Hvers vegna tekst ekki að mynda stjórn á Íslandi?

Hvað veldur því að ekki tekst að mynda stjórn á pínulitlu landi eins og Íslandi?

Er valdagræðgin að drepa allt?

Ég velti þessu fyrir mér og hef áður sagt að margir litlir flokkar séu ekki góðir fyrir bætt þjóðfélag.

Á sama tíma og þingmenn hleyptu nýju frumvarpi um almannatryggingar í gegn á síðustu dögum þingsins var verið að stofna litlar valdaeiningar hér og þar.

Ég bað um að frumvarpið yrði ekki látið labba í gegn en ekki var hlustað á mig. Hver er svo sem að hlusta á kellingu sem býr ekki einu sinni á landinu? Hvað kemur henni þetta eiginlega við?

Jú það kemur mér við vegna þess að ég hef allt mitt líf sparað í lífeyrissjóð til þess að geta lifað sæmilegu lífi þegar ég hætti að vinna.

Ég borgaði skatta og skyldur frá unga aldri og hélt að ég væri að leggja inn fyrir framtíðina.

Hvernig er svo þetta sæmilega líf sem ég og aðrir eldriborgarar á Íslandi búa við?

Við lesum um eldriborgara sem svelta, þeir eru vannærðir vegna þess að þeir eiga ekki fyrir mat. Við lesum líka um eldri borgara sem liggja í rúmum á göngum sjúkrahúsanna, líklega hlandblautir og annað því verra.

Auðvitað eru nokkrir sem hafa það dásamlega fínt, þessir sem eiga meirihluta eigna á landinu. Þeir þurfa aldrei að hugsa til næsta dags með skelfingu og kvíða. Þeir þurfa ekki að velta fyrir sér hvort kannski sé eina lausnin að ljúka þessu lífi.

Ég var svo forsjál að flytja úr gósen landinu því ég vildi ekki verða gömul á Íslandi og þurfa að lepja dauðann úr skel. Vegna þessarar forsjálni hef ég það nokkuð gott og á alltaf nóg að borða. Þrátt fyrir það svíður mér að sparnaður minn í gengum ævina skuli vera gerður upptækur. Lífeyrisgreiðslur mínar eru mín einkaeign en ríkið lætur sér fátt um finnast og gerir meiri hluta sparnaðarins upptækan. Er eitthvað réttlæti í þessu? Mér finnst ekki.

Hvað er svo ríkið? Er það eitthvað skrímsli sem enginn hefur stjórn á og gerir það sem því sýnist?

Nei, ekki alveg. Ríkið er nefnilega fólk, fólk sem hefur potað sér til valda með fögrum fyrirheitum og þetta fólk hefur talið kjósendum trú um að "bara ef þú kýst minn flokk, verður allt gott" og kjósendur gleypa góssið hrátt.

Fyrir kosningar voru allir flokkar sammála um flest mál þegar verið var að ræða við þá!

Eftir kosningar steytir á málefnum og ekki hægt að mynda stjórn.

Hvað breyttist? Þetta var ekki langur tími, en skyndilega er allt komið í hnút.

Er verið að takast á um málefni eða eru það völd sem standa í veginum?

Hvar er fólkið núna sem er að halda uppi vörnum fyrir eldriborgara landsins? Týndist það þegar atkvæðin voru talin?

Ég óttast að þeir sem eru ungir í dag og jafnvel á miðjum aldri eigi eftir að verða eldriborgarar. Það er einhvern vegin þannig að fólk eldist, eða svoleiðis. Fáir komast hjá þessum örlögum.

Það væri kannski ráð fyrir þá sem yngri eru að hugsa svolítið fram í tímann og velta fyrir sér hvernig þeir vilja hafa sín efri ár.

Komist yngri kynslóðin að þeirri niðurstöðu að óumflýjanleg örlög þeirra séu kannski ekki sérlega eftirsóknarverð gæti verið að fleiri færu að láta í sér heyra um kjör sem hið dásamlega ríka Ísland býður þeim sem eru komnir yfir 67 ára aldur.

Kannski er meira virði að bjarga útlendingum!

Kannski er meiri upphefð í því að fylla landið af innflytjendum en að hjálpa þeim sem fyrir eru í landinu!

Kannski væri bara best að svelta gamlingjana og losna við að þurfa að púkka upp á þetta einskis nýta lið sem er bara fyrir og gerir ekkert gagn lengur!

En, kannski væri meiri mannúð í því að sjá til þess að máttarstólpar nútíma þjóðfélags búi við mannsæmandi kjör og hætt verði að stela af þeim sparnaðinum.

Kannski væri stórmannlegt að flytja fréttir af því að eldriborgarar landsins þyrftu ekki að kvíða næsta dags, eða næstu máltíðar, því á Íslandi væri vel búið að öllum þegnum landsins og að landið væri fyrir alla íslendinga, en ekki bara fyrir fáa gráðuga.

Kannski kæmu þá jól hjá öllum!

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Hvað verður um fallegu loforðin sem gefin voru fyrir kosningar?

Ég hef fylgst með því hvað er að gerast í íslenskum stjórnmálum undanfarnar vikur, jafnvel þó ekkert hafi heyrst frá mér.

20 október varð ég fyrir því óhappi að detta og brjóta á mér vinstri öxl og upphandlegg og lá í 10 daga á spítala hér í Portúgal. Ég gekkst undir aðgerð sem tókst í alla staði vel og er nú hægt og rólega að ná mér á strik.

Portúgal er fátækt land þar sem laun eru mjög lág. Auðvitað eru nokkrir vellauðugir einstaklingar eins og gengur og gerist en  alþýðan er ekki öfundsverð af launum sínum.

Að liggja á spítala í 10 daga gefur manni innsýn í hið dásamlega starf sem hjúkrunarfólk og annað starfsfólk á sjúkrahúsum innir af hendi.

Laun þessara stétta hér í landi eru ekki til þess að hrópa húrra fyrir. Þau eru skammarlega lág og í engu samræmi við þá ómældu vinnu sem liggur að baki einni vakt.

Ég velti því fyrir mér á meðan ég lá hvort þetta væri eitthvað betra á Íslandi, þessu ríka landi, þar sem fáir deila með sér auðnum og almúginn, að minnsta kosti sumir, lepja dauðann úr skel.

Hvernig er búið að þeim sem vinna á sjúkrahúsum, elliheimilum og öðrum ummönnunarstofnunum í landi sem tekur með gleði á móti innflytjendum og hjálpar þeim til þess að koma undir sig fótunum?

Fær hjúkrunarfólkið og gangastúlkurnar og aðrir sem vinna hina almennu vinnu á sjúkrahúsum landsins mannsæmandi laun? Eru störf þeirra metin að verðleikum?

Hugsa ráðamenn um hve dýrmætt það er að hafa gott fólk við störf á þessum stofnunum? Eða, er þeim kannski alveg sama þar til þeir þurfa á þjónustunni að halda?

Allir stjórnmálaflokkar gáfu falleg loforð fyrir kosningar. Þau streymdu eins og hafragrautur sem er að sjóða upp úr og vellur út um allt, stjórnlaus og enginn sér ástæðu til þess að þurrka upp eftir strauminn.

Eru loforð sem gefin eru fyrir kosningar bara bull, sem landinn kaupir og heldur að nú komi betri tíð og blóm í haga?

Það átti að bæta kjör þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu, það átti að bæta kjör eldri borgara og öryrkja og það átti að sjá til þess að enginn svelti lengur í landi hinna fáu ríku og hinna mörgu svöngu?

Verður eitthvað af þessum loforðum efnt?

Þegar stórt er spurt verður fátt um svör. Ég hef ekki hina minnstu trú á því að veikin mikla sem heltekur alþingismenn þegar þeir setjast á þing sé ekki enn grasserandi. Gleymska tekur völdin um leið og menn sverja eiðinn! Eða hvað? Verður eitthvað annað uppi á teningnum núna?

Víkur valdagræðgi fyrir manngæsku?

Hulda Björnsdóttir

 


Eru 300.000 krónur og engar skerðingar sanngjörn krafa eftirlaunaþega?

 

Margir tala nú um þrjúhundruð þúsund króna lífeyri og engar skerðingar.

Grái herinn endurtekur þetta sí og æ og segir að ekki komi til mála að þoka þessari kröfu.  Allir ellilífeyrisþegar sem vilja út á vinnumarkaðinn er líka vinsæl krafa og svo er hnýtt í endann ENGAR SKERÐINGAR.

Ný framboð hamra á þessu, að minnsta kosti sum þeirra. Ég verð að viðurkenna að ég nenni ekki að lesa allar stefnuskrár og get því ekki fullyrt neitt um hverjir lofa og hverjir ekki.

Fólk tekur undir þetta og ef einhver vogar sér að mótmæla er  engu líkara en viðkomandi hafi gerst sekur um landráð eða eitthvað enn verra.

Ný framboð og gömul hamast við að lofa gulli og grænum skógum til þess að snapa atkvæði.

Það er búið að samþykkja að ellilífeyrir verði 280.000 krónur og svo koma skerðingar á skerðingar ofan. Ekki sitja allir við sama borð í skerðingunum. Hingað til hafa þeir sem búa erlendis ekki fengið heimilisuppbót þó þeir búi einir. Ég hef ekki séð neitt um það í nýju lögunum en þætti ekki ólíklegt að sett yrði reglugerð um málið þar sem þessi skerðing héldi áfram.

Er þetta réttlátt? Mér finnst það ekki.

Allir eiga að sitja við sama borð finnst mér, en ég er auðvitað bara kona sem ekki er hlustað á, eða hvað?

Það þarf að ræða þessi mál í alvöru og af sanngirni, fordómalaust og hætta að belgja sig út með loforðum sem aldrei verður hægt að standa við. Mér er nokk sama hvort það eru ný framboð, gömul framboð eða Grái herinn eða guð má vita hver sem hamast á kröfum sem allir vita að nást ekki fram.

Það er að mínu mati mikilvægt að þeir sem eru að tala fyrir breytingum á svona stóru kerfi sem kostar ógrynni fjár hafi grunnþekkingu á hugtökum og uppbyggingu kerfisins.

Ekki er trúlegt að stjórnmálamenn taki mark á þeim sem vita ekki muninn á ellilífeyri og heimilisuppbót. Eða er það?

Ég nenni ekki að elta ólar við allar rangfærslurnar sem hafa komið frá t.d. á Facebook varðandi þessu nýju lög.

Til þess að ná árangri í svona viðamiklu og viðkvæmu máli þarf að gæta sanngirni. Ég skil vel að þeir sem eru að borga skatt af lífeyrissjóðs sparnaði áður en hann var gerður skattfrjáls í bili, séu reiðir. Ég gæti vel verið reið ef ég vildi en kýs að halda ró minni. Við erum að borga skatta af tekjum úr lífeyrissjóði í dag vegna þess að lögunum var breytt og skattinnheimtu frestað af framlögum okkar þar til farið var að greiða út lífeyrinn.

Þegar þau lög voru sett gleymdist að gera ráð fyrir þeim sem höfðu greitt skatt áður og er það ekki nýtt að lögum sé breytt af misvitrum spekingum sem hugsa málið ekki til enda.

Fullyrðing um að lífeyrisgreiðslur séu nú tvískattaðar er ekki rétt. Partur af þeim er tvískattaður en ekki allar greiðslurnar.

Mikið væri það nú dásamlegt ef fólk næmi staðar, settist niður og hugsaði málið af sanngirni og skoðaði hvað væri raunhæft og hvað ekki.

Ekki síður unaðsleg tilhugsun að söluupphrópum og atkvæðasnöpun ljúki og hætt verði að ljúga að kjósendum og lofa upp í allar ermar um að komist þessi flokkur að verði allt gott og blessað og allar óskir uppfylltar.

Ég er þeirrar skoðunar að 300.000 þúsund krónu lífeyrir og engar skerðingar sé ekki framkvæmanleg á þessum tímum þar sem spilling og gróða fíkn ráða ríkjum í Íslensku þjóðfélagi. Takist að útrýma spillingunni væri þessi krafa framkvæmanleg en ekki eins og ástandið er núna.

Skref áfram eru vænlegri til árangurs en að sitja eins og óþægur krakki heimtandi sælgæti í kílóavís þar sem hann gæti hæglega fengið lítinn poka af gotteríi í bili og fengi svo meira aðeins seinna.

Það hljóta að vera skynsamir íslendingar út um allt sem gætu tekið á þessum málum af ró og gert raunhæfar kröfur. Ég trúi ekki öðru. Það þarf bara að finna þetta fólk.

Byrja á því að leita að saumnálinni í heystakknum og þá koma heilu bréfin af nálum í ljós.

Hulda Björnsdóttir 

 

 

 

 

 


Samtakamáttur fólksins

 

Íslendingar eru ekki þekktir fyrir samtakamátt. Þeir eru þekktir fyrir að sitja og rökræða yfir kaffibolla en þegar kemur að því að standa saman utan eldhúsborðsins eða kaffistofunnar kemur babb í bátinn.

Einu sinni fyrir langa löngu voru fluttar inn kartöflur. Þessar kartöflur voru þannig að keypt var 1 kíló og helmingur var venjulega skemmdur og óætur, líklega ætlað sem svínafóður. Það var hrikalegt að eyða peningum í mat sem þurfti að henda þegar fjárráðin voru ekki mikil. Þjóðin lét þetta þó yfir sig ganga, málin voru rædd fram og til baka yfir kaffibolla en fór ekki lengra.

Rætt var um hvernig fólk mótmælti á hinum norðurlöndunum og hvað það væri gott ef íslendingar gætu staðið saman og mótmælt. Það þurfti kannski ekki annað en að hætta að kaupa kartöflurnar, rétt eins og nágrannar okkar gerðu. Þeir sameinuðust og sniðgengu vöruna og það bar árangur.

Svona var þetta fyrir mörgum áratugum, fyrir internet og ótal fjölmiðla.

Mér datt í hug hvort ástandið væri ef til vill oggulítið svona enn þann dag í dag, árið 2016?

Í stað þess að ræða málin yfir kaffibolla eru þau rædd t.d. á Facebook. Snarpar umræður, stundum birtir fólk gagnlegar upplýsingar og stundum fer allt úr böndum, eins og gengur og gerist. Fólki hitnar í hamsi og lætur eitt og annað út úr sér sem það sér svo eftir.

Nú logar allt í pólitík. Kosningar eftir nokkra daga og allir flokkar hamast eins og rjúpan við staurinn að lofa öllu fögru, bara ef þið kjósið réttan flokk.

Svo er rifist um hverjir séu bestir og hverjir hafi svikið mest og dælan gengur endalaust. Loforðin fljúga fram og til baka líkt og fuglar í sól og sumri sem baða sig og syngja dýrðin dýrðin!

Það er ekki mikil hætta á því að fólk standi saman og kjósi ekki fráfarandi flokka, eða það held ég!

Ekki er þó víst að Bjarni baki, á næsta þingi, sætar kökur handa þeim sem helst þurfa á hollu brauði að halda.

Það gæti hugsast að fólk fengi ekki algleymis veikina þegar það setti X við þann sem það treystir til að sjá um að landið fari ekki aftur á hausinn eftir tvö þrjú ár.

Það gæti hugsast að undrið gerðist og almenningur stæði saman gegn sætum kökum, jafnvel þó þær séu dásamlega krúttlegar, og exuðu við holla brauðið.

Ég skal ekki segja og ekki ætla ég að lofa að éta hatt minn ef slíkt gerist. Það má þó alltaf halda í vonina, því án hennar er lífið búið.

Hulda Björnsdóttir

 

 


Er ríkisstjórnin að fela eitthvað?

Góð vinkona mín á Facebook sagði fyrir stuttu að hún hefði reynt að komast til botns í hinum nýju lögum um almannatryggingar. Þessi ágæta vinkona mín skilur ekki lögin.

Er það einkennilegt?

Væri það ekki eðlilegt að vel gefið fólk gæti skilið hvað verið er að tala um?

Er að undra þó starfsmenn TR geti ekki gefið greinargóðar upplýsingar þegar leitað er eftir þeim?

Er hægt að ætlast til þess að misvitrir alþingismenn skilji svona tróð?

Hvers vegna eru lög gerð svo flókin að það þurfi túlka til þess að útskýra þau og færa á mannamál?

Helsta skýring sem mér dettur í hug er þessi: Ríkisstjórnin vill ekki að fólk sjái hvað hún er að svíkja? Getur þetta verið hugsanleg skýring?

Það veltist ekkert fyrir stjórn,að ganga svo frá málum að enginn botn sé sjáanlegur, þegar verið er að passa upp á að vinir og vandamenn, þeir sem ráða yfir 50 prósent eða svo af þjóðareign íslendinga, haldi áfram að græða!

Annað mál er þegar farið er að tala um eftirlaunaþega og öryrkja.

Samkvæmt frumvarpinu sem nú hefur verið samþykkt er fullur ellilífeyrir kr. 227.883

227.883 krónur eru ekki kr 280.000. Mismunurinn er kallaður heimilisuppbót og er kr. 52.117. Þetta tvennt gerir 280.000 krónur.

Heimilisuppbót er félagsleg aðstoð!

Var ekki talað um að ellilífeyrir ætti að hækka upp í 280.000?

Hvað er ríkisstjórnin nú að fela?

Er þetta gert til þess að hægara verði að skerða bætur eftirlaunaþega?

Ég býð spennt eftir því að sjá hve mikið ég hef verið afskrifuð þar sem ég er svo ósvífin að búa erlendis og spara ríki og sveitarfélagi stórfé á hverju ári í félagslegri aðstoð.

Hvers vegna er ég verðfelld fyrir það eitt að flytja úr landi?

Hafa skattar og sparnaður minn breytt um verðgildi við það eitt að ég bý ekki við sult og seyru á rándýru Íslandi?

Flytti ég til Íslands á morgun væri ég þá verðmeiri en ég er í dag?

Flytti ég til landsins færi ég að kosta ríki og sveitarfélag eitt og annað í félagslegum úrræðum. Er það vilji stjórnmálamanna?

Mér þætti eðlilegra að ríki og sveitarfélag væru guðs lifandi fegin að vera laus við gamalmennið og slettu heimilisuppbót í vesalinginn, þó ekki væri nema til þess að hann héldi sig á mottunni og væri ekki endalaust að tifa og skammast.

Hvað er til ráða fyrir eftirlaunaþega?  Þeir eiga engan almennilegan talsmann nema þá Björgvin Guðmundsson. Hann einn hefur í áratugi skrifað um þessi mál og heldur enn áfram ótrauður. Það skjóta upp kollinum fyrirbæri eins og her hinna gráhærðu sem eru algjörlega máttlaus og berst þessi svokallaði her fyrir einhverju óskiljanlegu málefni í nafni okkar sem eru komin á eftirlaun.

Nú rísa þeir gráhærðu upp ef þeir lesa þetta og allt verður vitlaust. Fínt! Ég er tilbúin að taka saman mótsagnir þeirra í skrifum og töluðu máli og geri það fljótlega.

Við, sem erum komin á eða lögð af stað í átt að eftirlaunaaldri þurfum fólk sem er með brennandi áhuga á málinu og fullt af hugsjónum og tilbúið að berjast fram í rauðan dauðann, ekki bara fyrir sig heldur fyrir alla!

Ég er sannfærð um að svona fólk er til á Íslandi. Það þarf bara að finna það.

Ég blanda mér ekki í flokka pólitík þar sem ég hef ekki bara verið felld að verðgildi, ég hef líka verið tekin út af sakramentinu og ekki ætlast til þess að ég sé að greiða atkvæði í kosningum.

Réttur minn til þess að tjá mig um þau mál sem brenna á mér hefur ekki enn verið hirtur og á meðan ég hef það frelsi held ég áfram. Ég get ekki annað.

Ég býst ekki við því að fá fullan ellilífeyri árið 2017, áður en sparnaður minn er látinn rýra lífeyrinn. Mér finnst það (hér má ég ekki nota orðið sem mig langar til) óréttlátt í meira lagi.

Mér finnst það ómerkilegt af Bjarna Ben að halda því fram að lífeyrir hækki í 280.000 árið 2017. Hann veit vel að lífeyririnn hækkar aðeins í 227.883 krónur árið 2017. Eða veit hann það ekki?

Hann veit vel að heimilisuppbót er félagsleg aðstoð en ekki lífeyris hækkun. Eða getur verið að hann viti það ekki?

Hann heldur að við sem erum komin yfir 65 ára séum fífl!

Ég vona að við séu ekki auðtrúa og gleypum baksturinn hans hráan.

Hvað getum við gert?

Hvað finnst ykkur við geta gert?

Er nægilegt að ræða málið yfir kaffibolla og ætri köku sem Bjarni hefur ekki bakað?

 

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Er ég annars flokks Íslendingur?

Þegar ég sótti um eftirlaun frá TR var ég búsett erlendis og er enn og verð áfram.

Ég hafði borgað skatta og skyldur til ríkisins alla mína æfi, byrjaði að vinna 11 ára á sumrin í fiski. Man ekki hvort það var tekinn skattur af okkur svona ungum en skyldusparnaður var dregin af laununum. Sá sparnaður brann auðvitað upp en það er önnur saga.

Um leið og mér bar að borga skatta voru þeir dregnir af mér og ég hóf að greiða í Lífeyrissjóð sem var sparnaður til efri áranna og ekkert átti að geta hreyft við þeim peningum.

Þegar ég sæki um eftirlaunin frá TR, 67 ára, bregður svo við að ég á einungis rétt á grunnlífeyri ásamt tekjutryggingu sem skerðist vegna tekna úr Lífeyrissjóði.

Lífeyrisjóðs sparnaður minn er ekki tekjur, hann er sparifé mitt og kemur TR ekkert við.

Ég yggldi mig við stofnunina og ráðuneyti. Sagðist vera búin að greiða skatta og skyldur allt mitt líf. Var ekki par hrifinn af því að vera metin eitthvað minni bara vegna þess að ég flutti úr landi.

Ég fékk ágætt svar frá þeim sem ég talaði við hjá ráðuneytinu: Skattar eru ekki eyrnamerktir, þeir fara í sameiginlegan sjóð. Ég skildi það en var samt grautfúl, sem von er.

Ég bý ein og ætti því, finnst mér, að fá heimilisuppbót.

Athugið að ég er ekki tala um samkvæmt nýjum lögum, ég er að tala um það kerfi sem er í gildi í dag árið 2016 og hefur verið síðan ég vogaði mér að verða 67 ára, sem er auðvitað algjör glæpur. Enginn á að verða yfir 67 ára, þá á fólk bara að deyja svo ekki þurfi að vera að púkka upp á gamalmenni. Við erum jú íslendingar og okkur hugnast ekki þeir sem fara að lögum eða þeir sem eru ekki af ákveðnum ættum eða vinir þeirra sem eiga rétt á helst öllum tekjum sem verða til á landinu.

Ég lít svona á mitt dæmi: ég spara ríkinu stórfé með því að búa ekki á Íslandi.

Ég þarf ekki læknisþjónustu og ég þarf ekki að nota eina einustu þjónustu sem ríkið eða sveitarfélag kosta fyrir fólk á mínum aldri.

Væri ég á Íslandi þyrfti ég læknis aðstoð, heimilis aðstoð og alls konar aðstoð.

Ég hef farið í stóra aðgerð hér í hinu nýja landi mínu og það kostaði íslenska ríkið ekki krónu.

Ég er á leiðinni í aðra stóra aðgerð og enn kostar ekkert fyrir íslenska ríkið.

Það hefur tekið tíma og fyrirhöfn hér á sjúkrahúsum að halda í mér lífinu og koma mér þar sem ég er þó núna heilsufarslega. Ekki kostað íslenskt ríki fimmeyring!

Að vísu borga ég skatta hér í Portúgal vegna tvísköttunar samnings sem ríkir á milli landanna, en ég leyfi mér að halda því fram að á Íslandi vinni fleiri en einn Portúgali og greiði þeir skatta og skyldur til Íslands svo þetta jafnist nú upp. Ég er ekki 70 manna maki hvað þá meira í skattalegu tilliti.

Ég hef ekkert verið að æsa mig út af þessu, hingað til! Bara sætt mig við mitt hlutskipti, enga heimilisuppbót fyrir þig góða og vertu ekkert að ybba þig! Ef þú svindlar ekki á kerfinu þá er þetta svona.

Þegar ég hins vegar fór að fylgjast með umræðunni um eftirlaun komst ég að því að enginn talar um þá sem hafa flutt úr landi til þess að deyja ekki úr hungri eða þurfa að sofa á götunni, vegna hungurlúsar sem eftirlaun eru á Íslandi. Fólkið sem hefur flutt hefur nóg að borða, býr í góðu húsnæði og lifir sómasamlegu lífi. Ekki lúxus lífi en lífi sem sæmir þeim sem hafa borið uppi heilt þjóðfélag í genum æfi sína með sköttum til þjóðfélagsins og alls konar öðru framlagi sem ekki verður metið til fjár. 

Nú þætti mér fróðlegt að fá skýringu á því hvers vegna við útlagarnir fáum skertar bætur? Hvers vegna fáum við sem búum ein í útlandinu ekki heimilisuppbót? Ég er ekki að fara fram á neitt annað, bara þessa heimilisuppbót sem þeir sem búa á Íslandi fá.

Kannski er til of mikils mælt að þingmenn eða ráðherrar geti svarað þessu, en ef til vill er einhver annar sem veit þetta. Nýir þingmenn og þeir sem eru að biðla til kjósenda núna hafa áreiðanlega ekki græna glóru um ástæðuna.

Hver ákvað að ég yrði annars flokks ef ég flytti frá Íslandi?

 

Huld Björnsdóttir skrifaði framanritað þann 16.október 2016

 

 

 

 


Bjarni bakar! og ég skemmti mér!

Í dag ætla ég ekki að skrifa neitt um stjórnmál, ekkert um eftirlaunamál, bara eitthvað skemmtilegt.

Ég get þó ekki varist því að nefna hvað mér fannst hann Bjarni ótrúlega krúttlegur með svuntuna og svo íbygginn við baksturinn. Nennti þó ekki að horfa á vídeóið. Það dugði mér að sjá forsíðuna, en mikið getur drengurinn nú verið niðursokkinn og einbeittur, eitthvað annað en frekjusvipurinn á fundinum í Háskólabíói.

Mér þykir ólíkt þekkilegra að sjá hann Bjarna við bakstur heima hjá sér en standandi í stiga með framsóknarmanni þar sem rýkur úr ofninum og einhverjir ósvífnir fréttamenn eru að toga út úr þeim svör sem þeir týndu á leiðinni niður stigann og allt að brenna í bakarofninum. Það verður að passa upp á baksturinn svo hann brenni ekki og ekkert, segi og meina ekkert, getur eða má trufla kökugerðina.

Nú er ég búin að læra eitt og annað um blogg gerð. Til dæmis lærði ég núna áðan að það er hægt að smella á takka sem heitir ABC og þá eru leiðréttar villur. Dásamlegt það. Ég er samt ekki alveg á því að þessi ABC geti breytt orði eins og hann gerði. Það eyðileggur fyrir mér. Takkinn tók upp á sitt eindæmi ákvörðun um að breyta bakarofninum í barkarofninum!

Finnst ykkur þetta ná nokkurri átt? Eins gott að ég fylgist með þessum tökkum sem halda að þeir geti bara tekið af mér ráðin.

Nú svo er ég líka búin að læra að það eru 2 takkar hlið við hlið neðst á síðunni, annar heitir Vista uppkast og hinn er svartur og heitir Vista og birta. Auðvitað getur verið að puttarnir mínir séu kaldir og finni ekki alveg réttann takka og smelli á þann svarta. Ef það gerist þarf maður að vita hvernig maður afturkallar svona mistök! Ég er ekki komin svo langt en ég get sagt ykkur að nú kann ég að setja þema inn í haus og hvað haldið þið? Fann ég ekki eldrauða tómata! Gat ekki verið betra, ég lifi á tómötum núna, ekki bara þeim, líka öðrum mat, en tómatar eru ásamt appelsínum hjálpartæki fyrir eitthvað meðala sull sem læknirinn vill að ég taki til þess að hann  þurfi ekki endalaust að finna einhvern sem getur gefið mér blóð!

Þessi læknir minn er svakalega flottur. Hann er á spítalanum mínum og hann talar við sjúklingana sína. Ég meina hann situr ekki bara og starir á tölvuskjáinn og hamast á lyklaborðinu. Hann talar mannamál, við höfum sameiginleg áhugamál, fullt af þeim. Sömu bækur, ferðalög, erlendur kúltúr, tungumál og fleira og fleira. Svo skilur hann líka að ég sé veik.

Sumir hér, t.d. heimilislæknirinn minn, sem er reyndar fífl og stækkar og stækkar í hvert skipti sem ég sé hann, sem er ekki oft, og ég held svei mér þá að höfuðið á honum sé að tútna út, halda að ég sé bara að gera af gamni mínu. Ég hef verulegar áhyggjur af honum DR. Cardosa, en hann segir mér að það sé ekkert að mér, ég sé bara gömul, og það þýðir auðvitað að við erum ekki vinir eða svoleiðis.

Hvernig er það annars segir maður gera af gamni sínu eða gera að gamni sínu? Ég er bara ekki viss enda búin að vera í útlegð alveg voðalega lengi!

Sko, ég er búin að læra að feitletra! Þetta er allt að koma hjá mér.

Einhver sagði að ég ætti að skrifa undir bloggið mitt. Ha? Af hverju? Ég er merkt í bak og fyrir en get svo sem alveg gert þetta þó mér sýnist flestir ekki skrifa nafnið sitt í lokin. Það gæti samt verið gott t.d. ef þeir sem eru að lesa gleyma því hvað þeir eru að lesa eða svoleiðis. Ég ætla að verða við óskum sem eru svona krúttaðar. Ekki málið.

Eins og þið sjáið þá hef ég vandamál, eiginlega bara stórt vandamlá. Ekki fyrir mig heldur þá sem eru að hlusta á mig.

Ég veð úr einu í annað, hratt, og held að fólk geti fylgt mér á sprettinum.

Sumum finns þetta óþægilegt en ég er svo heppin að vinir mínir hér í landi hafa vanist þessu. Þegar þeir eru hættir að fylgja mér kemur á þá svona grár svipur. Þið vitið, svipur sem kemur á fólk þegar það er voða þreytt eða áhyggjufullt og veit ekki sitt rjúkandi ráð. Venjulega horfi ég á fólk sem ég er að tala við og þegar svipurinn grái birtist stoppa ég og byrja aftur, hægt og rólega og skipulega þar sem ég tala um eitt í einu og afgreiði það, þá verða vinir mínir glaðir og fallega brúnir aftur.

Þetta er aftur á móti erfiðara þegar ég er að vaða áfram í símtali. Hvað haldið þið? Ég er svo ljón heppin að besta vinkona mín á systur sem er alveg eins og ég, alveg nákvæmlega eins. Ég hef séð það þegar ég dvel hjá þeim um jólin. Dásamleg fjölskylda sem er ekki í vandræðum með mig. Hjónin, foreldrarnir, bjuggu í 20 ár í Frakklandi og maturinn sem þau búa til er ekki portúgalskt ógeð, þau búa til alvöru mat og drepa ekki grænmetið og fiskinn og allt dásamlega hráefnið sem hér fæst.

Ég ætlaði að reyna að kenna löndum mínum að elda ekki kartöflurnar í hel en gafst fljótt upp á því. Hér eru kartöflur flysjaðar, látnar liggja í vatni í langan tíma og svo soðnar í 50 míútur. Maður þarf ekki að tyggja þær ýkja mikið, bara hægt að renna þeim niður eins og, ja ég á ekki orð.

Það er hætt að rigna, vindurinn er að hugsa sig um hvort hann eigi að fella öll trén og skýin orðin grá, hætt að vera svört, svo ég held að mér sé óhætt að skreppa út og kaupa köngla svo ég geti kveikt upp í arninum.

Ætli ég verði ekki aftur farin að röfla um svangt fólk og nýja bakara, næst þegar ég sest niður og leyfi puttunum mínum að flögra eins og fiðrildi stjórnlaust um lyklaborðið. Þætti það ekki ólíklegt en þangað til: Njótið tilverunnar og munið að hlátur lengir lífið!

 

Með vinsemd og virðingu

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 


Ætli skrattanum sé ekki skemmt í dag?

 

Í dag berja margir stjórnmálamenn sér á brjóst og eru alsælir með að hafa platað hinn auðtrúa almenning. Það eru lesnar upp og skrifaðar milljarða tölur sem eiga að sanna hve dásamlegt allt er skyndilega orðið. Bara si svona birti upp og allt er gott! Allir eiga nóg að borða, bara ekki núna! Ekki strax! Í framtíðinni! Á næsta ári. Nokkrir mánuðir sem þarf að þreyja og svo kemur dýrðin! Ef einhver er að kvarta þá er hann vanþakklátt fyrirbrigði og það er einmitt ég!

Þið ágætu stjórnmálamenn og væntanlegir getið andað rólega. Ég er orðin svo hundleið á ykkur og nenni líklega ekki að rífa mig meira, í bili að minnsta kosti. Grauturinn sem þið bjóðið mér upp á er óætur og ég vil frekar portugalskan mat þó ekki sé hann til að hrópa húrra fyrir.

 

Hið nýja frumvarp sem bætir kjör ellilífeyrisþega um milljarða hefur verið samþykkt.  Húrra húrra húrra hrópa þeir og kjósendur flykkjast að þeim og kjósa þá enn og aftur, eða hvað?

 

Grái herinn er ekki síður ánægður en vísar hins vegar fyrirspurnum til annarra. Þeir treysta sér líklega ekki til að taka við spurningum frá þeim sem héldu að herinn væri kominn til þess að standa með lífeyrisþegum. Hinir auðtrúa eru núna smátt og smátt að leggja til hliðar bjartsýnis gleraugun, og stara í gaupnir sér sljóum augum og spyrja:  "Hvað nú? Það verður fátt um svör alla vega frá þessum her. Hann er ánægður með breytingarnar og nú ætlar hann að fara að telja mönnum trú um bætt húsnæðis úrræði.

Er ekki lífið dásamlegt? Draumar sumra eru svo út í Hróa Hött að manni verður flökurt en því miður eru alltaf einhverjir sem láta glepjast og vakna svo upp við vondan draum. Kannski væri ráð fyrir hinn nýja her á Íslandi að lita á sér hárið! Það gæti birt upp. Svo er líka gott ráð að endurnýja gleraugun. Þau geta breytt miklu. Ég veit um frábæra hárgreiðslumeistara sem tækju málið að sér með mikilli ánægju og gætu rætt við ykkur á meðan liturinn er að virka! Bara hafa samband og ég tengi! Mér finnst líklegt að hinir gráhærðu í hernum þurfi ekki að spá mikið í verðið!

 

Aðalmálið í dag er að risastórar breytingar eru orðnar á eftirlaunum eða ellilaunum eins og þau heita núna. Allir geta nú dansað í kringum kjötkatlana og réttlætið er ekki amalegt.

Ég býð þeim sem samþykktu hið nýja frumvarp um Almannatryggingar og berja sér á brjóst í dag yfir manngæsku og örlæti, að lifa af 227.956 krónum á mánuði og gæti jafnvel boðið þeim upp á að lifa af 275.937 krónum. Alveg hjartanlega velkomið að skipta við þá. Látið mig bara vita.

Ég ætla samt að leggja til við þá sem samþykktu frumvarpið, og líka þá sem voru svo hreinskilnir að viðurkenna að þeir skildu ekki málið,  að setjast niður við reiknivél TR og skoða tölurnar.

Það er stórkarlalegt og sætt og voða kosningalegt að tala um milljarða ofan á milljarða bætur. Venjulegt fólk lifir ekki af milljörðum. Þið sem eruð í stjórnmálum ættuð að fara að tala í raunverulegum tölum, tölum sem snúa að eintaklingi og þá gæti farið svo að þið rennduð í sjóinn með opnum augum og skylduð hvað umræðan snerist um.  Þið þurfið nefninleg að skilja hvað það er sem venjulegt fólk skilur, sem sagt tölur sem skipta máli fyrir hvern og einn. Ég gef ekki mikið fyrir umslátt og brjóstbarning þeirra sem nú ganga beinir  í baki og horfa hátt. Vonandi leita þeir sér hjálpar í dag á vef TR og taka reiknivélina tali. Þar er nefninlega talað á mannamáli og tölur eru skiljanlegar, jafnvel fyrir mig.

 

Svona af manngæsku minni og örlæti ætla ég að sýna hér hinar dásamlegu tölur sem reiknivélin gaf mér.

Ég fann ekkert um öryrkja svo þetta eru tölur sem snúa að ellilífeyrisþegum. Er þetta annars ekki dásamlegt orð, það er hægt að smjatta á því fram og til baka: Ellilífeyrisþegi, þegi ellilífeyris, þiggja ellilífeyri, fá ellilífeyri og svo framvegis og svo framvegis.

Persónulega er mér nokk sama hvað ég er kölluð en mér er ekki sama að ríkið steli af mér lífeyris sparnaði mínum sem ég hef þrælað fyrir í marga áratugi. Ég vann eins og skepna og lagði fyrir í hverjum mánuði. Ég vil fá sparnaðinn minn og borga af honum skatta en samþykki ekki að bætur frá Almatryggingakerfinu skerðist. Það er ekkert réttlæti í því og líklega best fyrir alla að hætta að borga í þessa sjóði.

 

Hér koma svo tölurnar sem ég fékk um hvernig hækkunin, milljarða hækkunin væri á mannamáli og reiknuð út af ekki ómerkilegra apparati en reiknivél Tryggingastofnunar ríkisins.

 Forsendur eru auðvitað brenglaðar því miðað er við skattprósentu í dag, árið 2016 en það verður að hafa það.

Þá er þetta svona:

Einstaklingur án tekna hefur 227.956 í ráðstöfunartekjur eftir skatt.

Hann fær fullan lífeyri plús heimilisuppbót.

 

Einstaklingur með 145.000 krónur frá Lífeyrissjoði fær frá Tryggingastofnun 185.028

og eru ráðstöfunartekjur hans 275.937 eftir skatt.

Fullur skattur tekinn af Lífeyrissjóðs tekjum og hann fær skertan lífeyri og sketa heimilisuppbót.

 

Einskatklingur sme hefur aldrei greitt í lífeyrissjóð og hefur aæðeins bætur frá Tryggingastofnun hefur 47.981 krónum minna í ráðstöfunartekjur en sá sem hefur sparað í Lífeyrissjóð í 40 ár.

Er nokkur ástæða til þess að vera að burðast við að spara??????

 

Hjón án tekna hafa 195.190 í ráðstöfunartekjur eftir skatt (eingöngu bætur frá Tryggingastofnun) Þetta eru tekjur annars hjónsis og verður þá væntanlega greitt 2svar sinnum  gerir þetta krónur 390.380 eftir skatt.

Hjón með 145.000 tekjur frá Lífeyrissjóð fá frá Tryggingastofnun kr. 161.240 eftir skatt. Þau fá ekki heimilisuppbót.

Ráðstöfunartekjur annars hjóna eru kr.252.401 eftir skatt (væntanlega er þetta þá sinnum 2)

 

Annað hjóna fær 32.766 krónum minna en einstaklingur miðað við engar aðrar tekjur en tryggingabætur.

 

Annað hjóna fær 23.788 krónum minna en einstaklingur miðað við að hjónið hafi 145.000 frá Lífeyrissjóði. 

 

Ég er að velta fyrir mér þessu með hjónin, það hljóta að vera tvöfaldar bætur mínus heimilisuppbót, eða hvað?

Þetta er nú öll dýrðin, ellilífeyrir hækkar í 227.883 og svo koma 52.117 krónur sem heita heimilisuppbót sem samtals gerir 280.000. Frá dregst svo skattur 52.044 og útkoman er 227.956 í ráðstöfunartekjur.

Hafið þið rekið augun í að heimilisuppbótin fer næstum öll í skatt?

 

Þá er stóra spurningin eftir. Þegar stjórnmálamenn berja sér á brjóst og dásama örlæti sitt, gera þeir ráð fyrir þeim tekjum sem koma til baka í formi tekjuskatts? Eða eru tölurnar sem þeir tala um, allir dásamlegu milljarðarnir, brúttó tölur?

 

Ég ætla að hætta þessu núna og á morgun skrifa ég um eitthvað skemmtilegt. Stjórnmál eru ömurleg og ekki síst þegar nokkrir dagar eru til kosninga og loforða grauturinn vellur út um allt, ósaltaður og bragðlaus, viðbrunnin og í sumum tilfellum upphitaður, úldinn og gamall.

 

 

 


Alþingi samþykkir lög sem þingmenn skilja ekki!

Mér skilst að nú sé búið að samþykkja ný lög um Almannatryggingar og að einhverjir þingmenn hafi verið svo hreinskilnir að segja beint út að þeir skilji ekki málið.

 

Er það furða? Ég hef sagt það oft og mörgum sinnum að oftar en ekki séu lög ekki á mannamáli og að með frumvörpum þurfi að fylgja mannamáls skýringar.

 

Það er þó sárgrætilegt að svona stórt mál skuli vera keyrt í gegn á síðustu klukkutímum sitjandi þings.

 

Nú verður spennandi að sjá hvaða varnir Félag eldri borgara og Grái herinn hafa uppi á næstunni. Þessi tvö hafa lýst því yfir að hér sé um gott mál að ræða. Einhverjir eru að ybba sig á síðu Gráa hersins og fátt um svör og finnst mér þau fáu svör sem ég hef séð lýsa ótrúlegum hroka en ekki umhyggju.

Fólk bindur vonir við fund eins og þann sem haldinn var í Háskólabíó á vegum þessara tveggja og formaður FEB flutti hugnæma ræðu í lokin þar sem fólk táraðis yfir orðum hennar. Móðurlega mælti hún og hvatti fundargesti til þess að ganga beinir í baki, rétta úr sér og hún þakkaði þeim hjartanlega fyrir að hafa komið á fundinn.

 

Móðurleg umhyggja hennar hefur þynnst út finnst mér eftir að hafa séð hvað hið nýja fumvarp er þekkilegt í hennar augum.

 

Getur verið að það sé framið stjórnarskrár brot eða mannréttinda brot með þessu frumvarpi?

Getur það verið eðlilegt að þeir sem ekki njóta heimilisuppbótar, t.d. þeir sem hafa greitt alla sína starfsæfi skatta á Íslandi og hafa nú flúið land til að komast af, eigi ekki að fá neina hækkun. Þetta fólk nýtur strípaðra bóta, grunnlífeyris og tekjutryggingar. Ég veit þetta fyrir víst því ég bý ekki á landinu.

 

Er það jafnræði að 3/4 eftirlaunaþega eru skildir eftir og fá enga hækkun?

 

Nú væri frábært ef hinir háu herrar sem hafa stjórnað upp á síðkastið skoði hug sinn áður en þeir fara að hæla sér af hækkunum og berja sér á brjóst og dásama örlætið sem felst í hinum nýju lögum.

 

Er það ekki sorglegt að svona stórt mál skuli vera keyrt í gegn á ógnar hraða og margir þeirra sem eru í forsvari fyrir félagsskap eldri borgar sitji nú og brosi út í bæði? Getur verið að þessir forsvarsmenn þurfi ekki að reiða sig á góð lög um réttindi til mannsæmandi lífs þegar síðasti fjórðungur lífsins hefst?

 

Er það grimm krafa að alþingismenn skilji þau frumvörp sem þeir eru að gefa atkvæði sitt?

Ég er ekki einu sinni reið, ég er svo sorgmædd fyrir hönd okkar allra, og fordæmi þá lítilsvirðingu sem okkur er sýnd, hinum almenna borgara.

 


Eru einhverjir að svíkja út félagslegar bætur á Íslandi?

Ég talalði um bótasvik um daginn og hef verið að afla mér upplýsinga um hvort einhverjar tölur séu til um þau.

 

Það hefur eitt og annað komið í ljós sem mér finnst áhugavert og gæti verið að fólk vissi ekki um. Ég ætla að nota þetta blogg til þess að deila með þeim sem lesa því sem ég hef fundið í bili. Ég ætla að halda áfram að tuða um eitt og annað og deila reynslu minni af því að búa erlendis og vera eftirlauna þegi.

Fyrst vil ég biðja þá sem eru einhverra hluta á bótum, eftirlaunum, örorkulífeyri eða öðru, að fjúka ekki upp og halda að ég sé að dæma alla sem fá greitt frá Tryggingastofnun svikara. Það er alls ekki svo. Mikill meirihluti þeirra eru þræl heiðarlegt fólk sem má ekki vamm sitt vita og fer í einu og öllu eftir reglum og hlýðir eins og smábarn því sem fyrir það er lagt.

 

Ég hef hins vegar sagt áður að því miður þekki ég nokkuð marga sem fylgja ekki reglunum og er það miður og kemur sér illa fyrir hina hlýðnu.

 

Kæra fólk, ekki fjúka! Haldið ró ykkar þar til þið hafið lesið til enda og í öllum bænum lesið til enda.

 

Ég man eftir því að fyrir nokkrum árum kom fulltrúi frá einhverju norðurlandanna og var að útskýra hvernig viðkomandi land tók á bótasvikum. Ég nenni ekki að leita að því hvenær þetta var en vafalaust er útkoman aðgengileg á vef TR. og mæli ég með að fólk skoði það. Mig minnir að þetta hafi verið annað hvort fulltrúi frá Noregi eða Svíþjóð.

 

Jæja, ég fann út að Almannatryggingalöggjöfin býr ekki yfir heildstæðum viðurlagaákvæðum, hvergi er kveðið á um að brot gegn lögunum hafi tilteknar afleiðingar né taka sérstök lög á bótasvikum.

Kanski finnst sumum bótaþegum það ekkert tiltökumál að gefa upp rangar upplýsingar eða leyna mikilvægum upplýsingum því það virðist ekki hafa neinar afleiðingar í för með sér.  Bætur almannatrygginga eru greiddar úr sameiginlegum sjóði allra landsmanna og að svíkja fé út úr slíkum sjóði bitnar í flestum tilvikum á þeim sem síst skyldi og á ég þar við þá sem nauðsynlega þurfa á aðstoð að halda.

Ef öllum leikreglum væri fylgt held ég því fram að hægt væri að efla þennan sameiginlega sjóð og mundi það leiða til batnandi kjara og lífsskilyrða bótaþega.

 

Árið 2010 eru upplýsingar frá Vinnumálastofnun eftirfarandi:

Alls voru 525 ábendingar um bótasvik teknar til frekari skoðunar af eftirlitsdeild VMST. Þessar rannsóknir leiddu til þess að 209 einstaklingar voru teknir af atvinnuleysisskrá og 74 til viðbótar hlutu viðurlög í formi 2-3 mánaða biðtíma. Þeim einstaklingum sem fengu ofgreiddar atvinnuleysisbætur var gert að endurgreiða bæturnar og í mörgum tilfellum með 15% álagi. Áætlar stofnunin að tæplega 136 milljónir króna hafi sparast venga þessa eftirlitsþáttar á árinu 2010.

 

Þessar upplýsingar styðja fullyrðingu mína um að bótasvik séu stunduð í einhverjum mæli hér á landi, rétt eins og annars staðar á Norðurlöndum.

 

Tryggingastofnun hefur ekki mörg úrræði til þess að varna svona svikum og er hægt að líta á aðferð þeirra sem beitt er við mig og kannski aðra sem búa erlendis aðeins mildari augum. Mér finnst fáránlegt að á hverju einasta ári í júni fái ég bréf þar sem mér er vinsamlega bent á að nú skuli ég sanna að ég sé ekki kominn til himnaríkis og sé að krefjast bóta þaðan. Hverjum dettur í hug að ég hafi eitthvað að gera með eftirlaun á himnum. Ég lifi þar í vellystingum og þarf ekki peninga, held ég. Ég er reyndar ekki farinn yfirum svo þetta eru bara hugmyndir mínar um einfalt kerfi á himnum.

Ég eins og hlýðinn borgari fer til kirkjusóknar skrifstofunnar í bænum mínum og við hlæjum dátt að því að nú þurfi að sanna tilveru mína hér á jörðinni.  Ég borga nokkrar evrur og við höfum fengið okkar skammt af hlátri þann daginn, ég og skrifstofufólkið. Ekki slæmt.

Síðan biður hin ágæta stofnun á Íslandi mig um skattskýrslu!!

Í fyrstu skyldi ég þetta ekki, það var langt fyrir ofan minn skilning að ég þyrfti að gera tvær skattskýrslur með nákvæmlega sömu tölum! Jú, þú verður að gera þetta sögðu þau þegar ég röflaði.

Nú sendi ég þeim afrit af portugalskri skýrslu minni, sem er ekki á íslensku, hún er á portugölsku og afskaplega flókin. Aftur fæ ég hláturskast sem dugar mér þann daginn. Ég get ekki fyrir mitt lifandi líf, þó ég hafi ótrúlega frjótt ímyndunarafl, séð fyrir mér starfsmenn þessarar uppáhalds stofnunar minnar, lesa úr skattskýrslu frá Portúgal. Ég get það ekki og er ekkert að reyna, hef bara endurskoðanda sem sér um málið.

Stofnuni er nú búin að fá pappírana sem þau biðja um og þó ég fari fram á staðfestingu á móttöku fæ ég hana venjulega ekki og þá hringi ég. Ég get séð fyrir mér þjónustufulltrúana stynja og hugsa með sér, Almáttugur hringir hún enn þessi ruglaða frá Portúgal!

Eftir nokkuð japl og fuður tekst að grafa gripina upp úr einvherjum bunka jafnvel þó fullyrt hafi verið við mig að skjölin hafi ekki borist. Ég er farin að taka þessu nokkuð rólega og gef mig ekki fyrr en dótið finnst. Ég hef að sjálfsögðu fyrir framan mig e-mailið sem ég sendi og líka þau sem ég puðraði út á eftir til þess að fá staðfestinguna.

Sem sagt, Tryggingastofnun er afgreidd.

Þá er næsta mál, sem er skattstjóri. Sækja skal um frískattkort á hverju ári í desember til að forðast tvísköttun. Gott og vel. Afrit af skattskýrslu skal fylgja. Á síðasta ári brá svo við að ég þurfti líka að skila vottorði frá skattyfirvöldum hér í landi að ég hefði borgað þá skatta sem bar í Portugal. Vottorðið skyldi vera á pappír og stimplað. Einmitt, ég arkaði upp á skattstofu hér í bæ og bar mig aumlega og spurði hvort ég gæti fengið þetta á pappír. Nei, það getur þú ekki, sögðu vinir mínir hjá skattinum. Hvaða stimpil eru þau að biðja um? Við gefum aldrei út svona vottorð á pappír. Er ekki Ísland tölvuvætt? spurðu þau. Jú, jú, sagði ég aumingjalega og skammaðist mín ekki lítið fyrir að hafa haldið því fram að Ísland væri hámenntað! Hér er þetta gert í gegnum tölvur og ekkert annað með staðfestingar kóda sem venjulegt fólk skilur bara nokkuð vel en er auðvitað á portugölsku.

Ég sendi vottorðið til skattstjóra og sannaði að ég hefði greitt mína skatta og væri ekki að svíkja eitt eða neitt.

Þetta er semsagt aðferð Tryggingastofnunar og skattstjóra að sjá um að þeir sem fylgja reglum sanni að þeir séu ekki að svindla.

Er þetta ekki svolítið skondið á sama tíma og ég þekki til bótaþega sem búa erlendis og hafa aldrei þurft að sanna eitt eða neitt, enda eru þeir á fullu að fara EKKI eftir reglunum og ekkert er gert í málinu og engin leið til að finna út hverjir þetta eru?

Það er eitthvað að íslensku eftirlit, held ég!

Það væri auðvelt að sannreyna upplýsingar sem gefnar eru til Tryggingastofnunar en það vantar lögin. Það væri hægt að spara milljónir á ári, kannski tugi milljóna, með virku eftirliti en líklega verð ég komin í himnasæluna þegar það gerist.

 

Passið nú upp á blóðþrýstinginn áður en þið farið að hamast í mér. Bótasvik eru stunduð á Íslandi af einhverjum hóp, ég veit ekki hvað hann er stór. Það er staðreynd sem ekki verður undan komist.

 

Ef ég er að fara með rangt mál varðandi löggjöfina þá væri ég afskaplega þakklát fyrir leiðréttingar og tek þeim opnum örmum.

Það getur verið að t.d. í hinu nýja frumvarpi sé eitthvað tekið á þessum málum. Væri það hugsanlegt eftir allan þann tíma sem frumvarpið hefur verið í smíðum?

 

 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband