Af hverju verða menn öryrkjar ?

26.maí 2017

Ég velti því dálítið fyrir mér hvers vegna öryrkjum hefur fjölgað svo mjög á Íslandi. Hvað veldur því og hvernig er örorkan?

Ég ólst upp hjá öryrkja sem hafði fengið berkla í lungun mjög ung og var blásin. Fólk sem var blásið beið þess oft aldrei bætur og var hún ein af þeim. Hún fékk oft blóðspýting og voru það hræðilegir tímar og ég hræddari en orð fá lýst. Svo braut hún handlegg og brotið greri skakkt þannig að höndin nýttist ekki nema að hluta.

Það var mjög takmarkað sem hún gat unnið en hún reyndi eins og hún gat.

Þessi reynsla mín segir mér að öryrkjar séu ekki aumingjar eins og stundum virðist látið í veðri vaka.

Nú á dögum eru líklega margar ástæður fyrir því að fólk verður öryrkjar. Sumir slasast, aðrir fæðast á einhvern hátt fatlaðir og enn aðrir veikjast af sjúkdómum sem erfitt eða ómögulegt er að lækna.

Sumir verða öryrkjar af áfengisdrykkju og aðrir veikjast á geðinu.

Frú "fátækimála" vill að öryrkjar fari út á vinnumarkaðinn til þess að þeir hætti að "betla" bætur frá ríkinu.

Ég hef velt þessu fyrir mér fram og til baka og er að reyna að skilja hvernig hún kemst að þessari niðurstöðu og um hverja hún er að tala. Er konan í sambandi við raunverulegt líf eða lifir hún í Trump heimi þar sem allt er svo "very very very good".?

Ég veit það ekki.

Hún getur ekki átt við þá sem fæðast fatlaðir.

Hún getur ekki átt við þá sem eru í hjólastól lamaðir og geta sig vart hrært hjálparlaust.

Hún getur ekki átt við þá sem hafa til dæmis misst sjónina af einhverjum ástæðum eða jafnvel fæðst blindir.

Hún gæti átt við þá sem eiga við áfengis vandamál að stríða. Það sést oft ekki utan á þeim hvað þeir eru veikir.

Hún gæti líka átt við þá sem eiga við geðræn vandamál af öðrum toga að stríða en eru í raun líkamlega nokkuð hressir.

Líklega hefur hún aldrei verið innan um geðsjúkt fólk eða þá sem falla niður í dýpstu hyldýpi depurðar og vonleysis.

Mér finnst ekki ólíklegt að hún haldi að þeir sem líta út fyrir að vera líkamlega heilbrigðir geti ekki verið öryrkjar og séu bara letingjar og aumingjar sem svíkja út úr kerfinu af því þeir nenna ekki að vinna.

Þá kem ég að því að velta fyrir mér hvers vegna geðræn vandamál virðast vera svo algeng á landinu græna? Getur það verið að lág laun, slæmt viðurværi og aðbúnaður venjulegs fólks leiði til svo mikillar örvæntingar að fólk verði hugsjúkt?

Getur það verið að í velferðarríki "fátæki" fulltrúans sé til fólk sem rís ekki undir því að eiga ekki fyrir mat handa börnunum sínum eða fyrir læknisþjónustu sem fjölskyldan þarf á að halda?

Er hugsanlegt að fólkið sem á hvergi heima, vegna þess að húsaleiga er þeim ofviða, haldi ekki andlegri heilsu sinni?

Getur það verið að unga konan eða ungi maðurinn sem hefur misst allt sitt vegna græðgi hinna ríku sjái ekki fram á að komast upp úr hjólfarinu og séu svo pikkföst í fátækra gildrunni að þau veikist andlega og verði óvinnufær?

Eru þetta öryrkjarnir sem sú útlenska vill senda út á vinnumarkaðinn til þess að spara ríkinu?

Sé svo er hún líklega að byrja á vitlausum enda. Það er skorið niður í heilbrigðiskerfinu og fólk fær ekki þá hjálp sem er nauðsynleg til þess að ná sér andlega. Væri ekki nær fyrir hina ágætu konu, sem hefur komið ár sinni vel fyrir borð á kostnað íslenskra skattgreiðanda, að sjá til þess að fyrst væri fólkinu hjálpað við að ná heilsu og svo kæmi að því að vinnuveitendur tækju við.

Hvaða vinnuveitandi vill fá til sín mann eða konu sem fellur saman og er frá vinnu dögum og vikum saman vegna andlegrar vanlíðunar? Hefur þingmanninum dottið í hug að beita sér fyrir vernduðum vinnustöðum fyrir fólk sem er að ná sér eftir erfið veikindi?

Ég efast um að þingmaðurinn hafi vit til þess að hugleiða einfaldar leiðir til úrbóta og það sem hún hafi til málanna að leggja sé á þá leið að festa fólk í "fátæki" gildrunni og  að hún gefi lítið fyrir og láti sig engu skipta hvernig almenningi reiðir af.

Er hugsanlegt að við séum að búa til þjóðfélag sem vill helst losna við sem flesta, annað hvort til útlanda eða í dauðann, svo fólk eins og "fátæki" nefndarformaðurinn virðist vera að amast við sé ekki að þvælast fyrir?

Mjög fáir eru öryrkjar af því að það sé svo fínt.

Flestir eru öryrkjar af því að heilsan hefur brugðist.

Getur einhver troðið þessu inn í hausanóturnar á "fátæki" nefndarformanninum, please ! Mér er nákvæmlega sama á hvaða máli það er gert, bara að það beri árangur.

Hulda Björnsdóttir

 


Landsfundur Landssambands eldri borgara

26.maí 2017

Þessi fundur var haldinn núna á dögunum og frá honum kom löng ályktun um hvað heimta skyldi af löggjafanum.

Mér finnst þetta orðalag "krefst..." eitthvað svo leiðinlegt.

Ályktunin er að mörgu leyti góð en sumt er nokkuð langsótt finnst mér.

Þess er krafist að persónuafsláttur hækki þannig að hann fylgi hækkunum launavísitölu frá árinu 1988. Þetta er semsagt leiðrétting aftur í tímann fyrir ALLA, sama hvort tekjur eru 200 þúsund á mánuði eða 2 milljónir á mánuði. Er þetta ekki eitthvað einkennilegt? Gengur þetta upp? Það er verið að tala um 29 ára leiðréttingu aftur í tímann.

Hvað ætti persónuafsláttur þá að vera hár núna? Veit það einhver af því ágæta fólki sem samdi þessa ályktun?

Síðan er talað um að tryggt sé að persónuafsláttur hækki árlega í samræmi við launavísitölu.

Ég er sammála því að besta kjarabót fyrir láglaunafólk og þá sem eru á örorkubótum eða komnir á eftirlaun, væri hækkun skattleysismarka. Ég hef ekkert legið á þessari skoðun minni og held því fram að ríkissjóður tapaði ekki á þessu því neysla fólks mundi aukast og óbeinir skattar kæmu til baka.

En að ætla sér að leiðrétta persónuafsláttinn 29 ár aftur í tímann getur ekki gengið.

Hér finnst mér enn og aftur verið að setja fram kröfur sem líta flott út á pappírnum en geta aldrei gengið upp.

Ég held að það sé vænlegrar til árangurs að hafa kröfur þannig að hugsanlega sé hægt að rökstyðja þær og sína fram á að þær séu raunhæfar. Kröfur út í hött drepa málum á dreif og gera ekkert annað en skemma fyrir því sem væri hægt að gera ef litið væri á raunveruleikann en ekki lifað í draumaheimi sem aldrei rætist.

Annað í þessari ályktun eða kröfugerð fundarins er að taka ætti upp samstarf við samtök launamanna til þess að berjast fyrir bættum kjörum aldraðra í landinu. Ég rek auðvitað augun í þessa setningu. Kjör aldraðra í landinu. Einmitt, enn og aftur sýnir félagsskapur eldri borgara hug sinn til þeirra sem velja að búa erlendis síðustu ár ævi sinnar. Það er aldrei minnst á það óréttlæti sem viðgengst gagnvart þeim sem búa ekki á Íslandi en hafa greitt skatta og skyldur þangað alla sína starfsævi. Nei, þetta fólk getur bara etið það sem úti frýs og haldið sér saman.

Auðvitað er það eðlilegt að samtök launamanna taki þátt í því að berjast fyrir kjörum þeirra sem eru láglaunafólk og þeirra sem komnir eru á eftirlaun. Láglaunafólk og eftirlauna þegar eru spyrt saman í augum hins opinbera og því vettvangurinn eðlilegur.

Ég læt það fara í taugarnar á mér þegar sagt er að Tryggingastofnun lækki greiðslur til eftirlaunafólks afli það sér viðbótartekna.

Tryggingastofnun ræður engu um þetta. Hún gerir það sem löggjafinn segir henni að gera. Tryggingastofnun gefur ekki út lög og reglugerðir. Hún reynir að fara eftir bullinu sem rennur frá Alþingi og gerir sitt besta til þess að leiðrétta ambögur sem fljóta áfram vegna þess að þingheimur nennir ekki að sinna vinnunni sinni og fylgjast með því hvað verið er að samþykkja á hinu háa Alþingi. 

Tryggingastofnun er valdalaus.

Þetta ætti fólk sem er í forystu fyrir Landssamband eldri borgara að vita.

Það þýðir ekkert að rífast í Tryggingastofnun og benda á hana varðandi lögin og reglugerðirnar.

Það er hægt að rífast og æsa sig yfir starfsháttum stofnunarinnar og hvernig mál eru unnin þar en ekki yfir lögum og reglugerðum.

Tryggingastofnun er ekki einu sinni ráðuneyti, ef einhver heldur það.

Hulda Björnsdóttir

 

 


Matur - megrun - hreinsun - og Costco

26.maí 2017

Ég held að ég sé farin að skrifa endalaust um mat en get ekki haldið aftur af mér.

Það er margt alveg frábært sem kemur á netinu um mat og matarræði og svo er líka fullt af alls konar bulli sem fólk gleypir hrátt og heldur að það hafi fundið hina einu sönnu lausn.

Alls konar skyndilausnir og frábær ráð tröllríða samfélaginu og allir eiga að verða bumbulausir á nokkrum dögum, bara með réttu matarræði eða nokkrum magaæfingum og svona get ég röflað áfram endalaust.

Spik er vandamál.

Spik er í flestum tilfellum áunnið og hefði verið hægt að koma í veg fyrir það? Er það svo? Ég er ekki sérfræðingur í spikmálum eða lausnum þeirra. Ég held hins vegar að ég hafi nokkuð gott vald á spiki hjá sjálfri mér.

Það er ekki til staðar. Ekkert auka spik á mínum kroppi. Auðvitað gæti ég hæglega fallið í súkkulaðiát og etið kökur og kransa alla daga eða bakað hnallþórur og leyft matnum mínum að taka sundsprett í fossandi olíu á fínu pönnunum mínum.

Flotta nýja lækna teymið mitt á nýju heilsugæslustöðinni minni í Lousa vigtaði mig og mældi blóðþrýsting í fyrsta skipti sem ég kom þangað, fyrir nokkrum mánuðum.

Þetta er venjulega gert um það bil einu sinni á ári ef allt er eins og það á að vera. Semsagt fylgst með þyngd allra og ekki veitir af hér í bumbulandinu okkar.

Læknirinn minn sagði mér að ég væri innan marka með rétta þyngd en ekki þyrfti mikið að bætast við til þess að ég færi yfir markið. Ég er 170 sentímetrar á hæð og 70,1 kíló að þyngd.

Mér finnst súkkulaði ægilega gott og hnallþórur frábærar. Stundum fæ ég þessa yfirþyrmandi löngun í eitthvað sætt og gott en sem betur fer er aldrei til sykur á heimilinu og súkkulaði kom í heimsókn í fyrra en er enn þá inni í skáp og líklega dettur það í ruslatunnuna fyrr en varir. Það er ekki hægt að geyma það endalaust. Hnallþóru hef ég ekki bragðað í áratugi svo það er bara minningin sem er að hrekkja mig.

Ég passa upp á matarræðið mitt eins og ormur á gulli. Það er hluti af lífs stíl mínum.

Um daginn sá ég frábæra uppskrift af jógúrt morgunmat!

Jamm, eitthvað hafði lífskúnstner þeirrar uppskriftar ruglast í ríminu. Þetta var flott uppskrift af kókosmjólk úr dós sem hafði verið þykkt með CIA fræjum og ávöxtum bætt út í. Vola, komið jógúrt fyrir alla fjölskylduna. Það er líka hægt að þykkja eitt og annað með frosnum banana (bara innskot frá mér).

Ég bý stundum til jógúrt heima hjá mér úr heimatilbúinni sojamjólk af því ég drekk ekki kúamjólk, bara sérviska auðvitað. Mér hefur aldrei dottið í hug að búa til jógúrt úr kókosmjólk úr dós. Kannski er það hægt með jógúrt gerlum, ég bara veit það ekki, en hitt veit ég að uppskriftin sem ég er að tala um innihélt ekkert, nákvæmlega ekkert, sem tengdist jógúrt gerð. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ábyrgðar hluti að telja fólki trú um hitt og þetta ! Það er fullt af auðtrúa manneskjum sem leita grimmt eftir skyndilausnum til þess að losna við bumbur og spik.

Það eru engar skyndilausnir til. Ekkert flóknara en það.

Vatn, prótein og trefjar eru lífsnauðsynleg öllum. Vatn og prótein er líklega ekki að vefjast mikið fyrir fólki en trefjarnar sitja á hakanum. Þær eru eins og heimilislaus umrenningur. Flestum eða mörgum alveg sama um þær. Fljótlegt að skella káli og safa úr ávöxtum í blandara og kannski pínu lítið af duft próteini en trefjarnar fá ekki far með lestinni.

Algengt vandamál hjá fólki er að það gætir ekki hófs og leyfir öllu, líka trefjum, að detta inn um munninn.

Kúrahreinsun, ég veit ekki hvað það er, en líklega ágætt fyrir líkama og sál. Ég ætla ekkert að tala um hana núna. Það yrði ekki vitræn umræða hjá mér og ég sleppi henni í bili en gæti tekið flug þegar vel lægi á mér.

Þá er komið að Costco og skoðun minni á magninnkaupum.

Ég efast ekki um að þessi nýi verslunarmáti hafi áhrif á verðlag á Íslandi og er ekkert annað en gott um það að segja. Ég fer stundum í svipaða miðstöð hér í Coimbra og gerði líka þegar ég bjó í Kína. Sú heitir Metro í Kína og Makró í Portúgal. Mér leiðist að fara í búðir og kaupi það sem endist mér út mánuðinn í einni ferð. Þetta þýðir að ég mundi líklega versla í Costco ef ég byggi á Íslandi. Metro og Makró eru bara fyrir þá sem reka fyrirtæki og þó nokkur skriffinnska tengist umsókn en það eru krókaleiðir sem hægt er að komast með hjálp góðra vina.

Vonandi verður nýja verslunin á Íslandi til þess að aðrar búðir lækka verð.

Í allri sæluvímunni gleymdist eitt.

Það er hópur íslendinga sem geta ekki verslað í svona fyrirbæri. Þeir hafa ekki efni á því!

Til þess að spara þarf oftar en ekki að eiga peninga !

Ótrúlegt en satt.

Hvað ætli það séu margir sem draga fram lífið á lágmarkslaunum, á örorkubótum eða lágmarks ellilífeyri, sem geta farið í innkaupaferðir í Costco?

Þeir sem þurfa að lifa frá degi til dags og velta hverri krónu að minnsta kosti fimmtíu sinnum fyrir sér geta ekki gert hagstæð stórinnkaup.

Fyrir láglaunahópana er þessi viðbót, sem nú er mikið dásömuð, og margir geta nýtt sér, gagnslaus. Hins vegar gæti það gerst að venjulegar verslanir neyðist til að lækka verð svo samkeppnin drepi ekki einkaframtakið. Það yrði bót fyrir þá sem við megum helst ekki tala of mikið um, óhreinu börnin hennar Evu!

Óholl vara er ódýrari en holl!

Getur það verið?

Holl vara er ekki fyrir þá sem lepja dauðann úr skel.

Sparnaður er ekki fyrir þá sem eiga ekki peninga.

Skýtur þetta ekki skökku við?

Hreyfing, hollur fjölbreyttur matur og andlegt jafnvægi er lykillinn að góðri heilsu.

Fyrir hverja er þessi lífstíll?

Ætti það ekki að vera kappsmál hverrar þjóðar að allir, ALLIR þegnar þjóðfélagsins ættu möguleika á því að uppfylla þessar grunnþarfir?

Vaknið, þið sem stjórnið landinu ! Einn góðan veðurdag gæti allt breyst í lífi ykkar og fótum kippt undan gleðinni og þið komin í gildru fátæktar, sömu gildruna og þið búið þeim sem minnst mega sín í Íslensku þjóðfélagi í dag.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 26. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband