Er hækkun skatta á fyrirtæki góð lausn ?

12.október 2017

Það er hávær umræða núna um að hækka skuli skatta á fjárans fyrirtækin sem mala gull og taka ekki almennilegan þátt í þjóðfélaginu.

Já, þessi fyrirtæki ættu auðvitað að vera til þess hæf að borga almennilega skatta og þá væri kannski hægt að lækka skatta á almennilegu venjulegu fólki. Eða hvað?

Þegar við tölum svona þá er þekkingarleysi svolítill þröskuldur á leiðinni og rökin verða léttvæg.

Hugsum okkur lítið eða miðlungs fyrirtæki með fólk í vinnu. Þetta fyrirtæki borgar ekkert sérlega há laun og framleiðslan er ekki í billjónum á mánuði. Samt sem áður er gott að hafa þetta smáfyrirtæki með. Það hefur fólk í vinnu sem annars væri ef til vill atvinnulaust og á atvinnuleysis bótum.

Nú er komið að útborgunardegi hjá fyrirtækinu og það leggur launin inn á reikning þeirra sem vinna fyrir það. Það er búið að draga af framlag launþega í lífeyrissjóð, þið vitið þetta sem hver einn verður að borga til þess að eiga almennilegt ævikvöld! Svo er dregið af félagsgjald og skattar að frádregnum persónuafslætti.

Fyrirtækið greiðir svo allt það sem afdregið hefur verið um miðjan mánuðinn. Ekkert nema gott um þetta að segja. Þetta eru jú lögbundin gjöld sem launþeginn á að greiða og vinnuveitanda ber að halda eftir og gera skil á þegar hið opinbera segir NÚNA.

Hins vegar er svoldið sem almenningur veit ekki um. Það eru launatengdu gjöldin sem fyrirtækið borgar líka um miðjan mánuðinn.

Það er mótframlag vinnuveitanda í Lífeyrissjóð, mótframlag í séreignasparnað, Tryggingagjald og alls konar gjöld sem ég man ekki í bili hver eru.

Mig minnir að einhvern tíman hafi verið talað um tugi prósenta í launatengd gjöld.

Litla fyrirtækið borgar líka skatta fyrir sig.

Nú vilja hinir margvitru sérfræðingar, sem ætla sér að setjast á alþingi eftir kosninga, að skattar á fyrirtæki verði hækkaðir. Jú, það er lausnin segja þeir, fyrirtækin borga arð og alles og eru ekkert of góð til þess að greiða hærri skatta.

Hærri skatta á fyrirtæki, skal það vera.

Ég er enn með litla fyrirtækið eða miðlungs stóra fyrirtækið í huga.

Hvað verður um það ef skattar á það hækka?

Hvað verður um fólkið sem vinnur hjá litla fyrirtækinu? Missir það vinnuna af því að fyrirtækið hefur ekki bolmagn til þess að borga hærri skatta?

Ég bara spyr.

Er ekki betra að hafa skattana eins og þeir eru á smá fyrirtæki og leyfa þeim að halda áfram rekstri í stað þess að mergsjúga þau inn að beini og drepa starfsemina og henda starfsfólkinu inn í atvinnuleysis hítina?

Moldrík fyrirtæki eins þau sem PANAMAPRINSARNIR eiga geta auðvitað borgað himinháa skatta. Skárra væri það nú. Mér svo alveg hjartanlega sama um þeirra afkomu og afkoma þeirra sem borga milljónir í bónusa bara fyrir það eitt að mæta í vinnuna er auðvitað fyrir ofan mína meðaumkun.

Gætum að litlu og meðal stóru fyrirtækjunum. Pössum upp á þau. Þar er fólk sem hefur lífsviðurværi sitt og virðingu innan borðs. Launþegar þeirra fyrirtækja eru ekki með milljónir á mánuði í laun. Nei þeir launþegar eru með lágmarkslaun, en það eru þó laun.

Hafi fyrirtæki efni á milljóna bónusum er eitthvað mjög mikið að. Ég er sammála því að svoleiðis fyrirtæki eigi að leggja meira til samfélagsins.

Þeir sem hafa sankað að sér 90 prósent af þjóðarauðnum eru ekkert of góðir að borga 50 prósent skatt, eða kannski 48 prósent svo þeim líði betur að það sé ekki 50 prósent. Þetta hefur með hugarsýnina að gera, skijiði.

Í lokin ætla ég svo enn eina ferðina að minnast á upphæð ellilífeyris sem er krónur 228.734 fyrir skatt. Hann er þetta samkvæmt nokkurra daga gömlum upplýsingum af vef TR. Hættið að núa mér því um nasir að svo komi nú heimilisuppbót og þá sé þetta orðið bara dáldið góð upphæð.

Heimilisuppbót er ekki ellilífeyrir. Hún er uppbót, rétt eins og uppbót v. reksturs bifreiða og eitthvað fleira sem hægt er sækja um. Svoleiðis uppbætur eru bara fyrir útvalda, fáa útvalda.

Pólitíkusarnir bjuggu til þessa heimilisuppbót, fyrir suma, svo þeir gætu hælt sér af því að lífeyririnn sé 280 þúsund og verði bráðum hvorki meira né minna en 300.000. Þetta er lygi og ekkert annað sem kjósendur eiga ekki að éta hráa.

Þeir sem búa ekki einir, sama hvort þeir eru giftir eða ekki, og þeir sem búa erlendis fá ekki heimilisuppbót.

Er þetta ekki alveg kýrskýrt?

Hulda Björnsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þarna kemur þú einmitt að kjarna málsins.  Fyrirtækin verða ekki9 lengi til staðar ef það á að skattleggja þau upp í "rjáfur".  Við verðum að fara varlega í ALLRI skattlagningu.  Nú er ég enginn sérfræðingur í sköttum en í gegnum tíðina er búið að hringla svo mikið með persónuafsláttinn að hann er ekkert sambærilegur við það sem hann var 1988, hann er svipað samsettur og neysluvísitalan en í gegnum tíðina hefur það sífellt verið að breytast hvað er tekið inn í hann.  Ef persónuafslátturinn hefði verið óbreyttur frá 1988 og fylgt neysluvísitölunni, ætti hann að vera 68.290 í staðinn fyrir 59.907 eins og hann er í dag.  Ef launaþróunin væri eins og hún var 1992 ættu tekjur undir 310.000 að vera skattfrjálsar, sem þýddi að persónuafslátturinn ætti að vera 68.290 og skatturinn ætti að vera 22,95%.

Bestu kveðjur af Suðurnesjunum

Jóhann Elíasson, 12.10.2017 kl. 17:12

2 Smámynd: Hulda Björnsdóttir

Já það er margt öðruvísi en það ætti að vera á eyjunni grænu.

Á meðan fólk kýs sama grautinn aftur og aftur þá breytist ekkert.

Við ættum kannski að koma okkur í stjórn Jóhann og laga ástandið.

Ég er handviss um að öflug ætt eins og okkar getur gert kraftaverk

Kær kveðja úr sólskini og kuldalegum morgni hinum megin við hafið.

Hulda

Hulda Björnsdóttir, 14.10.2017 kl. 10:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband