1.maí 2017. Hrun eldri borgara og öryrkja !

1.maí 2017

Það er kominn 1. maí og hátíðahöld í tilefni dagsins leiða í ljós sprungur í ASÍ.

Tími til kominn að fólk átti sig á því að ekki er allt sem sýnist hjá þeim sem gefa sig út fyrir að verja kjör þeirra lægst launuðu í forríku þjóðfélaginu.

Það er auðvelt að tala fallega og skarta fínum orðum á tyllidögum en erfiðara getur reynst að standa við fögru fyrirheitin og sýna að hugur fylgi.

Þórunn H. fyrrverandi formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nú stjórnarmaður (eða hvað sem það er kallað) í hinum margfræga her gráðhærðra, lýsir því yfir í athugasemd að Ragnar Þór, nýkjörinn formaður VR, hafi ekki vit á málum lífeyrissjóða og því kerfi sem þar er rekið. Eins og svo oft áður fer ekki mikið fyrir rökstuðningi þessarar ágætu konu.

Hvað á hún við?

Telur hún óeðlilegt að greiðslur eftirlauna séu miðaðar við framfærslu?

Vel getur verið að hin ágæta kona ríði feitum hesti á sínum eftirlaunum en það gera varla konurnar í verkalýðsfélaginu sem hún samdi fyrir í denn. Alla vega ekki þær sem komnar eru á eftirlaun, það er ég alveg viss um.

Óskaplega væri það nú gott ef fólk sem veit betur en allir aðrir segi okkur hinum fávitunum hvað verið er að tala um svo við getum myndað okkur sjálfstæða skoðun en þurfum ekki að taka opnum örmum manni eins og Ragnari Þór sem talar mannamál og við skiljum bara nokkuð vel.

Getur það verið að Ragnar Þór sé hættulegur samtöðu ASÍ og klíkunnar þar? Getur það verið að hann sé að rugga bátnum svo óþægilega að þeir sem fyrir eru hafi veikst af sjóveiki og kannski byrjaðir að gubba vegna hins óstjórnlega kvíða sem maðurinn vekur upp hjá forystunni?

Nú er að koma sá tími sem fólk hlakkar til að fara í orlof og sumir hafa nú þegar fengið greidda orlofsuppbót með launum sínum eða fá hana alveg á næstunni.

Þeir sem eru komnir á eftirlaun hafa fengið þessa uppbót á ellilífeyri sinn og greiðslan komið sér vel fyrir marga.

Í fyrra fékk ég greitt frá Tryggingastofnun ellilífeyri að upphæð krónum 39.962 og svo fékk ég tekjutryggingu sem var 81.077 krónur.

Orlofsuppbót fékk ég líka og var hún krónur 14.895.

Hvernig fékk stofnunin út þessa tölu (14.895)?  Jú hún var prósenta af tekjutryggingu og ekkert mál að reikna hana út.

Aftur á móti er málið flókið og eiginlega bara ansi snúið eftir nýju lögin um almannatryggingar og get ég alveg skilið vandræði ráðuneytisins, og að það þvælist fyrir þeim hvað nú skuli til bragðs taka.

Það gleymdist að taka orlofsuppbót og desemberuppbót með þegar verið var að véla með eftirlaun og skipta þeim niður í ellilífeyri og heimilisuppbót til þess að fá fallega háa tölu sem hægt var að slengja framan í þá sem voguðu sér að kvarta.

Ég get ímyndað mér að ráðuneytis fólk sitji sveitt og velti fyrir sér hvernig hægt sé að snúa sig út úr vandanum og kannski hefur ráðherrann verið kallaður til.

NÚNA er ellilífeyrir 228.734

NÚNA er engin tekjutrygging bara heimilisuppbót og hana fá bara sumir

NÚNA ætti líklega að reikna orlofsuppbót af 228.734 en þá vandast málið. Fólk fengi dágóða upphæð, sem gengur auðvitað ekki. Hin leiðin er að nota ægilega lága prósentu svo krónurnar væru færri. Það er heldur ekki gott og seldist líklega illa fyrir kosningar.

Hvað er til ráða?

Hef ekki hugmynd en ég dauð vorkenni aumingja ráherranum og velferðanefndinni og bara þingheimi yfirleitt að þurfa að horfast í augu við hvað málin geta stundum verið ægilega snúin.

Þetta minnir mig bara dáldið á herra Trump sem er svo hissa á því hvað það er mikið starf að vera forseti Bandaríkjanna.

Og rúsínan í pylsuendanum er auðvitað þessi:

Þegar Félag eldri borgara ásamt ASÍ og fleirum sendu inn umsögn um hin nýju lög um Almannatryggingar, gleymdi þetta ágæta fólk að nefna orlofs- og desemberuppbætur? Skiptu þær toppana svo litlu máli að þær duttu upp fyrir? Nei, það getur ekki verið, þetta fólk er að vinna fyrir þá sem komu þeim í fínu jobbin og greiða þeim háu dásamlegu launin. Auðvitað er þetta eins og venjulega andstyggileg athugasemd sem ég skammast mín fyrir, eða þannig.

Í dag er fyrsti maí, dagur verkalýðsins og formenn félaga koma og tala fallega og bumbur eru barðar. Flestar eru þær nú nokkuð vel við vöxt en samt er einn frekar bumbulítill og þar af leiðandi ekki sérlega vinsæll. Hann lækkaði meira að segja launin sín af því honum fannst það sanngjarnt. Ég er auðvitað miður mín, svo miður mín að dagurinn liggur líklega niðri hér í nýja heimalandinu mínu.

Kannski kem ég mér þó úr náttfötunum og gleðst með bumbulausa nýja formanninum og sendi honum hlýjar kveðjur í tilefni dagsins. Hinir sem hafa safnað framan á sig góðæri og þyrftu líklega að bregða sér sjálf í líkamsrækt geta eiginlega gert það sem þeir vilja, andskotalaust af minni hálfu.

Hulda Björnsdóttir


Bloggfærslur 1. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband