Hvað verður um fallegu loforðin sem gefin voru fyrir kosningar?

Ég hef fylgst með því hvað er að gerast í íslenskum stjórnmálum undanfarnar vikur, jafnvel þó ekkert hafi heyrst frá mér.

20 október varð ég fyrir því óhappi að detta og brjóta á mér vinstri öxl og upphandlegg og lá í 10 daga á spítala hér í Portúgal. Ég gekkst undir aðgerð sem tókst í alla staði vel og er nú hægt og rólega að ná mér á strik.

Portúgal er fátækt land þar sem laun eru mjög lág. Auðvitað eru nokkrir vellauðugir einstaklingar eins og gengur og gerist en  alþýðan er ekki öfundsverð af launum sínum.

Að liggja á spítala í 10 daga gefur manni innsýn í hið dásamlega starf sem hjúkrunarfólk og annað starfsfólk á sjúkrahúsum innir af hendi.

Laun þessara stétta hér í landi eru ekki til þess að hrópa húrra fyrir. Þau eru skammarlega lág og í engu samræmi við þá ómældu vinnu sem liggur að baki einni vakt.

Ég velti því fyrir mér á meðan ég lá hvort þetta væri eitthvað betra á Íslandi, þessu ríka landi, þar sem fáir deila með sér auðnum og almúginn, að minnsta kosti sumir, lepja dauðann úr skel.

Hvernig er búið að þeim sem vinna á sjúkrahúsum, elliheimilum og öðrum ummönnunarstofnunum í landi sem tekur með gleði á móti innflytjendum og hjálpar þeim til þess að koma undir sig fótunum?

Fær hjúkrunarfólkið og gangastúlkurnar og aðrir sem vinna hina almennu vinnu á sjúkrahúsum landsins mannsæmandi laun? Eru störf þeirra metin að verðleikum?

Hugsa ráðamenn um hve dýrmætt það er að hafa gott fólk við störf á þessum stofnunum? Eða, er þeim kannski alveg sama þar til þeir þurfa á þjónustunni að halda?

Allir stjórnmálaflokkar gáfu falleg loforð fyrir kosningar. Þau streymdu eins og hafragrautur sem er að sjóða upp úr og vellur út um allt, stjórnlaus og enginn sér ástæðu til þess að þurrka upp eftir strauminn.

Eru loforð sem gefin eru fyrir kosningar bara bull, sem landinn kaupir og heldur að nú komi betri tíð og blóm í haga?

Það átti að bæta kjör þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu, það átti að bæta kjör eldri borgara og öryrkja og það átti að sjá til þess að enginn svelti lengur í landi hinna fáu ríku og hinna mörgu svöngu?

Verður eitthvað af þessum loforðum efnt?

Þegar stórt er spurt verður fátt um svör. Ég hef ekki hina minnstu trú á því að veikin mikla sem heltekur alþingismenn þegar þeir setjast á þing sé ekki enn grasserandi. Gleymska tekur völdin um leið og menn sverja eiðinn! Eða hvað? Verður eitthvað annað uppi á teningnum núna?

Víkur valdagræðgi fyrir manngæsku?

Hulda Björnsdóttir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband