Eru einhverjir að svíkja út félagslegar bætur á Íslandi?

Ég talalði um bótasvik um daginn og hef verið að afla mér upplýsinga um hvort einhverjar tölur séu til um þau.

 

Það hefur eitt og annað komið í ljós sem mér finnst áhugavert og gæti verið að fólk vissi ekki um. Ég ætla að nota þetta blogg til þess að deila með þeim sem lesa því sem ég hef fundið í bili. Ég ætla að halda áfram að tuða um eitt og annað og deila reynslu minni af því að búa erlendis og vera eftirlauna þegi.

Fyrst vil ég biðja þá sem eru einhverra hluta á bótum, eftirlaunum, örorkulífeyri eða öðru, að fjúka ekki upp og halda að ég sé að dæma alla sem fá greitt frá Tryggingastofnun svikara. Það er alls ekki svo. Mikill meirihluti þeirra eru þræl heiðarlegt fólk sem má ekki vamm sitt vita og fer í einu og öllu eftir reglum og hlýðir eins og smábarn því sem fyrir það er lagt.

 

Ég hef hins vegar sagt áður að því miður þekki ég nokkuð marga sem fylgja ekki reglunum og er það miður og kemur sér illa fyrir hina hlýðnu.

 

Kæra fólk, ekki fjúka! Haldið ró ykkar þar til þið hafið lesið til enda og í öllum bænum lesið til enda.

 

Ég man eftir því að fyrir nokkrum árum kom fulltrúi frá einhverju norðurlandanna og var að útskýra hvernig viðkomandi land tók á bótasvikum. Ég nenni ekki að leita að því hvenær þetta var en vafalaust er útkoman aðgengileg á vef TR. og mæli ég með að fólk skoði það. Mig minnir að þetta hafi verið annað hvort fulltrúi frá Noregi eða Svíþjóð.

 

Jæja, ég fann út að Almannatryggingalöggjöfin býr ekki yfir heildstæðum viðurlagaákvæðum, hvergi er kveðið á um að brot gegn lögunum hafi tilteknar afleiðingar né taka sérstök lög á bótasvikum.

Kanski finnst sumum bótaþegum það ekkert tiltökumál að gefa upp rangar upplýsingar eða leyna mikilvægum upplýsingum því það virðist ekki hafa neinar afleiðingar í för með sér.  Bætur almannatrygginga eru greiddar úr sameiginlegum sjóði allra landsmanna og að svíkja fé út úr slíkum sjóði bitnar í flestum tilvikum á þeim sem síst skyldi og á ég þar við þá sem nauðsynlega þurfa á aðstoð að halda.

Ef öllum leikreglum væri fylgt held ég því fram að hægt væri að efla þennan sameiginlega sjóð og mundi það leiða til batnandi kjara og lífsskilyrða bótaþega.

 

Árið 2010 eru upplýsingar frá Vinnumálastofnun eftirfarandi:

Alls voru 525 ábendingar um bótasvik teknar til frekari skoðunar af eftirlitsdeild VMST. Þessar rannsóknir leiddu til þess að 209 einstaklingar voru teknir af atvinnuleysisskrá og 74 til viðbótar hlutu viðurlög í formi 2-3 mánaða biðtíma. Þeim einstaklingum sem fengu ofgreiddar atvinnuleysisbætur var gert að endurgreiða bæturnar og í mörgum tilfellum með 15% álagi. Áætlar stofnunin að tæplega 136 milljónir króna hafi sparast venga þessa eftirlitsþáttar á árinu 2010.

 

Þessar upplýsingar styðja fullyrðingu mína um að bótasvik séu stunduð í einhverjum mæli hér á landi, rétt eins og annars staðar á Norðurlöndum.

 

Tryggingastofnun hefur ekki mörg úrræði til þess að varna svona svikum og er hægt að líta á aðferð þeirra sem beitt er við mig og kannski aðra sem búa erlendis aðeins mildari augum. Mér finnst fáránlegt að á hverju einasta ári í júni fái ég bréf þar sem mér er vinsamlega bent á að nú skuli ég sanna að ég sé ekki kominn til himnaríkis og sé að krefjast bóta þaðan. Hverjum dettur í hug að ég hafi eitthvað að gera með eftirlaun á himnum. Ég lifi þar í vellystingum og þarf ekki peninga, held ég. Ég er reyndar ekki farinn yfirum svo þetta eru bara hugmyndir mínar um einfalt kerfi á himnum.

Ég eins og hlýðinn borgari fer til kirkjusóknar skrifstofunnar í bænum mínum og við hlæjum dátt að því að nú þurfi að sanna tilveru mína hér á jörðinni.  Ég borga nokkrar evrur og við höfum fengið okkar skammt af hlátri þann daginn, ég og skrifstofufólkið. Ekki slæmt.

Síðan biður hin ágæta stofnun á Íslandi mig um skattskýrslu!!

Í fyrstu skyldi ég þetta ekki, það var langt fyrir ofan minn skilning að ég þyrfti að gera tvær skattskýrslur með nákvæmlega sömu tölum! Jú, þú verður að gera þetta sögðu þau þegar ég röflaði.

Nú sendi ég þeim afrit af portugalskri skýrslu minni, sem er ekki á íslensku, hún er á portugölsku og afskaplega flókin. Aftur fæ ég hláturskast sem dugar mér þann daginn. Ég get ekki fyrir mitt lifandi líf, þó ég hafi ótrúlega frjótt ímyndunarafl, séð fyrir mér starfsmenn þessarar uppáhalds stofnunar minnar, lesa úr skattskýrslu frá Portúgal. Ég get það ekki og er ekkert að reyna, hef bara endurskoðanda sem sér um málið.

Stofnuni er nú búin að fá pappírana sem þau biðja um og þó ég fari fram á staðfestingu á móttöku fæ ég hana venjulega ekki og þá hringi ég. Ég get séð fyrir mér þjónustufulltrúana stynja og hugsa með sér, Almáttugur hringir hún enn þessi ruglaða frá Portúgal!

Eftir nokkuð japl og fuður tekst að grafa gripina upp úr einvherjum bunka jafnvel þó fullyrt hafi verið við mig að skjölin hafi ekki borist. Ég er farin að taka þessu nokkuð rólega og gef mig ekki fyrr en dótið finnst. Ég hef að sjálfsögðu fyrir framan mig e-mailið sem ég sendi og líka þau sem ég puðraði út á eftir til þess að fá staðfestinguna.

Sem sagt, Tryggingastofnun er afgreidd.

Þá er næsta mál, sem er skattstjóri. Sækja skal um frískattkort á hverju ári í desember til að forðast tvísköttun. Gott og vel. Afrit af skattskýrslu skal fylgja. Á síðasta ári brá svo við að ég þurfti líka að skila vottorði frá skattyfirvöldum hér í landi að ég hefði borgað þá skatta sem bar í Portugal. Vottorðið skyldi vera á pappír og stimplað. Einmitt, ég arkaði upp á skattstofu hér í bæ og bar mig aumlega og spurði hvort ég gæti fengið þetta á pappír. Nei, það getur þú ekki, sögðu vinir mínir hjá skattinum. Hvaða stimpil eru þau að biðja um? Við gefum aldrei út svona vottorð á pappír. Er ekki Ísland tölvuvætt? spurðu þau. Jú, jú, sagði ég aumingjalega og skammaðist mín ekki lítið fyrir að hafa haldið því fram að Ísland væri hámenntað! Hér er þetta gert í gegnum tölvur og ekkert annað með staðfestingar kóda sem venjulegt fólk skilur bara nokkuð vel en er auðvitað á portugölsku.

Ég sendi vottorðið til skattstjóra og sannaði að ég hefði greitt mína skatta og væri ekki að svíkja eitt eða neitt.

Þetta er semsagt aðferð Tryggingastofnunar og skattstjóra að sjá um að þeir sem fylgja reglum sanni að þeir séu ekki að svindla.

Er þetta ekki svolítið skondið á sama tíma og ég þekki til bótaþega sem búa erlendis og hafa aldrei þurft að sanna eitt eða neitt, enda eru þeir á fullu að fara EKKI eftir reglunum og ekkert er gert í málinu og engin leið til að finna út hverjir þetta eru?

Það er eitthvað að íslensku eftirlit, held ég!

Það væri auðvelt að sannreyna upplýsingar sem gefnar eru til Tryggingastofnunar en það vantar lögin. Það væri hægt að spara milljónir á ári, kannski tugi milljóna, með virku eftirliti en líklega verð ég komin í himnasæluna þegar það gerist.

 

Passið nú upp á blóðþrýstinginn áður en þið farið að hamast í mér. Bótasvik eru stunduð á Íslandi af einhverjum hóp, ég veit ekki hvað hann er stór. Það er staðreynd sem ekki verður undan komist.

 

Ef ég er að fara með rangt mál varðandi löggjöfina þá væri ég afskaplega þakklát fyrir leiðréttingar og tek þeim opnum örmum.

Það getur verið að t.d. í hinu nýja frumvarpi sé eitthvað tekið á þessum málum. Væri það hugsanlegt eftir allan þann tíma sem frumvarpið hefur verið í smíðum?

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hulda Björnsdóttir

Það eru einhverjar innsláttarvillur í þessari færslu og þar sem ég er svo óskaplega ný á þessum vettvangi kann ég ekki að breyta færslunni. Bið ég forláts á því sem hefur farið úr böndunum. Kv. Hulda

Hulda Björnsdóttir, 13.10.2016 kl. 12:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband