Hvernig elda kínverjar?

14. maí 2017

Eftir allt júró talið þarf að skipta um gír og mér datt í hug að segja aðeins frá því hvernig vinir mínir í Kína elda matinn.

Eldhúsin eru venjulega pínulítil. Þar er vaskur og eldavél. Ísskápur er oft inni í eldhúsinu en getur líka verið frammi á gangi eða bara hvar sem er.

Uppþvottavélar eru sums staðar en langt frá því á hverju heimili sem ég kom á. 

Stór wook panna er alltaf notuð. Svo er sérstakur hrísgrjónapottur sem gengur fyrir rafmagni. Sojavél, þar sem mjólk er búin til úr sojabaunum er líka mjög algeng. Litlar vélar sem búa til drykk úr baunum eru líka mikið notaðar yfir sumarið. Þá eru baunirnar settar í vélina að kvöldi og um morguninn er allt tilbúið. Mungbaunir voru mest notaðar þar sem ég bjó.

Með wook pönnunni eru spaði og sleif.

Stór hnífur sem notaður er til að skera allt hráefni smátt niður er allstaðar til.

Borðbúnaðurinn eru litlar skálar fyrir hrísgrjónin og prjónar til þess að borða með ásamt litlum skálum fyrir súpu og þeim fylgja skeiðar úr postulíni.

Maturinn er látinn á föt og borinn fram eftir því sem hann er tilbúinn. Ekkert endilega í einhverri ákveðinni röð. Stundum fær maður grænmeti t.d. brokkoli fyrst og svo koma réttirnir koll af kolli.

Súpa er í skál á miðju borðinu og litlu réttirnir á fötunum í kring.

Ausur eru í súpuna og stundum skeiðar í kjötrétti en ég man ekki eftir einum einasta gaffli í svona borðhaldi.

Allir fá sér mat af fötunum með sínum prjónum og maður gæti hugsað sér að þetta væri sóðalegt. Mér fannst það ekki og líklega er það klaufaskapur útlendinganna sem gæti verið hættulegur og að þeir sulli út um allt.

Bein eru látin á borðið. Það eru ekki diskar fyrir úrgang. Hann fer bara á borðið í snyrtilega hrúgu hjá hverjum og einum og er svo þrifinn að lokinn máltíðinni.

Það er eitthvað svo notalegt við þessa samveru og hvernig allir borða í raun af sama diskinum, nema auðvitað súpuna, hún er í lítilli skál fyrir hvern og einn.

Það skipti ekki máli hvað ég þekkti fólkið vel ég var alltaf útlendingurinn og allir pössuðu upp á að ég færi ekki svöng frá borði.

Gestir borða fyrst og húsmóðirin síðast. Húsmóðirin er upptekin við eldamennskuna ef það er hún sem eldar. Oft voru það karlmennirnir sem bjuggu til matinn og stundum var hjálpast að. Þetta var allt mismunandi eftir heimilum og fjölskyldum. Kínverskir karlar eru oft á tíðum listakokkar. Ég þekki hins vegar engan karl sem sér um þvottana. Það var á þeim heimilum sem ég þekkti til hlutverk kvenna að þvo þvotta og þrífa húsið.

Oft gerðist það þegar ég kom í búð á matmálstíma að mér var boðið að borða með starfsfólkinu. Ekki langt frá heimili mínu var svæði með litlum búðum og grænmetis markaður þar sem fjölskyldan bjó innan af búðinni sjálfri í einu herbergi og þar var eldað og sofið og borðað. Þessar fjölskyldur áttu oft 2 íbúðir. Önnur var í búðinni og var bara eitt herbergi. Hin var á öðrum stað og stór og venjuleg með eldhúsi stofu og svefnherbergjum fyrir hvern og einn. Öll eldhús sem ég sá í Kína voru lítil.

Þegar ég var á leið í skólann eða á heimleið og það tók að rigna kom einhver út úr búðunum og lét mig hafa regnhlíf ef mín var ekki með í för. Svo skilaði ég gripnum næsta dag eða bara hvenær sem ég var á ferð næst.

Ég naut þess að fá að koma til alls konar fólks. Sumir voru bláfátækir og aðrir forríkir og allt þar á milli.

Á kvöldin fékk ég mér oft göngutúr út fyrir svæðið þar sem ég bjó og þá var ég komin beint inn í faðm hins dásamlega hversdagslífs. Litlar búðir sem seldu útskorin listaverk, skorin út úr rótum trjáa, eða steyptar gersemar, voru út um allt og ég naut þess að fá að sitja og horfa á listamennina vinna. Búðirnar breyttust á kvöldin í heimili eða vinnustofu. Það var oft glatt á hjalla og krakkarnir komu til þess að læra ensku á meðan afar og ömmur horfðu brosandi á. Á svona kvöldum var mikið spilað, karlarnir spiluðu á spil, og stundum kom einhver með hljóðfæri og það var sungið og jafnvel dansað.

Á kvöldin voru bornar fram hnetur og auðvitað te í pínulitlum bollum sem eru ekki meira en einn munnsopi. Alls staðar eru teborð, hversu lítið sem fólkið hefur á milli handanna virðist te hefðin lifa af og öllum boðið te. Ég var ekki sérlega flink við að útbúa teið eftir kúnstarinnar reglum og tóku öryggisverðirnir og gæslufólkið málið í sínar hendur þegar við sátum úti í garðinum mínum og spjölluðum. Það var oft glatt á hjalla undir sólhlífinni þegar hitinn var að drepa okkur.

Að búa á litlum stað, sem er auðvitað ekki lítill á vesturlanda mælikvarða, gerir það að verkum að allt verður miklu persónulegra.

Auðvitað er það undir hverjum og einum komið hvernig hann hagar sér og hvað hann blandar mikið geði við heimafólk. Það verður fróðlegt að sjá hvort fólkið í litlu búðunum man eftir mér þegar ég kem í heimsókn næst. Mér þætti ekki amalegt að snæða hádegismat með þeim og rifja upp gömul kynni. Krakkarnir eru líklega farin að heiman og sum búin að koma sér upp fjölskyldu og eigin börnum sem dvelja hjá afa og ömmu. Margir af eldri kynslóðinni eru komnir til feðra sinna en aðrir eru enn í faðmi fjölskyldunnar og taka þátt í því sem þau geta. Kínverskt fjölskyldulíf er fallegt.

Nýir nemendur eru í háskólanum en kennararnir eru þeir sömu og margir nemendanna búa enn í Min Hou. Ég hlakka til að komast til Kína og fá að starfa þar eitt andartak enn í þessu lífi.

Hulda Björnsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband