Er ekkert hægt að gera til þess að bjarga Íslandi?

11. maí 2017

Ég hlusta á fréttir af ástandi í Bandaríkjunum þar sem forsetinn rekur hvern sem honum ekki líkar við. Hann getur þetta, hefur valdið. Nú er hann búin að reka FBI forstjórann og ekki ólíklegt að fleiri góðir menn fái að fjúka. Það er ekki gott að mótmæla sjónvarps stjörnunni fyrrverandi, sem nú situr í æðsta embætti veraldarinnar. Hann tekur rússneska blaðamenn fram yfir þá bandarísku og hleypir inn í hvíta húsið Rússum sem hæglega gætu komið fyrir hlerunar búnaði án þess að blessaður forsetinn eða staffið hans hafi hugmynd um.

Þegar ég horfi á þessar fréttir dettur mér Bjarni Ben alltaf í hug.

Bjarni er svona einræðisherra í lýðræðisríki. Alþingi hefur ekki roð við honum og hann gerir það sem honum sýnist, hvort sem það er að baka kökur eða selja ættingjum og vinum verðmæti þjóðarinnar. Það gerir enginn neitt til þess að stöðva framferðið.

Sigmundur Davíð mætir ekki í vinnuna og fær greitt fyrir það rúma milljón á mánuði og líklega eitthvað betur með bitlingum. Það er ekkert gert í því máli og hann unir glaður við sitt.

Ellilífeyrisþegi fær 198 þúsund á mánuði og eru laun Sigmundar jafn mikil og fimm slíkra. Dásamlegt! 

Framfærsluviðmið hafa verið við lýði eins lengi og ég man eftir mér og er það þó nokkuð langur tími. Nú er eins og fólk sé allt í einu að fatta að eitthvað svoleiðis sé til og halda að þetta sé nýtilkomin sannleikur.

Það hefur aldrei verið farið eftir þessum viðmiðum þegar bætur almannatrygginga hafa verið ákvarðaðar. ALDREI NOKKURN TÍMAN hvorki fyrr né síðar.

Að láta sér detta í hug að núna sé allt í einu að renna upp tími réttlætis og núna verði farið að skoða þessi framfærsluviðmið og bæta heldur betur í það sem skammtað er þeim sem hafa greitt skatta allt sitt líf til þjóðfélagsins og byggt það upp fyrir algjörlega gagnslausa þingmenn sem sitja og njóta launanna og gera harla lítið til þess að sporna við fótum þegar spillingin tröllríður öllu.

Til hvers að hafa yfir 60 manns á þingi þegar nægilegt væri að hafa einn góðan forstjóra?

Til hvers að hafa aðstoðarmenn ráðherra, ekki bara einn, heldur marga, svo ráðherra þurfi ekki að vinna of mikið?

Er ekki bara ágætt að reka ráðherrana, fækka aðstoðarmönnum niður í einn og láta þetta ganga eins og vel rekið fyrirtæki?

Það eru jú ráðuneyti sem stjórna því sem þau vilja stjórna og ágætar stofnanir sem sjá um að misvitur lög séu ekki látin ganga yfir lýðinn.

Þingmenn eru óþarfir. Þeir lesa ekki yfir lögin sem þeir samþykkja. Þeir samþykkja bara eða sitja hjá í besta falli. Auðvitað sitja bara stjórnar andstöðu þingmenn hjá. Þeir greiða örsjaldan atkvæði á móti ruglinu. Þeir halda bara röfl tölur úr hinum flotta stól alþingis og svo er þeim alveg sama hvað verður samþykkt.

Jú, þeir, stjórnarandstaðan, skrifa flottar færslur á Facebook og þar eiga þeir, eða að minnsta kosti einn flokkur, ágætan orðljótan talsmann sem segir þeim hvað þeir eiga að gera og færir þeim hugmyndir á silfurfati!

Vitiði, mér finnst þetta svo hlægilegt að ég get ekki einu sinni grátið yfir ástandinu.

Skrípaleikurinn er eins og besta gamanópera þar sem ærsladraugurinn leikur lausum hala og enginn getur rönd við reist.

Hulda Björnsdóttir

 

 


Bloggfærslur 11. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband