Á að leggja Kjararáð niður?

7.júlí 2017

Umræða og undirskriftasöfnun er nú í gangi vegna Kjararáðs og þeirra hækkana sem þeir sem þar sitja hafa úthlutað til þeirra útvöldu.

Ef við leggjum niður Kjararáð hvað kemur þá í staðinn?

Verður það fyrirkomulagið þar sem Davíð Oddsson tryggði sér og sínum ljómandi eftirlaun, svo góð  að hann gat boðið sig fram sem forseta og lofaði að vera launalaus.

Já, launalaus forseti, það væri saga til næsta bæjar.

Hefði hann verið kosinn og ekki þegið laun fyrir vikið, hvert hefði þá launaumslag forseta runnið?

Ég er ekki viss um að forseti hafi vald til þess að afsala sér launum.

Ef við leggjum niður Kjararáð þurfum við að vita hvað við viljum fá í staðinn.

Hvað er það sem við viljum?

Ég var að velta því fyrir mér, auðvitað í bjartsýnis kasti, að kannski væri ráðið einfaldlega að fara eftir opinberum hagtölum. Getur það verið?

Við erum með opinber meðaltöl, sem Þorsteini Víglundssyni þykir svo undur vænt um, þegar kemur að því að tala um og dásama meðallaun og úrbætur í húsnæðismálum sem hann er að beita sér fyrir.

Meðaltöl launa, meðaltöl framfærslu, framfærslukostnað - opinberar tölur, og svo framvegis.

Ef 200 einstaklingar með yfir 2 milljónir eða meira í tekjur á mánuði væru teknir út úr meðaltölunum þá breyttust allar forsendur.

Þá væri BB og co ekki inni í dæminu, bara svo eitt dæmi sé tekið.

Þá væru milljónamæringar ekki inni í dæminu.

Hálaunafólkið heldur meðaltölunum þóknanlegum þegar stjórnmála forkólfar þurfa að styðja mál sitt og segja þeim sem heyra vilja að nú séu bestu tímar í lífi íslendinga og aldrei verið betra að vera íslendingur.

Hér í landinu mínu eru viðhöfð sömu vinnubrögð og á Íslandi varðandi meðaltölur. Nokkrir billjónerar eru í landinu og bara nokkuð góður hópur af milljónamæringum. Allir þessir eru inni í meðaltölunum og færa meðallaun upp í himinhæðir.

Staðreyndin er hins vegar sú að obbinn af venjulegu launafólki er með meðallaun á bilinu 500 evrur og upp í 650 á mánuði en ekki tæpar þúsund evrur.

Íslenskir stjórnmálamenn eru ekki þeir einu sem elska meðaltöl.

Ég er ekki sannfærð um að niðurlagning Kjararáðs leysi vanda þeirra sem vita ekki aura sinna tal og þurfa þar af leiðandi alltaf að fá meira og meira og endilega líka afturvirkt.

Spurningin sem stendur eftir er: Hvað viljum við í staðinn?

Hulda Björnsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband