Matarvenjur

20.maí 2017

Matarvenjur okkar geta verið margvíslegar og er ekkert nema gott eitt um það að segja.

Ég er ekki sérfræðingur í mat og hef í raun harla lítið vit á því hvað er gott og hvað ekki.

Nú á dögum er í tísku að borða Chia fræ og Goji ber, allavega hér í Portúgal.

Turmerik er líka komið á vinsældalista í landinu.

Allt er þetta vegna þess hve þjóðin er mikil um sig og sykursýki og hár blóðþrýstingur algengir sjúkdómar hérna.

Læknar ráðleggja fólki að leggja af en svo er eiginlega eftirlitið búið.

Fólk fréttir af fræjum og kryddum og berjum sem eiga að lækna allt.

Þegar komið er á heilsugæslu er blóðþrýstingur mældur og fólk er vigtað.

Nú borða margir heil ósköp af hinum hollu berjum og fræjum og skilja ekkert í því að allt í einu fer að bera á einkennilegri hegðun hægða, blóðþrýstingur hækkar þrátt fyrir lyf og eitt og annað dularfullt skýtur upp kollinum jafnvel þó mikið sé notað af öllu mögulegu heilnæmu. Hnetur og fræ á hvers manns diski og allt í einu er ofnæmi komið til sögunnar.

Alls konar smoothies eru blandaðir og þeir ásamt fleiru eiga að vera lausnin.

Fyrst eru rætur, grænmeti og ávextir settir í safavélar og svo dettur blandan ofan í mixerinn. Allur hinn dásamlegi safi, hinn heilnæmi almáttugi safi er svo drukkinn og öllum líður dásamlega.

Þetta er svo fyrirhafnarlítið, bara að drekka eða þamba drykkinn og ekkert að hafa fyrir því að tyggja eða vesenast með hnífapör og svoleiðis.

Mér verður alltaf pínúlítið illt þegar ég hugsa til þess hvernig safakúrar, fitukúrar, bananakúrar, agúrkukúrar og hvað þeir allir heita, taka yfir matarvenjur fólks.

Er ekki til eitthvað sem kallað er súkkulaðikúr? Ég væri til í að prófa hann og dræpist líklega mjög fljótlega svo best að láta hann vera.

Mamma var mikill sjúklingur allt mitt líf og eitt sinn fór hún á heilsuhælið í Hveragerði sér til heilsubótar. Hún kom heim með fullt af uppskriftum af heilsusamlegum réttum sem ég elskaði frá fyrstu stundu. Svo var ég í skóla þar sem maturinn var ekta grænmetisfæði og við urðum ástfangin um leið.

Grænmetisfæði er ekki bara kál. Grænmetisfæði er unaðsleg blanda af ýmsu því sem ræktað er á jörðinni en etur ekki plöntur og gras. Grænmetisfæði er ekki safasull, það er tuggið og borðað með hníf og gaffli á vesturlöndum en með prjónum í Kína. Það er grænt unaðslegt brokkoli sem maður bítur í og nýtur litarins þegar maður horfir á það. Það eru baunir, alls konar baunir, soðnar og búnar til kássur og buff. Það eru gulrætur sem brosa falleg og breiða úr appelsínugula litnum þegar bitið er í þær og allar yndislegu trefjarnar binda vatnið og hjálpa æðunum að blómstra og taugaendum að brosa.

Svo er hinn yndislegi fiskur hjá þjóðum sem eru svo heppnar að fá ferskan fisk oft á tíðum beint upp úr sjónum. Fiskurinn er uppspretta lífsins hjá sumum og öll dásamlegu efnin sem hann ber með sér fá að njóta sín og hjálpa líkamanum að tikka.

Sumir grilla fiskinn og hann heldur öllu sínu, aðrir gufusjóða hann og njóta gæðanna og enn aðrir drekkja honum í olíu eða sjóða í mauk. Fer allt eftir smekk hvers og eins.

Ég er þeirrar skoðunar, og það er bara mín skoðun og allir aðrir mega hafa aðra skoðun, að matur sem er mauksoðin eða steiktur í spað sé í raun og veru myrtur með köldu blóði.

Svo er það vatnið. Vatnið sem er stærsti partur líkama okkar og við drekkum svo sparlega, rétt eins og um gull sé að ræða sem ekki má eyða í vitleysu. Það er alveg sama hvað ég borða hollan mat, drekki ég ekki nægilega mikið vatn, og gæti þess að fá nægilegar trefjar er allt unnið fyrir gíg.

Sumir borða hráfæði, sem er grænmetisfæði sem ekki er soðið, held ég. Ég þekki það ekki, hef bara heyrt um það. Ég á bók um það og las mér aðeins til í henni en fannst þetta svo flókið og seinlegt að ég gafst upp.

Allar öfgar eru af hinu illa, held ég.

Ég borða aldrei rautt kjöt. Mér finnst og hefur alltaf fundist það vont. Ég borða hins vegar túnfisk sem er rauður, svo þetta tengist ekki litnum. Túnfiskurinn minn fer á grillpönnuna mína og er sæll og glaður þegar hann fær salat og avokado eða eitthvað sérstakt með. Svo þykir honum líka stundum gott að fá sætar kartöflur sér við hlið á meðan hann grillast. Sætar kartöflur eru mitt uppáhald og líka mjög hollar. Ég borða aldrei venjulegar kartöflur og saltfiskur finnst mér ógeðslegur.

Ég elska lax og silung. Við fáum auðvitað aldrei silung hér í landinu mínu en lax er á boðstólnum. Grillaður lax er gómsætur.

Líklega er ég matvönd, svona þegar ég hugsa um það. Ég borða ekki hvað sem er.

Ég vil vita hvað er í sojamjólkinni minni og þess vegna bý ég hana til sjálf.

Ég vil líka vita hvað er í brauðunum mínum og þau koma úr bakarofninum mínum. Ég lærði hjá Sollu á Grænum kosti fyrir mörgum mörgum árum að búa til himneskt brauð og hef haldið því. Það er frábært að vita upp á hár hvað er í brauðinu mínu.

Ég borða ekki kúaost. Mér finnst hann vondur og held að kúamjólk sé ekki sérlega góð fyrir mannfólkið. Bara mín skoðun. Ég elska geitaost og geitamjólk. Þær eru svo krúttlegar og litlu krílin bræða úr mér hjartað þegar verið er að mjólka þær. Veit ekkert hvað það er sem mér finnst svona unaðslegt í fari þeirra en svona er þetta bara. Þorgerður snillingur sagði mér frá geitavörunum fyrir mörgum árum og ég trúi henni.

Mamma, heilsuhælið í Hveragerði, skólinn minn á unglingsárunum, Solla á Grænum kosti og Þorgerður ásamt kínverskum vinum eru þau sem hafa mótað matarvenjur mínar. Læknarnir mínir eru ánægðir með matseldina mína og ég nýt þess að borða með hníf og gaffli og stundum með prjónum.  Ég fæ mér stundum smoothie úr berjum og nota frosna banana til þess að gera þá undurmjúka. Þetta eru aukabitar en ekki aðalmáltíð. Stundum bý ég til ís úr avokado og er hann himneskur.

Það er svo margt hægt að gera úr góðu hráefni en kannski er mikilvægast að detta ekki niður í öfgakúra og athuga hliðarverkanir berja og krydd jurta. Bara mitt álit.

Hulda Björnsdóttir 

 

 

 

 

 

 


Ronaldo, hvað er að gerast hjá þér kæri vinur !!!

20.maí 2017

Þar sem ég bý í Portúgal tek ég ægilega mikið nærri mér þegar eitthvað fer úrskeiðis hjá landanum.

Núna er auðvitað allt mögulegt til þess að gleðja mig.

Við unnum júróvision með lagi sem mér finnst frekar einkennilega líkt einu Disney lagi en það er nú bara misskilningur minn.

Ég held að söngvarinn, sem allar kellingar á Íslandi liggja flatar fyrir, sé lagður af stað til þess að hitta þingheim. Auðvitað er þetta kvikindislegt hjá mér með "allar kellingar". Fyrirgefið mér en þetta passar eitthvað svo vel inn í stílinn en ég veit að ég á ekki að láta svona.

Svo kom Páfinn og heimsótti okkur og tók í dýrðlingatölu eitt af börnunum sem fékk vitrunina í Fatima forðum. Allt fór vel þar og hann flaug meira að segja yfir bæinn minn.

Síðan er Madonna að skoða hús í Lissabon og verður ekki amalegt að fá stjörnuna í hóp landans. Fólk er eitthvað að kvarta yfir því að hún sé ekki að kaupa í sama verðflokki og það ! Þetta eru auðvitað bara öfundsjúkir Bretar sem láta svona og enginn hlustar á rausið í þeim.

Já, og við unnum fótboltaleikinn. Ég meina sko Benfica vann. Ég var ekkert þar viðriðin. Horfði bara á leikinn og nennti ekki meiru þegar 4 mörk voru komin, enda óþarfi, nágranninn æpti svo hátt að ég vissi um síðasta markið. Ég kann ekkert á fótbolta en mér finnst gaman að horfa á hann, stundum. Strákarnir eru svo flottir, miklu flottari en flestir þeir sem ég hef fyrir augunum dags daglega. Auðvitað eru undanteknir, til dæmis vinir mínir í ræktinni og svo auðvitað fallegu læknarnir mínir, sem gleðja auga mitt ekki síður en að halda mér gangandi þrátt fyrir eitt og annað sem líkaminn kveinar yfir að sé ekki í lagi.

Fyrst ég er að tala um fótbolta þá get ég ekki annað en minnst á blessaðan gull drenginn. Nú er hann líklega að verða frægur að endemum, (segir maður af endemum eða að, ég er hreint ekki viss) eina ferðina hann. Hann er nefnilega að verða uppvís að því að hafa ekki greitt ALVEG það sem keisaranum bar. Ekki ALVEG!

Æi, mér finnst þetta svo mikil lákúra hjá fjölmiðlum hérna í landinu. Geta þeir ekki látið blessaðan drenginn í friði? Og nú fer hann kannski að gráta enn meira. Ég þoli ekki svona kvikindis skap. Það á ekkert að vera að væla yfir því þó hann sé ekki að eyða miklu í einhverja hít til samfélagsins. Blessaður drengurinn bjargar öllu. Gefur til þeirra sem hafa kveikt í og hjálpar þeim sem þurfa að fara í flott föt. Svo er hann svo ægilega sætur þessi elska. Hann er sko almennilegt krútt í skál skal ég segja ykkur kæru íslensku vinkonur.

Ég get auðvitað ekkert gert til þess að hjálpa krúttinu. Ég er bara útlendingur og hef ekkert að segja en það kremur hjarta mitt að sjá myndir af honum öllum útgrátnum og bólgnum í andlitinu bara út af einhverjum smáaurum.

Elsku drengurinn ætti bara að bregða sér til Bandaríkjanna og tala við krakkana hans Trump. Þau vita hvernig á að gera þetta og af því að Trump er ekki heima núna þá gæti hann talað við krakkana. Líklega getur hann ekki beðið eftir því að Trump komi heim og ekki fer hann að elta hann til Arabalanda, eða hvað.

Svo er þetta líka svo hallærislegt hvernig einhverjir lögmenn láta við aumingja Trump og nú á að fara að skoða hvort hann sé almennilegur glæpamaður. Sko, mér finnst þetta nú full langt gengið og eiginlega bara einelti á aumingja Trumpinn. Hann svaf ekkert, eða sama og ekkert á leiðinni til Arabíu. Líklega hafa áhyggjurnar verið að buga hann. Svo leiðinlegt og eiginlega andstyggilegt þó að hann hafi pissað aðeins utan í flotta Rússana og að einhver FBI maður sé að skipta sér af því sem honum kemur ekkert við er auðvitað ekki hægt.

Hvað er eiginlega að fólki í þessu blessaða bandaríkjalandi!

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 


Verð á Íslandi, nei ég verð ekki á Íslandi, ég er að tala um verðlagningu!

20.maí 2017

Verðlag á Íslandi er mikið í umræðunni núna. Stórverslanir eru að koma til landsins og fólk að uppgötva að verðið hjá þeim (stórmörkuðunum) er hærra en erlendis.

Ekki er hægt að kenna hækkun í hafi um allan muninn.

Hvað er þetta þá?

Eru þeir sem selja íslendingum svona illa innrættir að þeir leggja meira á vörur til Íslands en sumra annarra landa?

Halló!

Hafið þið heyrt um framboð og eftirspurn?

Eða kannski stærð markaðar?

Ef þið væruð að selja vöru til Kína á risamarkað þar og svo sömu vöruna til Íslands, mundi vera sama verð á báðum stöðum?

Ef þið selduð vöru til Portúgal þar sem milljónir búa og svo sömu vöruna til Íslands sem er með rúm þrjúhundruð þúsund íbúa, væri þá sama verð í báðum löndum?

Finndist ykkur það sanngjarnt ef þið setjið ykkur í spor seljandans? Ég bara segi svona.

Ég skil þetta aldrei, þennan einkennilega samanburð við verð erlendis hjá milljóna þjóðum og svo pínulitla þjóð með örfáa íbúa.

Nú verður auðvitað allt vitlaust og ég líklega kaffærð í athugasemdum um að ég hafi ekki hundsvit á þessu og eigi bara að halda mér á mottunni og ekki að þykjast vera sérfræðingur í þessu.

Hah,

Ég er ekki sérfræðingur og held því ekki fram. Ég er hins vegar sæmilega greind og mér finnst framboð og eftirspurn ásamt stærð markaðar hafa hér áhrif.

Ef þeim sem alltaf vita best og eru sérfræðingar í ÖLLU finnst ég fara út fyrir rammann þá verður bara að hafa það.

Ég veit til dæmis, vegna reynslu, að verð í Svíþjóð á ákveðnum vörum er hærra á Íslandi vegna þess að markaðurinn er smærri.

Ég veit líka, vegna reynslu, að verð t.d. á vörum sem eru framleiddar í Sviss er hærra á Íslandi en til dæmis í Noregi, bara vegna stærðar markaðarins.

Mér finnst þetta svo augljóst að ég ætla ekkert að reyna að réttlæta þessa skoðun mína.

Ef sérfræðingarnir, hinir sjálfskipuðu, setja sig í spor framleiðanda eða seljanda þá gætu þeir hugsanlega orðið sammála mér !

Hulda Björnsdóttir

 

 


Bloggfærslur 20. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband