Hverjir geta mætt á samstöðufund í Háskólabíói 15.júlí kl.14?

7.júlí 2017

Eftir rúma viku verður fundur í Háskólabíói, þann 15. klukkan 14.

Þessi fundur er til þess að þjappa fólki saman og sjá hvort ekki sé hægt að hrista slenið af landanum og fá fólk til þess að hætta að nöldra úti í horni og koma út úr eldhúsunum og mótmæla.

Það vill svo andstyggilega til, fyrir suma, að forkólfar málsins eru stjórnmálaflokkur.

Þetta er auðvitað alveg á mörkum glæps, að hugsa sér að stjórnmálaafl, sem er reyndar ekki sérlega stórt, og ekki með mann á hinu háa alþingi, skuli voga sér að reyna að gera eitthvað í málum undirmáls íslendinga.

Ég er að sjálfsögðu alveg himinlifandi yfir þessu jafnvel þó ég sé ekki einu sinni með kosningarétt á landinu.

Ég er ekki í Flokki fólksins en ég styð hann í þessu máli rétt eins og ég mundi styðja alla þá sem tækju sig saman í andlitinu og hættu að tala um meðaltöl og tækju upp tal um raunveruleika.

Ég mundi styðja Herinn og allt eldrimanna batteríið á Íslandi ef mér sýndist það komast upp úr hugsana hjólfarinu og færi í framkvæmda hjólfarið, sem er miklu skynsamlegra og ber meira að segja stundum árangur.

Auðvitað á ég ekki að vera svo andstyggileg að minnast á hugarflugs áráttu FEB og þau báðu mig um útskýringu á því hvað ég meinti eiginlega. Ég er enn að velta fyrir mér á hvaða máli ég ætti að skýra mál mitt og er að hallast meira og meira að því að kínverska gæti verið góð leið.

Ég er einfaldlega svo illa innrætt að mér þykir eðlilegt að FEB og LEB og Herinn og allir sem vettlingi geta valdið hvetji sitt fólk til þess að mæta á þennan fund í Háskólabíói þann 15.júlí klukkan 14.

Auðvitað er það merki um viðbjóðslegt hugarfar mitt að voga mér að gagnrýna að ekki sé allt fullt af hvatningu frá þessum félögum sem hafa svo undurfagra stefnuyfirlýsingu.

Auðvitað á ég að skammast mín og taka fram prjóna eða HEKLUDÓT eða hvað það er sem þessi félög vilja að gamlingjar sem eru ekki á vinnumarkaði séu að dunda sér við á síðasta fjórðungi þessa lífs.

Þar sem ég er illa innrætt, andstyggileg og óforskömmuð að ég tali nú ekki um hve uppeldi hefur hraklega mistekist á mér, þá ætla ég að halda áfram að hvetja fólk til þess að hrista af sér pólitíkina einn laugardag og mæta í bíóið og sýna þeim sem stjórna landinu að nú sé komið nóg.

Hingað og ekki lengra, segjum við þann 15.júlí kl.14 og við hvetjum alla vini okkar og vinkonur, frændur og frænkur og afa og ömmur til þess að taka í höndina á íslendingum sem vilja betra þjóðfélag fyrir ALLA.

Hulda Björnsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband