Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Er gott að búa í Portúgal og vera 67 ára eða meira?

 

Ég bý í Portúgal og hef aðeins fleiri en 67 ár í pokahorninu.

Þegar ég flutti frá Íslandi var meiningin alls ekki að flytja til Portúgal en aðstæður höguðu því þannig að drauma endastöð mín í þessu lífi varð ekki sú sem ég vildi.

Ég þurfti að velja eitthvað land þar sem ég fengi varanlegt dvalarleyfi og athugaði eitt og annað á netinu. Portúgal fékk háa einkunn sem land fyrir eftirlauna aldurinn.

Vinir og vandamenn sem ég spurði voru á einu máli um að landið væri frábært. Reyndar höfðu þeir aldrei komið til hins raunverulega Portúgal. Þeir höfðu verið ferðamenn í Algarve sem í mínum huga og landa minna hér er bara ferðamannastaður þar sem sól og sumar ríkir stóran hluta ársins. Það er langt frá því að meiri hluti Portúgala hafi heimsótt Algarve.

Ég flutti semsagt til meginlandsins og valdi mitt landið einkum vegna loftslagsins. Borgin sem ég valdi var söguleg og þar var allt fullt af menningu og íbúar 6.500, samkvæmt því sem stóð á hinu ítarlega neti.

Flaug ég nú til Portúgal frá Kína og kom til Lissabon í frábæru veðri, sól og hita. Tveggja og hálfs tíma akstur var á áfangastað og fræddi leigubílstjórinn mig um það sem fyrir augu bar. Ekki þótti mér það ýkja merkilegt en batt þó vonir við að mín biði hin sögulega borg þar sem annað væri uppi á teningnum.

Ég uppgötvaði fljótlega að ekki var allt sem ég hafði lesið um hina sögulegu Penelu rétt. Íbúar þorpsins eru tæplega 600, eða réttara sagt voru það þegar ég kom hingað. Þeim hefur fækkað nokkuð og nú erum við rétt rúm 500.

Í héraðinu sjálfu, sem er partur af Coimbra district, búa hins vegar tæp 6000. Mikið af íbúunum eru útlendingar og þeir búa í húsum úti í skógi og blanda ekki geði við heimamenn. Flestir eru líklega Bretar en þjóðverjar og hollendingar leynast innan um og saman við og einn Dana hef ég hitt á þessum árum sem ég hef verið hér.

Ég kynntist aðeins útlendinga menningunni hér fyrir nokkrum árum þegar ég fékk þá ágætu hugmynd að kenna feitum Bretum dans. Þeir gáfust að vísu fljótt upp og vildu frekar drekka ódýr vín sem hér fljóta og borða mat fullan af salti og taka meðöl við háum blóðþrýstingi og ýmsum kvillum sem óhjákvæmilega fylgja.

Í þorpinu mínu er ég eini útlendingurinn sem hef bæst við síðastliðin 20 ár eða svo. Hjón sem hafa verið hér í rúm 20 ár eru hinir útlendingarnir og eiga þau 2 uppkomna syni sem eru fluttir.

Allir vinir mínir hér í landi eru Portúgalskir og hafa þeir reynst mér vel.

Ég bý ekki í húsi. Nennti ekki að fara að hafa áhyggjur af garði og svoleiðis í ellinni og keypti íbúð í 6 íbúða blokk (er það kallað blokk á Íslandi, er ekki alveg viss). Nágrannar mínir eru svolítið spes, svo ekki sé meira sagt. Þó er ég svo heppin að þau sem búa á móti mér eru venjulegt dásamlegt fólk.

Ég get oft á tíðum ekki annað en vorkennt blessuðum nágrönnunum að hafa svona útlending búandi við nefið á þeim. Það hlýtur að vera mjög óþægilegt að vita ekki gjörla hvað snýr upp og hvað niður og auðvitað alveg hroðalegt að útlendingurinn ætlist til þess að ekki renni vatn inn í bílskúrinn hennar þegar rignir í Janúar. Svo vill þessi einkennilega manneskja að stofan hennar sé ekki rennandi blaut í sömu rigningum og ætlast hún til þess að allir taki þátt í að laga skemmdir sem eru á blokkinni að utan sem hleypa vatninu inn. Þetta er auðvitað skandall, en svona er það að búa með útlending í nágrenninu.

Sturtuferðir þeirra sem búa fyrir ofan útlendinginn eru ómældar og einn daginn tók vatn að renna niður loft í íbúðinni. Fauk nú heldur betur í konuna á neðri hæðinni og brunaði hún upp stigann og var þar fyrir ræstingafrúin. Sú var leidd niður og henni sýnd vexumerkin. Rennandi vatn í þremur herbergjum hjá þeirri útlendu! Ræstingafrúin fékk vægt sjokk og sagðist mundu hringja í húsfrúna. Leið og beið og ekkert gerðist svo sú útlenska ákvað að heimsækja tannlækninn á stofuna og sýna honum myndir af skemmdunum sem breiddust ótt um loft hennar. Hann ætlaði að gera eitthvað í málinu en sagði að dóttirin sem væri nú í háskólanum færi svo mikið í sturtu og siliconið hefði gefið sig og hann hefði bætt við siliconi og allt væri í góðu lagi hjá honum.

Einmitt, þetta var fyrir rétt tæpu ári. Boruð hafa verið göt hjá tannsa og í ljós kom að vatn var á milli þilja og rann hamingjusamt niður til þeirra útlensku. Var fátt annað að gera í stöðunni en halda bara áfram að þvo sig mörgum sinnum á dag, þ.e. íbúarnir á efri hæðinni leystu málið svona, og bíða svo bara eftir því að kraftaverkið gerðist og loft kerlu þornuðu. Ég skil ekki allan þennan skít sem endalaust þarf að sturta af efrihæðar íbúum. Þau eru voða vel kaþólsk og maður gæti haldið að það þyrfti ekki að fara í sturtu mörgum sinnum á sólarhring, en hvað veit ég svo sem, heiðinginn sem aldrei fer í kirkju í landi páfans.

Loftin eru enn blaut tæpu ári síðar, það tekur tíma að þurrka svona tjón, sagði einhver spekingur, langan tíma!

Ég er löngu hætt að reyna að selja íbúðina og læt mig ekki dreyma um að flytja til Spánar eða eitthvað annað. Íbúðin mín er falleg og hér verð ég það sem eftir er og kannski þornar allt klabbið bráðum.

Ég var að klebera á ástandinu fyrir nokkrum árum og var að dauða komin andlega en ákvað svo að sætta mig við það sem er og gera bara það besta úr því. Það er jú hægt að ferðast til annarra landa og búa þar í svolítinn tíma, svo framarlega að það sé ekki á rigningartíma, og koma svo aftur heim.

Ég á heimboð til Kína og verð þar 3 mánuði þegar ég hef náð heilsu aftur og svo flýg ég eitthvað út í buskann eftir því sem mér dettur í hug og hleð batteríin af andlegri næringu.

Hér í landi er ekki mikið um nútíma menningu. Það er nóg af pöbbum og matsölustöðum og vín er frekar ódýrt fyrir þá sem það vilja. Vilji maður hins vegar sækja tónleika eða aðra nútíma menningarviðburði vandast málið. Slík fyrirbæri eru ekki auglýst og getur reynst snúið að finna eitthvað fyrir andann.

Fyrir hádegi eru kaffistofur og pöbbar fyrir konur en eftir hádegi og á kvöldin eru það karla staðir. Það tók mig svolítinn tíma að átta mig á þessu og gengu sögur um þorpið um útlendinginn sem fór á kaffistofuna eftir klukkan 5!

Markaðir þar sem seldar eru kökur og saumaskapur ásamt osti og grænmeti eru í hverjum bæ oftast einu sinni í viku.

Kastalar eru út um allt land og kirkjur í tonnatali, nema í Algarve. Hér í bæ eru hvorki fleiri né færri en 4 kirkjur og í klukkutíma radíus (ökuradíus) hef ég talið 32 kirkjur. Semsagt kaþólskara en páfinn er þetta ágæta land.

Kastalinn hér í bæ er síðan 15 hundruð og mér finnst hann átakanlega ómerkilegur en auðvitað er ég bara útlendingur sem kann ekki gott að meta.

Mér hefur tekist að grafa upp nokkra tónleika á þessum 5 árum sem ég hef verið hérna. Þeir byrja ALDREI á auglýstum tíma.  Að minnsta kosti hálftíma seinkun ef ekki meira. Það er undantekningalaust að minnsta kosti 20 mínútna bla bla bla í upphafi áður en tónlistin hefst og annað eins í lokin.

Frábært tónlistarfólk er þó hægt að finna hérna og er ég svo heppin að ein af þeim kennir mér söng auk þess að vera dásamlegt vinkona mín.

Jólin hérna eru auðvitað öðruvísi. Ég hef dvalið hjá nokkrum fjölskyldum um jól. Ein jólin var maturinn þurrkaðir þorskhausar og þótti mér það frekar lítið jólalegt. Svo hef ég fengið alls konar mat en það sem mér hefur líkað best er hjá fjölskyldu sem bjó í 20 ár í Frakklandi og eldar almennilegan útlenskan mat.

Áramótin eru líka spes, sérstaklega er maturinn stundum ótrúlegur. Eitt er þó alltaf hægt að stóla á. Það eru endalausar sætar kökur, ofboðslega sætar, hlaðnar sykri svo maður fær eiginlega hálfgert sjokk bara af að horfa á þær.

Sætar kökur eru aðalsmerki þessa ágæta lands. Þær eru alls staðar. Sumar eru voða hollar, gerðar úr grænmeti EN stútfullar af sykri svo hollustan týnist á leiðinni, en þær eru dásamaðar sem SVO hollar og enginn skilur dyntina í mér að borða ekki hnossgætið.

Landið er fátækt. Við eigum nokkra mjög ríka, ofboðslega ríka einstaklinga sem hleypa upp meðal launum í landinu en staðreyndin er sú að 500 evrur eru taldar nokkuð góð laun hérna.

Þegar kemur að jólum verður fólk að sníða sér stakk eftir vexti. Ég heyrði undurfallega sögu ekki fyrir löngu. Vinir mínir sem ég hef stundum verið hjá um jólin eru hætt að gefa jólagjafir. Ástæðan er sú að ein af þeim sem alltaf kemur í jólaboðið er svo fátæk að hún hefur ekki efni á gefa neitt og ætlaði að sleppa því að koma í boðið. Héldu boðsgestir, sem eru þeir sömu ár eftir ár, fund og var samþykkt að hætta jólagjöfum svo allir gætu verið með. Er þetta ekki dásamlegt? Mér vöknaði um augun þegar ég heyrði þetta.

Þegar kemur að áramótum borðum við 12 gular rúsínur á miðnætti og er það til þess að árið verði gjöfult.

Margir sem hafa flutt og vinna í útlöndum koma heim um jól og áramót. Oft á þetta fólk hús sem það notar um jólin og í sumarfríum. Kirkjur landsins, í litlum þorpum, halda basar, sem er reyndar uppboð og þá gefa þessir sem fluttir eru oft mikla peninga. Svona uppboð eru ótrúlega skemmtileg og mikið fjör þegar verið er að bjóða í kökur og annað góðgæti. Eftir kaupin er svo haldin veisla með góssinu. Mér finnst þetta fallegur siður og gaman að fá að taka þátt í honum.

Þar sem vinir mínir eru allir Portúgalar kynnist ég landi og þjóð öðruvísi en þeir sem búa í fínu húsunum úti í skógi og halda sig við útlendinga nýlendurnar.

Ég mundi ekki vilja skipta við þá.

Að lokum vil ég segja þetta við þá sem eru að velta fyrir sér að flytja frá Íslandi til þess að nýta lífeyrinn betur. Spánn er ódýrt land og þar eru íslendinga nýlendur. Ef þið hafið ekki hug á að læra málið þá er gott að velja stað sem býður upp á Íslensku. Það getur reynst snúið að læra nýtt tungumál á efri árum en er nauðsynlegt til þess að komast almennilega inn í menningu þjóðarinnar. Enska er ekki algeng á ódýrari stöðum á Spáni eftir því sem ég hef heyrt. Hér í Portúgal talar aðeins lítill hluti þjóðarinnar ensku en franska og þýska eru aðeins algengari.

Meirihluti heillar kynslóðar hér er ólæs og landið er fátækt þrátt fyrir örfáa mjög ríka.

Þegar ég tala við elstu kynslóðina þá eru þau oft með tár í augunum þegar þau segja mér að æðsti draumur þeirra væri að geta lesið og skrifað. Við sem erum yngri og frá löndum þar sem menningin er þroskuð gerum okkur oft ekki grein fyrir því hvað við eigum gott.

Ég sakna þess að geta ekki farið á alla jólatónleikana í desember á Íslandi en menningarviðburðir ásamt nokkrum góðum vinum er í raun það eina sem ég sakna frá landinu græna.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 

 


Jólakvíði - er hann algengur?

 

Þá eru jólin að koma rétt eina ferðina enn og ekkert lát á flóði auglýsinga!

Þessi hátíð sem var einhvern tíman til þess að fagna komu frelsarans er fyrir löngu orðin að hátíð kaupmanna og sölumennsku.

Engin jól án þess að eignast nýja tölvu, nýjan bíl, nýtt sjónvarp og guð má vita hvað. 

Óskirnar eru endalausar en þær rætast í samræmi við efni og ástæður hvers og eins.

Ekki vandamál hjá þeim sem hafa góð laun,og má þar t.d. nefna þingmenn og bankastjóra og ráðherra og forstjóra og formenn verkalýðsfélaga og alþýðusambands Íslands og svo mætti lengi telja.

Hvar er þá vandamálið?

Jú, fátækar fjölskyldur, öryrkjar, eftirlaunaþegar sem ekki hafa safnað í sjóði utan lífeyriskerfisins, láglaunafólk og þeir sem hafa af einhverjum ástæðum orðið undir í þjóðfélaginu.

Þetta er fólkið sem hlustar á allar hinar dásamlegu auglýsingar og óskar þess heitt og innilega að hægt verði að kaupa góðan mat til að borða á hátíðinni og ef til vill eitthvað örlítið til þess að gleðja börnin og gamalmennin eða bara góðan vin.

Jólakvíði er hræðilegur.

Jól koma alltaf einu sinni á ári, það bregst ekki.

Nú á dögum hefur auglýsinga herferðin færst fram og er ekki lengur í desember, nei hún byrjar í október eða jafnvel fyrr.

Jólakvíðinn færist líka fram. Hann fylgir hinu endalausa flóði gylliboða sem dynja eins og stórstreymt flóð með ógurlegum drunum.

Eftir jól er síðan rætt um dásemd hátíðarinnar og margir alsælir en aðrir dauðfegnir og geta nú andað léttar. Hátíð frelsarans er liðin og hægt að taka til við daglegt líf án þess að hlusta á endalausar sögur um mat og drykk og gjafir og bakstur eða ekki bakstur.

Kannski hvarflar að einhverjum að óska þess að það væru aldrei jól!

Auðvitað á ekkert að vera að tala um jólakvíða. Hann á að vera eins og óhreinu börnin hennar Evu, falinn á bak við hurð.

Þeir sem þjást af þessum kvíða bera hann ekki á borð. Þeir þjást innra með sér og leika hið fullkomna leikrit. Leikrit hins alsæla jólabarns.

Fólk í kringum þá sem þekkja jólakvíðann hefur ekki hugmynd um þjáninguna. Þetta er leyndamál sem er varðveitt eins og gull á ormi. Það má jú ekki skemma fyrir þeim sem njóta gleðinnar með því að segja frá eigin líðan. Allt verður að vera svo gott og glæsilegt á ytra borðinu og skiptir ekki máli hvað er fyrir innan.

Ísland í dag er land þar sem peningar fljóta eins og rjómi ofan á mjólkurbrúsa. Fyrir hverja er svo rjóminn? Hverjir njóta hans? Er það almúginn í landinu? Eru það ferðamennirnir sem koma að heimsækja fallega landið og fá vægt áfall þegar þeir uppgötva hið ótrúlega verð sem boðið er upp á? Eru það erlendu brúðhjónin sem spöruðu fyrir Íslands ferðinni og fara heim slypp og snauð án minjagripa til að gleðja þá sem þeim eru kærir?

Ég get ekki svarað þessari spurningu, en kannski getur einhver sagt mér fyrir hverja landið fallega er.

Það sem ég þó veit er að landið er ekki fyrir alla. Það er ekki fyrir þá sem eru komnir yfir 65 ára aldur. Það er ekki fyrir einstæðar mæður og feður. Það er ekki fyrir öryrkja eða þá sem af einhverjum ástæðum geta ekki séð fyrir sér.

Í fjölmiðlum heimsins er dregin upp hin fegursta mynd af landinu fagra, þar sem allir hafa það svo gott og ekki þrífst spilling. Nei, spilling er bara í útlöndum, ekki á Íslandi. Þeir sem græddu á hruninu voru settir í fangelsi, segir í fréttum í hinu nýja heimalandi mínu. Önnur lönd ættu að taka Ísland sér til fyrirmyndar, heyri ég oft.

Er það? Ættu önnur lönd að taka Ísland sér til fyrirmyndar? Svari nú hver fyrir sig!

Jólakvíðinn líður hjá og kemur ekki aftur fyrr en að nokkrum mánuðum linum.

Spillingin líður kannski hjá og hverfur alveg. Eða hvað?

Væri hægt að búa svo um hnútana að öllum gæti liðið vel sem búa í hinu fagra landi þar sem norðurljósin dansa jafnt fyrir fátæka sem ofur ríka?

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Aldrei of seint að hefja líkamsrækt?

 

Þar sem allar líkur eru á því að þeir sem komnir eru á eftirlaun, það er að segja meðal Jóninn, eigi ekki sjö dagana sæla framundan er ekki úr vegi að skoða hvað sé til ráða.

Auðvelt er að gagnrýna og hamast á þeim sem stjórna landinu og væna þá um að vilja losna við ákveðinn aldurshóp úr umræðunni, nema auðvitað rétt fyrir kosningar þegar atkvæðin eru verðmæt og auðtrúa almúginn hleypur til og krossar við í þeirri von að betri tíð og bjartari dagar séu handan við hornið.

Betri tíð verður venjulega að frosthörðum vetri og birtan sem beðið var eftir breytist í kolsvart skammdegis myrkur sem engan endi tekur.

Þó eru nokkrir sem njóta eftirlauna sem sómi er að. Það eru alþingismenn og ráðherrar. Auðvitað er ekki hægt að ætlast til þess að þessir menn séu að velta sér upp úr sauðsvörtum almenningi svona dags daglega.

Hvað er þessi líður (almúginn) að kvarta? Nýbúið að setja þessi dásamlegu lög sem einfalda allt og gera svo fallegt!

Aldrei hægt að gera þessu liði til geðs!

Veit almenningur ekki hvað því fylgir mikil ábyrgð að stjórna landi eins og Íslandi? Það þarf að hugsa um hænsnin og kindurnar, og fjármála spekingana og auðvaldið. Þetta er ofboðslega erfitt og að þurfa svo að hafa grenjandi almenning á bakinu er út í Hróa Hött.

Þessi almenningur kvartar og kveinar: ekki nóg heilsugæsla, ekki nóg að borða, ekki hægt að lifa af eftirlaunum!

Þar sem ég tilheyri þessum almenningi hef ég velt fyrir mér í fullri alvöru og af mikilli ábyrgðartilfinningu hvað hægt sé að gera til þess að létta stjórnarherrunum störf!

Í miðjum pælingunum, þegar ég var að borða hádegis matinn minn áðan og átti í hálfgerðu basli þar sem önnur höndin er óstarfshæf í bili og ekki hægt að halda bæði á hníf og gafli í annarri poppaði upp orðið "líkamsrækt"

"Líkamsrækt" er lausnarorðið fyrir sauðsvartan almúgann!

Já, en það er svo dýrt að fara í ræktina og við höfum úr svo litlu að spila, mótmælti rödd í höfðinu á mér.

Æi, láttu nú ekki svona, svaraði ég.

Það er hægt að fara út að ganga. Kostar ekki krónu og er almennt viðurkennt sem hin allra besta rækt sem völ er á, hélt ég áfram.

Já, en ég er orðin svo gömul eða gamall og hef aldrei stundað neina rækt, nema helst grænmetisrækt!

Gerir ekkert til, svara ég.

Aldrei of seint að byrja.

Bara fara út í góða veðrið, eða vonda veðrið og labba. Fyrst hægt og rólega og ekki of lengi og smá lengja ferðina þar til þrekið leyfir rösklega 20 mínútna göngu, eða meira. Ekki flóknar en það.

Mér finnst þetta frábær röksemdafærsla hjá mér. Með þessu sparast lækniskostnaður, sjúkrahúsvist, sálfræðiþjónusta, leiðindi og sjónvarpsgláp víkja og allt verður svo gott og frostið bítur ekki lengur.

Mér finnst að ég ætti að fá greitt fyrir svona frábærar hugmyndir!

Auðvitað er ég ekki að finna upp hjólið, bara að grafa upp eitt gamalt og koma því í gagnið.

Nú má ég ekki vera að því að segja ykkur meira frá hugmyndum mínum því ég þarf að leggja í hann. Göngutúr niður í þorpið tekur hálfa klukkustund og annað eins til baka. Þar sem ég er slösuð er ganga eina ræktir sem ég get stundað þessa dagana og nokkuð margar gönguvikur framundan.

Ég kvarta ekki, ég á skó og ef það rignir set ég á mig húfu.

Kannski ætti að bjóða þeim sem sitja yfir valdatafli þessa dagana að fá sér göngu með sauðsvörtum almúga! Það gæti losað um hnútana og landið fengi nýja ríkis stjórn!  Ekki amalegt það svona rétt fyrir jólin.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Hvar er 68 kynslóðin? spurði einhver

 

Hvar er 68 kynslóðin?

Ég sá þetta í athugasemd frá ágætum Fabook skrifara.

Hvers vegna er spurt?

Jú, það er að renna upp fyrir enn fleirum að nú um áramótin breytast reglur fyrir þá sem eru 67 ára eða eldri og eru enn á vinnumarkaðinum.

80% af launum þeirra renna til ríkisins í einni eða annarri mynd, samkvæmt því sem stóð í Facebook færslunni.

Mikið rétt. 25 þúsund má einstaklingur sem er 67 ára eða eldri, hafa áður en ríkið teygir langa arma sína í átt til hans og hrifsar til sín megnið af laununum.

Skilaboðin eru skýr:

Burt með ykkur af vinnumarkaði. Fariði heim og látið ykkur leiðast og ekki halda að heilsugæsla taki við ykkur þegar þið farið að fá þunglyndisköst og aðra sjúkdóma. Nei við viljum ekki hafa ykkur í þjóðfélaginu lengur. Við viljum losna við ykkur.

Já, en hvað með launin sem þingmenn hafa fengið án þess að koma nokkru sinni í vinnuna sína?

Jú, það er allt annað. Þeir skipta máli. Þið sem eruð 67 ára og eldri skiptið ekki máli. Þið eruð búin með ykkar kvóta og hann verður ekki endurnýjaður.

Hvað með þá sem fá greiddan hluta sparnaðar síns? Lífeyrissjóðs sparnað, sem er lögbundin á Íslandi? Hvað með þá?

Nákvæmlega það sama. Burt með ykkur. Við þurfum að geta fjárfest og leikið okkur með sparnaðinn ykkar. Svo þurfum við líka að eiga fyrir launum hinna efstu í valdaþrepi sjóðanna.

Veriði nú ekki að ybba ykkur þetta, lífeyrisþegar, látið stjórnendur í friði. Þeir eru að ávaxta sparnaðinn ykkar og þið hafið ekkert vit á fjárfestingum.  Haldiði bara áfram að spara, það er svo gott fyrir okkur sem stjórna!

Hvaða leið er svo fær til þess að losna við þetta óþurftarlið? Þetta lið sem er orðið 67 ára og að ég tali nú ekki um þá sem eru enn eldri og kannski bara við fulla fimm? Jú, það er bara ein leið:

Sjá til þess að þetta fólk lifi ekki lengi. Sjá til þess að þetta fólk deyi helst úr leiðindum og alveg sjálfsagt að vera ekki að púkka upp á það í heilsugæslu.

Einhver sagði að nú ætti 68 kynslóðin að rísa upp og sýna hvað í henni býr.

Ekki slæm hugmynd og kannski gerir þessi ágæta kynslóð eitthvað í málinu.

Það er kýrskýrt að stjórnmálamenn gera ekkert.

Verkalýðsforystan gerir ekkert.

Samtök eldri borgara eru grút máttlaus.

Baráttan verður að koma frá hugsjónafólki og þar er 68 kynslóðin ef til vill á réttri hillu.

Mikið er nú dásamlegt að vera orðin 67 ára og búa við frábærar skerðingar á sparnaði í lífeyrissjóð sem átti að vera til framfærslu á síðasta parti ævinnar.

Dásamlegt er að vita til þess að eftir þennan aldur er hægt að eta það sem úti frýs og vonandi verða miklar frosthörkur svo nóg verði til að býta og brenna.

Hamingjusamasta þjóð í heimi er alveg með ólíkindum!

Hulda Björnsdóttir

 


Í guðanna bænum bjargiði hænunum!!! Ekki hugsa um fólk sem sveltir, hænsnin eru það sem heldur þjóðfélaginu uppi!

 

Ég gafst upp á að lesa Facebook í heilan dag. Allt snérist um hænsn og hina hræðilegu meðferð sem þau fengu.

Ég er nú svo einkennileg að ég skildi ekki þessa ofsareiði sem geysaði á Facebook yfir einhverjum hæsnum!

Ég hef ekki séð svona ofsareiði yfir því hvernig búið er að mörgum íslendingum árið 2016.

Ég hef ekki heldur séð mikið talað um hinn gífurlega jólakvíða sem þjáir þá sem einhverra hluta vegna sjá ekki fram á að geta haldið jól eins og ANNAÐ FÓLK!

Hverjir voru það sem héldu ekki vatni vegna hneykslunar og samtöðu með hænsnunum? Mér sýndist það vera allir aldurshópar og allar stéttir, en kannski las ég ekki nægilega mikið af umsögnum frá þessum nýja baráttuhópi. Baráttuhópi hænsnanna!

Já, og ekki má gleyma því að jólabaksturinn er hafinn og þarf mikið af framleiðslu hænsna til þess að hann takist vel.

Ég ætti auðvitað að skammast mín fyrir að halda ekki með þessum hópi, en get þó huggað mig við að hænsna aðdáendur og baráttumenn eru MJÖG MARGIR og líklega bætist við Hænsna her sem hefur að markmiði að vernda hænsn á Íslandi.

Líklega kann ég ekki að skammast mín því ég hef meiri áhyggjur af þeim sem ekki sjá fram á að geta borðað almennilegan mat á jólunum vegna fátæktar.

Mér er líka hugsað til þeirra sem þjást af jólakvíða.

Jólakvíði er skelfilegur og liggja margs konar orsakir að baki honum.

Ég fæ martröð á hverju ári, á miðju ári, þar sem jólin eru að koma og ég hef ekki mat og jólagjafir fyrir fjölskylduna. Það er skelfilegt að vakna upp í júní frá svona draumum, bullsveitt og nötrandi.

Sem betur fer er löngu liðinn sá tími þar sem ég þarf að hafa áhyggjur af jólamatnum, hvað þá jólagjöfunum, en tilfinningin fylgir mér og mér verður hugsað til þeirra sem kvíða hátíðsdögunum.

Þung eru spor þeirra sem þurfa að leita til hjálparstofnana á þessum árs tíma.

Ætli stjórnarherrarnir skilji hve þung sporin eru? Eða hinir nýju þingmenn sem nú berjast eins og rjúpan við staurinn til þess að fá sem mest völd, hafa þeir einhvern skilning á líðan þeirra sem ekki eiga fyrir næstu máltið?

Ég efast um það, en eins og þeir vita sem lesa skrif mín þá er ég voðalega vantrúuð á að hugsjónir sem allir eru fullir af fyrir kosningar lifi af þegar komið er í valdastólana. Ég held því miður að hugsjónirnar drukkni í orðaflaumnum þar sem hver sem betur getur otar sínum tota og fær dásamleg laun fyrir að lokum.

Nei, hænsnaþjóðfélagið berst fyrir sínum og sér um að enginn eti brún egg um jólin. Skítt með þá sem ekkert eiga, þeir eru ekki hænsn og skipta ekki máli.

Öryrkjar, eldri borgarar, einstæðar mæður og feður, fátækt fólk, atvinnulaust fólk, einstæðingar og þeir sem hafa orðið undir í þjóðfélaginu eiga að vera þakklát fyrir að nú er tekið á málum hænsnanna af mikill reisn og brugðist skjótt við.

Húrra fyrir Íslandi í dag.

Hulda Björnsdóttir

 


Lýsa þessi ummæli skoðun ungu kynslóðarinnar í dag?

 

Ég fékk þessa ágætu athugasemd við skrif mín og þar sem mér finnst skoðun þessa einstaklings athygliverð ætla ég að birta hana hér og hugleiða út frá henni:

Einstaklingur sem kallar sig VAGN skrifar þann 25.11.2016 kl. 13:55 eftirfarandi:

Þú hefðir mátt hugsa svolítið fram í tímann og velta fyrir þér hvernig þú vildir hafa þín efri ár, þér þótti í lagi að hafa þetta svona þegar þú varst yngri. Það var þín kynslóð sem setti þetta kerfi upp fyrir sína öldruðu. Og það var ykkar hugmynd að lækka bætur á móti tekjum.

Þegar peningarnir áttu að koma úr þínum vasa var hugarfarið annað. En nú ætlast þú til þess að unga fólkið, sem safnar í sinn séreignarsjóð og hugsar fyrir framtíðinni, haldi þér uppi með rausnalegum bótum. Stórmannlegt, eða hitt þó heldur.

Vagn (IP-tala skráð) 25.11.2016 kl.13:55

Svo mörg voru þau orð sem þessi ágæti einstaklingur skrifaði.

Þegar ég las þetta velti ég fyrir mér hvort það gæti verið að margir af yngri kynslóðinni hugsuðu svona. Auðvitað veit ég ekki hve gamall eða gömul VAGN er.

Ekki fyrir löngu síðan birtist grein eftir son sem var að sjá á eftir móður sinni til Spánar þar sem hún gat ekki lifað af lífeyri sínum á Íslandi og hafði hún þó lagt fyrir í Lífeyrissjóð alla sína starfsæfi. Það kvað við nokkuð annan tón í skrifum hans, hann var að vekja athygli á ástandi sem ríkir á landinu góða.

Ég get ekki gert að því að mér finnst hinn ágæti VAGN vera með óþarfa sleggjudóma og fullyrðingar sem eiga ekki við rök að styðjast.

Ég hef frá unga aldri velt fyrir mér aðstæðum eldri borgara landsins og ekki verið par hrifin af ástandinu. Mér hefur aldrei þótt það í lagi að þeir sem komu á undan mér þyrftu að lepja dauðann úr skel þegar þeir kæmust á efri ár. Það hefur alltaf verið mín skoðun og er enn að enginn ætti að þurfa að svelta eða búa við svo kröpp kjör að ekki væri til fyrir lyfjum eða læknis kostnaði. Ég hef ekkert legið á þeirri skoðun minni að það kerfi sem alþingismenn settu upp fyrir þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu væru til háborinnar skammar. Ég hef hins vegar aldrei setið á hinu háa alþingi og hef ekki haft völd til þess að breyta einu eða neinu.

Mér er vel kunnugt um hvenær farið var að breyta lögum og ríkið tók að gera upptækan sparnað þeirra sem greiddu í Lífeyrissjóði. Það er ekki langt síðan ég nýtti mér séreignasparnað minn, sparnað sem ríkið gat ekki snert. Það er nefnilega þannig að ég hugsaði til framtíðar og vissi hvernig ég vildi hafa mín efri ár.

Hugarfar mitt hefur ekkert breyst við það að ég varð 67 ára. Það er misskilningur hjá hinum ágæta VAGNI.

Hvað er það þá sem ég er ekki sátt við í núverandi kerfi?

Ætlast ég til þess að unga kynslóðin haldi mér uppi á rausnarlegum bótum?

Svar mitt er nei!

Ég ætlast til þess að sparnaður minn sé látinn í friði og ég fái að njóta fyrirhyggju minnar. Mér finnst það óréttlátt að ég fái ekki að njóta sparnaðarins án þess að ríkið seilist í hann til þess að greiða niður bætur til þeirra sem aldrei hafa greitt í Lífeyrissjóð.

Hverjir eru það svo sem ekki hafa sýnt fyrirhyggju og farið eftir lögum landsins um sparnað?

Það eru nokkrar ástæður og nefni ég hér tvær:

Þeir sem hafa af einhverjum ástæðum ekki getað unnið.

Þeir sem hafa unnið svart og kosið að greiða ekki skatta til þjóðfélagsins og þar af leiðandi ekki heldur greitt í lífeyrissparnað.

Ég er sammála VAGNI um að það sé óréttlátt og ekki stórmannlegt að svíkjast undan því að greiða til samfélagsins og ætlast til að aðrir borgi þeim ríflegar bætur. Við gætum ekki verið meira sammála.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þeir sem ekki hafa getað unnið vegna örorku eða veikinda eigi ekki að þurfa að líða fyrir það þegar þeir komast á ákveðinn aldur.

Manngæska ætti að vera í fyrirrúmi og þjóðfélagið ætti að sjá til þess að allir ættu fyrir lágmarks þörfum daglegs lífs. Ég er ekki að tala um að bætur eigi að vera það ríflegar að hægt sé að lifa af þeim lúxus lífi. Þær eiga hins vegar að vera nægilegar til þess að svelta ekki.

Markmið almannatryggingalaga var göfugt en það hefur þynnst út með árunum. Lífeyris sparnaður var settur á sem viðbót og öllum gert að sýna fyrirhyggju og spara til efri áranna og ef einstaklingur yrði öryrki af einhverjum ástæðum þá mundi þessi sparnaður hlaupa undir bagga.

Þegar VAGN kemst á eftirlaun vona ég að hann njóti þess að fá að hafa sparnað sinn í friði fyrir stjórnvöldum og að hann geti lifað við reisn og notið síðustu ára ævinnar. Ég vona líka að hann þurfi aldrei að verða veikur og óvinnufær. Ég vona að hann þurfi aldrei að velta fyrir sér hvernig hann geti keypt lyf eða farið til læknis, hvað þá að hann þurfi að velta fyrir sér hvernig hann geti fengið að borða.

Ég hef ekki trú á því að margir af yngri kynslóðinni séu á sömu skoðun og hinn ágæti VAGN. Ég hef trú á því að unga kynslóðin sé jafn áhyggjufull og sú eldri þegar hún veltir fyrir sér hvert þjóðfélagið stefnir.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 

 


Er um mannréttindabrot að ræða?

 

Umræðan hefur flutt sig frá eldhúsborðinu yfir á netmiðlana. Þannig er nútíma þjóðfélag í dag og ekkert nema gott um það að segja. Fleiri sjá það sem verið er ræða og geta lagt orð í belg.

Óttalega þykir mér þó lítilmannlegt þegar verið er að setja inn athugasemdir og fela sig á bak við dulnefni. Það leggst ekki mikið fyrir manninn þar! Ekkert er við slíku að gera annað en svara ekki og er mér það nokkuð ljúft.

Það er mikið í umræðunni núna hvernig farið hefur verið með eign landsmanna sem hafa safnað í lífeyrissjóð alla sína starfsæfi og talað um mannréttindabrot.

Ég er ekki lögfræðingur og veit það hreinlega ekki. Hitt veit ég að við getum flest verið sammála um að ekki er það réttlátt. Lífeyrissjóðs sparnaður er skyldusparnaður sem allflestir launþegar hafa tekið þátt í. 

Ef um mannréttindabrot er að ræða þá ætti að vera hægt að láta á það reyna fyrir dómstólum.

Mér þætti fróðlegt að fá að vita þetta. Kannski les einhver þennan pistil sem veit fyrir víst að verið sé að brjóta mannréttindi en ekki bara að breyta lögum.

Hin nýju lög um almannatryggingar segja skýrt að markmið þeirra sé að hjálpa þeim sem hafa litlar eða engar tekjur aðrar en bætur kerfisins.

Það þarf að sjá til þess að allir geti lifað mannsæmandi lífi á Íslandi. Það eru mannréttindi að eiga til hnífs og skeiðar. Ef hið opinbera þarf að koma þar að þá er það sjálfsagt og ætti enginn að mótmæla því. Hins vegar á ekki að refsa fólki fyrir að hafa sparað og fylgt lögum og reglum.  Það á ekki heldur að refsa fólki fyrir að vinna eins lengi og það vill og getur.

Fyrirkomulag sem gerir ráð fyrir skerðingum eins og þeim sem eru í hinu nýja frumvarpi og taka gildi um áramót eru ekki til þess fallin að fólk haldi reisn sinni. Þetta nýja fyrirkomulag verður til þess að fleiri hætta að vinna því það borgar sig ekki. Afleiðingin getur svo orðið meiri sjúkdómar og andleg vanlíðan, sem kemur til með að kosta þjóðfélagið mikla peninga í aukinni heilsugæslu.

Hvað er svo hægt að gera í málinu núna þegar lögin hafa verið samþykkt?

Ég hef ekki svar við því en leyfi mér þó að ala með mér þá von að ný ríkisstjórn taki málið að sér og vindi ofan af mistökunum sem voru gerð við samþykkt þessara laga. Það kemur öllum til góða, bæði ungum og öldnum.

Mistökin eru skerðingar vegna lögbundins sparnaðar og held ég að málið hafi ekki verið skoðað til enda. Þetta gerist stundum þegar ný lög eru samþykkt og auðvelt að leiðrétta þegar ný stjórn hefur tekið við.

Hulda Björnsdóttir

 

 


Hvers vegna tekst ekki að mynda stjórn á Íslandi?

Hvað veldur því að ekki tekst að mynda stjórn á pínulitlu landi eins og Íslandi?

Er valdagræðgin að drepa allt?

Ég velti þessu fyrir mér og hef áður sagt að margir litlir flokkar séu ekki góðir fyrir bætt þjóðfélag.

Á sama tíma og þingmenn hleyptu nýju frumvarpi um almannatryggingar í gegn á síðustu dögum þingsins var verið að stofna litlar valdaeiningar hér og þar.

Ég bað um að frumvarpið yrði ekki látið labba í gegn en ekki var hlustað á mig. Hver er svo sem að hlusta á kellingu sem býr ekki einu sinni á landinu? Hvað kemur henni þetta eiginlega við?

Jú það kemur mér við vegna þess að ég hef allt mitt líf sparað í lífeyrissjóð til þess að geta lifað sæmilegu lífi þegar ég hætti að vinna.

Ég borgaði skatta og skyldur frá unga aldri og hélt að ég væri að leggja inn fyrir framtíðina.

Hvernig er svo þetta sæmilega líf sem ég og aðrir eldriborgarar á Íslandi búa við?

Við lesum um eldriborgara sem svelta, þeir eru vannærðir vegna þess að þeir eiga ekki fyrir mat. Við lesum líka um eldri borgara sem liggja í rúmum á göngum sjúkrahúsanna, líklega hlandblautir og annað því verra.

Auðvitað eru nokkrir sem hafa það dásamlega fínt, þessir sem eiga meirihluta eigna á landinu. Þeir þurfa aldrei að hugsa til næsta dags með skelfingu og kvíða. Þeir þurfa ekki að velta fyrir sér hvort kannski sé eina lausnin að ljúka þessu lífi.

Ég var svo forsjál að flytja úr gósen landinu því ég vildi ekki verða gömul á Íslandi og þurfa að lepja dauðann úr skel. Vegna þessarar forsjálni hef ég það nokkuð gott og á alltaf nóg að borða. Þrátt fyrir það svíður mér að sparnaður minn í gengum ævina skuli vera gerður upptækur. Lífeyrisgreiðslur mínar eru mín einkaeign en ríkið lætur sér fátt um finnast og gerir meiri hluta sparnaðarins upptækan. Er eitthvað réttlæti í þessu? Mér finnst ekki.

Hvað er svo ríkið? Er það eitthvað skrímsli sem enginn hefur stjórn á og gerir það sem því sýnist?

Nei, ekki alveg. Ríkið er nefnilega fólk, fólk sem hefur potað sér til valda með fögrum fyrirheitum og þetta fólk hefur talið kjósendum trú um að "bara ef þú kýst minn flokk, verður allt gott" og kjósendur gleypa góssið hrátt.

Fyrir kosningar voru allir flokkar sammála um flest mál þegar verið var að ræða við þá!

Eftir kosningar steytir á málefnum og ekki hægt að mynda stjórn.

Hvað breyttist? Þetta var ekki langur tími, en skyndilega er allt komið í hnút.

Er verið að takast á um málefni eða eru það völd sem standa í veginum?

Hvar er fólkið núna sem er að halda uppi vörnum fyrir eldriborgara landsins? Týndist það þegar atkvæðin voru talin?

Ég óttast að þeir sem eru ungir í dag og jafnvel á miðjum aldri eigi eftir að verða eldriborgarar. Það er einhvern vegin þannig að fólk eldist, eða svoleiðis. Fáir komast hjá þessum örlögum.

Það væri kannski ráð fyrir þá sem yngri eru að hugsa svolítið fram í tímann og velta fyrir sér hvernig þeir vilja hafa sín efri ár.

Komist yngri kynslóðin að þeirri niðurstöðu að óumflýjanleg örlög þeirra séu kannski ekki sérlega eftirsóknarverð gæti verið að fleiri færu að láta í sér heyra um kjör sem hið dásamlega ríka Ísland býður þeim sem eru komnir yfir 67 ára aldur.

Kannski er meira virði að bjarga útlendingum!

Kannski er meiri upphefð í því að fylla landið af innflytjendum en að hjálpa þeim sem fyrir eru í landinu!

Kannski væri bara best að svelta gamlingjana og losna við að þurfa að púkka upp á þetta einskis nýta lið sem er bara fyrir og gerir ekkert gagn lengur!

En, kannski væri meiri mannúð í því að sjá til þess að máttarstólpar nútíma þjóðfélags búi við mannsæmandi kjör og hætt verði að stela af þeim sparnaðinum.

Kannski væri stórmannlegt að flytja fréttir af því að eldriborgarar landsins þyrftu ekki að kvíða næsta dags, eða næstu máltíðar, því á Íslandi væri vel búið að öllum þegnum landsins og að landið væri fyrir alla íslendinga, en ekki bara fyrir fáa gráðuga.

Kannski kæmu þá jól hjá öllum!

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Eru 300.000 krónur og engar skerðingar sanngjörn krafa eftirlaunaþega?

 

Margir tala nú um þrjúhundruð þúsund króna lífeyri og engar skerðingar.

Grái herinn endurtekur þetta sí og æ og segir að ekki komi til mála að þoka þessari kröfu.  Allir ellilífeyrisþegar sem vilja út á vinnumarkaðinn er líka vinsæl krafa og svo er hnýtt í endann ENGAR SKERÐINGAR.

Ný framboð hamra á þessu, að minnsta kosti sum þeirra. Ég verð að viðurkenna að ég nenni ekki að lesa allar stefnuskrár og get því ekki fullyrt neitt um hverjir lofa og hverjir ekki.

Fólk tekur undir þetta og ef einhver vogar sér að mótmæla er  engu líkara en viðkomandi hafi gerst sekur um landráð eða eitthvað enn verra.

Ný framboð og gömul hamast við að lofa gulli og grænum skógum til þess að snapa atkvæði.

Það er búið að samþykkja að ellilífeyrir verði 280.000 krónur og svo koma skerðingar á skerðingar ofan. Ekki sitja allir við sama borð í skerðingunum. Hingað til hafa þeir sem búa erlendis ekki fengið heimilisuppbót þó þeir búi einir. Ég hef ekki séð neitt um það í nýju lögunum en þætti ekki ólíklegt að sett yrði reglugerð um málið þar sem þessi skerðing héldi áfram.

Er þetta réttlátt? Mér finnst það ekki.

Allir eiga að sitja við sama borð finnst mér, en ég er auðvitað bara kona sem ekki er hlustað á, eða hvað?

Það þarf að ræða þessi mál í alvöru og af sanngirni, fordómalaust og hætta að belgja sig út með loforðum sem aldrei verður hægt að standa við. Mér er nokk sama hvort það eru ný framboð, gömul framboð eða Grái herinn eða guð má vita hver sem hamast á kröfum sem allir vita að nást ekki fram.

Það er að mínu mati mikilvægt að þeir sem eru að tala fyrir breytingum á svona stóru kerfi sem kostar ógrynni fjár hafi grunnþekkingu á hugtökum og uppbyggingu kerfisins.

Ekki er trúlegt að stjórnmálamenn taki mark á þeim sem vita ekki muninn á ellilífeyri og heimilisuppbót. Eða er það?

Ég nenni ekki að elta ólar við allar rangfærslurnar sem hafa komið frá t.d. á Facebook varðandi þessu nýju lög.

Til þess að ná árangri í svona viðamiklu og viðkvæmu máli þarf að gæta sanngirni. Ég skil vel að þeir sem eru að borga skatt af lífeyrissjóðs sparnaði áður en hann var gerður skattfrjáls í bili, séu reiðir. Ég gæti vel verið reið ef ég vildi en kýs að halda ró minni. Við erum að borga skatta af tekjum úr lífeyrissjóði í dag vegna þess að lögunum var breytt og skattinnheimtu frestað af framlögum okkar þar til farið var að greiða út lífeyrinn.

Þegar þau lög voru sett gleymdist að gera ráð fyrir þeim sem höfðu greitt skatt áður og er það ekki nýtt að lögum sé breytt af misvitrum spekingum sem hugsa málið ekki til enda.

Fullyrðing um að lífeyrisgreiðslur séu nú tvískattaðar er ekki rétt. Partur af þeim er tvískattaður en ekki allar greiðslurnar.

Mikið væri það nú dásamlegt ef fólk næmi staðar, settist niður og hugsaði málið af sanngirni og skoðaði hvað væri raunhæft og hvað ekki.

Ekki síður unaðsleg tilhugsun að söluupphrópum og atkvæðasnöpun ljúki og hætt verði að ljúga að kjósendum og lofa upp í allar ermar um að komist þessi flokkur að verði allt gott og blessað og allar óskir uppfylltar.

Ég er þeirrar skoðunar að 300.000 þúsund krónu lífeyrir og engar skerðingar sé ekki framkvæmanleg á þessum tímum þar sem spilling og gróða fíkn ráða ríkjum í Íslensku þjóðfélagi. Takist að útrýma spillingunni væri þessi krafa framkvæmanleg en ekki eins og ástandið er núna.

Skref áfram eru vænlegri til árangurs en að sitja eins og óþægur krakki heimtandi sælgæti í kílóavís þar sem hann gæti hæglega fengið lítinn poka af gotteríi í bili og fengi svo meira aðeins seinna.

Það hljóta að vera skynsamir íslendingar út um allt sem gætu tekið á þessum málum af ró og gert raunhæfar kröfur. Ég trúi ekki öðru. Það þarf bara að finna þetta fólk.

Byrja á því að leita að saumnálinni í heystakknum og þá koma heilu bréfin af nálum í ljós.

Hulda Björnsdóttir 

 

 

 

 

 


Samtakamáttur fólksins

 

Íslendingar eru ekki þekktir fyrir samtakamátt. Þeir eru þekktir fyrir að sitja og rökræða yfir kaffibolla en þegar kemur að því að standa saman utan eldhúsborðsins eða kaffistofunnar kemur babb í bátinn.

Einu sinni fyrir langa löngu voru fluttar inn kartöflur. Þessar kartöflur voru þannig að keypt var 1 kíló og helmingur var venjulega skemmdur og óætur, líklega ætlað sem svínafóður. Það var hrikalegt að eyða peningum í mat sem þurfti að henda þegar fjárráðin voru ekki mikil. Þjóðin lét þetta þó yfir sig ganga, málin voru rædd fram og til baka yfir kaffibolla en fór ekki lengra.

Rætt var um hvernig fólk mótmælti á hinum norðurlöndunum og hvað það væri gott ef íslendingar gætu staðið saman og mótmælt. Það þurfti kannski ekki annað en að hætta að kaupa kartöflurnar, rétt eins og nágrannar okkar gerðu. Þeir sameinuðust og sniðgengu vöruna og það bar árangur.

Svona var þetta fyrir mörgum áratugum, fyrir internet og ótal fjölmiðla.

Mér datt í hug hvort ástandið væri ef til vill oggulítið svona enn þann dag í dag, árið 2016?

Í stað þess að ræða málin yfir kaffibolla eru þau rædd t.d. á Facebook. Snarpar umræður, stundum birtir fólk gagnlegar upplýsingar og stundum fer allt úr böndum, eins og gengur og gerist. Fólki hitnar í hamsi og lætur eitt og annað út úr sér sem það sér svo eftir.

Nú logar allt í pólitík. Kosningar eftir nokkra daga og allir flokkar hamast eins og rjúpan við staurinn að lofa öllu fögru, bara ef þið kjósið réttan flokk.

Svo er rifist um hverjir séu bestir og hverjir hafi svikið mest og dælan gengur endalaust. Loforðin fljúga fram og til baka líkt og fuglar í sól og sumri sem baða sig og syngja dýrðin dýrðin!

Það er ekki mikil hætta á því að fólk standi saman og kjósi ekki fráfarandi flokka, eða það held ég!

Ekki er þó víst að Bjarni baki, á næsta þingi, sætar kökur handa þeim sem helst þurfa á hollu brauði að halda.

Það gæti hugsast að fólk fengi ekki algleymis veikina þegar það setti X við þann sem það treystir til að sjá um að landið fari ekki aftur á hausinn eftir tvö þrjú ár.

Það gæti hugsast að undrið gerðist og almenningur stæði saman gegn sætum kökum, jafnvel þó þær séu dásamlega krúttlegar, og exuðu við holla brauðið.

Ég skal ekki segja og ekki ætla ég að lofa að éta hatt minn ef slíkt gerist. Það má þó alltaf halda í vonina, því án hennar er lífið búið.

Hulda Björnsdóttir

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband