Af hverju fæ ég óbragð í munninn þegar ég hugsa um Alþingi Íslendinga?

12. maí 2017

Fallin er frá merk kona sem barðist fyrir góðum málstað allt sitt líf. Baráttukonur og menn eru smátt og smátt að hverfa til fyrirheitna landsins. Þannig er jú bara lífið.

Það rifjast upp minningar um þessa ágætu konu og hvernig hún skipulagði og stjórnaði baráttu fyrir bættum kjörum hóps í þjóðfélaginu sem hafði ekki hátt um  bág kjör sín.

Þeir sem eiga erfitt stíga oft ekki fram og opinbera hvernig lífið og þjóðfélagið leika það. Þetta fólk þarf einhvern og einhverja sem taka að sér baráttuna og berjast fram í rauðann dauðann.

Það rifjaðist líka upp fyrir mér hvernig alþingismenn og aðrir ráðamenn virtust geta gefið sér tíma til þess að hlusta á rökstuðning baráttukonunnar og hennar hóps.

Það rifjaðist upp fyrir mér hvernig opinberir fundir voru haldnir með alþingismönnum og hvernig þeir hlustuðu og tóku stundum að sér að leysa úr bráðum vanda. Þetta voru ekki þúsund manna fundir í Háskólabíói. Nei, þetta voru fámennir en árangursríkir fundir þar sem skipst var á skoðunum, og þingmenn mættu með opnum huga.

Formaður VR kom á fund með nefnd og sat undir súð í lítilli íbúð og hlustaði á sögur um skelfilegar aðstæður fólks. Hann sat ekki bara eina kvöldstund og hlustaði. Hann hélt sambandi við hópinn og gerði það sem hægt var að gera í málunum.

Það rifjaðist upp fyrir mér þegar hópurinn sat á þingpöllum og við hlustuðum á þingmenn flytja frumvörp um bætt kjör undirmáls hóps í þjóðfélaginu. Þingmenn í þá daga ræddu oft af miklum eldmóði um það sem þeir tóku að sér og þeim þótti gott að hafa stuðning þeirra sem þeir voru að berjast fyrir, jafnvel þó stuðningurinn væri ekki annar en að mæta á þingpalla og hlusta.

Ég horfi stundum á fundi í þingsal, nú í gegnum tölvuna mína, og það kemur óbragð í munninn og ég skammast mín fyrir óbragðið.

Mér finnst að ég eigi að bera virðingu fyrir þeim sem sitja hið háa Alþingi og taka ákvarðanir sem varða líf og dauða bæði fólks og þjóðfélags. Ég skammast mín fyrir að geta ekki borið virðingu fyrir þingheimi og stundum finnst mér að ég hljóti að vera vanþakklát og vond manneskja.

Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að upplifa tíma þar sem ég bar virðingu fyrir hinu háa Alþingi þó ég væri ekki alltaf sammála því sem þar fór fram.

Ég er sorgmædd yfir þessu óbragði sem kemur í munninn þegar ég hlusta á núverandi þingheim.

Ég skil ekki hugsunina á bak við margt af því sem bullað er úr virðulegum ræðustól hússins.

Er einhver hugsun að baki? Eða er þetta bara innantómt hjal sem skiptir engu máli og launaumslagið er komið í höfn svo ekki þarf að hafa fyrir því á næstu mánuðum að búa til nýjan loforðalista eða taka fram þann gamla?

Hvernig getur staðið á því að fólk kýs Sjálfstæðisflokkinn aftur og aftur? Þessi spurning brennur á mörgum og ég hef verið að velta þessu fyrir mér.

Ég held og reyndar og veit að í upphafi var markmið flokksins göfugt og átti að vera til þess að bæta hag allra í þjóðfélaginu. Einhvers staðar á leiðinni datt maskínan út af sporinu og fór niður í hjólfar eigingirni og hagsmunapots. Göfugu markmiðin gleymdust en fólkið sem enn kýs flokkinn rígheldur í vonina um að upphaflegur tilgangur verði þrifinn upp úr skúffunum og farið að vinna fyrir fólkið í landinu. Fyrir ALLA.

Er kominn tími til að gera byltingu á Íslandi í nafni mannúðar og drepa niður viðbjóðinn sem ræður ríkjum núna?

Já, ég er á þeirri skoðun. Ég er hins vegar í útlöndum og ekki til stórræðanna svo ekki stend ég á þingpöllum eða fer og tala við ráðamenn þjóðarinnar. Ég verð að treysta á þá sem enn eru á landinu. Ég verð að treysta því að til sé baráttufólk eins og konan sem nú hefur kvatt þennan heim. Ég verð að treysta því og trúa að einhver drífi sig í að gera það sem gera þarf og láti ekki bara duga að skrifa og heimta eitthvað sem enginn veit í raun hvað er.

Ég verð að trúa því að fái að lifa þá tíma að óbragðið hverfi úr munninum á mér þegar ég hugsa um hið háa Alþingi Íslendinga.

Missi ég þessa trú þá er lífið búið.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Bloggfærslur 12. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband