Hvítir leggir - brúnkukrem

24.maí 2017

Í dag er ótrúlega heitt, aftur! 32 stig nú þegar klukkan er ekki nema rúmlega 10. Það er von á rigningu á morgun og veitir eiginlega ekki af. Við erum að verða vatnslaus í landinu vegna þurrviðris. Ótrúlegt en satt.

Ég fékk hálfgert samviskubit í morgun þegar ég var að vökva blómin en hugga mig við að græna lífið hjálpi náttúrunni.

Ég er þeirra gæfu aðnjótandi að hafa hvíta leggi, hvíta eins og liðið lík.  Þegar ég var í Kína þótti þetta dásamlegt því þau vita ekkert verra en ef litur kemur á húðina og eru til dæmis öll krem þar með hvíttingu.

Jæja, söngkennarinn minn ráðlagði mér í fyrra að fá mér brúnkukrem til þess að  bera á leggina og gerði ég það. Mig minnir að ég hafi notað það nokkrum sinnum en nú er komið nýtt sumar og ég enn með lík leggi, snjóhvíta og þykir mér það ekki auka á fegurð mína.

Þar sem gærdagurinn var kjóla eða pils dagur sáust leggir mínir vel og nú skyldi setja brúnkukrem á líkin. Gerð ég það og skildi ekkert í því hvað lítill munur sást eftir um það bil 2 klukkutíma. Líklega var þetta krem mitt eitthvað einkennilegt, eða þannig.

Klukkan 3 varð mér aftur litið á leggina.

Hm, eitthvað mikið hafði gerst. Þeir voru fallega brúnir, ekki dökkir, bara svona smá hraustlegir. Verður mér svo litið niður á fótinn sjálfan til þess að dást að listaverkinu og bregður heldur betur. Fóturinn er snjóhvítur, alveg eins og lík. Þetta getur ekki verið, leggirnir fallegir og löppin hvít.

Ég hafði gleymt að bera á fótinn, hugsaði bara um leggina. Ekki gott mál en nú verð ég líklega að vera í sokkum, svona pínu litlum, til þess að fela hvíttið !

Það er ekki á mig logið. Vitleysan rennur ekki bara upp úr mér, hún hefur tekið sér bólfestu í höndunum líka.

Í næstu viku fer ég í einhverja viðbjóðslega rannsókn og þarf að hætta að borða almennilegan mat nokkrum dögum áður. Ég var spurð í gær hvort ég vildi heldur að kona gerði þessa rannsókn? Svo heimskuleg spurning. Hvað ætli mér sé ekki sama. Ég verð svæfð og hef ekki hugmynd um hver er að gera hvað.

Ég má ekki koma eftirlitslaus. Það verður að vera einhver sem getur tekið ábyrgð á mér. Þegar ég spurði hvort ég gæti ekki komið ein ef ég sæi um að verða sótt gerðist eitthvað.

Ætlar þú að koma með bussinum? spurðu þau

Nei, ég var nú að velta fyrir að taka leigubíl, svaraði ég

Já, það ætti að vera í lagi, sagði sú stutta en hún var ekkert sérlega hamingjusöm með þetta svo ég bað vinkonu mína að taka ábyrgð á mér. Sent og sótt er skilyrðið. Aðgerðin er ekki fyrr en klukkan 6 um kvöldið svo líklega verð ég ekki komin heim fyrr en um miðnætti. Svo sem allt í lagi þar sem ég verð í fylgd fullorðinna.

Sú stutta veit að ég er ekki yfir mig áhugasöm um að láta þetta yfir mig ganga, þ.e. svona krukk, og hún marg bað mig að missa nú ekki kjarkinn. Auðvitað geri ég það ekki en ég vil ekki fara í þessa fjandans aðgerð en verð að gera. Ég lofaði mínum dásamlega DR. Daníel og Dr. Jorge að gera þetta. Ekki get ég svikið þá !

Svona getur lífið nú leikið við mann,bara að koma auga á jákvæðu hliðina og sú sem er þessu hjá mér heitir:

Aðgerðinni lokið !!!!

Leggirnir verða líklega orðnir hvítir aftur þegar ég leggst á borðið hjá herramanninum en það kemur dagur eftir þann dag og meira brúnkukrem á leiðinni. Næst gleymist ekki að stússa við lappirnar líka. Þær mega ekki verða útundan aftur. Það er alveg ljóst, rétt eins og að eftir dag kemur nótt.

Hulda Björnsdóttir

 


Hvernig er það eiginlega að eiga afmæli?

24.maí 2017

Í fyrradag átti ég afmæli og eignaðist eitt ár enn eins og við segjum hér í landinu mínu.

Mér finnst þetta orðatiltæki "að eiga svo og svo mörg ár" ótrúlega fallegt. Við erum spurð um aldur okkar og segjum "ég á .....ár."

Núna á ég 72 ár.

72 ár er hellingur. Eiginlega bara nokkuð gott. Margir ná ekki svo háum aldri og sumir sem eru hér í lífinu hafa fengið nóg.

Ég veit svo sem ekkert hvernig þetta ár verður eða hve mörg ég eignast í viðbót en eitt veit ég þó. Ég ætla að njóta þessa nýja áfanga í botn, svona innan marka þess sem heilsan leifir.

Þetta er eins og með gömlu bílana. Við þurfum frekara viðhald eftir því sem við eignumst fleiri ár.

Á afmælisdaginn minn var ég hálf döpur, svona innan um og saman við. Það hrúguðust upp alls konar minningar sem mér tekst reglulega vel að láta í friði og ég var ekki par hress með þær.

Nú er ég búin að ná mér aftur á strik en ætla að koma mér í gír til þess að skrifa um hörmungar drykkju náinna ættingja, ekki endilega minna ættingja heldur almennt. Það er þetta andstyggðar brennivíns frumvarp sem er að valda mér hugarangri og vekur upp þessar hugsanir mínar.

Ég ætla ekki að skrifa um þetta í dag, ég er enn að melta með mér hvað ég ætla að taka fyrir. Nægilegt efni er til. Hörmungar ofdrykkju og hvernig þær leggja heilu samfélögin í rúst er vel þekkt en ekki mikið rætt. Þetta er jú samfélagsmein sem best er að láta liggja kyrrt og endilega ekki að tala um.

Við getum talað um allt milli himins og jarðar og helst það sem skiptir í raun engu máli.

Það sem skiptir máli er að allir  græði sem allra mest og þá þarf ekkert að vera að velta sér upp úr einhverjum smá óhöppum sem verða hér og þar, jafnvel þó það heiti ofdrykkja.

Brennivín í matvörubúðir er markmiðið.

Nú er komin ný verslun á Íslandi og einhvers staðar sá ég að þar verði brennivín til sölu með matvörunni. Veit ekki hvort það er rétt.

Þessi nýja verslun er held ég að bjóða nokkuð sæmileg verð fyrir heimilishaldið.

Hvert renna skattar þessa fyrirtækis?

Borgar það skatta til íslenska ríkisins eða renna peningarnir í sjóð erlendis?

Ég spyr auðvitað eins og fávís kona en mig langar til að vita þetta.

Ég versla aldrei, aldrei í búðum hér í Portúgal sem ekki borga skatta til samfélagsins. Það getur verið að ég þurfi að borga aðeins meira fyrir vöruna en þar sem ég legg minn skerf til samfélagsins ætlast ég til þess að aðrir geri það sama.

Er það óréttlát krafa?

Hulda Björnsdóttir

 


Bloggfærslur 24. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband