Samtakamáttur fólksins

 

Íslendingar eru ekki þekktir fyrir samtakamátt. Þeir eru þekktir fyrir að sitja og rökræða yfir kaffibolla en þegar kemur að því að standa saman utan eldhúsborðsins eða kaffistofunnar kemur babb í bátinn.

Einu sinni fyrir langa löngu voru fluttar inn kartöflur. Þessar kartöflur voru þannig að keypt var 1 kíló og helmingur var venjulega skemmdur og óætur, líklega ætlað sem svínafóður. Það var hrikalegt að eyða peningum í mat sem þurfti að henda þegar fjárráðin voru ekki mikil. Þjóðin lét þetta þó yfir sig ganga, málin voru rædd fram og til baka yfir kaffibolla en fór ekki lengra.

Rætt var um hvernig fólk mótmælti á hinum norðurlöndunum og hvað það væri gott ef íslendingar gætu staðið saman og mótmælt. Það þurfti kannski ekki annað en að hætta að kaupa kartöflurnar, rétt eins og nágrannar okkar gerðu. Þeir sameinuðust og sniðgengu vöruna og það bar árangur.

Svona var þetta fyrir mörgum áratugum, fyrir internet og ótal fjölmiðla.

Mér datt í hug hvort ástandið væri ef til vill oggulítið svona enn þann dag í dag, árið 2016?

Í stað þess að ræða málin yfir kaffibolla eru þau rædd t.d. á Facebook. Snarpar umræður, stundum birtir fólk gagnlegar upplýsingar og stundum fer allt úr böndum, eins og gengur og gerist. Fólki hitnar í hamsi og lætur eitt og annað út úr sér sem það sér svo eftir.

Nú logar allt í pólitík. Kosningar eftir nokkra daga og allir flokkar hamast eins og rjúpan við staurinn að lofa öllu fögru, bara ef þið kjósið réttan flokk.

Svo er rifist um hverjir séu bestir og hverjir hafi svikið mest og dælan gengur endalaust. Loforðin fljúga fram og til baka líkt og fuglar í sól og sumri sem baða sig og syngja dýrðin dýrðin!

Það er ekki mikil hætta á því að fólk standi saman og kjósi ekki fráfarandi flokka, eða það held ég!

Ekki er þó víst að Bjarni baki, á næsta þingi, sætar kökur handa þeim sem helst þurfa á hollu brauði að halda.

Það gæti hugsast að fólk fengi ekki algleymis veikina þegar það setti X við þann sem það treystir til að sjá um að landið fari ekki aftur á hausinn eftir tvö þrjú ár.

Það gæti hugsast að undrið gerðist og almenningur stæði saman gegn sætum kökum, jafnvel þó þær séu dásamlega krúttlegar, og exuðu við holla brauðið.

Ég skal ekki segja og ekki ætla ég að lofa að éta hatt minn ef slíkt gerist. Það má þó alltaf halda í vonina, því án hennar er lífið búið.

Hulda Björnsdóttir

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband