Júróvision !!!!

10. mai 2017

Þó ég sé ekki mikill aðdáandi júróvisíon þá gat ég ekki annað en sest niður í morgun og hlustað á Portúgalska lagið þar sem svo margir á Facebook voru að tala um ágæti þess. Ég vissi að lagið hafði komist upp úr undankeppninni því ég heyrði það tilkynnt í Portúgalska útvarpinu í gærkvöld.

Ég var hins vegar upptekin við að horfa á Pirot. Ég elska þessar gömlu myndir og hann kemur mér oft til að hlæja. Þessi persónusköpun er alveg meiriháttar og ég get notið þess að horfa á þættina aftur og aftur, sem er auðvelt hér í heimalandi mínu, því þeir eru sýndir AFTUR og AFTUR og AFTUR og meira að segja á þeim tíma sem ég er vakandi! Alveg sniðið fyrir mig.

Jæja, aftur að júróinu. Eftir að hafa hlustað og horft á þann Portúgalska á Youtube í morgun var ég nú ekki alveg að skilja hvað það var að áliti íslenskra vina minn sem þeir héldu ekki vatni yfir í þessu portúgalska lagi. Mér finnst það bara hallærislegt og ekkert erindi eiga í júró keppnina. Flutningurinn er... ja mig skortir eiginlega kurteisileg orð til að lýsa hvað mér finnst um hann svo ég læt það bara eiga sig.

Til þess að gæta alls velsæmis spurði ég 20 manns, sem ég hitti í morgun, um hvaða álit þau hefðu á laginu okkar, þ.e. portúgalska laginu. He, he he.   Svörin eru ekki til þess að hafa eftir í virðulegu bloggi mínu en ég get þó staðfest að hrifningin var ekki yfirþyrmandi.

Ég verð þó að viðurkenna að hlusti ég á lagið og þurfi ekki að horfa á flytjandann þá get ég afborið það.

Þá er komið að því að viðurkenna yfirþyrmandi vonbrigði mín með að Ísland skyldi ekki senda betra lag í keppnina og það hljóta að vera til frábærir dægurlaga söngvarar á landinu sem gætu flutt eitthvað sem væri hægt að fá aðrar þjóðir til þess að meta. Svona brjósta lög eru mér ekki að skapi en ég segi það satt að áður en ég skrifa þetta sat ég og hlustaði á hina þekkilegu Svölu og meira að segja horfði.

Semsagt, ég hef heyrt 2 júrólög þetta árið og ætla mér ekki að fórna dýrmætum tíma mínum í meira.

Auðvitað á maður að sýna hollustu þjóð og þjóðerni en þetta er bara of mikið fyrir mig á gamals aldri.

Má ég frekar biðja um Söngskóla Sigurðar Dements og nemenda hans. Ég vildi að ég gæti notið þeirra flutnings á youtube. Þá væri ég til í með glöðu geði að sitja heilt kvöld og horfa og hlusta.

Segi bara svona og veit að auðvitað má maður ekki segja að Svala hafi ekki verið súper og að lagið hafi ekki verið undur veraldar.

Nú verð ég líklega tekin alvarlega í gegn svo best að forða sér og lesa engin komment með þessu bloggi!

Í guðs friði

Hulda Björnsdóttir

 


Pílagrímarnir streyma til Fatíma ! Páfinn kemur á föstudaginn !

10.maí 2017

Þessa dagana streyma pílagrímar til Fatíma í tilefni komu páfans á föstudaginn kemur ásamt því að 100 ár eru liðin síðan vitrunin birtist börnunum. (fyrirgefið mér ef þetta er ómöguleg íslenska). Sagan er yndisleg en nútíminn hefur breytt henni og nýtir til þess að plokka peninga af fólki sem oft á tíðum á ekkert aflögu.

Ég ek til Coimbra á hverjum morgni, á spítalann þar, og fer í norður. Á hverjum morgni í tvær vikur hafa verið pílagrímar á ferð. Sumir hafa líklega þá þegar gengið 200 kílómetra og eiga enn eftir marga kílómetrana.

Þetta fólk er ótrúlega duglegt. Það er á öllum aldri, allt frá 17 ára unglingum upp í fólk komið hátt á sjötugs aldur, eða svo sýnist mér þegar ég ek framhjá.

Á leiðinni sem ég keyri eru dauðagildrur og á hverju ári deyja nokkrir pílagrímar á leið sinni um ákveðinn kafla. Núna hafa yfirvöld tekið þann kost að gera tvístefnu að einstefnu, sem er hið allra besta mál og fólkið getur gengið án þess að eiga á hættu að vera keyrt niður.

Það hefur verið einn staður með blómum og stökkum þeirra sem hafa látist þessar 2 vikur. Í morgun höfðu bæst við 4 staðir merktir þeim sem hafa látist. þetta þýðir að á einum sólarhring hafa nokkrir látist á þessum stutta kafla. Þetta er sárara en tárum taki en hins vegar árviss viðburður.

Í gær var ég á ferðinni um hálf tíu leytið og mikill fjöldi kom á móti mér, rennandi straumur svo til alla leiðina að afleggjara sem liggur til Porto. Veðrið var unaðslegt. Sólin skein og það var hlýtt. Veður eins og best gerist hérna, ekki of heitt og ekki of kalt. Ég var með klassíska tónlist á fóninum og bílarnir óku varlega svo við vorum á 20 til 30 km hraða.

Ég er svo mikill aumingi að þegar ég sé eitthvað sem snertir mig djúpt græt ég. Ég get til dæmis ekki gengið til altaris, og ýmsar athafnir sem eru hátíðlegar græta mig. Bíómynd sem endar vel kemur tárunum líka fram.

Í gær morgun var stemmningin svo hátíðleg á þjóðvegi eitt á leið til Coimbra að ég grét. Ég gat ekki gert að því. Ég hef enga sérstaka skoðun á ágæti þess að ganga alla þessa leið til Fatíma og skríða á hnjánum síðasta spölinn. Ég mundi aldrei gera þetta en fólkið sem ég ók framhjá í gær morgun trúir því að gangan verði þeim til góðs og lífið breytist.

Sumir eiga við veikindi að stríða og aðrir hafa orðið fyrir einhverjum áföllum. Aðrir eru að búa sig undir lífið og trúa því að Fatíma geti verndað þá frá öllu illu.

Ég hef tvisvar komið til Fatíma og mér finnst þetta vera peningaplokkara maskína. Það er mín persónulega skoðun en ég virði allar skoðanir og þeir sem leggja á sig 400 kílómetra göngu til þess að öðlast betra líf eiga ekki skilið að ég sé að skipta mér af því.

Dagurinn í gær var svo yndislega hátíðlegur á þessum hálftíma spotta sem ég ók og allir pílagrímarnir fengu hlýjar hugsanir frá mér og líklega flestum þeim sem hægðu ferðina.

Í dag voru ekki eins margir á ferð. Það er hífandi rigning og ekki nema 2 dagar þar til páfinn kemur. Á heimleiðinni minni rigndi eldi og brennisteini og göngufólkið var rennandi blautt. Bílarnir flutu upp úr djúpum hjólförunum sem voru full af regnvatni. Allir og allt nema rigningin hægði á sér.

Þegar ég nálgaðist Penela var vegurinn lokaður, einn af glöðu trukkunum hafði farið á hliðina eins og þeir gera stundum. Trukkarnir hérna aka eins og brjálæðingar og lenda oft annað hvort á hliðinni eða úti í kanti. Ótrúlegt kraftaverk er að dauðsföll eða slys af völdum svona kæruleysis aksturs eru ekki algeng.

Ég vona svo sannarlega að það verði ekki fleiri merki í fyrramálið á leið minni til Covoes. Merki með blómum, grænum sjálflýsandi jökkum og jafnvel leiðis skreytingum. Ég vona að allir pílagrímarnir komist heilu og höldnu til fyrirheitnu borgarinnar og að páfinn lendi ekki í ausandi rigningu á föstudaginn.

Eftir helgina get ég hætt að halda niðri í mér andanum og farið að anda eðlilega.

Mikill viðbúnaður er vegna afmælisins og lögregla frá Spáni hefur bæst í hópinn því margir Spánverjar eru á leiðinni til Fatíma. Sameiginlegt átak tveggja landa ætti að megna að halda öfgaöflum frá.

Hulda Björnsdóttir


Bloggfærslur 10. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband