Er rétt að flokka fólk niður og setja það í kassa ?

18, maí 2017

Mikið hefur verið rætt um sjálfsvíg bæði öryrkja og eftirlaunaþega og bent á hin ótrúlega bágu kjör sem þessir hópar búa við. Stundum kemur það fólki á óvart að það sé til fólk sem á ekki fyrir mat nema hluta úr mánuðinum. Stundum vekur það óhug hjá sumum að horfa fram á það líf sem lýst er og ætti eiginlega bara að vera í skáldsögum en ekki í raunveruleika árið 2017 á Íslandi.

Fólk fyllist samúð og velvild þegar það les fréttir, svolítið í æsifrétta stíl, um að einhver hafi ekki þolað ástandið lengur og gripið til þess örþrifaráðs að svipta sig lífi.

Það eru því miður þó nokkuð margir, bæði eftirlaunaþegar og öryrkjar sem sjá ekki tilganginn í því að svelta lengur.

Sársaukinn hefur tekið völdin.

Vonleysið er algjört.

Það er ekkert eftir.

Eina sem eftir er af lífinu hjá þessu fólki er dauðinn.

Hann lætur oft bíða eftir sér og þá grípur örvæntingin í taumana og hendir sér fram af svölum, ekur út af bjargbrúninni, fleygir sér í höfnina eða tekur inn lyf til að losna undan okinu.

Það má ekki tala um þetta. Alla vega ekki upphátt.

Í gær fékk ég fréttir um líkamlegt ástand mitt og framhald þess. Ég er heppin. Ég get tekist á við það sem er framundan og ég er sterk. Ég bý með fólki sem er bjartsýnt og ber mig áfram á örmum þreks og vinnu. Ég hef gott heilbrigðiskerfi sem hugsar vel um fólk eins og mig. Allt þetta gefur lífi mínu tilgang þrátt fyrir andstreymi.

Eitt af því sem læknirinn minn sagði við mig þegar við ræddum um framhaldið mitt á þriðjudaginn var þetta:

Hún sagðist vera á þeirri skoðun að þeir sem vildu til dæmis endalaust halda áfram í sjúkraþjálfun væru þeir sem ekki vildu læknast. Þeir vildu halda áfram að vera innan um veikt fólk svo þeir gætu nært eigin krankleika.

Hins vegar sagðist hún sjá að þeir sem vildu fara út í lífið og hætta að treysta á sjúkraþjálfara til þess að halda þeim gangandi, væri fólkið sem nær undantekningalaust næði bata, eða svo miklum bata sem hægt væri.

Ég var hugsi og mér datt í hug hvernig fólk er flokkað niður á Íslandi og sett í kassa.

Öryrkjar eru settir í bás í Hátúni. Bara öryrkjar og engir heilbrigðir búa þar.

Fátækt fólk er látið í blokkir þar sem bara búa fátækir en engir ríkir.

Gamalt fólk er sett í hús fyrir gamalmenni, þar búa engir af yngri kynslóðinni.

Svona flokkun gerir það að verkum að fólk kemst ekki út úr þeim gildrum sem það hefur fest sig í.

Í staðinn ætti að blanda fólki saman. Öllum stéttum hvort sem þær eru ríkar eða fátækar og sjúklingar eða heilbrigðir. Ef það væri gert held ég að margt yrði öðruvísi.

Sjúklingarnir hættu að tala eingöngu um veikindin. Þeir færu að taka þátt í eðlilegu lífi.

Gamla fólkið hætti að vera einangrað sitjandi úti í horni í stól og bíða eftir því að dagurinn liði.

Öryrkjarnir kæmust inn í líf lifenda í stað þess að horfa alla daga upp á fólk sem er jafnvel enn verr statt.

Ég er þeirrar skoðunar að það drepi fólk að setja það í kassa. Það drepur niður allan lífsvilja að velta sér endalaust upp úr því hver er veikastur. Það vekur upp lífsviljann að hafa bjartsýnt fólk í umhverfinu, fólk sem er bara venjulegt fólk með fulla heilsu. Það vekur upp löngunina til þess að taka þátt í þessu eðlilega lífi.

Gamla fólkið er hafsjór af fróðleik og sögum. Að sitja við rúmstokk eða á stól við hlið eldri manns eða konu og hlusta á sögur er eitthvað það unaðslegasta sem ég get hugsað mér. Í morgun sat ég við hliða einnar slíkrar. Hún er 89 ára og var að fræða mig um hvernig Portúgal hafði verið í hennar ungdæmi. Hún naut þess að hafa einhvern sem gaf sér tíma til að hlusta á hana og ég var alsæl með aukna þekkingu á rótum nýju þjóðarinnar minnar. Þegar við kvöddumst og ég kyssti hana ætlaði hún aldrei að sleppa mér. Ég sé hana aftur á morgun og mánudaginn en svo skilja leiðir okkar. Hún heldur áfram í sjúkraþjálfuninni og ég held út í lífið. Þessi gamla kona er heppin, hún býr hjá syni sínum, sem kemur með hana á hverjum degi til Covoes svo hægt sé að létta henni lífið örlítið.

Ég er heppin að hafa fengið að kynnast henni og syninum. Þau eru gott dæmi um hvað það er rangt að setja fólk í kassa og flokka það niður.  Þau eru dæmið um hvernig kynslóðir búa saman og njóta nærveru í stað þess að einangrast í einmanaleika og sorg.

Hulda Björnsdóttir


Bloggfærslur 18. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband