Er ríkisstjórnin að fela eitthvað?

Góð vinkona mín á Facebook sagði fyrir stuttu að hún hefði reynt að komast til botns í hinum nýju lögum um almannatryggingar. Þessi ágæta vinkona mín skilur ekki lögin.

Er það einkennilegt?

Væri það ekki eðlilegt að vel gefið fólk gæti skilið hvað verið er að tala um?

Er að undra þó starfsmenn TR geti ekki gefið greinargóðar upplýsingar þegar leitað er eftir þeim?

Er hægt að ætlast til þess að misvitrir alþingismenn skilji svona tróð?

Hvers vegna eru lög gerð svo flókin að það þurfi túlka til þess að útskýra þau og færa á mannamál?

Helsta skýring sem mér dettur í hug er þessi: Ríkisstjórnin vill ekki að fólk sjái hvað hún er að svíkja? Getur þetta verið hugsanleg skýring?

Það veltist ekkert fyrir stjórn,að ganga svo frá málum að enginn botn sé sjáanlegur, þegar verið er að passa upp á að vinir og vandamenn, þeir sem ráða yfir 50 prósent eða svo af þjóðareign íslendinga, haldi áfram að græða!

Annað mál er þegar farið er að tala um eftirlaunaþega og öryrkja.

Samkvæmt frumvarpinu sem nú hefur verið samþykkt er fullur ellilífeyrir kr. 227.883

227.883 krónur eru ekki kr 280.000. Mismunurinn er kallaður heimilisuppbót og er kr. 52.117. Þetta tvennt gerir 280.000 krónur.

Heimilisuppbót er félagsleg aðstoð!

Var ekki talað um að ellilífeyrir ætti að hækka upp í 280.000?

Hvað er ríkisstjórnin nú að fela?

Er þetta gert til þess að hægara verði að skerða bætur eftirlaunaþega?

Ég býð spennt eftir því að sjá hve mikið ég hef verið afskrifuð þar sem ég er svo ósvífin að búa erlendis og spara ríki og sveitarfélagi stórfé á hverju ári í félagslegri aðstoð.

Hvers vegna er ég verðfelld fyrir það eitt að flytja úr landi?

Hafa skattar og sparnaður minn breytt um verðgildi við það eitt að ég bý ekki við sult og seyru á rándýru Íslandi?

Flytti ég til Íslands á morgun væri ég þá verðmeiri en ég er í dag?

Flytti ég til landsins færi ég að kosta ríki og sveitarfélag eitt og annað í félagslegum úrræðum. Er það vilji stjórnmálamanna?

Mér þætti eðlilegra að ríki og sveitarfélag væru guðs lifandi fegin að vera laus við gamalmennið og slettu heimilisuppbót í vesalinginn, þó ekki væri nema til þess að hann héldi sig á mottunni og væri ekki endalaust að tifa og skammast.

Hvað er til ráða fyrir eftirlaunaþega?  Þeir eiga engan almennilegan talsmann nema þá Björgvin Guðmundsson. Hann einn hefur í áratugi skrifað um þessi mál og heldur enn áfram ótrauður. Það skjóta upp kollinum fyrirbæri eins og her hinna gráhærðu sem eru algjörlega máttlaus og berst þessi svokallaði her fyrir einhverju óskiljanlegu málefni í nafni okkar sem eru komin á eftirlaun.

Nú rísa þeir gráhærðu upp ef þeir lesa þetta og allt verður vitlaust. Fínt! Ég er tilbúin að taka saman mótsagnir þeirra í skrifum og töluðu máli og geri það fljótlega.

Við, sem erum komin á eða lögð af stað í átt að eftirlaunaaldri þurfum fólk sem er með brennandi áhuga á málinu og fullt af hugsjónum og tilbúið að berjast fram í rauðan dauðann, ekki bara fyrir sig heldur fyrir alla!

Ég er sannfærð um að svona fólk er til á Íslandi. Það þarf bara að finna það.

Ég blanda mér ekki í flokka pólitík þar sem ég hef ekki bara verið felld að verðgildi, ég hef líka verið tekin út af sakramentinu og ekki ætlast til þess að ég sé að greiða atkvæði í kosningum.

Réttur minn til þess að tjá mig um þau mál sem brenna á mér hefur ekki enn verið hirtur og á meðan ég hef það frelsi held ég áfram. Ég get ekki annað.

Ég býst ekki við því að fá fullan ellilífeyri árið 2017, áður en sparnaður minn er látinn rýra lífeyrinn. Mér finnst það (hér má ég ekki nota orðið sem mig langar til) óréttlátt í meira lagi.

Mér finnst það ómerkilegt af Bjarna Ben að halda því fram að lífeyrir hækki í 280.000 árið 2017. Hann veit vel að lífeyririnn hækkar aðeins í 227.883 krónur árið 2017. Eða veit hann það ekki?

Hann veit vel að heimilisuppbót er félagsleg aðstoð en ekki lífeyris hækkun. Eða getur verið að hann viti það ekki?

Hann heldur að við sem erum komin yfir 65 ára séum fífl!

Ég vona að við séu ekki auðtrúa og gleypum baksturinn hans hráan.

Hvað getum við gert?

Hvað finnst ykkur við geta gert?

Er nægilegt að ræða málið yfir kaffibolla og ætri köku sem Bjarni hefur ekki bakað?

 

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband