eru komnir til feðra sinna en aðrir eru enn í faðmi fjölskyldunnar og taka þátt í því sem þau geta. Kínverskt fjölskyldulíf er fallegt.

Nýir nemendur eru í háskólanum en kennararnir eru þeir sömu og margir nemendanna búa enn í Min Hou. Ég hlakka til að komast til Kína og fá að starfa þar eitt andartak enn í þessu lífi.

Hulda Björnsdóttir


Hugleiðingar á sunnudagsmorgni, eftir Eurovision !

14. maí 2017

Jæja, þá er páfinn farinn frá Portúgal og engin stór slys. Það var fallegt veður mest af þeim tíma sem hann dvaldi í landinu þó ekki væri sérlega heitt og nokkrir dropar kæmu úr lofti. Litlu börnin komin í dýrlingatölu í Fatima og allt eins og það á að vera.

Mér fannst merkilegt að heyra í flugvélinni hans þegar hún flaug yfir þorpið mitt. Landið er svo mjótt og leiðin yfir Spán og til Fatima liggur yfir Penela, eða lá það allavega þegar hans heilagleiki kom.

Einhverjir hnökrar voru við að koma fólki frá borginni í gær en allt leystist farsællega á endanum. Það er ekki einfalt að flytja tæpa milljón manns í burtu í einum hvelli.

Þá er það fótboltinn og Benfica. Alveg ótrúlegur sigur. 5 mörk  og allt ætlaði um koll að keyra í blokkinni minni þegar skorað var. Ég hefði eiginlega getað látið vera að horfa því öskrin voru þvílík. Auðvitað horfði ég á leikinn í sjónvarpinu, rétt eins og ég horfði á komu páfans. Nú eru fótboltaáhugamenn, nágrannar mínir, staðnir upp úr rúminu og reika í sæluvímu um stræti þorpsins og skála fyrir frábærum árangri liðsins góða.

Síðast en ekki síst er það hin dásamlega keppni sem fer fram á hverju ári og allt verður brjálað. Fólk sturlast af gleði yfir frábærum tónlistar viðburði og heldur ekki vatni yfir fallegum lögum fra´ýmsum löndum.

Nú á dögum eru 2 umferðir. Undanúrslit og svo keppnin sjálf.

Íslenski keppandinn komst ekki áfram að þessu sinni og ég sá einhvers staðar að hún hafi fengið 60 stig. Hneyksli og ber auðvitað vott um ótrúlegan klíkuskap eða lélegan tónlistarsmekk Evrópu. Ég er ekki sérfræðingur og veit ekkert um hvað olli þessu dæmalausa óréttlæti.

Ég hlusta venjulega ekki á keppnina. Mér finnst hún frekar leiðinleg og þulir sem tala yfir hina raunverulegu kynna fara aðeins í pirrurnar á mér. Ekki bætti úr skák núna að hlusta á portúgalska þuli sem tala um allt og ekkert, aðallega ekkert. Ég veit ekki hvernig Gísli stóð sig en eitthvað er fólk að hnýta í hann. Af hverju er ekki skipt reglulega um svona kynna? Mér datt þetta bara í hug en kemur það að sjálfsögðu ekkert við.

Eftir fyrri daginn hlustaði ég á 2 lög á Youtube. Ísland og Portúgal. Mér bar eiginlega skylda til þess.

Í gærkvöld ákvað ég að hlusta á alla keppnina og hafði bók með mér. Ég verð að viðurkenna að bókin var svo hrikalega spennandi að ég missti af flestum lögunum. Þegar kom að atkvæðatalningu lagði ég doðrantinn frá mér svo ég félli ekki í freistni og lokaði eyrunum. Það var nú voða sætt að sjá Bjögga, pabba Svölu, kynna stigagjöfina !

Mér tókst semsagt að halda athyglinni nokkurn vegin við gjöfina, en hrikalega var það erfitt og oft þurfti ég að slá á höndina svo ég tæki ekki upp bókina og sykki niður í söguþráðinn meðvitundarlaus um það sem var að gerast á skjánum.

Nú liggja úrslitin fyrir og Portúgalski flytjandinn vann.

Upp rísa sérfræðingar, og brigsla þeim sem eru ekki á sama máli og þeir um ágæti lagsins, um hroka.

Ég vogaði mér að hafa þá skoðun að lagið væri ekki FADO og byggði ekki á FADO hefðinni. Einhverjum fellur ekki þetta álit mitt og það er í fínu lagi. Hins vegar hefði til dæmis verið hægt að inna mig eftir því á hverju ég byggði þessa skoðun mína í stað þess að fullyrða að ég hefði sprottið fram sem sjálfskipaður sérfræðingur.

Ég byggi álit mitt, eða styð það, með því sem vinir mínir sögðu mér. Þessir portúgölsku vinir þekkja vel til hefðarinnar og þeir eru sérfræðingarnir en ekki ég. Æi, þetta er svo dásamlegt hvernig sjálfskipaðir sérfræðingar sjá flísina í auga náungans, eða þannig.

Eitt finnst mér einkennilegt í þessari síma atkvæðagreiðslu, ef rétt er. Getur það verið að hver og einn geti greitt atkvæði 20 sinnum? Ég hélt að hvert númer hefði bara eitt atkvæði. 

Ég ætla ekkert að velta mér upp úr hjartveiki flytjanda portúgalska lagsins eða kviðsliti hans eða handahreyfingum og augngotum. Þetta er allt saman liðið.

Hins vegar þótti mér rúsínan í pylsuendanum þessi:

Ég lækaði við síðu Kjarnans af því hann hafði verið talinn með áreiðanlegri fjölmiðlum. Við þetta læk fæ ég fréttir frá siðunni, sjálfkrafa, og í gærkvöld var sagt að frá Eurovision.

Portúgal hafði unnið og þess vegna yrði keppnin næsta ár á Ítalíu.

Jamm.

Ég var með áhyggjur af því að skattar mínir á næsta ári hækkuðu vegna kostanaðar við Eurovision en þegar ég sá að hún yrði á Ítalíu létti mér stórlega.

Ekki veit ég hvort Kjarninn hefur leiðrétt þetta, en skondið var það, hvað sem öðru líður.

Ætli ég láti sunnudaginn ekki renna í hlað hjá mér og hætti að pikka á lyklaborðið sem þarf líklega að fá hvíldina því sumir takkarnir eru hættir að virka.

Vonandi eiga allir frábæran dag í vændum og ég áskil mér rétt til þess að mega finnast lagið sem vann Eurovision árið 2017 hundleiðinlegt og flutningurinn hallærislegur. Ég virði skoðun þeirra sem finnst lagið dásamlegt og flutningurinn yndislegur en ætlast til þess að mín skoðun sé alveg jafn rétthá.

Hulda Björnsdóttir

 

 


Af hverju fæ ég óbragð í munninn þegar ég hugsa um Alþingi Íslendinga?

12. maí 2017

Fallin er frá merk kona sem barðist fyrir góðum málstað allt sitt líf. Baráttukonur og menn eru smátt og smátt að hverfa til fyrirheitna landsins. Þannig er jú bara lífið.

Það rifjast upp minningar um þessa ágætu konu og hvernig hún skipulagði og stjórnaði baráttu fyrir bættum kjörum hóps í þjóðfélaginu sem hafði ekki hátt um  bág kjör sín.

Þeir sem eiga erfitt stíga oft ekki fram og opinbera hvernig lífið og þjóðfélagið leika það. Þetta fólk þarf einhvern og einhverja sem taka að sér baráttuna og berjast fram í rauðann dauðann.

Það rifjaðist líka upp fyrir mér hvernig alþingismenn og aðrir ráðamenn virtust geta gefið sér tíma til þess að hlusta á rökstuðning baráttukonunnar og hennar hóps.

Það rifjaðist upp fyrir mér hvernig opinberir fundir voru haldnir með alþingismönnum og hvernig þeir hlustuðu og tóku stundum að sér að leysa úr bráðum vanda. Þetta voru ekki þúsund manna fundir í Háskólabíói. Nei, þetta voru fámennir en árangursríkir fundir þar sem skipst var á skoðunum, og þingmenn mættu með opnum huga.

Formaður VR kom á fund með nefnd og sat undir súð í lítilli íbúð og hlustaði á sögur um skelfilegar aðstæður fólks. Hann sat ekki bara eina kvöldstund og hlustaði. Hann hélt sambandi við hópinn og gerði það sem hægt var að gera í málunum.

Það rifjaðist upp fyrir mér þegar hópurinn sat á þingpöllum og við hlustuðum á þingmenn flytja frumvörp um bætt kjör undirmáls hóps í þjóðfélaginu. Þingmenn í þá daga ræddu oft af miklum eldmóði um það sem þeir tóku að sér og þeim þótti gott að hafa stuðning þeirra sem þeir voru að berjast fyrir, jafnvel þó stuðningurinn væri ekki annar en að mæta á þingpalla og hlusta.

Ég horfi stundum á fundi í þingsal, nú í gegnum tölvuna mína, og það kemur óbragð í munninn og ég skammast mín fyrir óbragðið.

Mér finnst að ég eigi að bera virðingu fyrir þeim sem sitja hið háa Alþingi og taka ákvarðanir sem varða líf og dauða bæði fólks og þjóðfélags. Ég skammast mín fyrir að geta ekki borið virðingu fyrir þingheimi og stundum finnst mér að ég hljóti að vera vanþakklát og vond manneskja.

Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að upplifa tíma þar sem ég bar virðingu fyrir hinu háa Alþingi þó ég væri ekki alltaf sammála því sem þar fór fram.

Ég er sorgmædd yfir þessu óbragði sem kemur í munninn þegar ég hlusta á núverandi þingheim.

Ég skil ekki hugsunina á bak við margt af því sem bullað er úr virðulegum ræðustól hússins.

Er einhver hugsun að baki? Eða er þetta bara innantómt hjal sem skiptir engu máli og launaumslagið er komið í höfn svo ekki þarf að hafa fyrir því á næstu mánuðum að búa til nýjan loforðalista eða taka fram þann gamla?

Hvernig getur staðið á því að fólk kýs Sjálfstæðisflokkinn aftur og aftur? Þessi spurning brennur á mörgum og ég hef verið að velta þessu fyrir mér.

Ég held og reyndar og veit að í upphafi var markmið flokksins göfugt og átti að vera til þess að bæta hag allra í þjóðfélaginu. Einhvers staðar á leiðinni datt maskínan út af sporinu og fór niður í hjólfar eigingirni og hagsmunapots. Göfugu markmiðin gleymdust en fólkið sem enn kýs flokkinn rígheldur í vonina um að upphaflegur tilgangur verði þrifinn upp úr skúffunum og farið að vinna fyrir fólkið í landinu. Fyrir ALLA.

Er kominn tími til að gera byltingu á Íslandi í nafni mannúðar og drepa niður viðbjóðinn sem ræður ríkjum núna?

Já, ég er á þeirri skoðun. Ég er hins vegar í útlöndum og ekki til stórræðanna svo ekki stend ég á þingpöllum eða fer og tala við ráðamenn þjóðarinnar. Ég verð að treysta á þá sem enn eru á landinu. Ég verð að treysta því að til sé baráttufólk eins og konan sem nú hefur kvatt þennan heim. Ég verð að treysta því og trúa að einhver drífi sig í að gera það sem gera þarf og láti ekki bara duga að skrifa og heimta eitthvað sem enginn veit í raun hvað er.

Ég verð að trúa því að fái að lifa þá tíma að óbragðið hverfi úr munninum á mér þegar ég hugsa um hið háa Alþingi Íslendinga.

Missi ég þessa trú þá er lífið búið.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Er ekkert hægt að gera til þess að bjarga Íslandi?

11. maí 2017

Ég hlusta á fréttir af ástandi í Bandaríkjunum þar sem forsetinn rekur hvern sem honum ekki líkar við. Hann getur þetta, hefur valdið. Nú er hann búin að reka FBI forstjórann og ekki ólíklegt að fleiri góðir menn fái að fjúka. Það er ekki gott að mótmæla sjónvarps stjörnunni fyrrverandi, sem nú situr í æðsta embætti veraldarinnar. Hann tekur rússneska blaðamenn fram yfir þá bandarísku og hleypir inn í hvíta húsið Rússum sem hæglega gætu komið fyrir hlerunar búnaði án þess að blessaður forsetinn eða staffið hans hafi hugmynd um.

Þegar ég horfi á þessar fréttir dettur mér Bjarni Ben alltaf í hug.

Bjarni er svona einræðisherra í lýðræðisríki. Alþingi hefur ekki roð við honum og hann gerir það sem honum sýnist, hvort sem það er að baka kökur eða selja ættingjum og vinum verðmæti þjóðarinnar. Það gerir enginn neitt til þess að stöðva framferðið.

Sigmundur Davíð mætir ekki í vinnuna og fær greitt fyrir það rúma milljón á mánuði og líklega eitthvað betur með bitlingum. Það er ekkert gert í því máli og hann unir glaður við sitt.

Ellilífeyrisþegi fær 198 þúsund á mánuði og eru laun Sigmundar jafn mikil og fimm slíkra. Dásamlegt! 

Framfærsluviðmið hafa verið við lýði eins lengi og ég man eftir mér og er það þó nokkuð langur tími. Nú er eins og fólk sé allt í einu að fatta að eitthvað svoleiðis sé til og halda að þetta sé nýtilkomin sannleikur.

Það hefur aldrei verið farið eftir þessum viðmiðum þegar bætur almannatrygginga hafa verið ákvarðaðar. ALDREI NOKKURN TÍMAN hvorki fyrr né síðar.

Að láta sér detta í hug að núna sé allt í einu að renna upp tími réttlætis og núna verði farið að skoða þessi framfærsluviðmið og bæta heldur betur í það sem skammtað er þeim sem hafa greitt skatta allt sitt líf til þjóðfélagsins og byggt það upp fyrir algjörlega gagnslausa þingmenn sem sitja og njóta launanna og gera harla lítið til þess að sporna við fótum þegar spillingin tröllríður öllu.

Til hvers að hafa yfir 60 manns á þingi þegar nægilegt væri að hafa einn góðan forstjóra?

Til hvers að hafa aðstoðarmenn ráðherra, ekki bara einn, heldur marga, svo ráðherra þurfi ekki að vinna of mikið?

Er ekki bara ágætt að reka ráðherrana, fækka aðstoðarmönnum niður í einn og láta þetta ganga eins og vel rekið fyrirtæki?

Það eru jú ráðuneyti sem stjórna því sem þau vilja stjórna og ágætar stofnanir sem sjá um að misvitur lög séu ekki látin ganga yfir lýðinn.

Þingmenn eru óþarfir. Þeir lesa ekki yfir lögin sem þeir samþykkja. Þeir samþykkja bara eða sitja hjá í besta falli. Auðvitað sitja bara stjórnar andstöðu þingmenn hjá. Þeir greiða örsjaldan atkvæði á móti ruglinu. Þeir halda bara röfl tölur úr hinum flotta stól alþingis og svo er þeim alveg sama hvað verður samþykkt.

Jú, þeir, stjórnarandstaðan, skrifa flottar færslur á Facebook og þar eiga þeir, eða að minnsta kosti einn flokkur, ágætan orðljótan talsmann sem segir þeim hvað þeir eiga að gera og færir þeim hugmyndir á silfurfati!

Vitiði, mér finnst þetta svo hlægilegt að ég get ekki einu sinni grátið yfir ástandinu.

Skrípaleikurinn er eins og besta gamanópera þar sem ærsladraugurinn leikur lausum hala og enginn getur rönd við reist.

Hulda Björnsdóttir

 

 


Júróvision !!!!

10. mai 2017

Þó ég sé ekki mikill aðdáandi júróvisíon þá gat ég ekki annað en sest niður í morgun og hlustað á Portúgalska lagið þar sem svo margir á Facebook voru að tala um ágæti þess. Ég vissi að lagið hafði komist upp úr undankeppninni því ég heyrði það tilkynnt í Portúgalska útvarpinu í gærkvöld.

Ég var hins vegar upptekin við að horfa á Pirot. Ég elska þessar gömlu myndir og hann kemur mér oft til að hlæja. Þessi persónusköpun er alveg meiriháttar og ég get notið þess að horfa á þættina aftur og aftur, sem er auðvelt hér í heimalandi mínu, því þeir eru sýndir AFTUR og AFTUR og AFTUR og meira að segja á þeim tíma sem ég er vakandi! Alveg sniðið fyrir mig.

Jæja, aftur að júróinu. Eftir að hafa hlustað og horft á þann Portúgalska á Youtube í morgun var ég nú ekki alveg að skilja hvað það var að áliti íslenskra vina minn sem þeir héldu ekki vatni yfir í þessu portúgalska lagi. Mér finnst það bara hallærislegt og ekkert erindi eiga í júró keppnina. Flutningurinn er... ja mig skortir eiginlega kurteisileg orð til að lýsa hvað mér finnst um hann svo ég læt það bara eiga sig.

Til þess að gæta alls velsæmis spurði ég 20 manns, sem ég hitti í morgun, um hvaða álit þau hefðu á laginu okkar, þ.e. portúgalska laginu. He, he he.   Svörin eru ekki til þess að hafa eftir í virðulegu bloggi mínu en ég get þó staðfest að hrifningin var ekki yfirþyrmandi.

Ég verð þó að viðurkenna að hlusti ég á lagið og þurfi ekki að horfa á flytjandann þá get ég afborið það.

Þá er komið að því að viðurkenna yfirþyrmandi vonbrigði mín með að Ísland skyldi ekki senda betra lag í keppnina og það hljóta að vera til frábærir dægurlaga söngvarar á landinu sem gætu flutt eitthvað sem væri hægt að fá aðrar þjóðir til þess að meta. Svona brjósta lög eru mér ekki að skapi en ég segi það satt að áður en ég skrifa þetta sat ég og hlustaði á hina þekkilegu Svölu og meira að segja horfði.

Semsagt, ég hef heyrt 2 júrólög þetta árið og ætla mér ekki að fórna dýrmætum tíma mínum í meira.

Auðvitað á maður að sýna hollustu þjóð og þjóðerni en þetta er bara of mikið fyrir mig á gamals aldri.

Má ég frekar biðja um Söngskóla Sigurðar Dements og nemenda hans. Ég vildi að ég gæti notið þeirra flutnings á youtube. Þá væri ég til í með glöðu geði að sitja heilt kvöld og horfa og hlusta.

Segi bara svona og veit að auðvitað má maður ekki segja að Svala hafi ekki verið súper og að lagið hafi ekki verið undur veraldar.

Nú verð ég líklega tekin alvarlega í gegn svo best að forða sér og lesa engin komment með þessu bloggi!

Í guðs friði

Hulda Björnsdóttir

 


Pílagrímarnir streyma til Fatíma ! Páfinn kemur á föstudaginn !

10.maí 2017

Þessa dagana streyma pílagrímar til Fatíma í tilefni komu páfans á föstudaginn kemur ásamt því að 100 ár eru liðin síðan vitrunin birtist börnunum. (fyrirgefið mér ef þetta er ómöguleg íslenska). Sagan er yndisleg en nútíminn hefur breytt henni og nýtir til þess að plokka peninga af fólki sem oft á tíðum á ekkert aflögu.

Ég ek til Coimbra á hverjum morgni, á spítalann þar, og fer í norður. Á hverjum morgni í tvær vikur hafa verið pílagrímar á ferð. Sumir hafa líklega þá þegar gengið 200 kílómetra og eiga enn eftir marga kílómetrana.

Þetta fólk er ótrúlega duglegt. Það er á öllum aldri, allt frá 17 ára unglingum upp í fólk komið hátt á sjötugs aldur, eða svo sýnist mér þegar ég ek framhjá.

Á leiðinni sem ég keyri eru dauðagildrur og á hverju ári deyja nokkrir pílagrímar á leið sinni um ákveðinn kafla. Núna hafa yfirvöld tekið þann kost að gera tvístefnu að einstefnu, sem er hið allra besta mál og fólkið getur gengið án þess að eiga á hættu að vera keyrt niður.

Það hefur verið einn staður með blómum og stökkum þeirra sem hafa látist þessar 2 vikur. Í morgun höfðu bæst við 4 staðir merktir þeim sem hafa látist. þetta þýðir að á einum sólarhring hafa nokkrir látist á þessum stutta kafla. Þetta er sárara en tárum taki en hins vegar árviss viðburður.

Í gær var ég á ferðinni um hálf tíu leytið og mikill fjöldi kom á móti mér, rennandi straumur svo til alla leiðina að afleggjara sem liggur til Porto. Veðrið var unaðslegt. Sólin skein og það var hlýtt. Veður eins og best gerist hérna, ekki of heitt og ekki of kalt. Ég var með klassíska tónlist á fóninum og bílarnir óku varlega svo við vorum á 20 til 30 km hraða.

Ég er svo mikill aumingi að þegar ég sé eitthvað sem snertir mig djúpt græt ég. Ég get til dæmis ekki gengið til altaris, og ýmsar athafnir sem eru hátíðlegar græta mig. Bíómynd sem endar vel kemur tárunum líka fram.

Í gær morgun var stemmningin svo hátíðleg á þjóðvegi eitt á leið til Coimbra að ég grét. Ég gat ekki gert að því. Ég hef enga sérstaka skoðun á ágæti þess að ganga alla þessa leið til Fatíma og skríða á hnjánum síðasta spölinn. Ég mundi aldrei gera þetta en fólkið sem ég ók framhjá í gær morgun trúir því að gangan verði þeim til góðs og lífið breytist.

Sumir eiga við veikindi að stríða og aðrir hafa orðið fyrir einhverjum áföllum. Aðrir eru að búa sig undir lífið og trúa því að Fatíma geti verndað þá frá öllu illu.

Ég hef tvisvar komið til Fatíma og mér finnst þetta vera peningaplokkara maskína. Það er mín persónulega skoðun en ég virði allar skoðanir og þeir sem leggja á sig 400 kílómetra göngu til þess að öðlast betra líf eiga ekki skilið að ég sé að skipta mér af því.

Dagurinn í gær var svo yndislega hátíðlegur á þessum hálftíma spotta sem ég ók og allir pílagrímarnir fengu hlýjar hugsanir frá mér og líklega flestum þeim sem hægðu ferðina.

Í dag voru ekki eins margir á ferð. Það er hífandi rigning og ekki nema 2 dagar þar til páfinn kemur. Á heimleiðinni minni rigndi eldi og brennisteini og göngufólkið var rennandi blautt. Bílarnir flutu upp úr djúpum hjólförunum sem voru full af regnvatni. Allir og allt nema rigningin hægði á sér.

Þegar ég nálgaðist Penela var vegurinn lokaður, einn af glöðu trukkunum hafði farið á hliðina eins og þeir gera stundum. Trukkarnir hérna aka eins og brjálæðingar og lenda oft annað hvort á hliðinni eða úti í kanti. Ótrúlegt kraftaverk er að dauðsföll eða slys af völdum svona kæruleysis aksturs eru ekki algeng.

Ég vona svo sannarlega að það verði ekki fleiri merki í fyrramálið á leið minni til Covoes. Merki með blómum, grænum sjálflýsandi jökkum og jafnvel leiðis skreytingum. Ég vona að allir pílagrímarnir komist heilu og höldnu til fyrirheitnu borgarinnar og að páfinn lendi ekki í ausandi rigningu á föstudaginn.

Eftir helgina get ég hætt að halda niðri í mér andanum og farið að anda eðlilega.

Mikill viðbúnaður er vegna afmælisins og lögregla frá Spáni hefur bæst í hópinn því margir Spánverjar eru á leiðinni til Fatíma. Sameiginlegt átak tveggja landa ætti að megna að halda öfgaöflum frá.

Hulda Björnsdóttir


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband