Hugleiðingar á sunnudagsmorgni, eftir Eurovision !

14. maí 2017

Jæja, þá er páfinn farinn frá Portúgal og engin stór slys. Það var fallegt veður mest af þeim tíma sem hann dvaldi í landinu þó ekki væri sérlega heitt og nokkrir dropar kæmu úr lofti. Litlu börnin komin í dýrlingatölu í Fatima og allt eins og það á að vera.

Mér fannst merkilegt að heyra í flugvélinni hans þegar hún flaug yfir þorpið mitt. Landið er svo mjótt og leiðin yfir Spán og til Fatima liggur yfir Penela, eða lá það allavega þegar hans heilagleiki kom.

Einhverjir hnökrar voru við að koma fólki frá borginni í gær en allt leystist farsællega á endanum. Það er ekki einfalt að flytja tæpa milljón manns í burtu í einum hvelli.

Þá er það fótboltinn og Benfica. Alveg ótrúlegur sigur. 5 mörk  og allt ætlaði um koll að keyra í blokkinni minni þegar skorað var. Ég hefði eiginlega getað látið vera að horfa því öskrin voru þvílík. Auðvitað horfði ég á leikinn í sjónvarpinu, rétt eins og ég horfði á komu páfans. Nú eru fótboltaáhugamenn, nágrannar mínir, staðnir upp úr rúminu og reika í sæluvímu um stræti þorpsins og skála fyrir frábærum árangri liðsins góða.

Síðast en ekki síst er það hin dásamlega keppni sem fer fram á hverju ári og allt verður brjálað. Fólk sturlast af gleði yfir frábærum tónlistar viðburði og heldur ekki vatni yfir fallegum lögum fra´ýmsum löndum.

Nú á dögum eru 2 umferðir. Undanúrslit og svo keppnin sjálf.

Íslenski keppandinn komst ekki áfram að þessu sinni og ég sá einhvers staðar að hún hafi fengið 60 stig. Hneyksli og ber auðvitað vott um ótrúlegan klíkuskap eða lélegan tónlistarsmekk Evrópu. Ég er ekki sérfræðingur og veit ekkert um hvað olli þessu dæmalausa óréttlæti.

Ég hlusta venjulega ekki á keppnina. Mér finnst hún frekar leiðinleg og þulir sem tala yfir hina raunverulegu kynna fara aðeins í pirrurnar á mér. Ekki bætti úr skák núna að hlusta á portúgalska þuli sem tala um allt og ekkert, aðallega ekkert. Ég veit ekki hvernig Gísli stóð sig en eitthvað er fólk að hnýta í hann. Af hverju er ekki skipt reglulega um svona kynna? Mér datt þetta bara í hug en kemur það að sjálfsögðu ekkert við.

Eftir fyrri daginn hlustaði ég á 2 lög á Youtube. Ísland og Portúgal. Mér bar eiginlega skylda til þess.

Í gærkvöld ákvað ég að hlusta á alla keppnina og hafði bók með mér. Ég verð að viðurkenna að bókin var svo hrikalega spennandi að ég missti af flestum lögunum. Þegar kom að atkvæðatalningu lagði ég doðrantinn frá mér svo ég félli ekki í freistni og lokaði eyrunum. Það var nú voða sætt að sjá Bjögga, pabba Svölu, kynna stigagjöfina !

Mér tókst semsagt að halda athyglinni nokkurn vegin við gjöfina, en hrikalega var það erfitt og oft þurfti ég að slá á höndina svo ég tæki ekki upp bókina og sykki niður í söguþráðinn meðvitundarlaus um það sem var að gerast á skjánum.

Nú liggja úrslitin fyrir og Portúgalski flytjandinn vann.

Upp rísa sérfræðingar, og brigsla þeim sem eru ekki á sama máli og þeir um ágæti lagsins, um hroka.

Ég vogaði mér að hafa þá skoðun að lagið væri ekki FADO og byggði ekki á FADO hefðinni. Einhverjum fellur ekki þetta álit mitt og það er í fínu lagi. Hins vegar hefði til dæmis verið hægt að inna mig eftir því á hverju ég byggði þessa skoðun mína í stað þess að fullyrða að ég hefði sprottið fram sem sjálfskipaður sérfræðingur.

Ég byggi álit mitt, eða styð það, með því sem vinir mínir sögðu mér. Þessir portúgölsku vinir þekkja vel til hefðarinnar og þeir eru sérfræðingarnir en ekki ég. Æi, þetta er svo dásamlegt hvernig sjálfskipaðir sérfræðingar sjá flísina í auga náungans, eða þannig.

Eitt finnst mér einkennilegt í þessari síma atkvæðagreiðslu, ef rétt er. Getur það verið að hver og einn geti greitt atkvæði 20 sinnum? Ég hélt að hvert númer hefði bara eitt atkvæði. 

Ég ætla ekkert að velta mér upp úr hjartveiki flytjanda portúgalska lagsins eða kviðsliti hans eða handahreyfingum og augngotum. Þetta er allt saman liðið.

Hins vegar þótti mér rúsínan í pylsuendanum þessi:

Ég lækaði við síðu Kjarnans af því hann hafði verið talinn með áreiðanlegri fjölmiðlum. Við þetta læk fæ ég fréttir frá siðunni, sjálfkrafa, og í gærkvöld var sagt að frá Eurovision.

Portúgal hafði unnið og þess vegna yrði keppnin næsta ár á Ítalíu.

Jamm.

Ég var með áhyggjur af því að skattar mínir á næsta ári hækkuðu vegna kostanaðar við Eurovision en þegar ég sá að hún yrði á Ítalíu létti mér stórlega.

Ekki veit ég hvort Kjarninn hefur leiðrétt þetta, en skondið var það, hvað sem öðru líður.

Ætli ég láti sunnudaginn ekki renna í hlað hjá mér og hætti að pikka á lyklaborðið sem þarf líklega að fá hvíldina því sumir takkarnir eru hættir að virka.

Vonandi eiga allir frábæran dag í vændum og ég áskil mér rétt til þess að mega finnast lagið sem vann Eurovision árið 2017 hundleiðinlegt og flutningurinn hallærislegur. Ég virði skoðun þeirra sem finnst lagið dásamlegt og flutningurinn yndislegur en ætlast til þess að mín skoðun sé alveg jafn rétthá.

Hulda Björnsdóttir

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband