Hvers vegna tekst ekki að mynda stjórn á Íslandi?

Hvað veldur því að ekki tekst að mynda stjórn á pínulitlu landi eins og Íslandi?

Er valdagræðgin að drepa allt?

Ég velti þessu fyrir mér og hef áður sagt að margir litlir flokkar séu ekki góðir fyrir bætt þjóðfélag.

Á sama tíma og þingmenn hleyptu nýju frumvarpi um almannatryggingar í gegn á síðustu dögum þingsins var verið að stofna litlar valdaeiningar hér og þar.

Ég bað um að frumvarpið yrði ekki látið labba í gegn en ekki var hlustað á mig. Hver er svo sem að hlusta á kellingu sem býr ekki einu sinni á landinu? Hvað kemur henni þetta eiginlega við?

Jú það kemur mér við vegna þess að ég hef allt mitt líf sparað í lífeyrissjóð til þess að geta lifað sæmilegu lífi þegar ég hætti að vinna.

Ég borgaði skatta og skyldur frá unga aldri og hélt að ég væri að leggja inn fyrir framtíðina.

Hvernig er svo þetta sæmilega líf sem ég og aðrir eldriborgarar á Íslandi búa við?

Við lesum um eldriborgara sem svelta, þeir eru vannærðir vegna þess að þeir eiga ekki fyrir mat. Við lesum líka um eldri borgara sem liggja í rúmum á göngum sjúkrahúsanna, líklega hlandblautir og annað því verra.

Auðvitað eru nokkrir sem hafa það dásamlega fínt, þessir sem eiga meirihluta eigna á landinu. Þeir þurfa aldrei að hugsa til næsta dags með skelfingu og kvíða. Þeir þurfa ekki að velta fyrir sér hvort kannski sé eina lausnin að ljúka þessu lífi.

Ég var svo forsjál að flytja úr gósen landinu því ég vildi ekki verða gömul á Íslandi og þurfa að lepja dauðann úr skel. Vegna þessarar forsjálni hef ég það nokkuð gott og á alltaf nóg að borða. Þrátt fyrir það svíður mér að sparnaður minn í gengum ævina skuli vera gerður upptækur. Lífeyrisgreiðslur mínar eru mín einkaeign en ríkið lætur sér fátt um finnast og gerir meiri hluta sparnaðarins upptækan. Er eitthvað réttlæti í þessu? Mér finnst ekki.

Hvað er svo ríkið? Er það eitthvað skrímsli sem enginn hefur stjórn á og gerir það sem því sýnist?

Nei, ekki alveg. Ríkið er nefnilega fólk, fólk sem hefur potað sér til valda með fögrum fyrirheitum og þetta fólk hefur talið kjósendum trú um að "bara ef þú kýst minn flokk, verður allt gott" og kjósendur gleypa góssið hrátt.

Fyrir kosningar voru allir flokkar sammála um flest mál þegar verið var að ræða við þá!

Eftir kosningar steytir á málefnum og ekki hægt að mynda stjórn.

Hvað breyttist? Þetta var ekki langur tími, en skyndilega er allt komið í hnút.

Er verið að takast á um málefni eða eru það völd sem standa í veginum?

Hvar er fólkið núna sem er að halda uppi vörnum fyrir eldriborgara landsins? Týndist það þegar atkvæðin voru talin?

Ég óttast að þeir sem eru ungir í dag og jafnvel á miðjum aldri eigi eftir að verða eldriborgarar. Það er einhvern vegin þannig að fólk eldist, eða svoleiðis. Fáir komast hjá þessum örlögum.

Það væri kannski ráð fyrir þá sem yngri eru að hugsa svolítið fram í tímann og velta fyrir sér hvernig þeir vilja hafa sín efri ár.

Komist yngri kynslóðin að þeirri niðurstöðu að óumflýjanleg örlög þeirra séu kannski ekki sérlega eftirsóknarverð gæti verið að fleiri færu að láta í sér heyra um kjör sem hið dásamlega ríka Ísland býður þeim sem eru komnir yfir 67 ára aldur.

Kannski er meira virði að bjarga útlendingum!

Kannski er meiri upphefð í því að fylla landið af innflytjendum en að hjálpa þeim sem fyrir eru í landinu!

Kannski væri bara best að svelta gamlingjana og losna við að þurfa að púkka upp á þetta einskis nýta lið sem er bara fyrir og gerir ekkert gagn lengur!

En, kannski væri meiri mannúð í því að sjá til þess að máttarstólpar nútíma þjóðfélags búi við mannsæmandi kjör og hætt verði að stela af þeim sparnaðinum.

Kannski væri stórmannlegt að flytja fréttir af því að eldriborgarar landsins þyrftu ekki að kvíða næsta dags, eða næstu máltíðar, því á Íslandi væri vel búið að öllum þegnum landsins og að landið væri fyrir alla íslendinga, en ekki bara fyrir fáa gráðuga.

Kannski kæmu þá jól hjá öllum!

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú hefðir mátt hugsa svolítið fram í tímann og velta fyrir þér hvernig þú vildir hafa þín efri ár, þér þótti í lagi að hafa þetta svona þegar þú varst yngri. Það var þín kynslóð sem setti þetta kerfi upp fyrir sína öldruðu. Og það var ykkar hugmynd að lækka bætur á móti tekjum.

Þegar peningarnir áttu að koma úr þínum vasa var hugarfarið annað. En nú ætlast þú til þess að unga fólkið, sem safnar í sinn séreignarsjóð og hugsar fyrir framtíðinni, haldi þér uppi með rausnalegum bótum. Stórmannlegt, eða hitt þó heldur.

Vagn (IP-tala skráð) 25.11.2016 kl. 13:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband