Óþolandi umræða - stórhættuleg og viðbjóðsleg.

17. maí 2017

Það hefur þykknað í mér smátt og smátt í nokkrar vikur. Ég hef verið að reyna að finna leið til þess að vekja athygli á kjörum eldri borgara og öryrkja á Íslandi. Mér finnst ástandið svo hrikalegt að það verði að gera eitthvað annað en tala og skrifa um málið. Ég veit ekki hvað er hægt að gera á meðan stjórnvöld komast upp með niðurskurð á niðurskurð ofan til þessara hópa.

Margir hafa skoðun á málinu, sumir tjá sig um það á netmiðlunum og aðrir rausa ofan í kaffibollann.

Ég ríf mig og skammast með því að blogga og stundum set ég eitthvað inn á Facebook síðuna mína. Oft á tíðum síður á mér og ég gæti hæglega dottið niður í umræðustíl sem er allt of algengur.

Ég hef rifist við starfsmann Tryggingastofnunar ríkisins, oftar en einu sinni, og æst mig verulega upp.

Ég hef talað við starfsmenn Tryggingastofnunar sem hafa virkilega skilið hvað ég er að tala um og við verið kurteis í garð beggja.

Starfsmenn Tryggingastofnunar eru misjafnir. Þeir eru mjög margir og að sjálfsögðu ekki allir vel inni í öllum málum. Sumir eru alveg úti að aka og er það hið versta mál. Aðrir eru vel inni í þeirra sérsviði og svara ekki út í hróa.

Þetta er mín reynsla af stofnuninni undanfarin nokkur ár, eftir að ég varð 67 ára. Ekki ýkja mörg ár þó.

Hefði mér dottið í hug að ég ætti eftir að skrifa varnar ræðu fyrir stofnunina? Líklega ekki, en þegar ég sé fullyrðingar um að stofnunin sé morðingi og þaðan af verra þá get ég ekki orða bundist.

Í fyrsta lagi þá er stofnunin bara stofnun en þeir sem vinna þar eru fólk. Stofnunin er steinkumbaldi, hús, pappír og tölvur ásamt húsgögnum og fleiru sem tilheyrir stofnun. Stofnunin er ekki fólk og getur þar af leiðandi ekki drepið einn eða neinn.

Mér þykir mjög alvarlegt þegar farið er að ásaka þá, sem sinna vinnu sinni eftir bestu getu, um morð, í stofnun þar sem unnið er eftir lögum og reglum sem alþingi setur starfseminni. Jaðrar ekki slík fullyrðing við glæp?

Hér á eftir ætla ég að taka upp ummæli sem ég sá og þykja mér þau harla ómerkileg og viðbjóðslegt innlegg í þjóðmálaumræðu sem er grafalvarleg. Líklega heldur sá sem skrifar að hann sé að verja málstað þeirra sem minna mega sín en ég efast stórlega um að vörn felist í slíkum orðum.

"Enn sýnir og sannar ....................... hvað hann er gjörsamlega úti að skíta.  Hann er verri en túristarnir sem eru drullandi upp við póstkassa og rafmagnsstaura út um allt land og ræpan úr honum flæðir yfir alla þjóðina.

Það þarf að losna við svona helvítis skíthæla eins og hann af alþingi. "

Það sem mér finnst skelfilegast við þessa hatursumræðu er að fólk tekur undir hana og mjög margir lýsa yfir velþóknun sinni og líka svona ummæli.

Mér þykir þetta ósæmilegt og tel það stórhættulegt og ekki til þess að vekja traust á umræðu um bág kjör eldri borgara og hvað þá öryrkja.

Svona umræða á ekki að eiga sér stað í siðmenntuðu þjóðfélagi og það á enginn að taka undir hana.

Við getum verið reið og sár og skammast án þess að brigsla alsaklausu fólki um að vera morðingjar og svona drullutal segir meira um þann sem skrifar en þann sem verið er að gagnrýna.

Hulda Björnsdóttir


Bloggfærslur 17. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband